Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ertu tilbúinn að gefa eftir í persónulegum málum?

Ertu tilbúinn að gefa eftir í persónulegum málum?

Ertu tilbúinn að gefa eftir í persónulegum málum?

TVÖ lítil börn leika sér saman. Annað barnið hrifsar uppáhaldsleikfangið sitt frá hinu barninu og æpir: „Ég á þetta!“ Allt frá fæðingu eru ófullkomnir menn eigingjarnir í einhverjum mæli. (1. Mós. 8:21; Rómv. 3:23) Heimurinn, sem við búum í, hvetur auk þess til sjálfshyggju. Ef okkur á að takast að varast slíkan hugsunarhátt þurfum við að berjast gegn meðfæddri eigingirni. Annars getum við auðveldlega sært aðra og skaðað samband okkar við Jehóva. — Rómv. 7:21-23.

Páll postuli hvatti okkur til að hugsa um hvaða áhrif verk okkar geta haft á aðra. Hann skrifaði: „Allt er leyfilegt en ekki er allt gagnlegt. Allt er leyfilegt en ekki byggir allt upp.“ Hann bætti við: „Verið . . . [engum] til ásteytingar.“ (1. Kor. 10:23, 32) Þegar eigin skoðanir, álit, smekkur og þægindi eiga í hlut er því viturlegt að spyrja sig: ‚Er ég fús til að gefa eftir viss „réttindi“ þegar friður safnaðarins er í hættu? Er ég tilbúinn að fylgja meginreglum Biblíunnar jafnvel þegar það er óþægilegt fyrir mig?‘

Þegar þú velur vinnu

Í augum flestra er það einkamál hvaða vinnu menn velja sér og hefur lítil ef nokkur áhrif á aðra. En lítum á hvað verslunarmaður í smábæ í Suður-Ameríku ákvað að gera. Hann var þekktur fyrir að vera drykkjumaður og fjárhættuspilari. En hann hóf biblíunám með hjálp votta Jehóva, byrjaði að fara eftir því sem hann lærði og breytti um lífsstíl. (2. Kor. 7:1) Þegar hann lét í ljós áhuga á að taka þátt í boðunarstarfi safnaðarins kom öldungur að máli við hann og hvatti hann háttvíslega til að velta fyrir sér eðli atvinnu sinnar. Um nokkurt skeið hafði þessi maður séð um að selja bæjarbúum spíra unninn úr sykurreyr. Spírinn er til margra hluta nytsamlegur, en á þessu svæði er algengt að blanda honum saman við gosdrykki og drekka í þeim eina tilgangi að verða ölvaður.

Maðurinn skildi að ef hann boðaði trúna meðal fólks en héldi áfram að selja slíka vöru gæti það skaðað samband hans við Guð og kastað rýrð á söfnuðinn. Hann hætti að selja spíra þótt hann hefði fyrir stórri fjölskyldu að sjá. Núna vinnur hann við að selja pappírsvörur og er skírður ásamt eiginkonu sinni og tveimur af fimm börnum. Þau boða fagnaðarerindið af djörfung.

Þegar þú velur þér vini

Er félagsskapur við vantrúaða eingöngu spurning um hvað hverjum og einum finnst eða eiga meginreglur Biblíunnar þar við? Systir nokkur vildi fara í partí með ungum manni sem var ekki vottur Jehóva. Þótt aðrir vöruðu hana við hættunum fannst henni að hún hefði rétt á því að fara í partíið. Fljótlega eftir að hún mætti á staðinn var henni fenginn drykkur sem í hafði verið blandað róandi lyfi. Hún vaknaði nokkrum klukkustundum síðar og komst þá að því að þessi svokallaði vinur hennar hafði nauðgað henni. — Samanber 1. Mósebók 34:2.

Félagsskapur við þá sem eru ekki í trúnni endar kannski ekki alltaf með svona hörmulegum afleiðingum. Biblían segir samt: „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim sem leggur lag sitt við heimskingja.“ (Orðskv. 13:20) Það leikur enginn vafi á því að ef við veljum okkur slæma félaga gerum við okkur berskjalda fyrir alls konar hættum. „Vitur maður sér ógæfuna og felur sig,“ segir í Orðskviðunum 22:3, „en einfeldningarnir halda áfram og gjalda þess.“ Félagar okkar geta haft áhrif á okkur og samband okkar við Guð. — 1. Kor. 15:33; Jak. 4:4.

Í klæðnaði og snyrtingu

Tískan er stöðugt að breytast en meginreglur Biblíunnar um klæðnað og snyrtingu haldast óbreyttar. Páll hvatti kristnar konur til að vera „látlausar í klæðaburði“ en sú meginregla á líka við karlmenn. (1. Tím. 2:9) Páll var ekki að fara fram á að allir þjónar Guðs hefðu sama fatasmekk eða klæddust ofureinföldum fötum. En hvað um látleysi? Ein orðabók segir að látleysi sé „að vera laus við óhóflegt sjálfsálit eða hégóma . . . að gæta velsæmis í klæðnaði, tali og framkomu“.

Við þurfum að spyrja okkur: ‚Get ég í hreinskilni sagt að ég sé látlaus ef ég stend fast á rétti mínum til að klæða mig eins og ég vil, þótt það veki óhóflega athygli á mér? Sendi ég röng skilaboð með klæðaburði mínum um það hver ég sé eða hvernig siðferði mitt sé?‘ Ef við lítum „ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra“ gætum við þess að gefa öðrum ekki „tilefni til ásteytingar“. — 2. Kor. 6:3; Fil. 2:4.

Í viðskiptum

Í söfnuðinum í Korintu kom upp alvarleg staða vegna þess að sumir voru óheiðarlegir og sviksamir í viðskiptum. Páll fann sig knúinn til að skrifa þeim og sagði:„Hví líðið þið ekki heldur órétt? Hví látið þið ekki heldur hafa af ykkur?“ Páll hvatti kristna menn til að vera fúsir til að gefa eftir frekar en að draga trúbróður sinn fyrir dómstól. (1. Kor. 6:1-7) Bróðir í Bandaríkjunum tók þessar leiðbeiningar til sín. Hann og vinnuveitandi hans, sem var líka vottur, voru ekki sömu skoðunar um laun sem hann átti inni. Bræðurnir tveir fylgdu meginreglum Biblíunnar og hittust æ ofan í æ án þessa að finna lausn á vandanum. Að lokum lögðu þeir málið fyrir ‚söfnuðinn‘, það er að segja öldungana. — Matt. 18:15-17.

Því miður tókst þeim ekki að leysa málið. Eftir að hafa ítrekað leitað til Jehóva í bæn ákvað launþeginn að afskrifa stærsta hluta upphæðarinnar sem honum fannst hann eiga inni. Hvers vegna? Hann sagði seinna: „Þetta ósamkomulag var að ræna mig gleðinni og dýrmætum tíma sem hefði mátt nýta í þjónustunni við Jehóva.“ Eftir að hafa tekið þessa ákvörðun endurheimti bróðirinn gleðina og fann hvernig Jehóva blessaði þjónustu hans.

Líka í smærri málum

Það er einnig til blessunar ef við gefum eftir í smærri málum. Á fyrsta degi umdæmismóts mættu brautryðjendahjón snemma og tryggðu sér góð sæti. Fljótlega eftir að dagskráin hófst mætti stór barnafjölskylda og flýtti sér inn í þéttsetinn salinn. Brautryðjendahjónin sáu að fjölskyldan var að leita að sætum og buðu þeim sætin sín tvö. Þá gat öll fjölskyldan setið saman. Nokkrum dögum eftir mótið fengu brautryðjendahjónin þakkarbréf frá fjölskyldunni. Í bréfinu stóð hvað þeim hafði liðið illa að koma seint á mótið. En þau fundu fljótt til gleði og þakklætis vegna góðmennsku brautryðjendahjónanna.

Við skulum eindregið gefa eftir rétt okkar í þágu annarra þegar tækifæri býðst. Með því að sýna kærleika sem „leitar ekki síns eigin“ stuðlum við að friði í söfnuðinum og við náungann. (1. Kor. 13:5) En það sem mestu máli skiptir er að við varðveitum vináttu okkar við Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Ertu fús til að taka tillit til samvisku annarra þegar þú velur þér föt?

[Mynd á blaðsíðu 21]

Ertu fús til að standa upp fyrir trúsystkinum?