Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Prédikaðu til að gera menn að lærisveinum

Prédikaðu til að gera menn að lærisveinum

Prédikaðu til að gera menn að lærisveinum

„Priskilla og Akvílas heyrðu til [Apollósar], tóku hann að sér og skýrðu nánar fyrir honum Guðs veg.“ — POSTULASAGAN 18:26.

1. Hvers þarfnaðist Apollós þótt hann væri „brennandi í andanum“?

HJÓNIN Akvílas og Priskilla, sem tilheyrðu frumkristna söfnuðinum, heyrðu Apollós flytja ræðu í samkundunni í Efesus. Hann var vel máli farinn, sannfærandi og hreif áheyrendur sína. Hann var „brennandi í andanum“ og „kenndi kostgæfilega um Jesú“. Hins vegar var ljóst að hann „þekkti . . . aðeins skírn Jóhannesar“. Það sem Apollós prédikaði um Krist var rétt, svo langt sem það náði. Það náði bara ekki nógu langt. Apollós þurfti að bæta við þekkingu sína á hlutverki Jesú Krists í fyrirætlun Jehóva. — Postulasagan 18:24-26.

2. Hvaða verkefni tóku Akvílas og Priskilla að sér?

2 Akvílas og Priskilla buðu sig hiklaust fram til að hjálpa Apollósi þannig að hann gæti haldið „allt það“ sem Kristur bauð. (Matteus 28:19, 20) Frásagan segir að þau hafi tekið hann að sér og skýrt nánar fyrir honum veg Guðs. En sumir í kristna söfnuðinum hefðu hugsanlega veigrað sér við að kenna Apollósi. Hvers vegna? Hvað má læra af því að Akvílas og Priskilla skyldu fræða hann um Ritninguna? Og hvaða lærdómur felst í þessari frásögu sem auðveldar okkur að hefja ný biblíunámskeið?

Einbeittu þér að þörfum fólks

3. Hvers vegna létu Akvílas og Priskilla ekki uppruna Apollósar aftra sér frá að kenna honum?

3 Apollós var Gyðingur að uppruna og mun hafa alist upp í Alexandríu sem var þá höfuðborg Egyptalands og virt menntasetur. Borgin var kunn af hinu mikla bókasafni sínu. Þar bjó fjöldi Gyðinga, þeirra á meðal fræðimenn. Þar var gerð hin gríska þýðing á Hebresku ritningunum sem kölluð er Sjötíumannaþýðingin. Það er eðlilegt að Apollós skyldi vera „fær í ritningunum“. Akvílas og Priskilla unnu hins vegar við tjaldgerð. Fundu þau til vanmáttar andspænis mælsku Apollósar? Nei, þau hugsuðu um manninn Apollós og þarfir hans og hugleiddu hvernig þau gætu hjálpað honum. Það var kærleikur sem bjó að baki.

4. Hvar og hvernig fékk Apollós nauðsynlega aðstoð?

4 Það skipti ekki máli hve vel Apollós var máli farinn, það þurfti engu að síður að leiðbeina honum. Hann þarfnaðist hjálpar sem var ekki að fá í neinum háskóla heldur hjá trúsystkinum hans í kristna söfnuðinum. Apollós var í þann mund að fá leiðbeiningar til þess að hann skildi betur hvernig hjálpræði Guðs væri háttað. Akvílas og Priskilla „tóku hann að sér og skýrðu nánar fyrir honum Guðs veg“.

5. Hvað er hægt að segja um trú Akvílasar og Priskillu?

5 Akvílas og Priskilla voru sterk og rótföst í trúnni. Eflaust hafa þau alltaf verið ‚reiðubúin að svara hverjum manni sem krafðist raka hjá þeim fyrir voninni sem í þeim bjó‘, hvort sem hann var ríkur, fátækur, fræðimaður eða þræll. (1. Pétursbréf 3:15) Þau voru fær um að fara rétt með orð sannleikans. (2. Tímóteusarbréf 2:15) Þau hafa greinilega verið duglegir biblíunemendur. Fræðslan, sem Apollós fékk, hafði djúpstæð áhrif á hann því að hún byggðist á ‚orði Guðs sem er lifandi og kröftugt‘ og nær til hjartans. — Hebreabréfið 4:12.

6. Hvernig vitum við að Apollós kunni að meta hjálpina sem hann fékk?

6 Apollós var snortinn af fordæmi kennara sinna og varð enn færari að kenna fólki en áður. Hann notaði þekkingu sína sem best hann gat til að boða fagnaðarerindið, ekki síst meðal Gyðinga. Honum varð sérlega vel ágengt við að sannfæra Gyðinga um að Jesús væri Kristur. Þar sem hann var „fær í ritningunum“ gat hann sannað fyrir þeim að allir spámenn fortíðar hefðu hlakkað til þess að Kristur kæmi. (Postulasagan 18:24) Frásagan bætir því við að Apollós hafi þessu næst haldið til Akkeu þar sem hann „varð til mikillar hjálpar þeim, sem fyrir Guðs náð höfðu tekið trú, því hann hrakti skarplega rök Gyðinga í allra áheyrn og sannaði af ritningunum, að Jesús væri Kristur“. — Postulasagan 18:27, 28.

Lærum af öðrum kennurum

7. Hvernig urðu Akvílas og Priskilla færir kennarar?

7 Hvernig urðu þau Akvílas og Priskilla svona fær í að kenna orð Guðs? Þau hafa verið iðin við einkanám og sótt samkomur vel en auk þess hljóta þau að hafa haft mikið gagn af nánu samneyti sínu við Pál postula. Páll bjó um eins og hálfs árs skeið á heimili þeirra í Korintu þar sem þau unnu saman við tjaldsaum og tjaldviðgerðir. (Postulasagan 18:2, 3) Við getum rétt ímyndað okkur hve djúpt þau hafa kafað í umræðum sínum um Ritninguna. Og samveran með Páli hefur tvímælalaust verið mjög styrkjandi fyrir trú þeirra, enda segja Orðskviðirnir 13:20: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur.“ Góður félagsskapur hafði góð áhrif á andlegar venjur þeirra. — 1. Korintubréf 15:33.

8. Hvað lærðu Akvílas og Priskilla af því að fylgjast með boðunarstarfi Páls?

8 Akvílas og Priskilla sáu góðan kennara að verki þegar þau fylgdust með Páli boða Guðsríki. Postulasagan greinir frá því að Páll hafi rætt við menn í samkunduhúsinu í Korintu hvern hvíldardag og reynt að sannfæra bæði Gyðinga og Grikki. Síðar komu þeir Sílas og Tímóteus og þá „gaf Páll sig allan að boðun orðsins og vitnaði fyrir Gyðingum, að Jesús væri Kristur“. Þegar lítill áhugi reyndist hjá þeim sem sóttu samkunduna færði Páll sig um set og tók að prédika á heppilegri stað í húsi sem stóð hjá samkundunni. Akvílas og Priskilla sáu hvernig Páli auðnaðist að hjálpa Krispusi samkundustjóra að gerast lærisveinn. Eflaust hafa þau séð hvílík áhrif þessi eini nýi lærisveinn hafði á starfssvæðið. Frásagan segir: „Krispus . . . tók trú á Drottin og allt heimili hans, og margir Korintumenn, sem á hlýddu, tóku trú og létu skírast.“ — Postulasagan 18:4-8.

9. Hvernig líktu Akvílas og Priskilla eftir fordæmi Páls?

9 Boðberar eins og Akvílas og Priskilla líktu eftir fordæmi Páls í boðunarstarfinu, enda hvatti postulinn trúsystkini sín: „Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists.“ (1. Korintubréf 11:1) Í samræmi við fordæmi Páls skýrðu Akvílas og Priskilla kenningar kristninnar fyrir Apollósi. Hann kenndi síðan öðrum. Akvílas og Priskilla hafa eflaust átt sinn þátt í því að gera menn að lærisveinum í Róm, Korintu og Efesus. — Postulasagan 18:1, 2, 18, 19; Rómverjabréfið 16:3-5.

10. Hvað hefurðu lært af 18. kafla Postulasögunnar sem getur hjálpað þér að gera aðra að lærisveinum?

10 Hvað getum við lært af 18. kafla Postulasögunnar? Við getum orðið færari í að gera fólk að lærisveinum með því að læra af góðum kennurum, rétt eins og Akvílas og Priskilla hafa trúlega lært af Páli. Við getum átt samneyti við þá sem gefa sig alla að boðun orðsins og vitna af krafti fyrir öðrum. (Postulasagan 18:5) Við getum fylgst með hvernig þeir ná með sannfærandi kennslu til hjartna fólks. Og þannig kennsla getur auðveldað okkur að gera aðra að lærisveinum. Þegar við kennum annarri manneskju gætum við stungið upp á að hún bjóði öðrum í fjölskyldunni eða nágrönnum að vera með. Við gætum einnig beðið hana að láta okkur vita af fleirum sem við gætum boðið biblíunámskeið. — Postulasagan 18:6-8.

Skapaðu þér tækifæri til að gera fólk að lærisveinum

11. Hvar er hægt að finna nýja lærisveina?

11 Páll og trúsystkini hans leituðust við að gera fólk að lærisveinum með því að prédika hús úr húsi, á markaðstorginu og á ferðum sínum — í rauninni alls staðar. Geturðu fært út kvíarnar í boðunarstarfinu og kennt fleirum? Geturðu nýtt þér betur þau tækifæri sem gefast til að leita að verðugum og prédika fyrir þeim? Hvernig hefur öðrum boðberum fagnaðarerindisins tekist að finna nýja lærisveina? Lítum fyrst á boðunarstarf í síma.

12-14. Sýndu fram á kosti þess að vitna í síma, miðað við eigin reynslu eða dæmin sem sagt er frá í greinunum.

12 Kristin kona, sem við skulum kalla Maríu, var að vitna hús úr húsi í Brasilíu þegar hún rakst á unga konu sem var að koma út úr fjölbýlishúsi. María rétti henni smárit. Hún notaði síðan titil smáritsins sem inngangsorð og spurði konuna: „Langar þig til að vita meira um Biblíuna?“ „Mjög gjarnan,“ svaraði konan. „Vandinn er bara sá að ég er kennari og er upptekin öllum stundum.“ María nefndi þá að þær gætu notað símann til að ræða um biblíuleg efni. Konan gaf henni símanúmerið sitt og sama kvöld hófst símanám með hjálp bæklingsins Hvers krefst Guð af okkur? *

13 Systir, sem þjónar í fullu starfi í Eþíópíu, var að vitna fyrir manni í síma en brá nokkuð þegar hún heyrði gauragang á hinum enda línunnar. Maðurinn bað hana að hringja aftur síðar. Hún gerði það og hann baðst þá afsökunar og sagði að þau hjónin hefðu verið að rífast þegar hún hringdi í fyrra sinnið. Systirin greip þá tækifærið til að benda honum á að viturlegar leiðbeiningar Biblíunnar hjálpi fólki að leysa vandamál innan fjölskyldunnar. Hún sagði honum að margar fjölskyldur hefðu haft gagn af bókinni The Secret of Family Happiness (Lykillinn að hamingjusömu fjölskyldulífi) sem Vottar Jehóva gefa út. Systirin hringdi aftur til mannsins nokkrum dögum eftir að hann fékk bókina afhenta. „Þessi bók bjargaði hjónabandinu!“ sagði hann með ákafa. Hann hafði meira að segja kallað fjölskylduna saman til að koma á framfæri ýmsu góðu sem hann hafði lesið í bókinni. Maðurinn þáði biblíunámskeið og byrjaði fljótlega að sækja safnaðarsamkomur að staðaldri.

14 Systir í Danmörku kom af stað biblíunámskeiði með því að vitna í síma. „Starfshirðirinn hvatti mig til að taka þátt í boðunarstarfi í síma,“ segir hún. „Ég var hikandi í fyrstu og sagði: Þetta er ekki fyrir mig. En einn góðan veðurdag herti ég upp hugann og hringdi í fyrsta húsráðandann. Sonja varð fyrir svörum og eftir stutt samtal þáði hún biblíutengd rit sem ég bauð henni. Kvöld eitt vorum við að ræða um sköpunina og hún vildi gjarnan fá að lesa bókina Lífið — varð það til við þróun eða sköpun? * Ég sagði að það væri gaman ef við gætum hist til að skoða málið. Sonja féllst á það. Þegar ég kom var hún tilbúin að hefja biblíunám og síðan höfum við hist í hverri viku.“ Systirin segir að lokum: „Ég hafði beðið þess í bænum mínum í mörg ár að mega halda biblíunámskeið, en ég bjóst ekki við að mér yrði að ósk minni með því að vitna í síma.“

15, 16. Nefndu dæmi um hvernig hægt er að hefja biblíunámskeið við mismunandi aðstæður.

15 Margir hafa náð góðum árangri með því að vitna fyrir fólki hvar sem það er að finna. Systir í Bandaríkjunum lagði bílnum sínum við hliðina á sendibíl. Í sendibílnum var kona sem systirin tók tali. Hún fór að lýsa fyrir konunni hvernig biblíufræðslu okkar væri háttað, konan hlustaði, steig út úr sendibílnum og settist inn í bílinn hjá systurinni. „Ég er svo ánægð að þú skyldir stoppa hjá mér og tala við mig,“ sagði hún. „Ég hef ekki séð biblíuritin ykkar langalengi. Og mig langar til að hefja biblíunám aftur. Vilt þú kenna mér?“ Þannig skapaði systirin sér tækifæri til að segja frá fagnaðarerindinu.

16 Önnur systir í Bandaríkjunum gekk inn á hjúkrunarheimili, náði tali af yfirmanni og sagðist vilja leggja sitt af mörkum til að sinna trúarlegum þörfum vistmanna. Hún bætti við að hún myndi gjarnan halda ókeypis biblíunámskeið handa öllum sem vildu sækja það. Yfirmaðurinn gaf henni leyfi til að banka upp á hjá vistmönnum. Áður en langt um leið var hún komin í gang með biblíunámskeið þrisvar í viku og alls tóku 26 þátt í námskeiðinu. Einn þeirra getur sótt samkomur að staðaldri.

17. Hvaða aðferð er oft gott að nota til að hefja ný biblíunámskeið?

17 Margir boðberar Guðsríkis hafa góða reynslu af því að bjóða fólki biblíunámskeið beint. Morgun einn gerði söfnuður með 105 boðberum sérstakt átak til að bjóða öllum húsráðendum biblíunámskeið. Áttatíu og sex boðberar tóku þátt í boðunarstarfinu og eftir tveggja klukkustunda starf voru komin í gang að minnsta kosti 15 ný biblíunámskeið.

Haltu áfram að leita að hinum verðugu

18, 19. Hvaða mikilvægar leiðbeiningar frá Jesú ættum við að hafa í huga og í hverju ættum við að vera staðráðin?

18 Þú gætir reynt að nota einhverjar af þeim tillögum, sem hér hafa verið nefndar, í boðunarstarfinu. Að sjálfsögðu er skynsamlegt að velja boðunaraðferðir með hliðsjón af siðum og venjum á hverjum stað. En við sem erum boðberar Guðsríkis skulum umfram allt hafa í huga þær leiðbeiningar Jesú að leita að hinum verðugu og hjálpa þeim síðan að verða lærisveinar. — Matteus 10:11; 28:19.

19 Til að okkur takist það þurfum við að fara rétt með orð sannleikans. Við gerum það með því að byggja rökfærslu okkar tryggilega á Biblíunni. Þannig náum við frekar að snerta hjörtu þeirra sem eru móttækilegir og hvetja þá til verka. Með því að reiða okkur á Jehóva og leita leiðsagnar hans í bæn getum við hjálpað sumum að gerast lærisveinar Jesú Krists. Og það er ákaflega gefandi starf. Við skulum því leggja kapp á að reynast hæf fyrir Guði sem dugandi boðberar ríkis hans. Við skulum heiðra hann öllum stundum með því að prédika í því augnamiði að gera fólk að lærisveinum. — 2. Tímóteusarbréf 2:15.

[Neðanmáls]

^ gr. 12 Gefinn út af Vottum Jehóva.

^ gr. 14 Gefin út af Vottum Jehóva.

Manstu?

• Hvers vegna þurfti að skýra veg Guðs nánar fyrir Apollósi?

• Hvernig lærðu Akvílas og Priskilla af Páli postula?

• Hvað hefurðu lært af 18. kafla Postulasögunnar um það að gera fólk að lærisveinum?

• Hvernig geturðu skapað þér tækifæri til að gera fólk að lærisveinum?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 18]

Akvílas og Priskilla ‚skýrðu nánar Guðs veg‘ fyrir Apollósi.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Apollós varð fær í að gera fólk að lærisveinum.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Páll prédikaði alls staðar á ferðum sínum.

[Myndir á blaðsíðu 21]

Skapaðu þér tækifæri til að prédika.