Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Skrifaði Jósefus þetta í raun og veru?

Skrifaði Jósefus þetta í raun og veru?

Sagnaritarinn Flavíus Jósefus, sem var uppi á fyrstu öld, minnist í einu ritverki sínu á dauða „Jakobs, bróður Jesú, sem kallaður var Kristur“. (Antiquitates Judaicae, 20. bindi) Margir fræðimenn telja að Jósefus hafi sjálfur ritað þessi orð. En sumir draga í efa annað sem segir um Jesú í sama verki. Sú klausa er kölluð Testimonium Flavianum og hljóðar svo:

„Nú var uppi um þessar mundir Jesús, vitur maður, ef oss leyfist að kalla hann mann því að hann vann undursamleg verk – fræðari slíkra manna sem taka með ánægju við sannleikanum. Margir hylltust að honum, bæði Gyðingar og annarra þjóða menn. Hann var Kristur; og þegar Pílatus, að undirlagi æðstu manna á meðal vor, hafði dæmt hann til dauða á krossi, yfirgáfu þeir hann ekki sem unnu honum í fyrstu því að hann birtist þeim lifandi á þriðja degi, eins og spámenn Guðs höfðu boðað ásamt tugþúsund öðrum undrum varðandi hann; og kristnir menn, sem svo voru nefndir eftir honum, eru enn ekki horfnir af sjónarsviðinu.“ – Antiquitates Judaicae, 18. bindi, 3, 3.

Allt frá lokum 16. aldar hafa þeir deilt hart sem trúa að Jósefus hafi ritað þessi orð og þeir sem véfengja það. Serge Bardet er franskur sagnfræðingur sérfróður um klassískar bókmenntir. Hann hefur reynt að greiða úr þessari flóknu deilu sem hefur staðið síðastliðnar fjórar aldir, og birt niðurstöður rannsókna sinna í bók sem nefnist Le Testimonium Flavianum – Examen historique considérations historiographiques (Testimonium Flavianum – sögurannsókn á sagnfræðiritum).

Jósefus var ekki kristinn rithöfundur. Hann var gyðingatrúar og fékkst við söguritun. Deilan snýst því að miklu leyti um það að Jesús skuli vera kallaður „Kristur“ (með ákveðnum greini í grísku). Að vel athuguðu máli kemst Bardet að þeirri niðurstöðu að nafngiftin samsvari „að öllu leyti þeirri grísku málvenju að nota ákveðinn greini með mannanöfnum“. Bardet bætir við að frá gyðingakristnum sjónarhóli sé það „alls ekki óhugsandi að Jósefus hafi notað orðið Kristos“ heldur séu það „stórkostleg mistök hjá gagnrýnendum að horfa fram hjá“ þessari vísbendingu.

Getur hugsast að einhver síðari tíma falsari hafi bætt við textann og hermt eftir stíl Jósefusar? Bardet telur það jaðra við kraftaverk ef tekist hefði að herma svo vel eftir Jósefusi. Hann byggir ályktun sína á sögulegum og textalegum rökum og segir að meintur falsari hefði þurft að vera svo snjall að varla séu dæmi um slíkt í allri sögu fornaldar, það er að segja að hann hefði þurft að vera næstum „jafn jósefískur og Jósefus“.

Af hverju hafa gagnrýnismenn gert svona mikið veður út af þessum texta? Bardet bendir á að málið snúist um það að menn „véfengi Testimonium af þeirri einföldu ástæðu að Testimonium hafi verið dreginn í efa – ólíkt því sem gert sé með flest fornrit“. Hann segir að afstaða manna til textans í aldanna rás byggist meira á „annarlegum hvötum“ en textagreiningu sem styðji eindregið að textinn sé ósvikinn.

Hvort rannsóknir Bardets eiga eftir að breyta afstöðu fræðimanna til Testimonium Flavianum skal ósagt látið. Þær hafa þó sannfært einn virtan sérfræðing í hellenískum gyðingdómi og frumkristni. Hann heitir Pierre Geoltrain og taldi lengi vel að Testimonium væri síðari tíma innskot. Hann gerði jafnvel gys að þeim sem töldu textann ósvikinn. En hann skipti um skoðun og þakkar það rannsóknum Bardets. Geoltrain hefur nú lýst yfir að „hér eftir ætti enginn að voga sér að tala um ,ósennilegan vitnisburð‘ Jósefusar“.

Vottar Jehóva hafa auðvitað enn ríkari ástæðu til að viðurkenna að Jesús sé Kristur – vitnisburð Biblíunnar sjálfrar. – 2. Tím. 3:16.