Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sýnir um Guðsríki verða að veruleika

Sýnir um Guðsríki verða að veruleika

Sýnir um Guðsríki verða að veruleika

„Það er rétt af yður að gefa gaum að [hinu spámannlega orði] eins og ljósi, sem skín á myrkum stað.“ — 2. PÉTURSBRÉF 1:19.

1. Hvaða andstæður er að finna í heimi nútímans?

HÖRMUNGAR á hörmungar ofan — þannig mætti lýsa heiminum í hnotskurn. Svo virðist sem vandamál mannkyns séu algerlega óviðráðanleg en þau spanna allt frá umhverfisslysum til hryðjuverka. Trúarbrögð heims hafa jafnvel ekki verið fær um að bæta ástandið. Þau hafa þvert á móti bætt gráu ofan á svart með því að kynda undir umburðarleysi, hatri og þjóðernishyggju sem sundra fólki. Já, eins og spáð var grúfir „sorti yfir þjóðunum“. (Jesaja 60:2) En á sama tíma horfa milljónir manna björtum augum til framtíðar vegna þess að þær gefa gaum að spádómsorði Guðs „eins og ljósi, sem skín á myrkum stað“. Þær leyfa ,orði‘ Guðs, það er að segja boðskap hans sem nú er í Biblíunni, að stýra skrefum sínum. — 2. Pétursbréf 1:19.

2. Hverjir einir fá skilning á andlegum málum á endalokatímanum samkvæmt spádómi Daníels?

2 Spámaðurinn Daníel skrifaði um endalokatímann: „Margir munu rannsaka [Ritninguna], og þekkingin mun vaxa. Margir munu verða klárir, hreinir og skírir, en hinir óguðlegu munu breyta óguðlega, og engir óguðlegir munu skilja það, en hinir vitru munu skilja það.“ (Daníel 12:4, 10) Aðeins þeir sem „rannsaka“ orð Guðs af kappi, fara eftir boðorðum hans og leggja sig fram um að gera vilja hans fá skilning á andlegum málum. — Matteus 13:11-15; 1. Jóhannesarbréf 5:20.

3. Hvaða mikilvæga sannleika skildu biblíunemendur á áttunda áratug 19. aldar?

3 Strax á áttunda áratug 19. aldar, áður en hinir ,síðustu dagar‘ hófust, fór Jehóva Guð að varpa meira ljósi á „leynda dóma himnaríkis“. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Matteus 13:11) Um það leyti skildi hópur biblíunemenda að endurkoma Krists ætti að vera ósýnileg, en það var í andstöðu við trú almennings. Eftir að Jesús var krýndur konungur á himni myndi hann koma aftur í þeim skilningi að hann beindi athyglinni að jörðinni. Sýnilegt samsett tákn myndi vekja lærisveina hans til vitundar um að ósýnileg nærvera hans væri hafin. — Matteus 24:3-14.

Þegar sýn verður að veruleika

4. Hvernig hefur Jehóva styrkt trú þjóna sinna nú á dögum?

4 Ummyndunin var einstök sýn þar sem Pétur, Jakob og Jóhannes sáu dýrð Krists í ríki hans. (Matteus 17:1-9) Þessi sýn styrkti trú þeirra á þeim tíma þegar margir höfðu hætt að fylgja Jesú sökum þess að hann uppfyllti ekki rangar væntingar þeirra. Nú á tímum endalokanna hefur Jehóva líka styrkt trú þjóna sinna með því að varpa skýrara ljósi á uppfyllingu þessarar tilkomumiklu sýnar og margra annarra tengdra spádóma. Lítum á nokkur dæmi um þetta.

5. Hver reyndist vera morgunstjarnan og hvenær og hvernig ,rann hann upp‘?

5 Pétur postuli var að vísa til ummyndunarinnar þegar hann skrifaði: „Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð. Og það er rétt af yður að gefa gaum að því eins og ljósi, sem skín á myrkum stað, þangað til dagur ljómar og morgunstjarna rennur upp í hjörtum yðar.“ (2. Pétursbréf 1:19) Þessi táknræna morgunstjarna, „stjarnan skínandi“, er hinn dýrlegi Jesús Kristur. (Opinberunarbókin 22:16) Hann ,rann upp‘ árið 1914 þegar Guðsríki fæddist á himni og var það upphaf að nýju tímabili. (Opinberunarbókin 11:15) Í ummynduninni birtust Móse og Elía við hlið Jesú á tali við hann. Hverja tákna þeir?

6, 7. Hverja tákna Móse og Elía í ummynduninni og hvaða mikilvægu upplýsingar eru opinberaðar í Biblíunni um þá sem þeir tákna?

6 Þar sem Móse og Elía áttu hlutdeild í dýrð Krists hljóta þessir tveir trúföstu vottar að tákna þá sem stjórna með honum í ríki hans. Þessi skilningur, að Jesús eigi sér meðstjórnendur, er í samræmi við spádómlega sýn, sem spámaðurinn Daníel sá, um hinn krýnda konung Messías. Daníel sá ,einhvern sem mannsyni líktist‘ fá „eilíft vald“ frá ,hinum aldraða‘, Jehóva Guði. En taktu eftir hvað Daníel er birt stuttu eftir það. Hann skrifar: „Ríki, vald og máttur allra konungsríkja, sem undir himninum eru, mun gefið verða heilögum lýð Hins hæsta.“ (Daníel 7:13, 14, 27) Meira en fimm öldum fyrir ummyndunarsýnina opinberaði Guð að ákveðinn ,heilagur lýður‘ myndi eiga hlutdeild í konunglegri dýrð Krists.

7 Hverjir eru hinir heilögu í sýn Daníels? Páll postuli skírskotar til þessara einstaklinga þegar hann segir: „Sjálfur andinn vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn. En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists, því að vér líðum með honum, til þess að vér einnig verðum vegsamlegir með honum.“ (Rómverjabréfið 8:16, 17) Hinir heilögu eru andasmurðir lærisveinar Jesú. Jesús segir í Opinberunarbókinni: „Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu, eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans.“ Þessir upprisnu ,sigurvegarar‘, 144.000 að tölu, munu ríkja yfir allri jörðinni ásamt Jesú. — Opinberunarbókin 3:21; 5:9, 10; 14:1, 3, 4; 1. Korintubréf 15:53.

8. Hvers konar starf hafa andasmurðir lærisveinar Jesú unnið sem svipar til þess starfs sem Móse og Elía unnu og með hvaða árangri?

8 En hvers vegna eru Móse og Elía látnir tákna andasmurða kristna menn? Ástæðan fyrir því er sú að á meðan þessir kristnu menn eru enn á jörðinni vinna þeir sams konar verk og Móse og Elía. Þeir bera til dæmis vitni um Jehóva, jafnvel í ofsóknum. (Jesaja 43:10; Postulasagan 8:1-8; Opinberunarbókin 11:2-12) Líkt og Móse og Elía afhjúpa þeir hugrakkir fölsk trúarbrögð en hvetja um leið einlægt fólk til að sýna Guði algera hollustu. (2. Mósebók 32:19, 20; 5. Mósebók 4:22-24; 1. Konungabók 18:18-40) Hefur starf þeirra borið ávöxt? Svo sannarlega. Auk þess að eiga þátt í að safna saman þeim sem eftir eru af hinum andasmurðu hafa þeir hjálpað milljónum af ,öðrum sauðum‘ að hlýða Jesú Kristi fúslega. — Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 7:4.

Kristur vinnur fullnaðarsigur

9. Hvaða mynd dregur Opinberunarbókin 6:2 upp af Jesú eins og hann er núna?

9 Jesús er ekki lengur lítilmótlegur maður á baki ösnufola heldur er hann voldugur konungur. Dregin er upp mynd af honum þar sem hann ríður hesti, en það er tákn um hernað í Biblíunni. (Orðskviðirnir 21:31) Í Opinberunarbókinni 6:2 segir: „Sjá: Hvítur hestur, og sá sem á honum sat hafði boga, og honum var fengin kóróna og hann fór út sigrandi og til þess að sigra.“ Og sálmaritarinn sagði um Jesú: „Drottinn réttir út þinn volduga sprota frá Síon, drottna þú mitt á meðal óvina þinna!“ — Sálmur 110:2.

10. (a) Hvernig hófst sigurreið Jesú á dýrlegan hátt? (b) Hvaða áhrif hafði fyrsti sigur Krists á heiminn almennt?

10 Jesús byrjaði á því að sigra öflugustu óvini sína — Satan og illu andana. Hann varpaði þeim af himni niður til jarðar. Þessar illu andaverur vita að tíminn, sem þær hafa til umráða, er orðinn stuttur þannig að þær hafa látið heift sína bitna á mannkyninu og valdið miklum hörmungum. Þessar hörmungar eru táknaðar í Opinberunarbókinni með þremur reiðmönnum til viðbótar. (Opinberunarbókin 6:3-8; 12:7-12) Reið þeirra hefur haft í för með sér styrjaldir, hungursneyðir og banvænar plágur í samræmi við spádóm Jesú um „tákn komu [sinnar] og endaloka veraldar“. (Matteus 24:3, 7; Lúkas 21:7-11) Þessar hörmungar munu án efa halda áfram að aukast líkt og ,fæðingarhríðir‘ þar til Kristur vinnur fullnaðarsigur með því að eyða öllum ummerkjum um sýnilegt skipulag Satans. * — Matteus 24:8.

11. Hvernig vitnar saga kristna safnaðarins um konunglegt vald Krists?

11 Konunglegt vald Jesú sést einnig á því hvernig hann hefur varðveitt kristna söfnuðinn þannig að söfnuðurinn hefur getað sinnt verkefni sínu að prédika boðskapinn um Guðsríki um allan heim. Þrátt fyrir grimmilegar ofsóknir Babýlonar hinnar miklu — heimsveldis falskra trúarbragða — og óvinveittra ríkisstjórna hefur boðunarstarfið haldið áfram og náð meiri útbreiðslu en nokkurn tíma áður. (Opinberunarbókin 17:5, 6) Þetta er kraftmikill vitnisburður um konungdóm Krists. — Sálmur 110:3.

12. Hvers vegna gera fæstir sér grein fyrir ósýnilegri nærveru Krists?

12 En því miður gera flestir, þar á meðal milljónir manna sem segjast kristnir, sér ekki grein fyrir hinum ósýnilega veruleika að baki þeim þýðingarmiklu atburðum sem eiga sér stað á jörðinni. Þeir hæðast jafnvel að þeim sem boða Guðsríki vegna þess að Satan hefur blindað huga þeirra. (2. Korintubréf 4:3, 4; 2. Pétursbréf 3:3, 4) Hann byrjaði reyndar að hylja nafnkristna menn andlegu myrkri fyrir mörgum öldum og fékk þá meira að segja til að snúa baki við hinni dýrmætu von um Guðsríki.

Voninni um Guðsríki hafnað

13. Til hvers leiddi andlega myrkrið?

13 Jesús sagði fyrir að fráhvarfsmenn myndu laumast inn í kristna söfnuðinn og leiða marga afvega — þeir yrðu eins og illgresi sáð meðal hveitis. (Matteus 13:24-30, 36-43; Postulasagan 20:29-31; Júdasarbréfið 4) Er fram liðu stundir tóku þessir svokölluðu kristnu menn upp heiðnar hátíðir, siði og kenningar og kölluðu þær jafnvel „kristnar“. Tökum jólin sem dæmi. Þau eiga uppruna sinn í helgisiðum sem tengdust tilbeiðslu á heiðnu guðunum Míþrasi og Satúrnusi. En hvað varð til þess að nafnkristnir menn fóru að halda þessar ókristilegu hátíðir? Alfræðibókin The New Encyclopædia Britannica (1974) segir: „Jólunum, fæðingarhátíð Jesú Krists, var komið á þegar væntingar manna fóru dvínandi um að endurkoma Krists væri í nánd.“

14. Hvernig gáfu kenningar Origenesar og Ágústínusar ranga mynd af sannleikanum um Guðsríki?

14 Hugsum einnig um hvernig merking orðsins „Guðsríki“ hefur verið brengluð. Bókin The Kingdom of God in 20th-Century Interpretation segir: „Það er með Origenesi [guðfræðingi á þriðju öld] sem sú venja skapast hjá kristnum mönnum að ‚Guðsríki‘ merki stjórn Guðs í hjarta mannsins.“ Á hverju byggði Origenes kenningu sína? Ekki á Ritningunni heldur á „heimspeki og heimssýn sem var gerólík hugmyndaheimi Jesú og frumkirkjunnar“. Ágústínus af Hippó (354-430) sagði í verki sínu De Civitate Dei (Um borgríki Guðs) að kirkjan sjálf væri Guðsríki. Þessi hugsun, sem var í andstöðu við Ritninguna, gaf kirkjum kristindómsins trúarlegan grundvöll til að taka sér pólitískt vald. Og þær fóru með slíkt vald öldum saman, oft af mikilli grimmd. — Opinberunarbókin 17:5, 18.

15. Hvernig hefur Galatabréfið 6:7 ræst á mörgum kirkjum kristna heimsins?

15 Núna eru kirkjurnar að uppskera það sem þær hafa sáð. (Galatabréfið 6:7) Margar kirkjur virðast vera að missa bæði völdin og sóknarbörnin. Þessi þróun er nokkuð augljós í Evrópu. Að sögn tímaritsins Christianity Today „eru hinar miklu dómkirkjur í Evrópu ekki lengur tilbeiðsluhús heldur söfn; þangað koma engir nema ferðamenn“. Sömu sögu er að segja í öðrum heimshlutum. Hvað eiga falstrúarbrögðin í vændum miðað við þetta? Munu þau deyja út aðeins vegna þess að fylgið minnkar? Og hvaða áhrif hefur þetta á sanna tilbeiðslu?

Verum viðbúin hinum mikla degi Jehóva

16. Hvers vegna er hin vaxandi andúð á Babýlon hinni miklu þýðingarmikil?

16 Hin aukna andúð í garð trúarbragða í mörgum löndum er eins og reykur og aska úr eldfjalli sem legið hefur í dvala. Það getur gosið hvenær sem er. Fölsk trúarbrögð eiga stutt eftir. Jehóva mun bráðlega blása stjórnmálaöflunum í brjóst að afhjúpa Babýlon hina miklu, sem er trúarleg skækja, og eyða henni. (Opinberunarbókin 17:15-17; 18:21) Ættu sannkristnir menn að óttast þennan atburð og annað sem gerist í ,þrengingunni miklu‘? (Matteus 24:21) Alls ekki. Þeir hafa þvert á móti tilefni til að fagna þegar Guð lætur til skarar skríða gegn hinum óguðlegu. (Opinberunarbókin 18:20; 19:1, 2) Tökum sem dæmi Jerúsalem á fyrstu öld og kristna menn sem bjuggu þar.

17. Hvers vegna geta trúfastir þjónar Jehóva mætt endalokum hins illa heims óttalaust?

17 Þegar rómverskar hersveitir umkringdu Jerúsalem árið 66 voru kristnir menn hvorki undrandi né óttaslegnir. Þar sem þeir voru ötulir nemendur í orði Guðs vissu þeir ,að eyðing hennar var í nánd‘. (Lúkas 21:20) Þeir vissu líka að Guð myndi opna þeim leið svo að þeir gætu flúið á öruggan stað. Þegar tækifærið gafst flúðu kristnir menn. (Daníel 9:26; Matteus 24:15-19; Lúkas 21:21) Því er eins farið nú á dögum. Þeir sem þekkja Guð og hlýða syni hans geta mætt endalokum heimskerfisins óttalaust. (2. Þessaloníkubréf 1:6-9) Þeir munu gleðjast þegar þrengingin mikla skellur á, ,rétta úr sér og lyfta upp höfðum sínum því að lausn þeirra er í nánd‘. — Lúkas 21:28.

18. Hvernig lyktar allsherjarárás Gógs á þjóna Jehóva?

18 Eftir eyðingu Babýlonar hinnar miklu mun Satan, í hlutverki Gógs frá Magóg, gera allsherjarárás á friðsama votta Jehóva. Þeir sem fylgja Góg munu vera eins og „óveðursský til þess að hylja landið“. Þeir búast við skjótum sigri. En þeir vita ekki hvað bíður þeirra. (Esekíel 38:14-16, 18-23) Jóhannes postuli skrifar: „Þá sá ég himininn opinn, og sjá: Hvítur hestur. Sá, sem á honum sat, heitir Trúr og Sannur . . . Og af munni hans gengur út biturt sverð að slá þjóðirnar með.“ Þessi ósigrandi „konungur konunga“ mun bjarga trúföstum tilbiðjendum Jehóva og útrýma öllum óvinum þeirra. (Opinberunarbókin 19:11-21) Þannig nær uppfylling ummyndunarinnar einstöku hámarki!

19. Hvaða áhrif hefur fullnaðarsigur Krists á trúfasta lærisveina hans og hvað ættu þeir að leggja sig fram um að gera núna?

19 Jesús mun „á þeim degi . . . hljóta lof meðal allra, sem trú hafa tekið“. (2. Þessaloníkubréf 1:10) Langar þig að vera í hópi þeirra sem lofa son Guðs með lotningu fyrir sigur hans? Haltu þá áfram að næra trú þína og ,vertu viðbúinn, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þú ætlar eigi‘. — Matteus 24:43, 44.

Vertu skynsamur

20. (a) Hvernig getum við sýnt þakklæti fyrir ,hinn trúa og hyggna þjón‘? (b) Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

20 Hinn „trúi og hyggni þjónn“ hvetur fólk Guðs reglulega til að halda andlegri vöku sinni og sýna skynsemi. (Matteus 24:45, 46; 1. Þessaloníkubréf 5:6) Ertu þakklátur fyrir þessar tímabæru áminningar? Notarðu þær til að forgangsraða rétt í lífinu? Hvers vegna spyrðu ekki sjálfan þig: Hef ég skýra andlega sjón sem gerir mér kleift að sjá son Guðs stjórna á himni? Sé ég hann fyrir mér þar sem hann er tilbúinn til að fullnægja dómi Guðs yfir Babýlon hinni miklu og heimi Satans í heild?

21. Hver gæti verið ástæðan fyrir því að sumir hafa leyft andlegri sjón sinni að dofna og hvað er mikilvægt að þeir geri?

21 Sumir meðal fólks Guðs núna hafa leyft andlegri sjón sinni að dofna. Gæti verið að þá skorti þolinmæði eða þolgæði eins og suma af fyrstu lærisveinum Jesú? Hafa áhyggjur lífsins, efnishyggja eða ofsóknir haft áhrif á þá? (Matteus 13:3-8, 18-23; Lúkas 21:34-36) Kannski hefur sumum fundist erfitt að skilja ákveðnar upplýsingar sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur birt. Ef eitthvað af þessu hefur hent þig hvetjum við þig til að rannsaka orð Guðs af nýjum krafti og biðja auðmjúklega til hans þannig að þú getir endurheimt sterkt og náið samband við hann. — 2. Pétursbréf 3:11-15.

22. Hvaða áhrif hefur það haft á þig að skoða ummyndunina og tengda spádóma?

22 Lærisveinar Jesú fengu að sjá ummyndunina þegar þeir þurftu á hvatningu að halda. Við höfum enn þá meira til að styrkja okkur — uppfyllingu á þessari tilkomumiklu sýn og mörgum tengdum spádómum. Um leið og við virðum fyrir okkur þennan dýrlega veruleika og þýðingu hans fyrir framtíðina skulum við öll enduróma orð Jóhannesar postula af öllu hjarta þegar hann sagði: „Amen. Kom þú, Drottinn Jesús!“ — Opinberunarbókin 22:20.

[Neðanmáls]

^ gr. 10 Þessi samlíking bendir til þess að vandamál mannkyns verði tíðari, alvarlegri og langdregnari líkt og fæðingarhríðir og nái hámarki með þrengingunni miklu.

Manstu?

• Hvað skildi lítill hópur biblíunemenda á áttunda áratug 19. aldar um endurkomu Krists?

• Hvernig hefur ummyndunin uppfyllst?

• Hvaða áhrif hefur sigurreið Jesú á heiminn og á kristna söfnuðinn?

• Hvað verðum við að gera til að vera meðal þeirra sem lifa af þegar Jesús vinnur fullnaðarsigur?

[Spurningar]

[Myndir á blaðsíðu 24, 25]

Sýn verður að veruleika.

[Myndir á blaðsíðu 26]

Veistu hvað átti sér stað þegar Kristur hóf sigurför sína?