Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Við göngum í nafni Jehóva að eilífu!

Við göngum í nafni Jehóva að eilífu!

Við göngum í nafni Jehóva að eilífu!

„Vér göngum í nafni Drottins, Guðs vors, æ og ævinlega.“ — MÍKA 4:5.

1. Hvaða boðskapur kemur fram í 3. til 5 kafla hjá Míka?

JEHÓVA þarf að flytja fólki sínu ákveðin boð og notar Míka sem spámann. Hann hefur ákveðið að láta til skarar skríða gegn illgerðamönnum. Ísraelsmenn hafa gerst fráhverfir trúnni og hann ætlar að refsa þeim fyrir. En sem betur fer ætlar hann að blessa þá sem ganga í nafni hans. Þessi boðskapur hljómar hátt og skýrt í 3. til 5. kafla í spádómsbók Míka.

2, 3. (a) Hvað eiga leiðtogar Ísraels að vita en hvað gera þeir? (b) Útskýrðu myndmálið í Míka 3:2, 3.

2 Spámaður Guðs lýsir yfir: „Heyrið, þér höfðingjar Jakobs og stjórnendur Ísraels húss! Er það ekki yðar að vita, hvað rétt er?“ Jú, þeir eiga að vita það, en hvað gera þeir í raun og veru? Míka segir: „Þeir hata hið góða og elska hið illa, flá skinnið af mönnum og holdið af beinum þeirra. Þeir eta hold þjóðar minnar, þeir flá skinnið af þeim og brjóta bein þeirra, hluta þau sundur eins og steik í potti, eins og kjöt á suðupönnu.“ — Míka 3:1-3.

3 Að hugsa sér, leiðtogarnir þjaka hina fátæku og varnarlausu. Áheyrendur Míka skilja þetta myndmál mætavel. Þegar sauðkind er slátrað til soðningar er byrjað á því að flá hana og sundurlima. Stundum eru beinin brotin til að ná mergnum. Bæði kjötið og beinin eru soðin í stórum potti. (Esekíel 24:3-6, 10) Þetta er mjög viðeigandi lýsing á þeirri hrottafengnu meðferð sem fólk sætir af hendi illra leiðtoga sinna á dögum Míka.

Jehóva ætlast til að við ástundum réttlæti

4. Hvaða munur er á Jehóva og leiðtogum Ísraels?

4 Það er reginmunur á hinum ástúðlega hirði, Jehóva, og leiðtogum Ísraels. Þeir ástunda ekki réttlæti og gæta því ekki hjarðarinnar eins og þeim ber að gera. Þeir eru eigingjarnir og notfæra sér hina táknrænu sauði. Þeir ræna þá réttlætinu og stunda ‚manndráp‘ eins og fram kemur í Míka 3:10. Hvaða lærdóm getum við dregið af þessu ástandi?

5. Til hvers ætlast Jehóva af þeim sem veita þjónum hans forystu?

5 Guð ætlast til þess að þeir sem veita þjónum hans forystu ástundi réttlæti. Þannig er það hjá þjónum hans nú á dögum. Og þetta er í samræmi við Jesaja 32:1 þar sem segir: „Konungurinn ríkir með réttlæti og höfðingjarnir stjórna með réttvísi.“ En hver er staðan á dögum Míka? ,Þeir sem hata hið góða og elska hið illa‘ afbaka réttlætið.

Hverjir fá bænheyrslu?

6, 7. Á hvaða mikilvægt atriði er bent í Míka 3:4?

6 Geta óguðlegir samtíðarmenn Míka vænst velþóknunar Jehóva? Auðvitað ekki! Míka 3:4 segir: „Þá munu þeir hrópa til Drottins, en hann mun ekki svara þeim, og hann mun byrgja auglit sitt fyrir þeim, þegar sá tími kemur, af því að þeir hafa ill verk í frammi haft.“ Hér kemur fram mjög mikilvægt atriði.

7 Jehóva bænheyrir okkur ekki ef við iðkum synd eða lifum tvöföldu lífi með því að þykjast þjóna honum í trúfesti en syndga í laumi. Davíð söng í Sálmi 26:4: „Ég tek mér eigi sæti hjá lygurum og hefi eigi umgengni við fláráða menn.“ Jehóva svarar sannarlega ekki bænum þeirra sem brjóta gegn orði hans af ásettu ráði.

Í krafti anda Guðs

8. Við hverju eru falsspámennirnir varaðir?

8 Það er sorglegt til að vita hvað andlegir leiðtogar Ísraels hafast að. Falsspámenn eru þess valdandi að fólk Guðs er andlega reikult. Ágjarnir menn boða „hamingju“ en segja þeim stríð á hendur sem gefa þeim ekki eitthvað til matar. „Fyrir því,“ segir Jehóva, „skal sú nótt koma, að þér sjáið engar sýnir, og það myrkur, að þér skuluð engu spá. Sólin skal ganga undir fyrir spámönnunum og dagurinn myrkvast fyrir þeim. Þeir sem sjá sjónir, skulu þá blygðast sín og spásagnamennirnir fyrirverða sig. Þeir munu allir hylja kamp sinn.“ — Míka 3:5-7.

9, 10. Hvað merkir það að „hylja kamp sinn“ og af hverju hefur Míka enga ástæðu til þess?

9 Hvers vegna ‚hylja þeir kamp sinn‘, það er að segja yfirskegg? Þetta gera samtíðarmenn Míka af skömm. Og þessir illu menn ættu að skammast sín. Þeir fá ‚ekkert svar frá Guði‘. (Míka 3:7b) Hann gefur engan gaum að bænum hrokafullra syndara.

10 Míka hefur enga ástæðu til að hylja yfirskegg sitt því að hann þarf ekki að skammast sín fyrir neitt. Jehóva svarar bænum hans. Taktu eftir hvað hinn trúfasti spámaður segir í Míka 3:8: „Ég þar á móti er fullur af krafti, af anda Drottins, og af rétti og styrkleika.“ Míka er afar þakklátur fyrir það að hafa verið „fullur af krafti, af anda Drottins“, á löngum og dyggum þjónustuferli. Það hefur gefið honum styrk til að ,boða Jakob misgjörð hans og Ísrael synd hans‘.

11. Hvernig geta menn fengið mátt til að flytja boðskap Guðs?

11 Míka þarf meira en mannlegan mátt til að boða hinn þunga dóm Guðs. Hann þarf anda Jehóva til, hinn máttuga starfskraft hans. Hvað um okkur? Við getum ekki gert boðunarstarfinu skil nema í þeim krafti sem Jehóva veitir með heilögum anda sínum. Allar tilraunir til að prédika fara út um þúfur ef við iðkum synd af ásettu ráði. Guð hlustar þá ekki á okkur þó að við biðjum um kraft til að vinna þetta starf. Við getum alls ekki boðað dóm föðurins á himnum nema andi hans hvíli á okkur. Við getum talað orð Jehóva hugrökk líkt og Míka ef hann heyrir bænir okkar og heilagur andi hans styður okkur.

12. Hvers vegna gátu fylgjendur Jesú á fyrstu öld ‚talað orð Guðs af djörfung‘?

12 Þú manst kannski eftir frásögn Postulasögunnar 4:23-31. Ímyndaðu þér að þú sért einn af lærisveinum Jesú á fyrstu öld. Hatrammir ofsóknarmenn hafa reynt að þagga niður í fylgjendum hans. En þeir eru trúfastir og biðja alvaldan Drottin sinn: „Drottinn, lít á hótanir þeirra og veit þjónum þínum fulla djörfung að tala orð þitt.“ Hver var árangurinn? Þegar þeir höfðu beðist fyrir hrærðist staðurinn þar sem þeir voru saman komnir og þeir fylltust allir heilögum anda og töluðu orð Guðs af djörfung. Við skulum þess vegna leita til Jehóva í bæn og treysta því að hann styðji okkur með heilögum anda sínum í boðunarstarfinu.

13. Hvað verður um Jerúsalem og Samaríu og hvers vegna?

13 Snúum okkur aftur að samtíð Míka. Í Míka 3:9-12 kemur fram að blóðsekir stjórnendur dæma fyrir mútur, prestarnir kenna fyrir kaup og falsspámennirnir spá fyrir peninga. Það er ekkert skrýtið að Guð skuli hafa ákveðið að Jerúsalem, höfuðborg Júda, ,verði að rúst‘! Fölsk tilbeiðsla og siðspilling dafnar einnig í Ísrael þannig að Míka er innblásið að vara við því að Guð muni gera Samaríu „að grjótrúst“. (Míka 1:6) Spámaðurinn lifir það meira að segja að sjá her Assýringa eyða Samaríu árið 740 f.o.t. (2. Konungabók 17:5, 6; 25:1-21) Ljóst er að þennan kröftuga boðskap gegn Jerúsalem og Samaríu var ekki hægt að flytja nema í krafti Jehóva.

14. Hvernig rættist spádómurinn í Míka 3:12 og hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur?

14 Júdamenn komast ekki undan dómi Jehóva. Síon verður ,plægð að akri‘ eins og spáð er í Míka 3:12. Við vitum það núna að þessir atburðir áttu sér stað þegar Babýloníumenn lögðu Júda og Jerúsalem í rúst árið 607 f.o.t. Þetta gerðist löngu eftir spámennsku Míka en hann var samt viss um að þetta myndi rætast. Við ættum að vera jafnörugg um að hið illa heimskerfi, sem nú er, líði undir lok á ,degi Guðs‘ sem boðaður er. — 2. Pétursbréf 3:11, 12.

Jehóva sker úr málum

15. Endursegðu með eigin orðum spádóminn í Míka 4:1-4.

15 Míka kemur þessu næst með hrífandi vonarboðskap. Það er einkar hughreystandi sem stendur í Míka 4:1-4. Þar segir að hluta til: „Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús Drottins stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu lýðirnir streyma. . . . Og hann mun dæma meðal margra lýða og skera úr málum voldugra þjóða langt í burtu. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar. Hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá. Því að munnur Drottins allsherjar hefir talað það.“

16, 17. Hvernig er Míka 4:1-4 að rætast nú á dögum?

16 Hvaða ‚mörgu lýðir‘ og ‚voldugu þjóðir‘ eru þetta? Hér er ekki átt við þjóðir og stjórnir þessa heims heldur lýsir spádómurinn fólki af öllum þjóðum sem sameinast í heilagri þjónustu á fjallinu þar sem Jehóva er tilbeðinn í sannleika.

17 Hin hreina tilbeiðsla á Jehóva verður bráðlega stunduð til fulls um alla jörðina eins og Míka spáði. Núna er verið að kenna þeim sem hneigjast til eilífs lífs vegi Jehóva. (Postulasagan 13:48) Hann dæmir og sker úr málum á andlegan hátt fyrir trúaða menn sem taka afstöðu með ríki hans. Þeir verða hluti af ,múginum mikla‘ sem kemst lifandi gegnum ,þrenginguna miklu‘. (Opinberunarbókin 7:9, 14) Þeir hafa smíðað plógjárn úr sverðum sínum og búa í friði við trúsystkini sín og aðra. Það er einkar ánægjulegt að vera með þeim.

Ákveðin í að ganga í nafni Jehóva

18. Hvað táknar það að ‚búa undir sínu víntré og fíkjutré‘?

18 Það er sérlega ánægjulegt hve margir eru að læra vegi Jehóva nú á tímum meðan óttinn grúfir eins og óveðursský yfir jörðinni. Við þráum þann tíma þegar allir sem elska Guð munu ekki aðeins láta af hernaði heldur einnig búa hver undir sínu víntré og fíkjutré, og sá tími er nálægur. Fíkjutré eru oft gróðursett í víngörðum. (Lúkas 13:6) Að búa undir sínu eigin víntré og fíkjutré táknar frið, velmegun og öryggi. Sambandið við Jehóva veitir okkur nú þegar hugarfrið og andlegt öryggi. Og þegar Guðsríki hefur tekið völd og þetta ástand er orðið að veruleika verðum við fullkomlega óhrædd og örugg.

19. Hvað merkir það að ganga í nafni Jehóva?

19 Við verðum að ganga í nafni Jehóva til að eiga blessun hans og velþóknun. Þetta kemur skýrt fram í Míka 4:5 þar sem spámaðurinn segir: „Allar þjóðirnar ganga hver í nafni síns guðs, en vér göngum í nafni Drottins, Guðs vors, æ og ævinlega.“ Að ganga í nafni Jehóva er meira en að segja að hann sé Guð okkar. Það er meira en að taka þátt í safnaðarsamkomum og boðunarstarfi þó að hvort tveggja sé einnig mikilvægt. Ef við göngum í nafni Jehóva erum við vígð honum og leitumst við að þjóna honum trúföst af því að við elskum hann af allri sálu. (Matteus 22:37) Og sem tilbiðjendur hans erum við ákveðin í að ganga í nafni Jehóva, Guðs okkar, um alla eilífð.

20. Hverju er spáð í Míka 4:6-13?

20 Líttu nú á spádómsorðin í Míka 4:6-13. „Dóttirin Síon“ verður að fara í útlegð „alla leið til Babýlon“. Þetta voru einmitt afdrif Jerúsalembúa á sjöundu öld f.o.t. En spádómur Míka gefur til kynna að leifar snúi aftur til Júda og að Jehóva sjái til þess að óvinir Síonar verði að engu gerðir þegar hún verður endurreist.

21, 22. Hvernig uppfyllist Míka 5:1?

21 Fimmti kaflinn í bók Míka lýsir ýmsu fleiru. Taktu til dæmis eftir hvað sagt er í Míka 5:1-3. Míka spáir því að útnefndur stjórnandi Guðs komi frá Betlehem og að ,ætterni hans sé frá umliðinni öld‘. Hann á að stjórna ‚í krafti Drottins‘. Og hann verður mikill, ekki aðeins í Ísrael heldur „til endimarka jarðar“. Heimurinn almennt á kannski erfitt með að átta sig á hver hann er en það er okkur engin ráðgáta.

22 Hver er mikilvægasti maður sem fæðst hefur í Betlehem? Og hver á að ,verða mikill til endimarka jarðarinnar‘? Enginn annar en Messías, Jesús Kristur. Þegar Heródes mikli spurði æðstu prestana og fræðimennina hvar Messías ætti að fæðast svöruðu þeir: „Í Betlehem í Júdeu.“ Þeir vitnuðu jafnvel í Míka 5:1. (Matteus 2:3-6) Þetta var líka þekkt meðal almennings því að í Jóhannesi 7:42 er haft eftir einhverjum: „Hefur ekki ritningin sagt, að Kristur komi af kyni Davíðs og frá Betlehem, þorpinu þar sem Davíð var?“

Að endurnæra þjóðirnar

23. Hvernig er Míka 5:6 að rætast núna?

23 Míka 5:4-14 vísar til innrásar Assýringa sem verður endaslepp eftir gott gengi í fyrstu, og bendir á að Guð ætli að koma fram hefnd á óhlýðnum þjóðum. Míka 5:6 heitir því að iðrandi leifar Gyðinga fái að snúa aftur heim í land sitt en þessi orð eiga einnig við okkar tíma. Míka segir: „Leifar Jakobs meðal heiðingjanna, mitt á meðal margra þjóða, munu vera sem dögg frá Drottni, sem regndropar á grasi.“ Míka bregður upp þessari fögru líkingu til að segja fyrir að leifar hins andlega Jakobs eða Ísraels verði blessun Guðs meðal margra þjóða. ‚Aðrir sauðir‘ Jesú, sem hafa jarðneska von, fagna því að þjóna með leifum ‚Ísraels Guðs‘ nú á tímum og endurnæra aðra andlega. (Jóhannes 10:16; Galatabréfið 6:16; Sefanía 3:9) Þetta er alvarlegt umhugsunarefni því að við sem erum boðberar Guðsríkis ættum öll að láta okkur annt um þau sérréttindi að færa öðrum sanna endurnæringu.

24. Hvað lærðir þú af 3. til 5. kafla hjá Míka?

24 Hvað hefurðu lært af 3. til 5. kafla í spádómi Míka? Kannski atriði eins og þessi: (1) Guð ætlast til að þeir sem veita fólki hans forystu ástundi réttlæti. (2) Jehóva bænheyrir okkur ekki ef við iðkum synd af ásettu ráði. (3) Við getum ekki gert boðunarstarfinu skil nema Guð styrki okkur með heilögum anda sínum. (4) Við verðum að ganga í nafni Jehóva til að njóta velþóknunar hans. (5) Við ættum öll að láta okkur annt um þau sérréttindi að endurnæra fólk með boðunarstarfi okkar. Kannski sástu fleira í þessum köflum sem snart þig. Hvað fleira getum við lært af þessari spádómsbók? Í næstu grein er bent á þann lærdóm sem við getum dregið af síðustu tveim köflunum í spádómsbók Míka.

Hvert er svarið?

• Til hvers ætlast Guð af þeim sem veita fólki hans forystu?

• Hvers vegna eru bænin og heilagur andi þýðingarmikil í þjónustu okkar við Jehóva?

• Hvernig gengur fólk í nafni Jehóva?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 15]

Geturðu skýrt líkinguna við pottinn?

[Myndir á blaðsíðu 16]

Við sinnum boðuninni hugrökk líkt og Míka gerði.