Fyrsta Mósebók 50:1–26

  • Jósef jarðar Jakob í Kanaanslandi (1–14)

  • Jósef ber engan kala til bræðra sinna (15–21)

  • Efri ár Jósefs og dauði (22–26)

    • Jósef segir hvað gert skuli við lík sitt (25)

50  Jósef kastaði sér grátandi yfir föður sinn og kyssti hann.  Síðan gaf hann þjónum sínum, læknunum, fyrirmæli um að smyrja hann. Læknarnir smurðu Ísrael  og það tók þá 40 daga því að svo langan tíma tekur að smyrja lík. Egyptar grétu hann í 70 daga.  Þegar sorgardagarnir voru liðnir kom Jósef að máli við hirð* faraós og sagði: „Gerið mér þann greiða að koma þessum skilaboðum til faraós:  ‚Faðir minn tók af mér eið og sagði: „Nú styttist í að ég deyi og þú skalt jarða mig í gröfinni sem ég gróf handa mér í Kanaanslandi.“ Leyfðu mér því að fara og jarða föður minn. Síðan skal ég koma aftur.‘“  Faraó svaraði: „Farðu og jarðaðu föður þinn eins og þú lofaðir honum.“  Jósef lagði þá af stað til að jarða föður sinn og með honum fóru allir þjónar faraós, öldungar hirðarinnar og allir öldungar Egyptalands  og einnig allir heimilismenn Jósefs, bræður hans og heimilismenn föður hans. Aðeins börnin, sauðina og nautgripina skildu þeir eftir í Gósenlandi.  Hann hafði auk þess með sér vagna og riddara þannig að þetta var stærðarinnar hópur. 10  Loks komu þeir til Atad, þreskivallar á Jórdansvæðinu. Þar héldu þeir mikla sorgarhátíð og Jósef syrgði föður sinn í sjö daga. 11  Íbúar landsins, Kanverjar, sáu þá syrgja á Atad-þreskivellinum og sögðu: „Þarna halda Egyptar mikla sorgarhátíð.“ Þess vegna var staðurinn nefndur Abel Mísraím* en hann er á Jórdansvæðinu. 12  Synir Jakobs fóru þannig að óskum föður síns. 13  Þeir fluttu hann til Kanaanslands og jörðuðu hann í hellinum á Makpelaakri nálægt Mamre, akrinum sem Abraham hafði keypt af Hetítanum Efron fyrir legstað. 14  Þegar Jósef hafði jarðað föður sinn sneri hann aftur til Egyptalands ásamt bræðrum sínum og öllum sem höfðu farið með honum til að jarða föður hans. 15  Eftir andlát föður síns sögðu bræður Jósefs hver við annan: „Hvað ef Jósef er gramur út í okkur og vill láta okkur gjalda fyrir allt það illa sem við gerðum honum?“ 16  Þeir sendu því Jósef eftirfarandi skilaboð: „Faðir þinn gaf okkur þessi fyrirmæli áður en hann dó: 17  ‚Segið við Jósef: „Ég bið þig að fyrirgefa bræðrum þínum afbrot þeirra og synd, að þeir fóru svona illa með þig.“‘ Viltu því fyrirgefa okkur það ranga sem við höfum gert, okkur sem þjónum Guði föður þíns.“ Jósef brast í grát þegar hann heyrði þetta. 18  Því næst komu bræður hans sjálfir og féllu fram fyrir honum. „Við erum þrælar þínir,“ sögðu þeir. 19  „Verið ekki hræddir,“ sagði Jósef. „Kem ég í Guðs stað? 20  Þið ætluðuð að gera mér mein en Guð sneri því til góðs því að hann vildi bjarga lífi margra, og það hefur hann gert. 21  Verið því óhræddir. Ég mun halda áfram að sjá ykkur og börnum ykkar fyrir mat.“ Þannig hughreysti hann þá og taldi í þá kjark. 22  Jósef bjó áfram í Egyptalandi, hann og fjölskylda föður hans, og varð 110 ára. 23  Jósef lifði það að sjá afkomendur Efraíms í þriðja lið og syni Makírs, sonar Manasse. Þeir fæddust á hné Jósefs.* 24  Undir það síðasta sagði Jósef við bræður sína: „Nú styttist í að ég deyi en Guð mun koma ykkur til hjálpar. Hann mun flytja ykkur úr þessu landi til landsins sem hann hét Abraham, Ísak og Jakobi.“ 25  Jósef tók síðan eið af sonum Ísraels og sagði: „Guð mun koma ykkur til hjálpar og þá skuluð þið flytja bein mín héðan.“ 26  Jósef dó 110 ára að aldri og þeir smurðu hann og lögðu í kistu í Egyptalandi.

Neðanmáls

Eða „heimilismenn“.
Sem þýðir ‚sorg Egypta‘.
Það er, hann leit á þá sem sína eigin syni og þeir voru í sérstöku uppáhaldi hjá honum.