Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Aðeins Guð getur bjargað jörðinni

Aðeins Guð getur bjargað jörðinni

Aðeins Guð getur bjargað jörðinni

„GLITRANDI BLÁR OG HVÍTUR GIMSTEINN.“ Þannig lýsti geimfarinn Edgar Mitchell því hvernig jörðin skar sig úr niðdimmum geimnum.

Engu var til sparað þegar Guð skapaði jörðina sem heimili mannsins. Sköpun hennar fékk englana til að hrópa af fögnuði. (Jobsbók 38:7) Við höfum einnig ástæðu til að lofa Guð þegar við skoðum þau undraverk sem er að finna á þessari plánetu. Á jörðinni eru mörg flókin vistkerfi sem eru forsenda þess að líf geti dafnað. Í einu best þekkta kerfinu nota grænu jurtirnar sólarljós, vatn og koldíoxíð úr andrúmsloftinu til að framleiða næringarefni. Aukaafurð í þessu ferli er súrefni sem losnar út í andrúmsloftið og er lífsnauðsynlegt fyrir okkur.

Í Biblíunni er sagt frá því að Guð treysti manninum fyrir ráðsmennsku yfir jörðinni. (1. Mósebók 1:28; 2:15) Til þess að varðveita vistfræðilegt jafnvægi hennar þurfti maðurinn að hafa rétt viðhorf. Hann þurfti að bera umhyggju fyrir jarðnesku heimili sínu. Hann þurfti að langa til að viðhalda fegurð jarðarinnar. En manninum var gefinn frjáls vilji þannig að möguleikinn var fyrir hendi að hann myndi misnota og fara illa með jörðina. Og það er einmitt það sem hann hefur gert. Kæruleysi og græðgi mannsins hefur haft hrikalegar afleiðingar.

Nefnum nokkur af vandamálunum: (1) Eyðing skóga hefur áhrif á getu jarðar til að hreinsa koldíoxíð úr andrúmsloftinu. Þetta getur stuðlað að ofsafengnara veðurfari. (2) Óhófleg notkun á skordýraeitri er að eyða skordýrastofnum sem sinna mikilvægum hlutverkum í vistkerfi jarðar, meðal annars að frjóvga nytjaplöntur. (3) Ofveiði og mengun í hafi og ám hefur leitt til þess að fiskistofnar hafa stórminnkað. (4) Auðlindir jarðar hafa verið ofnýttar af mikilli græðgi, lítið skilið eftir handa komandi kynslóðum og þetta flýtir fyrir hlýnun jarðar. Sumir umhverfisfræðingar hafa bent á ýmislegt sem þeir telja sanna hlýnun jarðar. Nefna þeir gjarnan bráðnun jökla og hvernig borgarísjakar eru að brotna af íshellunum á Norður- og Suðurheimskautasvæðunum.

Sumir segja, þegar þeir sjá að náttúruhamfarir verða sífellt algengari, að jörðin sé að „berja frá sér“ með því að valda manninum hörmungum. Guð gaf okkur jörðina endurgjaldslaust þannig að maðurinn borgar í raun enga leigu. (1. Mósebók 1:26-29) Hins vegar sýnir framvinda heimsmála að fólk hefur engan áhuga á að viðhalda þessu fagra heimili. Í stað þess er maðurinn upptekinn af eigingjörnum löngunum og athöfnum. Hann hefur sýnt að hann er slæmur leigjandi og ‚eyðir jörðina‘ eins og sagt var fyrir í Opinberunarbókinni 11:18.

Spádómar Biblíunnar sýna að almáttugur Guð, Jehóva, sem skapaði vistkerfi jarðar, hefur ákveðið að það sé kominn tími til að „bera út“ þessa slæmu leigjendur. (Sefanía 1:14; Opinberunarbókin 19:11-15) Áður en maðurinn vinnur jörðinni óbætanlegt tjón mun Guð grípa inn í — hugsanlega fyrr en menn halda. * (Matteus 24:44) Já, Guð er sá eini sem getur bjargað jörðinni.

[Neðanmáls]

^ gr. 7 Nánari upplýsingar um hvar við erum stödd í tímans rás er að finna í bæklingnum Haltu vöku þinni! gefinn út af Vottum Jehóva.