Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Góðir eða slæmir vinir

Góðir eða slæmir vinir

Góðir eða slæmir vinir

UNG kona, sem við skulum kalla Söru, úthellti hjarta sínu í örvæntingu fyrir viðmælanda sínum. Maður, sem hún hafði litið á sem vin, reyndist vera morðingi. „Ef maður, sem ég treysti, gat framkvæmt annað eins voðaverk hvernig get ég þá treyst nokkrum manni?“ spurði hún. Viðmælandi hennar spurði hvort hún hefði vitað hvers konar lífsgildi maðurinn hefði. Hún vissi ekki hvað hann áttu við. Hún vissi ekki einu sinni hvað orðið „lífsgildi“ þýddi. Hvað með þig? Veist þú hvaða lífsgildi vinir þínir hafa?

Svarið við þessari spurningu getur bókstaflega haft líf eða dauða í för með sér eins og við sáum af dæminu um Söru. Orðskviður í Biblíunni orðar þetta svona: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ (Orðskviðirnir 13:20) En eins og Sara velja margir sér vini eingöngu eftir því hvort þeir eiga vel saman eða hvernig þeim líður í návist hver annars. Auðvitað viljum við eiga félagskap við fólk sem okkur líður vel með. En við getum orðið fyrir miklum vonbrigðum ef við látum það eitt stjórna vali okkar og hugsum lítið sem ekkert um hvaða mann vinir okkar hafa að geyma. Hvernig getum við vitað hvort fólk hefur góð lífsgildi?

Nauðsyn góðra lífsgilda

Í fyrsta lagi verðum við sjálf að hafa góð lífsgildi. Við þurfum að vita hvað er rétt og rangt, gott og slæmt og hafa háleita siðferðisstaðla öllum stundum. Annar orðskviður í Biblíunni segir: „Járn brýnir járn, og maður brýnir mann.“ (Orðskviðirnir 27:17) Ef vinir hafa báðir háan siðferðisstaðal geta þeir hjálpað hvor öðrum að þroskast og þá styrkjast vináttuböndin milli þeirra.

Pacôme frá Frakklandi segir: „Í mínum augum er sannur vinur sá sem hlustar á mig og talar vingjarnlega við mig en er líka tilbúinn til að leiðrétta mig ef ég geri eitthvað heimskulegt.“ Já, bestu vinir okkar, hvort sem þeir eru ungir eða aldnir, hjálpa okkur að stefna í rétta átt og leiðrétta okkur ef við erum í þann mund að gera eitthvað óviturlegt. Í Biblíunni segir: „Vel meint eru vinar sárin.“ (Orðskviðirnir 27:6) Til að styrkja okkur siðferðilega og andlega þurfum við að umgangast fólk sem elskar Guð og meginreglur hans. „Þegar enginn annar í skólanum hafði sömu trúarskoðanir og siðferðisgildi og ég,“ segir Céline frá Frakklandi „sá ég hvað það er mikilvægt að eiga trausta vini í kristna söfnuðinum. Þeir hafa hjálpað mér gífurlega að halda jafnvæginu.“

Vandaðu val þitt á vinum

Ef þú vilt verða vinur einhvers sem þú hefur nýlega kynnst gætirðu spurt þig: „Hverjir eru vinir hans eða hennar?“ Það má læra margt um fólk aðeins með því að sjá hvers konar vini það velur sér. Það er líka gott að hugsa um hvaða álit þroskaðir og virtir einstaklingar í samfélaginu hafa á honum. Auk þess er viturlegt að hugsa ekki aðeins um hvernig væntanlegir vinir koma fram við okkur heldur einnig hvernig þeir koma fram við aðra, sérstaklega þá sem þeir geta ekkert grætt á. Ef fólk sýnir ekki góða eiginleika eins og heiðarleika, heilindi, þolinmæði og tillitsemi öllum stundum og gagnvart öllum hefurðu enga tryggingu fyrir því að það muni alltaf koma vel fram við þig.

Til að kynnast fólki í raun og veru þurfum við að sýna þolinmæði og nærgætni og gefa okkur tíma til að fylgjast með því í daglega lífinu. Biblían segir: „Ráðin í hjarta mannsins eru sem djúp vötn, og hygginn maður eys þar af.“ (Orðskviðirnir 20:5) Við þurfum að tala við væntanlega vini okkar um alvarleg mál sem sýna okkur hvaða persónuleika, hvatir og gildismat þeir hafa. Hvers konar manneskjur eru þeir? Eru þeir vingjarnlegir eða kuldalegir, jákvæðir og glaðlyndir að eðlisfari eða neikvæðir og bitrir, óeigingjarnir eða sjálfselskir, áreiðanlegir eða ótrúir? Ef einhver talar illa um aðra við þig er ekkert sem kemur í veg fyrir að hann tali illa um þig við aðra. „Af gnægð hjartans mælir munnurinn,“ sagði Jesús. (Matteus 12:34) Við ættum því að hlusta eftir því hvað býr í hjartanu.

Það sem skiptir mestu máli að hafa sameiginlegt

Sumir halda að vinir þeirra verði að hafa nákvæmlega sama smekk og þeir sjálfir. Lítill drengur fullyrti: „Ég gæti aldrei verið vinur einhvers sem finnst ostakaka vond.“ Auðvitað þurfa vinir að hafa nógu margt sameiginlegt til að geta skilið hvor annan og best væri að þeir hefðu sömu trúarskoðanir og siðferðisstaðla. En þeir þurfa ekki að hafa nákvæmlega eins persónuleika og bakgrunn. Ólík lífsreynsla getur meira að segja auðgað vináttuna og gagnast þeim báðum.

Frásögurnar í Biblíunni af Davíð og Jónatan og Rut og Naomí eru góð dæmi um vináttu sem byggðist á sameiginlegri hollustu við Guð og meginreglur hans. * Það er athyglisvert að í báðum dæmunum var mikill aldursmunur milli vinanna og þeir voru af ólíkum uppruna. Við getum líka lært annað af þessum dæmum: Vinskapur við fólk á ólíkum aldri getur verið mjög gefandi.

Aldursmunur getur verið til góðs

Það getur verið mjög auðgandi að eiga vini sem eru eldri eða yngri en við sjálf. Lítum á eftirfarandi frásagnir ungs fólks.

Manuela (Ítalíu): „Ég vingaðist við fullorðin hjón fyrir nokkru. Ég gat sagt þeim hreinskilnislega hvað mér bjó í brjósti og það sem gladdi mig svo mikið var að þau gerðu slíkt hið sama. Þau vanmátu mig ekki þó að ég væri ung. Þar af leiðandi langaði mig til að kynnast þeim betur. Vinátta þeirra er mér til mikillar hjálpar þegar ég lendi í erfiðleikum. Þegar ég tala um vandamál við fólk á mínum aldri gefa vinkonur mínar mér stundum ráð sem eru ekki hugsuð til enda. En eldri vinir mínir hafa meiri reynslu og ákveðið jafnvægi sem við yngra fólkið höfum ekki enn þá náð. Með hjálp þeirra get ég tekið betri ákvarðanir.“

Zuleica (Ítalíu): „Þegar við komum saman bjóðum við ekki bara ungu fólki heldur einnig eldra fólki. Persónulega hef ég tekið eftir því að þegar aldurshópurinn er blandaður verða allir mjög ánægðir með kvöldið. Við njótum þess að vera saman af því að allir sjá hlutina frá mismunandi sjónarhornum.“

Þið sem eruð eldri getið einnig sýnt yngra fólki áhuga. Eins og sjá má af athugasemdunum hér á undan metur margt ungt fólk mikils reynslu ykkar og félagskap. Amelía, ekkja á níræðisaldri, segir: „Ég á frumkvæði að því að hafa samband við yngra fólk. Kraftur þeirra og lífsþróttur hressir mig við.“ Árangurinn af þessari sameiginlegu uppörvun getur verið margvíslegur. Margt hamingjusamt ungt fólk þakkar velgengni sína því að hafa átt góða vini á unglingsárunum sem voru að minnsta kosti aðeins eldri og gáfu þeim gott fordæmi og góð ráð.

Að bæta vináttuna

Til að eiga góð vináttubönd þarftu ekki endilega að eignast nýja vini. Ef þú átt þegar góða kunningja gætirðu reynt að styrkja vinskapinn milli ykkar. Æskuvinir eru sérstaklega verðmætir og við ættum að koma fram við þá sem slíka. Líttu ekki á tryggð þeirra sem sjálfsagðan hlut.

Umfram allt skaltu muna að sönn hamingja — og sönn vinátta — kemur af því að gefa af sjálfum sér, tíma sínum og eigum. Umbunin er svo sannarlega þess virði að leggja sig allan fram og færa ýmsar fórnir. En ef þú hugsar aðeins um sjálfan þig þegar þú velur þér vini muntu aldrei eignast sanna vini. Þegar þú kýst þér vini skaltu því ekki aðeins velja þá sem þú lítur upp til eða þá sem þú getur haft eitthvað gott af. Reyndu að ná til þeirra sem gætu átt erfitt með að eignast vini eða aðrir horfa fram hjá. Gaëlle frá Frakklandi segir: „Þegar við skipuleggjum eitthvað saman bjóðum við þeim sem við vitum að eru einmana. Við segjum: ‚Þú vilt varla vera einn heima. Þú getur verið með okkur. Við getum öll kynnst betur.‘“ — Lúkas 14:12-14.

Vertu ekki fljótur að afþakka þegar gott fólk býður þér vináttu sína. Elisa frá Ítalíu bendir á: „Maður getur orðið svolítið bitur ef manni finnst maður hafa verið skilinn út undan. Maður gæti farið að hugsa sem svo: ‚Vinir skipta mig hvort sem er ekki svo miklu máli.‘ Síðan lokar maður sig af, einangrar sig frá öðrum og hugsar bara um sjálfan sig. Maður setur upp varnarvegg milli sín og annarra frekar en að leita að vinum.“ Í stað þess að leyfa tilefnislausum ótta eða eigingirni að koma í veg fyrir að þú eignist nýja vini skaltu opna þig fyrir öðrum. Við ættum öll að vera innilega þakklát ef fólki er nógu annt um okkur til að vilja vera vinir okkar.

Þú getur eignast sanna vini

Það er ekki nóg að bíða og vona og lesa greinar eins og þessar til að eignast sanna vini. Að læra að eignast vini er eins og að læra að hjóla. Hvorugt getum við lært eingöngu með því að lesa bækur. Við verðum að æfa okkur, jafnvel þótt það þýði að við dettum nokkrum sinnum. Í Biblíunni er bent á að tryggustu vináttuböndin byggist á sameiginlegri vináttu við Guð. En Guð getur ekki blessað viðleitni okkar til að eignast vini ef við leggjum okkur ekki fram. Ert þú staðráðinn í því að eiga sanna vini? Ekki gefast upp. Biddu um hjálp Guðs, leggðu þig einlæglega fram og vertu vinur.

[Neðanmáls]

^ Þú getur lesið frásögur þeirra í Biblíunni í Rutarbók og Fyrri og Síðari Samúelsbók.

[Rammagrein/mynd á blaðsíðu 11]

Ábending til foreldra

Eins og svo margt annað byrjum við að læra um vinskap innan fjölskyldunnar. Ef allt væri eins og best er á kosið ætti fjölskyldan að uppfylla flestar félagsþarfir ungra barna. En jafnvel við bestu aðstæður verður hugsunarháttur barna, tilfinningar þeirra og hegðun fyrir mjög miklum áhrifum af samskiptum þeirra við aðra. Sem dæmi má nefna hversu fljótt ung börn innflytjenda læra nýtt tungumál aðeins með því að umgangast önnur börn.

Foreldrar, þið hafið tækifæri til að hjálpa börnunum að velja vini viturlega. Ung börn og unglingar eru enn ekki fullfær um að taka slíkar ákvarðanir án leiðsagnar foreldranna. En það er einn hængur á. Mörgum þeirra finnst þau vera nánari jafnöldrum sínum en foreldrum sínum eða öðru eldra fólki.

Sérfræðingar telja að ein ástæða þess að unglingar leiti frekar til jafnaldra sinna en foreldra sé sú að margir foreldrar efist um yfirráð sín. Foreldrar verða að axla þá ábyrgð sem Guð hefur lagt þeim á herðar og reyna að ná til barnanna og sýna þeim áhuga. (Efesusbréfið 6:1-4) En hvernig geta þeir gert það? Fjölskylduráðgjafinn dr. Ron Taffel hittir marga foreldra sem vita ekki hvernig þeir eiga að bregðast við hegðun unglinga sinna. Hann segir að í stað þess að ala börnin upp í raun og veru falli margir í þá gildru „að fylgja vinsælum hugmyndum um barnauppeldi sem koma fram í fjölmiðlum“. Hvers vegna? „Þeir þekkja börnin ekki nógu vel til að skilja þau og ná til þeirra.“

En þetta þarf ekki að vera svona. Foreldrar verða að skilja að ef börnin fá ekki frá fjölskyldunni það sem þau þurfa leita þau til vina sinna. Hvað þurfa börnin að fá? „Það sem ungt fólk hefur alltaf þurft: umönnun, öryggi og skýrar reglur, að finna að þau séu einhvers metin, að gerðar séu væntingar til þeirra og að þau séu hluti af fjölskyldunni,“ segir Taffel. „En það sorglega er að oftast uppfyllir fullorðið fólk ekki þessar grundvallarþarfir unglinga og ungu fólki finnst það ekki fá viðurkenningu innan fjölskyldunnar.“

Hvernig getur þú hjálpað börnunum að eignast góða vini? Í fyrsta lagi þarft þú að skoða líf þitt og hverja þú umgengst. Eru lífsstíllinn og markmiðin, sem þú og vinir þínir sækist eftir, göfug og óeigingjörn? Eru þau andleg en ekki efnisleg? „Verk segja meira en mörg orð og börnin munu bæði taka eftir viðhorfum og verkum þínum, vina þinna og barna þeirra,“ segir Douglas sem er safnaðaröldungur og faðir.

Mörg dýr hafa innbyggða eðlishvöt til að vernda afkvæmi sín með kjafti og klóm fyrir hættulegum dýrum. Sérfræðingur um bjarndýr segir: „Birnur eru þekktar fyrir að vernda húna sína fyrir öllum hættum sem þær skynja.“ Ættu mennskir foreldrar ekki að gera hið sama? Ruben frá Ítalíu segir: „Foreldrar mínir rökræddu við mig út frá Ritningunni. Þau leiddu mér fyrir sjónir að það er betra að forðast vissan félagsskap. Í fyrstu hugsaði ég: ‚En ömurlegt! Ég má ekki eignast neina vini.‘ En það sannaðist með tímanum að þau höfðu rétt fyrir sér og verndin, sem ég fékk, er þolinmæði þeirra að þakka.“

Leggðu þig einnig fram um að hjálpa börnunum að kynnast fólki sem er til fyrirmyndar og hvetur þau til að setja sér góð markmið. Francis er ánægður, ungur maður og honum hefur farnast vel í lífinu. Hann segir: „Mamma tók eftir því að við strákarnir blönduðum lítið geði við aðra. Hún hjálpaði okkur með því að bjóða vinum í heimsókn sem voru í fullu starfi í kristnu þjónustunni. Þannig gátum við kynnst þeim og orðið vinir þeirra inni á heimilinu.“ Slík viðleitni af þinni hálfu getur skapað aðstæður í lífi barna þinna þar sem vinátta vex og dafnar.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Fylgstu með því hvernig væntanlegir vinir hegða sér.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Óeigingjörn vinátta dafnar þrátt fyrir aldursmun og ólíkan bakgrunn.