Hoppa beint í efnið

BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Ég var alltaf með byssuna mína á mér

Ég var alltaf með byssuna mína á mér
  • FÆÐINGARÁR: 1958

  • FÖÐURLAND: ÍTALÍA

  • FORSAGA: OFBELDISFULLUR Í GLÆPAGENGI

FORTÍÐ MÍN:

Ég fæddist og ólst upp í úthverfi Rómar, á svæði þar sem fátæk verkalýðsstétt bjó. Lífið var erfitt. Ég þekkti aldrei mömmu mína og átti ekki gott samband við pabba. Ég lærði að lifa eftir reglum götunnar.

Tíu ára gamall var ég farinn að stela. Þegar ég var 12 ára strauk ég að heiman í fyrsta sinn. Pabbi þurfti oftar en einu sinni að sækja mig á lögreglustöðina og fara með mig heim. Ég þrætti stöðugt við fólk – ég var ofbeldisfullur og reiður út í alla. Þegar ég var 14 ára fór ég að heiman fyrir fullt og allt. Ég neytti fíkniefna og bjó á götunni. Ég hafði engan stað til að sofa á og braust því inn í bíla og svaf í þeim fram undir morgun. Á morgnana leitaði ég svo að gosbrunni til að ég gæti þvegið mér.

Ég varð mjög góður í að stela – allt frá því að grípa töskur af fólki upp í að ræna íbúðir og einbýlishús á nóttinni. Ég ávann mér slæmt mannorð og var fljótt boðið að ganga í alræmt glæpagengi. Það gaf mér tækifæri til að „vinna mig upp“ og ræna banka. Fljótlega varð ég virtur í genginu vegna þess hve árásargjarn ég var. Ég var alltaf með byssuna mína á mér. Ég svaf meira að segja með hana undir koddanum. Ofbeldi, fíkniefni, þjófnaður, klúrt tal og siðleysi varð að lífsstíl mínum. Lögreglan var stöðugt á hælunum á mér. Ég var handtekinn nokkrum sinnum og var meira og minna í fangelsi í nokkur ár.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Eitt sinn þegar mér var sleppt úr haldi ákvað ég að heimsækja móðursystur mína. Ég vissi ekki að hún og tvö börn hennar voru orðin vottar Jehóva. Þau buðu mér að sækja samkomu vottanna. Ég var forvitinn og fór því með þeim. Þegar við komum í ríkissalinn krafðist ég þess að sitja nálægt hurðinni svo að ég gæti fylgst með þeim sem kæmu og færu. Ég var auðvitað vopnaður.

Samkoman breytti lífi mínu. Ég man eftir að hafa hugsað með mér að ég hlyti að vera á annarri plánetu. Fólk heilsaði mér með hlýlegu og vingjarnlegu brosi. Ég sé enn fyrir mér vingjarnlegt og heiðarlegt augnaráð vottanna. Þetta var sannarlega ólíkt þeim heimi sem ég var vanur.

Ég fór að kynna mér Biblíuna með aðstoð vottanna. Því meira sem ég lærði því betur skildi ég að ég þyrfti að breyta lífsstíl mínum algerlega. Ég tók til mín það sem segir í Orðskviðunum 13:20: „Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim sem leggur lag sitt við heimskingja.“ Ég gerði mér grein fyrir að ég þyrfti að segja skilið við gengið. Það var ekki auðvelt en mér tókst það með hjálp Jehóva.

Í fyrsta sinn hafði ég stjórn á hegðun minni.

Ég hreinsaði mig líka líkamlega. Með mikilli þrautseigju tókst mér að hætta að reykja og neyta fíkniefna. Ég klippti hárið stutt, tók úr mér eyrnalokkana og hætti að blóta. Í fyrsta sinn hafði ég stjórn á hegðun minni.

Mér hafði aldrei þótt gaman að lesa eða læra svo það tók á að einbeita sér að biblíunáminu. En ég lagði hart að mér og með tímanum fór ég að elska Jehóva og eitthvað breyttist innra með mér – samviskan fór að segja til sín. Ég hugsaði oft neikvætt um sjálfan mig og efaðist um að Jehóva gæti nokkurn tíma fyrirgefið mér allt það slæma sem ég hafði gert. Þegar ég hugsaði þannig veitti það mér hjálp að lesa um það þegar Jehóva fyrirgaf Davíð konungi eftir að hann framdi alvarlegar syndir. – 2. Samúelsbók 11:1–12:13.

Annað sem reyndi á mig var að boða trúna hús úr húsi. (Matteus 28:19, 20) Ég var dauðhræddur um að hitta einhvern sem ég hafði meitt eða beitt órétti áður. En smám saman sigraðist ég á óttanum. Ég fór að finna til mikillar ánægju við að hjálpa öðrum að kynnast dásamlegum himneskum föður okkar sem fyrirgefur fúslega.

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Að kynnast Jehóva bjargaði lífi mínu! Flestir fyrrverandi félaga minna eru dánir eða í fangelsi. En ég lifi ánægjulegu og innihaldsríku lífi og horfi fram til bjartrar framtíðar. Ég hef lært að vera hógvær og hlýðinn og hafa stjórn á skapinu. Sambandið við fólkið í kringum mig er þess vegna miklu betra. Ég er í farsælu hjónabandi með Carmen, fallegu konunni minni. Við höfum mikla ánægju af því að hjálpa öðrum að kynna sér Biblíuna.

Já, og núna vinn ég heiðarlega vinnu. Hún tengist enn stundum bönkum, en í stað þess að ræna þá þríf ég þá.