Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 ÆVISAGA

„Eyjafjöldinn gleðjist“

„Eyjafjöldinn gleðjist“

Ég á seint eftir að gleyma þessum degi. Ég sat í fundarherbergi hins stjórnandi ráðs ásamt bræðrum frá mismunandi heimshlutum þar sem við biðum taugaspenntir eftir ritnefndinni sem var rétt ókomin. Undanfarnar vikur höfðum við kynnt okkur ýmis vandamál þýðenda og nú áttum við að leggja fram tillögur um hvernig mætti leysa þau. Þetta var 22. maí árið 2000. En hvers vegna var þessi fundur svo mikilvægur? Mig langar að segja ykkur smávegis frá bakgrunni mínum áður en ég útskýri það.

Ég skírðist í Queensland, var brautryðjandi í Tasmaníu og trúboði á Túvalú, Vestur-Samóa og Fídjíeyjum.

ÉG FÆDDIST í Queensland í Ástralíu árið 1955. Stuttu síðar fór Estelle, móðir mín, að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva. Hún skírðist árið eftir og Ron, faðir minn, varð vottur 13 árum síðar. Ég skírðist á afskekktu svæði í Queensland árið 1968.

Allt frá unga aldri hef ég haft unun af lestri og tungumál hafa alltaf heillað mig. Þegar við fjölskyldan fórum í ferðalög hefur það eflaust verið spælandi fyrir foreldra mína að sjá mig í aftursætinu lesa bók í staðinn fyrir að njóta útsýnisins. Áhugi minn á lestri kom sér þó vel í skóla og ég hlaut ýmsar viðurkenningar fyrir námsárangur í gagnfræðiskóla í borginni Glenorchy á eyjunni Tasmaníu.

En það kom að því að ég þurfti að taka stóra ákvörðun. Átti ég að þiggja námsstyrk og fara í háskóla? Þótt ég hefði unun af því að lesa og læra er ég þakklátur móður minni fyrir að kenna mér að elska Jehóva meira en nokkuð annað. (1. Kor. 3:18, 19) Með samþykki foreldra minna hætti ég því í skóla og gerðist brautryðjandi í janúar 1971. Ég var þá 15 ára og hafði lokið skólaskyldunni.

 Næstu átta árin fékk ég þá dýrmætu reynslu að vera brautryðjandi í Tasmaníu. Á þessum tíma kvæntist ég Jenny Alcock, fallegri tasmanískri stúlku, og við störfuðum saman sem sérbrautryðjendur í fjögur ár í afskekktu bæjunum Smithton og Queenstown.

HALDIÐ TIL KYRRAHAFSEYJA

Árið 1978 fórum við í fyrsta skipti út fyrir landsteinana til að sækja alþjóðamót í Port Moresby á Papúa Nýju-Gíneu. Ég man enn eftir ræðu sem einn trúboðanna hélt á hiri motu. Þó að ég skildi ekki orð þá hvatti ræðan mig til að verða trúboði, læra ný tungumál og halda ræður eins og þessa. Ég hafði loksins fundið leið til að sameina kærleikann til Jehóva og ástríðu mína fyrir tungumálum.

Þið getið rétt ímyndað ykkur hve hissa við vorum þegar við komum aftur til Ástralíu og okkur var boðið að verða trúboðar á eyjunni Funafuti. Hún tilheyrir Túvalú sem áður hétu Elliceeyjar. Við komum þangað í janúar 1979. Á öllum eyjum Túvalú voru aðeins þrír skírðir boðberar.

Með Jenny á Túvalú.

Það var ekki auðvelt að læra túvalúeysku. Eina bókin, sem til var á málinu, var „Nýja testamentið“. Það voru engar orðabækur til né tungumálanámskeið í boði. Við ákváðum því að reyna að læra sjálf 10 til 20 ný orð á dag. Fljótlega áttuðum við okkur þó á að við skildum fæst orðin rétt. Við reyndum til dæmis að segja fólki að það væri rangt að leita spásagna en í staðinn sögðum við að það mætti hvorki nota vigt né göngustafi. Við urðum samt að læra málið til að geta haldið öll þau biblíunámskeið sem við höfðum komið af stað og héldum því áfram að reyna. Einn biblíunemenda okkar frá þessum tíma sagði okkur mörgum árum síðar: „Við erum svo ánægð að þið talið málið okkar núna. Til að byrja með höfðum við ekki hugmynd um hvað þið voruð að reyna að segja.“

Á hinn bóginn höfðum við það sem sumir myndu kalla kjöraðstæður til að læra nýtt tungumál. Þar sem ekkert leiguhúsnæði var í boði fluttum við inn til vottafjölskyldu í aðalþorpinu. Þannig höfðum við tungumálið allt í kringum okkur, meira að segja heima fyrir. Þegar við höfðum ekki talað ensku í nokkur ár var túvalúeyska orðið aðaltungumál okkar.

Áður en langt um leið voru margir farnir að sýna áhuga á sannleikanum. En hvaða námsgögn gætum við notað við biblíunámskeiðin? Það voru engin rit til á málinu þeirra. Hvað gætu  þau notað við sjálfsnám? Þegar þau kæmu á samkomur, hvaða söngva gætu þau þá sungið og hvaða rit gætu þau notað? Og hvernig ættu þau yfirleitt að geta búið sig undir samkomurnar? Hvaða möguleika hefðu þau á að taka framförum og geta látið skírast? Þetta auðmjúka fólk þurfti að fá andlega fæðu á sínu eigin tungumáli. (1. Kor. 14:9) Við veltum fyrir okkur hvort það myndu nokkurn tíma koma út rit á túvalúeysku, máli sem færri en 15.000 manns töluðu. Jehóva svaraði spurningum okkar með því að sýna okkur fram á tvennt: (1) Hann vill að orð sitt verði boðað „á fjarlægum eyjum“ og (2) hann vill að þeir sem heimurinn álítur „fátæka og hógværa“ leiti hælis í nafni hans. – Jer. 31:10; Sef. 3:12.

AÐ ÞÝÐA ANDLEGA FÆÐU

Árið 1980 fól deildarskrifstofan okkur verkefni sem okkur fannst við alls ekki vera hæf til að sinna – að þýða. (1. Kor. 1:28, 29) Við byrjuðum á því að kaupa gamla fjölritunarvél af ríkisstjórninni sem við notuðum til að prenta efni fyrir samkomurnar. Við þýddum meira að segja bókina Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs á túvalúeysku og notuðum fjölritann til að prenta hana. Ég man enn eftir sterkri bleklyktinni og hve mikil vinna það var að prenta öll þessi rit handvirkt í kæfandi hitanum. Á þeim tíma höfðum við ekkert rafmagn.

Það var erfitt að þýða á túvalúeysku þar sem við höfðum nánast engar bækur til að styðjast við. En stundum fengum við hjálp úr óvæntri átt. Einn morguninn bankaði ég óvart upp á hjá manni sem var mótfallinn trú okkar. Þetta var roskinn maður sem hafði verið kennari. Hann var fljótur að minna mig á að við ættum ekki að heimsækja hann. Síðan sagði hann: „Mig langar bara að segja þér eitt. Þið notið þolmyndina of mikið í ritunum ykkar. Hún er ekki notuð svona mikið á túvalúeysku.“ Ég spurði aðra út í þetta og komst að því að hann hafði á réttu að standa. Við gerðum því viðeigandi breytingar. Mér fannst samt svo merkilegt að Jehóva skyldi  nota mann, sem var okkur mótfallinn, til að hjálpa okkur. Hann las þá greinilega ritin okkar þrátt fyrir allt.

Guðsríkisfréttir nr. 30 á túvalúeysku.

Það fyrsta sem kom út á túvalúeysku til að dreifa meðal almennings var boðsmiði á minningarhátíð. Síðan komu út Guðsríkisfréttir nr. 30 samtímis ensku útgáfunni. Hvílík ánægja að geta gefið fólki eitthvað á þeirra eigin móðurmáli! Smátt og smátt komu út nokkrir bæklingar og jafnvel bækur á túvalúeysku. Árið 1983 hóf deildarskrifstofan í Ástralíu að prenta 24 blaðsíðna Varðturn ársfjórðungslega. Þannig höfðum við að meðaltali sjö greinar til að fara yfir í Varðturnsnáminu í hverri viku. Hvernig brást almenningur við? Þar sem Túvalúar hafa mikla ánægju af lestri urðu ritin okkar mjög vinsæl. Í hvert sinn sem rit kom út var tilkynnt um það í fréttalestri á ríkisreknu útvarpsstöðinni og stundum var það jafnvel aðalfréttin. *

Þýðingarvinnan hófst með blaði og penna. Handritin voru síðan vélrituð aftur og aftur áður en þau voru send til deildarskrifstofunnar í Ástralíu þar sem þau voru prentuð. Á tímabili voru þar tvær systur sem slógu hvert handrit inn í tölvu þó að þær kynnu ekkert í túvalúeysku. Með þessu kerfi, að slá textann inn tvisvar og skoða síðan mismuninn á skjánum, urðu ótrúlega fáar villur. Umbrotnar blaðsíður voru sendar aftur til okkar í flugpósti til yfirferðar og að lokum fóru þær til baka til deildarskrifstofunnar í prentun.

Hvílík breyting sem hefur orðið síðan! Núna slá þýðingateymi textann beint inn í tölvur. Yfirleitt er textinn umbrotinn á staðnum og síðan er hægt að senda skrárnar rafrænt til prentsmiðju. Það er liðin tíð að þurfa að hlaupa í pósthúsið á síðustu stundu til að ná að senda handritin tímanlega.

FLEIRI VERKEFNI

Með árunum fengum við Jenny ýmis verkefni víða um Kyrrahafseyjar. Við vorum beðin um að flytja frá Túvalú til deildarskrifstofunnar á Samóa árið 1985. Þar hjálpuðum við til við þýðingar á samósku, tongísku og tókeláísku auk þess að sinna áfram verkefnum á túvalúeysku. * Árið 1996 fengum við svo svipað verkefni á deilarskrifstofunni á Fídjíeyjum þar sem við gátum aðstoðað við þýðingarstörf á fidjí, kiribatí, nárúsku, rotuman og túvalúeysku.

Rit á túvalúeysku notuð við kennslu.

Mér finnst alltaf jafn heillandi að sjá eldmóðinn hjá þeim sem þýða ritin okkar. Vinnan getur verið þreytandi og lýjandi. En þessir trúföstu þjónar reyna að endurspegla vilja Jehóva sem er að fagnaðarerindið verði boðað „sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð“. (Opinb. 14:6) Þegar verið var að skipuleggja þýðingu á fyrsta tölublaði Varðturnsins á tongísku átti ég fund með öllum öldungunum á Tonga og spurði þá hverja væri hægt að þjálfa í þýðingum. Einn þeirra var vélvirki og var með ágætis vinnu en hann bauðst til þess að hætta daginn eftir og hefjast strax  handa við þýðingarnar. Þetta hlýjaði mér um hjartarætur, sérstaklega þar sem hann var fjölskyldumaður og hafði ekki hugmynd um hvaðan hann fengi tekjur til að sjá fyrir fjölskyldunni. En Jehóva sá um hann og fölskylduna og hann hélt þýðingarstörfunum áfram í mörg ár.

Þessir dyggu þýðendur hafa sama hugarfar og bræðurnir í stjórnandi ráði en þeim er mjög umhugað um andlegar þarfir fólks sem tilheyrir litlum málhópum. Eitt sinn kom upp spurning um hvort það væri erfiðisins virði að þýða ritin okkar á túvalúeysku. Ég varð svo ánægður þegar ég las svarið frá hinu stjórnandi ráði: „Við sjáum enga ástæðu til að hætta þýðingum á túvalúeysku. Þó að fáir tali túvalúeysku í samanburði við önnur tungumál þarf þetta fólk líka að heyra fagnaðarerindið á móðurmáli sínu.“

Skírn í lóni.

Árið 2003 vorum við Jenny beðin um að hætta á þýðingadeildinni á Fídjíeyjum og flytja til Patterson í New York til að starfa við þýðingaþjónustuna. Þetta var draumi líkast! Við fengum að vinna með teymi sem hjálpar til við að hefja þýðingar á ritunum okkar á nýjum tungumálum og þýða fleiri rit á öðrum. Næstu tvö árin, eða þar um bil, fengum við að heimsækja ýmis lönd til að aðstoða við að þjálfa þýðingateymi.

SÖGULEGAR ÁKVARÐANIR

Snúum okkur nú aftur að fundinum sem ég nefndi í upphafi. Um aldamótin 2000 sá hið stjórnandi ráð að þörf var á að efla stuðninginn við þýðingateymin. Fram að því höfðu fæstir þýðendur fengið kennslu í þýðingum að einhverju marki. Eftir að við höfðum kynnt niðurstöður okkar og tillögur fyrir ritnefndinni samþykkti hið stjórnandi ráð kennsluáætlun fyrir þýðingateymin um allan heim. Í henni fólst námskeið til að bæta enskuskilning og þjálfun í þýðingatækni og í að vinna saman í teymum.

Hver hefur árangurinn orðið af allri þessari kennslu sem þýðendur hafa hlotið? Þýðingarnar eru vandaðri en áður. Ritin okkar eru líka þýdd á töluvert fleiri tungumál en áður. Þegar við komum á fyrsta trúboðssvæðið okkar árið 1979 var Varðturninn aðeins til á 82 tungumálum. Flestar þýddar útgáfur komu út nokkrum mánuðum á eftir ensku útgáfunni. Núna kemur Varðturninn út á rúmlega 240 málum og á flestum þeirra eru blöðin gefin út samtímis ensku útgáfunni. Andleg fæða er nú fáanleg með einum hætti eða öðrum á meira en 700 tungumálum. Fyrir einhverjum árum hefðum við aðeins getað látið okkur dreyma um þennan fjölda tungumála.

Árið 2004 tók hið stjórnandi ráð aðra mikilvæga ákvörðun – að aukin áhersla skyldi lögð á biblíuþýðingar. Fáeinum mánuðum síðar var Nýheimsþýðingin sett ofar á forgangslistann og í kjölfarið hófust þýðingar á henni á fjölda tungumála. Árið 2014 var hún komin út í heild eða að  hluta á 128 tungumálum, þar á meðal nokkrum málum sem töluð eru á Suður-Kyrrahafseyjum.

Útgáfa Nýheimsþýðingar Grísku ritninganna kynnt á túvalúeysku.

Einn af hápunktum lífs míns var þegar ég var beðinn um að sækja mótið á Túvalú árið 2011. Þrálátir þurrkar höfðu verið á öllum eyjunum mánuðum saman og það leit út fyrir að aflýsa þyrfti mótinu. En kvöldið, sem ég kom, lauk þurrkunum með mikilli hitabeltisskúr og hægt var að halda mótið. Ég hlaut þann ómetanlega heiður að fá að tilkynna um útgáfu Nýheimsþýðingar Grísku ritninganna á túvalúeysku – en Túvalúar eru minnsti málhópurinn sem hefur fengið þessa dýrmætu gjöf. Undir lok mótsins kom önnur hellidemba. Mótsgestir fengu því vatn í mikilli gnægð, bæði í andlegum og bókstaflegum skilningi.

Í viðtali við foreldra mína, Ron og Estelle, á móti í Townsville í Ástralíu árið 2014.

Jenny, sem var dyggur félagi minn í meira en 35 ár, fékk því miður ekki að upplifa þennan merka atburð. Árið 2009 lést hún eftir tíu ára baráttu við brjóstakrabbamein. Hún á eflaust eftir að vera yfir sig ánægð þegar hún rís upp og fær að vita um útgáfu túvalúeysku biblíunnar.

Jehóva hefur nú gefið mér aðra yndislega eiginkonu, Loraini Sikivou. Loraini og Jenny unnu saman á Betel á Fídjíeyjum þar sem Loraini vann við þýðingar á fidjí. Ég er því aftur kominn með dyggan félaga sem þjónar Jehóva með mér og deilir með mér ástríðunni fyrir tungumálum.

Með Loraini í boðuninni á Fídjíeyjum.

Þegar ég horfi til baka finnst mér svo uppörvandi að sjá hvernig ástríkur faðir okkar á himnum heldur áfram að hugsa um þarfir bæði fjölmennra og fámennra málhópa. (Sálm. 49:2-4) Ég hef séð kærleika hans endurspeglast í gleðinni sem skín úr andliti fólks þegar það sér eitthvert rita okkar í fyrsta sinn á móðurmáli sínu eða syngur Jehóva lof á því máli. (Post. 2:8, 11) Ég gleymi seint orðum Saulos Teasis, roskins bróður á Túvalú. Eftir að hafa sungið ríkissöng í fyrsta sinn á sínu tungumáli sagði hann: „Mér finnst að þú ættir að segja hinu stjórnandi ráði að þessir söngvar hljómi betur á túvalúeysku en á ensku.“

Í september 2005 var mér óvænt boðið að eiga sæti í stjórnandi ráði Votta Jehóva. Ég starfa því ekki lengur við þýðingar en ég er Jehóva þakklátur fyrir að leyfa mér að halda áfram að styðja við þýðingarstarfsemina á heimsvísu. Það gleður mig mikið að vita að Jehóva sér fyrir andlegum þörfum allra þjóna sinna – jafnvel þeirra sem búa á fjarlægum eyjum Kyrrahafsins. Sálmaskáldið komst þannig að orði: „Drottinn er konungur, jörðin fagni, eyjafjöldinn gleðjist.“ – Sálm. 97:1.

^ gr. 18 Dæmi um viðbrögð fólks við ritunum okkar má lesa um í Varðturninum 1. desember 2000, bls. 32, og Vaknið! janúar-mars 2001, bls. 9. Sjá einnig enska útgáfu Varðturnsins 1. ágúst 1988, bls. 22.

^ gr. 22 Finna má frekari upplýsingar um þýðingarstörfin á Samóa í árbókinni 2009, bls. 120-121, 123-124.