Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stórir jarðskjálftar – hverju spáði Biblían?

Stórir jarðskjálftar – hverju spáði Biblían?

 Ár hvert mælast tugþúsundir jarðskjálfta á jörðinni. Flestir eru minni háttar en mestu jarðskjálftarnir geta valdið víðtækri eyðileggingu, þjáningum og dauða. Stundum setja þeir af stað flóðbylgju sem veldur eyðileggingu og manntjóni á svæðum nálægt sjó. Sagði Biblían fyrir um þessa miklu jarðskjálfta?

Í þessari grein

 Spáði Biblían fyrir um jarðskjálfta?

 Í Biblíunni er minnst á jarðskjálfta í spádómi sem Jesús bar fram. Við getum lesið um það sem hann sagði í þrem biblíubókum:

 „Þjóð mun ráðast gegn þjóð og ríki gegn ríki. Það verða hungursneyðir og jarðskjálftar á einum stað eftir annan.“Matteus 24:7.

 „Þjóð mun ráðast gegn þjóð og ríki gegn ríki. Það verða jarðskjálftar á einum stað eftir annan og einnig hungursneyðir.“ – Markús 13:8.

 „Það verða miklir jarðskjálftar og hungursneyðir og drepsóttir.“ – Lúkas 21:11.

 Jesús sagði þannig fyrir að „miklir jarðskjálftar“ yrðu „á einum stað eftir annan“ á sama tíma og stríð, hungursneyðir og drepsóttir geisuðu. Þegar allt þetta gerðist á sama tíma í mannkynssögunni væri greinilegt að við lifðum á ,lokaskeiði þessarar heimsskipanar‘ eða „síðustu dögum“. (Matteus 24:3; 2. Tímóteusarbréf 3:1) Samkvæmt tímatali Biblíunnar hófust ,síðustu dagar‘ árið 1914 og þeir standa enn yfir.

 Eru jarðskjálftar nú á dögum uppfylling á spádómum Biblíunnar?

 Já. Spádómur Jesú, þar á meðal um jarðskjálfta, kemur heim og saman við atburði nú á dögum. Síðan árið 1914 hafa mælst meira en 1.950 stórir jarðskjálftar sem hafa kostað meira en tvær milljónir manna lífið. a Skoðum fáein dæmi á þessari öld.

 2004 – Indlandshaf. Jarðskjálfti af stærðinni 9,1 kom af stað flóðbylgju sem náði til 12 landa og varð 225.000 manns að bana.

 2008 – Kína. Jarðskjálfti af stærðinni 7,9 lagði bæi og þorp í eyði og áætlað er að 90.000 manns hafi látist, 375.000 manns hafi slasast og milljónir manna misst heimili sín.

 2010 – Haítí. Jarðskjálfti af stærðinni 7,0 reið yfir og margir eftirskjálftar fylgdu í kjölfarið. Meira en 300.000 manns létu lífið og meira en milljón manna urðu heimilislausir.

 2011 – Japan. Jarðskjálfti af stærðinni 9,0 og flóðbylgjur sem fylgdu honum urðu um 18.500 manns að bana og hundruð þúsunda misstu heimili sín. Orkuverið í Fukushima skemmdist með þeim afleiðingum að hættuleg geislun slapp út. Tíu árum síðar gátu um 40.000 manns ekki enn snúið til heimila sinna nálægt orkuverinu vegna hættulegrar geislunar.

 Hvaða þýðingu hafa biblíuspádómar um jarðskjálfta fyrir okkur?

 Spádómar Biblíunnar um jarðskjálfta vekja athygli okkar á því sem mun gerast í náinni framtíð. Jesús sagði: ,Þegar þið sjáið þetta gerast er ríki Guðs í nánd.‘ – Lúkas 21:31.

 Biblían bendir á að ríki Guðs sé raunveruleg ríkisstjórn á himnum með Jesú Krist sem konung. Þetta er sama ríkið og Jesús kenndi fylgjendum sínum að biðja um. – Matteus 6:10.

 Þegar ríki Guðs fer með völd yfir jörðinni mun Guð koma í veg fyrir að náttúruhamfarir, þar á meðal jarðskjálftar, skaði fólk. (Jesaja 32:18) Og það sem meira er, hann mun græða þau líkamlegu og tilfinningalegu sár sem jarðskjálftar nú á dögum hafa valdið. (Jesaja 65:17; Opinberunarbókin 21:3, 4) Nánari upplýsingar má finna í greininni „Hverju kemur ríki Guðs til leiðar?

a Tölur eru fengnar frá gagnasafni um stóra jarðskjálfta alls staðar í heiminum sem fær upplýsingar sínar frá stofnuninni National Geophysical Data Center í Bandaríkjunum.