Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Bíðum full eftirvæntingar

Bíðum full eftirvæntingar

„Þótt hún dragist, þá vænt hennar.“ – HAB. 2:3, Biblían 1981.

SÖNGVAR: 128, 45

1, 2. Hvaða hugarfar einkennir þjóna Jehóva?

ÞJÓNAR Jehóva hafa lengi vænt þess að innblásnir spádómar rætist. Jeremía spáði til dæmis að Júda yrði lögð í eyði og það gerðist þegar Babýloníumenn hertóku landið árið 607 f.Kr. (Jer. 25:8-11) Jesaja var innblásið að spá um að Jehóva myndi láta byggja landið að nýju og sagði: „Sælir eru þeir sem á hann vona.“ (Jes. 30:18) Míka, sem einnig spáði um fólk Guðs til forna, sagði ákveðinn: „Ég mæni í von til Drottins.“ (Míka 7:7) Þjónar Guðs væntu þess líka öldum saman að spádómar um Messías, eða Krist, myndu uppfyllast. – Lúk. 3:15; 1. Pét. 1:10-12. *

2 Þeir sem þjóna Guði nú á tímum eru líka fullir eftirvæntingar þar sem spádómar um Messías eru enn að rætast. Fyrir milligöngu Messíasarríkisins ætlar Jehóva bráðlega að binda enda á þjáningar með því að eyða illum mönnum og frelsa fólk sitt frá þessum fallvalta heimi Satans. (1. Jóh. 5:19) Við skulum því vera vel vakandi, meðvituð um að þessi heimur á skammt eftir.

3. Hvers gætum við spurt okkur ef við höfum beðið árum saman eftir að endirinn komi?

 3 Við sem þjónum Jehóva hlökkum til þess að vilji hans verði „svo á jörðu sem á himni“. (Matt. 6:10) En sumir hafa vænst þess um þó nokkurn tíma að endirinn kæmi og gætu því spurt sig: „Er enn ástæða til að halda áfram að vera eftirvæntingarfullur?“ Skoðum málið.

HVERS VEGNA ÆTTUM VIÐ AÐ VERA FULL EFTIRVÆNTINGAR?

4. Hver er ein helsta ástæðan fyrir því að við ættum að vaka og vera á verði?

4 Það leikur enginn vafi á því hvers konar hugarfar Biblían hvetur okkur til að hafa gagnvart yfirvofandi eyðingu þessa heimskerfis. Jesús sagði fylgjendum sínum að vaka og vera á verði. (Matt. 24:42; Lúk. 21:34-36) Það eitt og sér er góð ástæða til að halda áfram að vera eftirvæntingarfull – Jesús sagði okkur að gera það. Söfnuður Jehóva er okkur gott fordæmi að þessu leyti. Í ritunum okkar er brýnt fyrir okkur aftur og aftur að „bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi“. Við erum hvött til að einblína á loforð Jehóva um nýja heiminn. – Lestu 2. Pétursbréf 3:11-13.

5. Hvers vegna er sérstaklega mikilvægt að vera vel á verði á okkar tímum?

5 Kristnir menn, sem voru uppi á fyrstu öld, þurftu að vera eftirvæntingarfullir en það er enn þá mikilvægara fyrir okkur nú á dögum. Af hverju? Af því að við lifum á nærverutíma Krists. Táknið um nærveru hans hefur sést skýrt frá árinu 1914. Þetta margþætta tákn, sem felur í sér síversnandi heimsástand og að ríki Guðs sé boðað um allan heim, sýnir að við lifum á þeim tíma þegar ,veröldin er að líða undir lok‘. (Matt. 24:3, 7-14) Þar sem Jesús sagði ekki hve langur tíminn yrði þar til endirinn kæmi þurfum við að vera sérstaklega vel á verði.

6. Hvers vegna megum við búast við að heimsástandið versni því nær sem dregur endinum?

6 Við spyrjum okkur kannski: Getur ekki verið að tímabilið, þegar ,veröldin er að líða undir lok‘, eigi við um framtíðina þegar heimsástandið versnar jafnvel enn meira? Biblían gefur til kynna að illskan myndi aukast til muna „á síðustu dögum“. (2. Tím. 3:1, 13; Matt. 24:21; Opinb. 12:12) Við megum því búast við að ástandið eigi enn eftir að versna þótt það sé slæmt nú þegar.

7. Hvað gefur Matteus 24:37-39 til kynna um heimsástandið á síðustu dögum?

7 En hversu slæmt heldurðu að ástandið verði fyrir ,þrenginguna miklu‘? (Opinb. 7:14) Hugsarðu til dæmis að það verði stríð í hverju einasta landi, að enginn eigi til hnífs og skeiðar og að veikindi verði á hverju heimili? Við þær aðstæður yrðu jafnvel efasemdamenn knúnir til að viðurkenna að biblíuspádómar væru að rætast. Jesús sagði hins vegar að flestir tækju ekki eftir nærveru hans og að líf þeirra gengi bara sinn vanagang þangað til það væri um seinan. (Lestu Matteus 24:37-39.) Biblían sýnir því að ástandið yrði ekki svo svakalegt á síðustu dögum að fólk neyddist til að trúa að endirinn væri nærri. – Lúk. 17:20; 2. Pét. 3:3, 4.

8. Hvað er augljóst þeim sem hlýða boði Jesú um að ,vaka‘?

8 Til að hið samsetta tákn þjóni tilgangi sínum þarf uppfylling þess samt að vera nógu augljós til að fanga athygli þeirra sem hlýða boði Jesú um að ,vaka‘. (Matt. 24:27, 42) Og sú hefur  verið raunin allt frá árinu 1914. Síðan þá hafa hinir mismunandi þættir táknsins verið að rætast. Við erum sannfærð um að við lifum núna á þeim tíma sem ,veröldin er að líða undir lok‘ – það er að segja þeim takmarkaða tíma sem leiðir til og felur í sér eyðingu þessa illa heims.

9. Af hvaða ástæðum ættum við að halda áfram að vænta eftir endi þessa heims?

9 Hvers vegna eiga þá þjónar Guðs nú á tímum að vera eftirvæntingarfullir? Vegna þess að við hlýðum boði Jesú. Við sjáum líka táknið um nærveru hans. Væntingar okkar eru ekki byggðar á barnalegri trúgirni heldur haldgóðum biblíulegum rökum. Og það hvetur okkur til að halda vöku okkar og vera á verði, full eftirvæntingar að þessi heimur líði undir lok.

HVE LENGI?

10, 11. (a) Undir hvaða möguleika bjó Jesús lærisveina sína? (b) Hvað sagði Jesús fylgjendum sínum að gera ef biðin eftir endinum yrði lengri en þeir höfðu búist við? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

10 Mörg okkar hafa haldið andlegri vöku okkar um áratugabil. En sama hve lengi við höfum beðið megum við ekki missa móðinn heldur verðum við að halda áfram að vera eftirvæntingarfull. Við þurfum að vera tilbúin þegar Jesús kemur til að eyða þessu heimskerfi. Mundu eftir hvatningu Jesú til fylgjenda sinna: „Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“ – Mark. 13:33-37.

11 Þegar fylgjendur Krists áttuðu sig á að nærvera hans hefði hafist árið 1914 bjuggu þeir sig réttilega undir að endirinn gæti komið þá og þegar. Þeir gerðu það með því að efla boðunina um ríki Guðs. Jesús gaf þó í skyn að það gæti verið að hann kæmi ekki fyrr en „í óttu eða dögun“. Ef svo færi, hvernig áttu fylgjendur hans þá að bregðast við? Hann sagði þeim: „Vakið!“ Þannig að þótt biðtíminn yrði langur myndi það ekki afsaka að maður frestaði endinum í huga sér eða hætti að vænta eftir honum.

12. Að hverju spurði Habakkuk Jehóva og hvaða svar fékk hann?

12 Habakkuk spámanni var falið að segja fyrir um eyðingu Jerúsalem. Aðrir spámenn höfðu þegar boðað eyðingu borgarinnar um árabil. Á tímum Habakkuks var ástandið orðið það slæmt að ,illmennið sat um hinn réttláta, og því var rétturinn afskræmdur‘. Það kemur því ekki á óvart að Habakkuk skyldi hrópa á hjálp og spyrja: „Hve lengi á ég að hrópa, Drottinn?“ Í stað þess að svara spurningunni beint fullvissar Jehóva dyggan spámann sinn um að eyðingin, sem spáð hafði verið, myndi ekki tefjast. Guð sagði Habakkuk að bíða með eftirvæntingu. – Lestu Habakkuk 1:1-4; 2:3.

13. Hvaða hugarfar hefði Habakkuk getað tileinkað sér en hvers vegna hefði það verið óviturlegt?

13 Ímyndum okkur að Habakkuk hefði misst móðinn og hugsað með sér: „Ég hef heyrt um eyðingu Jerúsalem í mörg ár. Hvað ef það er enn langt í hana? Það er nú varla skynsamlegt að halda  áfram að spá eyðingu hennar, eins og hún komi bara allt í einu. Ég læt aðra um það.“ Ef Habakkuk hefði leyft sér að gæla við slíkar hugsanir hefði hann misst velþóknun Jehóva – og jafnvel lífið þegar Babýloníumenn eyddu Jerúsalem.

14. Hvers vegna getum við verið viss um að við verðum ekki fyrir vonbrigðum ef við væntum eftir endinum?

14 Í nýja heiminum getum við litið um öxl og hugsað til þess hvernig allir spádómarnir, sem tengdust síðustu dögum, rættust í þaula. Með því að hugleiða hvernig allt fór að lokum styrkirðu traust þitt á Jehóva enn meir og á loforð hans sem eiga enn eftir að rætast. (Lestu Jósúabók 23:14.) Við verðum þakklát Guði, ,sem hefur sjálfur ákveðið tíma og tíðir,‘ fyrir að hafa hvatt okkur til að vera meðvituð um að ,endir allra hluta væri í nánd‘. – Post. 1:7; 1. Pét. 4:7.

EFTIRVÆNTING HVETUR TIL VERKA

Boðar þú fagnaðarerindið af kappi? (Sjá 15. grein.)

15, 16. Hvers vegna er skynsamlegt að leggja sig allan fram við boðunina núna á endalokatímanum?

15 Við megum búast við því að söfnuður Jehóva haldi áfram að minna okkur á að sinna þjónustunni við Jehóva af kappi. Ástæðan fyrir þessari hvatningu er ekki bara að við höldum okkur uppteknum í þjónustunni heldur líka að við séum meðvituð um að tákn nærveru Krists er sýnilegt núna. Hvað er þá skynsamlegast að gera fyrst við lifum á þessum tímum? Að halda áfram að leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis með því að boða fagnaðarerindið af miklum eldmóði. – Matt. 6:33; Mark. 13:10.

16 Systir nokkur sagði: „Með því að boða fagnaðarerindið um ríki Guðs ... getum við átt þátt í að bjarga fólki frá vísum dauða í hörmungunum sem bíða þessa heims.“ Hún veit hvað það þýðir að vera bjargað því að hún og eiginmaður hennar björguðust úr einu versta sjóslysi sögunnar þegar farþegaskipið Wilhelm Gustloff sökk árið 1945. Jafnvel í slíkum háska gæti maður haft ranga sýn á hvað raunverulega skiptir máli. Systirin minnist þess að ein kona veinaði í sífellu: „Töskurnar mínar, töskurnar mínar! Skartgripirnir mínir! Allir skartgripirnir mínir eru niðri í klefanum. Ég hef misst allt!“ Margir farþeganna voru hins vegar hjálpfúsir, unnu hörðum höndum og hættu lífi sínu til að bjarga fólki sem hafði fallið í ískaldan sjóinn. Við gerum okkar ýtrasta til að hjálpa fólki, líkt og þessir óeigingjörnu  farþegar gerðu. Við höfum í huga hve áríðandi það er að boða fólki fagnaðarerindið og hjálpum því að bjargast frá eyðingu þessa heims áður en það er um seinan.

Taktu skynsamlegar ákvarðanir þannig að ekkert dragi úr ákefð þinni í boðuninni. (Sjá 17. grein.)

17. Hvers vegna megum við búast við endi þessa heims hvenær sem er?

17 Heimsatburðir, sem við sjáum núna, sýna skýrt að spádómar Biblíunnar eru að rætast og að endir þessa illa heimskerfis er mjög nærri. Við ættum því ekki að gera ráð fyrir að langur tími þurfi að líða þar til „hornin tíu“ og „dýrið“ í Opinberunarbókinni 17:16 snúist gegn Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða. Höfum í huga að Guð ,leggur þeim í brjóst‘ að ráðast á falstrúarbrögðin – og það getur gerst skyndilega og hvenær sem er. (Opinb. 17:17) Það er stutt í að heimur Satans líði endanlega undir lok. Við höfum fulla ástæðu til að hlýða fyrirmælum Jesú: „Hafið gát á sjálfum yður, látið ekki svall og drykkju eða áhyggjur þessa lífs ná tökum á yður svo að sá dagur komi ekki skyndilega yfir yður eins og snara.“ (Lúk. 21:34, 35; Opinb. 16:15) Einsetjum okkur að vera vakandi og þjóna Jehóva af kappi, örugg um að hann „kemur þeim til hjálpar sem á hann vona“. – Jes. 64:3.

18. Um hvaða spurningu verður rætt í næstu grein?

18 Meðan við bíðum eftir endi þessa illa heims skulum við hlýða innblásnum orðum Júdasar: „Þið elskuðu, byggið ykkur sjálf upp í helgustu trú ykkar. Biðjið í heilögum anda. Látið kærleika Guðs varðveita ykkur sjálf og bíðið eftir að Drottinn vor Jesús Kristur sýni ykkur náð og veiti ykkur eilíft líf.“ (Júd. 20, 21) En hvernig getum við sýnt að við væntum þess að loforð Guðs um nýjan heim rætist og að við hlökkum mikið til þess? Um það verður rætt í næstu grein.

^ gr. 1 Finna má lista yfir nokkra spádóma Biblíunnar um Messías og uppfyllingu þeirra á bls. 200 í bókinni Hvað kennir Biblían?