Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað getum við lært af Jóhönnu?

Hvað getum við lært af Jóhönnu?

MARGIR vita að 12 postular fylgdu Jesú. En þeir vita kannski ekki að meðal lærisveina hans voru einnig konur sem umgengust hann mikið. Jóhanna var ein þeirra. – Matt. 27:55; Lúk. 8:3.

Hvaða hlutverki gegndi Jóhanna í starfi Jesú og hvað getum við lært af henni?

HVER VAR JÓHANNA?

Jóhanna var „kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar“. Kúsa bar ef til vill ábyrgð á heimilisrekstri Heródesar Antípasar. Jóhanna var ein af mörgum konum sem Jesús læknaði af meinum sínum. Hún ferðaðist um með Jesú og postulunum ásamt hinum konunum. – Lúk. 8:1-3.

Rabbínar Gyðinga kenndu að konur ættu ekki að umgangast karlmenn nema þær væru skyldar þeim, hvað þá ferðast með þeim. Karlmenn áttu eiginlega að tala sem minnst við konur. Jesús skeytti engu um slíkar erfikenningar heldur leyfði Jóhönnu og öðrum konum, sem trúðu á hann, að slást í för með sér.

Með því að umgangast Jesú og postulana átti Jóhanna á hættu að falla í ónáð samborgara sinna. Allir sem fylgdu Jesú þurftu að vera reiðubúnir að breyta sínu daglega lífi. En Jesús sagði um þessa fylgjendur sína: „Móðir mín og bræður eru þau sem heyra Guðs orð og breyta eftir því.“ (Lúk. 8:19-21; 18:28-30) Finnst þér ekki uppörvandi að vita að Jesús skuli bera svona sterkar tilfinningar til þeirra sem færa fórnir til að geta fylgt honum?

HÚN HJÁLPAÐI ÞEIM MEÐ EIGUM SÍNUM

Jóhanna og margar aðrar konur hjálpuðu Jesú og postulunum tólf „með fjármunum sínum“. (Lúk. 8:3) Rithöfundur bendir á að „Lúkas sé ekki að segja lesendum sínum að konurnar hafi eldað, vaskað upp og gert við fötin þeirra. Kannski gerðu þær það ... en Lúkas tekur það ekki fram.“ Að því er virðist notuðu konurnar peninga sína eða eigur til að sjá félögum sínum fyrir nauðsynjum.

Þegar Jesús og postularnir voru í boðunarferðum unnu þeir engin önnur störf til að sjá fyrir sér. Þeir höfðu því líklega ekki tök á að kaupa mat og aðrar nauðsynjar fyrir um það bil 20 manna hóp. Eflaust hafa þeir oft notið gestrisni annarra. Þeir voru samt með ,pyngju‘ sem gefur til kynna að þeir hafi ekki einungis getað treyst á gestrisni fólks. (Jóh. 12:6; 13:28, 29) Jóhanna og hinar  konurnar hafa því kannski gefið þeim framlög til að standa undir útgjöldum.

Sumir mótmæla því og segja að Gyðingakonur hafi ekki ráðið yfir fjármunum. Samtímaheimildir gefa þó til kynna að konur meðal Gyðinga hafi getað eignast fjármuni með ýmsum hætti. Þær gátu fengið (1) arf ef faðir þeirra dó án þess að eiga syni, (2) eignir að gjöf, (3) fé í kjölfar skilnaðar ef samið hafði verið um það við hjónavígslu, (4) framfærslueyri úr dánarbúi látins maka eða (5) tekjur af vinnu.

Fylgjendur Jesú hafa eflaust gefið framlög eftir bestu getu. Meðal þeirra hafa kannski verið auðugar konur. Þar sem Jóhanna var eða hafði verið eiginkona ráðsmanns Heródesar hafa sumir ályktað að hún hafi verið vel stæð. Kannski var það einhver í svipuðum aðstæðum og hún sem gaf Jesú saumlausa kyrtilinn, en hann var ekki ódýr. Bent hefur verið á að þetta hafi verið flík sem „eiginkona fiskimanns hefði ekki haft efni á“. – Jóh. 19:23, 24.

Í Biblíunni segir ekki beint að Jóhanna hafi gefið fjárframlög. En hún gerði það sem hún gat og við getum öll lært af því. Það sem við gefum í þágu Guðsríkis – eða hvort við gefum eitthvað – er undir sjálfum okkur komið. Það sem skiptir Guð máli er að við gerum það sem við getum af gleði. – Matt. 6:33; Mark. 14:8; 2. Kor. 9:7.

VIÐ DAUÐA JESÚ OG EFTIR ÞAÐ

Jóhanna var líklega viðstödd aftöku Jesú ásamt öðrum konum sem „höfðu fylgt honum og þjónað er hann var í Galíleu. Þar voru margar aðrar konur sem höfðu farið með honum upp til Jerúsalem.“ (Mark. 15:41) Eftir aftökuna var líkami Jesú tekinn niður af staurnum til greftrunar. „Konur þær er komið höfðu með Jesú frá Galíleu fylgdu eftir og sáu gröfina og hvernig líkami hans var lagður. Þær sneru aftur og bjuggu ilmjurtir og smyrsl.“ Lúkas segir að þessar konur hafi verið „María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs“. Eftir hvíldardaginn komu þær aftur til grafarinnar og sáu þar engla sem sögðu þeim frá upprisu Jesú. – Lúk. 23:55 – 24:10.

Jóhanna og aðrar trúaðar konur gerðu það sem þær gátu fyrir meistara sinn.

Ef til vill var Jóhanna einn lærisveinanna sem ásamt móður Jesú og bræðrum söfnuðust saman í Jerúsalem á hvítasunnu árið 33. (Post. 1:12-14) Þar sem Jóhanna hafði góð tengsl við yfirvöld getur verið að hún hafi veitt Lúkasi þær ítarlegu upplýsingar sem hann gefur um Heródes Antípas, sérstaklega í ljósi þess að Lúkas er eini guðspjallaritarinn sem nefnir hana á nafn. – Lúk. 8:3; 9:7-9; 23:8-12; 24:10.

Það er margt umhugsunarvert sem við getum lært af frásögunni af Jóhönnu. Hún þjónaði Jesú eftir bestu getu. Hún hefur eflaust verið glöð ef framlög hennar hafa hjálpað honum, postulunum og öðrum lærisveinum að ferðast saman og boða fagnaðarerindið. Jóhanna var trúfastur þjónn Jesú, líka þegar á reyndi. Það er kristnum konum nú á dögum til góðs að sýna sams konar hugarfar og hún.