Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þeim sem elska Jehóva „er við engri hrösun hætt“

Þeim sem elska Jehóva „er við engri hrösun hætt“

„Gnótt friðar hafa þeir er elska lögmál þitt og þeim er við engri hrösun hætt.“ – SÁLM. 119:165.

1. Hvernig er afstaða hlaupara nokkurs gott dæmi um að gefast ekki upp?

Á UNGLINGSALDRI var Mary Decker komin í fremstu röð meðal hlaupara. Margir töldu að hún myndi vinna til gullverðlauna í 3.000 metra hlaupi á sumarólympíuleikunum árið 1984. En hún náði ekki í mark því að hún hrasaði um fótlegg annars hlaupara og datt kylliflöt. Hún var borin meidd og grátandi af brautinni. En Mary gafst ekki upp og áður en ár var liðið setti hún nýtt heimsmet í 1.600 metra hlaupi kvenna.

2. Í hvaða skilningi eru kristnir menn eins og hlauparar í keppni og að hverju verðum við að einbeita okkur?

2 Við sem erum kristin erum að vissu leyti eins og hlauparar í keppni, og við verðum að einbeita okkur að því að ná í mark. En þetta er ekki spretthlaup þar sem sá sigrar sem fljótastur er. Og ekki er það heldur létt skokk með góðum hléum á milli. Það má öllu heldur líkja okkar hlaupi við maraþon þar sem úthald er aðalatriðið. Páll postuli notaði kapphlaup sem myndmál í bréfi sínu til kristinna manna í Korintu en íþróttir voru í hávegum hafðar þar í borg. Hann skrifaði: „Vitið þið ekki að þeir sem keppa á íþróttavelli hlaupa að sönnu allir en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig að þið fáið sigurlaun.“ – 1. Kor. 9:24.

3. Hverjir hljóta sigurlaun í þessu táknræna hlaupi?

3 Í Biblíunni erum við hvött til að taka þátt í þessu táknræna hlaupi. (Lestu 1. Korintubréf 9:25-27.) Verðlaunin eru eilíft líf, annaðhvort á himnum fyrir þá sem eru andasmurðir eða á jörð fyrir alla aðra þátttakendur. Ólíkt því sem algengast er þegar keppt er í íþróttum hljóta allir sigurlaun sem skrá sig í  hlaupið og ljúka því. (Matt. 24:13) Keppendur tapa því aðeins að þeir fari ekki að reglum eða hætti í hlaupinu áður en þeir ná í mark. Auk þess er þetta eina keppnin þar sem eilíft líf er í verðlaun.

4. Hvers vegna er ekki auðvelt að hljóta sigurlaunin?

4 Það er alls ekki auðvelt að ná í mark. Það kostar sjálfsaga og einbeitni. Aðeins einn maður hefur náð í mark án þess að hrasa svo mikið sem einu sinni. Það er Jesús Kristur. Lærisveinninn Jakob skrifaði hins vegar að fylgjendur Krists ,hrasi allir margvíslega‘. (Jak. 3:2) Það eru orð að sönnu. Við eigum öll í glímu við ófullkomleika sjálfra okkar og annarra. Við getum hrasað af og til, riðað til falls og misst niður hraðann. Við getum jafnvel dottið en staðið upp aftur og haldið áfram að hlaupa. Sumir detta svo illa að það þarf að hjálpa þeim á fætur til að þeir nái sér aftur á strik og geti haldið áfram að hlaupa í átt að markinu. Það getur sem sagt gerst að við hrösum eða dettum einu sinni eða oftar. – 1. Kon. 8:46.

Ef þú dettur skaltu þiggja aðstoð og standa upp aftur.

HALTU ÁFRAM ÞÓ AÐ ÞÚ HRASIR

5, 6. (a) Af hverju er kristnum manni „við engri hrösun hætt“ og hvað hjálpar honum að ,standa upp‘ aftur ef hann dettur? (b) Hvers vegna standa sumir ekki upp aftur?

5 Við erum kannski vön að nota orðin ,hrasa‘ og ,falla‘ jöfnum höndum í óeiginlegri merkingu. Þessi biblíuorð geta merkt það sama en gera það ekki alltaf. Tökum til dæmis eftir því sem stendur í Orðskviðunum 24:16: „Sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur upp aftur en hinir ranglátu hrasa og tortímast.“

6 Jehóva leyfir ekki að þeir sem treysta á hann hrasi eða detti svo illa að þeir geti ekki staðið upp aftur. Hann lofar að hjálpa okkur að komast yfir mótlæti og mistök þannig að við getum haldið áfram að þjóna honum af heilum huga. Það er mjög hughreystandi fyrir þá sem elska Jehóva af öllu hjarta. Hinir ranglátu hafa engan sérstakan áhuga á að standa upp aftur. Þeir biðja hvorki um hjálp heilags anda Guðs né þjóna hans, né þiggja hjálp þótt hún sé boðin. Hins vegar er  þeim sem ,elska lögmál Jehóva við engri hrösun hætt‘ í þeim skilningi að ekkert getur komið í veg fyrir að þeir nái í mark. – Lestu Sálm 119:165.

7, 8. Hvernig getum við haft velþóknun Guðs þó að við dettum?

7 Sumum verður á að gera eitthvað rangt sökum veikleika – jafnvel ítrekað. Jehóva lítur samt svo á að þeir séu réttlátir ef þeir standa upp aftur, það er að segja iðrast í einlægni og halda áfram að þjóna honum dyggilega. Þetta má sjá af samskiptum Guðs við Ísrael til forna. (Jes. 41:9, 10) Í Orðskviðunum 24:16, sem vitnað var í hér á undan, er ekki lögð áhersla á hið neikvæða, að falla, heldur á hið jákvæða, að standa upp aftur með hjálp Jehóva. (Lestu Jesaja 55:7.) Jehóva Guð og Jesús Kristur treysta að við gerum okkar besta og hvetja okkur hlýlega til að standa upp aftur. – Sálm. 86:5; Jóh. 5:19.

8 Þó að hlaupari hrasi eða detti í maraþoni hefur hann kannski tíma til að halda hlaupinu áfram og ná í mark ef hann er fljótur að standa upp aftur. Við vitum ekki á hvaða degi eða stund hlaupinu um eilífa lífið lýkur. (Matt. 24:36) En því sjaldnar sem við hrösum því líklegra er að við getum haldið jöfnum hraða, haldið hlaupinu áfram og náð í mark. Hvað getum við gert til að hrasa ekki í hlaupinu?

HVAÐ GETUR VALDIÐ ÞVÍ AÐ VIÐ HRÖSUM?

9. Um hvaða fimm atriði verður fjallað í framhaldinu sem gætu valdið því að við hrösum?

9 Við skulum nú líta á fimm atriði sem gætu valdið því að við hrösum. Það eru veikleikar okkar, langanir holdsins, ranglæti af hálfu trúsystkina, þrengingar eða ofsóknir og ófullkomleiki annarra. Höfum samt hugfast að Jehóva er ákaflega þolinmóður við okkur þó að við hrösum. Hann dæmir okkur ekki úr leik með hraði.

10, 11. Hvaða veikleika átti Davíð við að stríða?

10 Veikleikar okkar eru ekki ósvipaðir lausagrjóti á hlaupabraut. Atvik úr ævi Davíðs konungs og Péturs postula eru lýsandi fyrir tvo af þessum veikleikum. Davíð sýndi ekki alltaf næga sjálfstjórn og Pétur var stundum hræddur við menn.

11 Davíð konungur hafði ekki alltaf stjórn á sér eins og sjá má af synd hans með Batsebu. Og þegar Nabal smánaði hann munaði minnstu að hann hefndi sín í fljótræði. Davíð sýndi ekki alltaf næga sjálfstjórn en hann hætti aldrei að reyna að þóknast Jehóva. Með góðra manna hjálp tókst honum að ná jafnvægi á nýjan leik. – 1. Sam. 25:5-13, 32, 33; 2. Sam. 12:1-13.

12. Hvernig gat Pétur haldið áfram að keppa eftir eilífa lífinu þótt hann hrasaði?

12 Pétur var stundum hræddur við menn og hrasaði jafnvel illa oftar en einu sinni. Hann var engu að síður trúr Jehóva og Jesú. Til dæmis afneitaði hann meistara sínum – ekki aðeins einu sinni heldur þrisvar. (Lúk. 22:54-62) Síðar varð honum það á að mismuna trúsystkinum og láta sem kristnir menn af heiðnum uppruna væru einhvern veginn síðri en bræður af hópi umskorinna Gyðinga. En Páll postuli sá hlutina í réttu ljósi. Hann vissi að stéttaskipting átti ekki að eiga sér stað í söfnuðinum. Pétur var á rangri braut og Páll leiðrétti hann augliti til auglitis áður en hann hann náði að spilla einingu safnaðarins með hegðun sinni. (Gal. 2:11-14) Móðgaðist Pétur og hætti að keppa eftir eilífa lífinu? Nei, hann tók til sín það sem Páll sagði, fór eftir því og hélt áfram á réttri braut.

13. Hvernig geta veikindi valdið því að við hrösum?

 13 Stundum getur veikleiki okkar tengst heilsunni. Veikindi geta raskað andlegum venjum okkar og orðið til þess að við hrösum og missum jafnvægið eða gefumst jafnvel upp. Japönsk systir veiktist alvarlega 17 árum eftir að hún lét skírast. Hún varð svo upptekin af veikindum sínum að hún hætti að rækta sambandið við Jehóva og varð óvirk. Tveir öldungar heimsóttu hana og uppörvuðu hana hlýlega. Hún fór að sækja samkomur að nýju og segir þegar hún lítur um öxl: „Ég fékk tár í augun vegna þess að bræður og systur heilsuðu mér svo hlýlega.“ Systir okkar er nú aftur farin að keppa eftir eilífa lífinu.

14, 15. Hvað verðum við að gera þegar rangar langanir gera vart við sig? Lýstu með dæmi.

14 Langanir holdsins hafa orðið mörgum að falli. Þegar þær freista okkar þurfum við að taka okkur hraustlega á til að halda huganum hreinum og brjóta ekki siðferðisreglur Guðs. Jesús talaði um að við ættum að ,kasta frá okkur‘ í óeiginlegri merkingu öllu sem gæti tælt okkur til falls, jafnvel auga okkar og hönd. Það hlýtur að ná yfir siðlausar hugsanir og hegðun sem hafa orðið til þess að sumir hafa hætt að keppa eftir eilífa lífinu. – Lestu Matteus 5:29, 30.

15 Bróðir nokkur, sem ólst upp á kristnu heimili, segist hafa átt í baráttu við samkynhneigð eins lengi og hann man eftir. Honum fannst hann hvergi passa almennilega inn í hópinn. Um tvítugt var hann orðinn brautryðjandi og safnaðarþjónn. Þá hrasaði hann illilega, fékk ögun í samræmi við leiðbeiningar Biblíunnar og aðstoð frá öldungunum. Hann bað reglulega, var iðinn við biblíunám og lagði sig fram um að liðsinna öðrum. Þannig tókst honum að rísa á fætur og taka aftur þátt í hlaupinu. Þetta gerðist fyrir mörgum árum en hann segir samt: „Stundum sækja þessar tilfinningar á mig en ég læt þær ekki ná tökum á mér. Ég hef komist að raun um að Jehóva lætur ekki prófraunirnar vera svo erfiðar að við getum ekki staðist þær. Ég hugsa að Guð haldi að mér takist þetta.“ Hann er sannfærður um að öll þessi barátta eigi eftir að skila sér í nýja heiminum og bætir við: „Þangað til ætla ég að halda áfram að berjast.“ Hann er staðráðinn í að halda hlaupinu áfram.

16, 17. (a) Hvað hjálpaði bróður sem fannst hann hafa verið ranglæti beittur? (b) Hvað þurfum við að hafa hugfast til að hrasa ekki?

16 Ranglæti af hálfu trúsystkina getur líka orðið okkur að falli. Bróður í Frakklandi, sem hafði verið safnaðaröldungur, fannst hann hafa verið ranglæti beittur. Hann varð bitur, hætti að sækja samkomur og varð óvirkur. Tveir öldungar heimsóttu hann. Þeir sýndu honum samkennd og leyfðu honum að tala út þegar hann rakti málið frá sínum sjónarhóli. Þeir hvöttu hann síðan til að varpa byrði sinni á Jehóva og lögðu áherslu á að mikilvægast af öllu væri að þóknast Guði. Hann tók því vel sem þeir sögðu og innan tíðar var hann aftur orðinn virkur í safnaðarlífinu.

17 Allir kristnir menn þurfa að hafa hugfast að Jesús Kristur er höfuð safnaðarins en varast að einblína á það sem ófullkomnir menn gera. Augu Jesú eru „eins og eldslogi“ og hann sér allt í réttu samhengi. (Opinb. 1:13-16) Hann hefur því miklu betri yfirsýn en við yfir það sem gerist í söfnuðinum. Hann sér kannski að við mistúlkum eða misskiljum hlutina þegar okkur finnst eitthvert óréttlæti hafa átt sér stað. Ef eitthvað gerist í söfnuðinum sem þarf að leiðrétta gerir Jesús það á réttan hátt þegar það er tímabært. Við ættum því ekki að láta ákvarðanir eða verk annarra í söfnuðinum verða til þess að við hrösum.

18. Hvernig getum við staðist prófraunir?

 18 Tvennt annað sem gæti orðið okkur að falli eru þrengingar eða ofsóknir og ófullkomleiki annarra. Í dæmisögunni um sáðmanninn sagði Jesús að þrenging eða ofsókn vegna orðsins gæti orðið til þess að sumir hrösuðu. Hvort sem rekja má ofsóknir til ættingja, nágranna eða yfirvalda eru þeir í mestri hættu sem hafa „enga rótfestu“, það er að segja eru veikir í trúnni. (Matt. 13:21) Boðskapurinn um ríkið hjálpar okkur að ná góðri rótfestu ef við höldum sterkum tengslum við Jehóva. Þegar við verðum fyrir prófraunum skulum við reyna að hugleiða það sem er „lofsvert“ og gera það að bænarefni. (Lestu Filippíbréfið 4:6-9.) Með hjálp Jehóva getum við staðist prófraunir svo að við föllum ekki úr hlaupinu.

Láttu ekkert hindra þig í að ljúka hlaupinu.

19. Hvernig getum við komið í veg fyrir að framferði annarra verði til þess að við hrösum?

19 Sumir hafa því miður látið ófullkomleika annarra hindra sig í hlaupinu. Þeir hafa látið ólíka afstöðu í samviskumálum verða sér til trafala. (1. Kor. 8:12, 13) Gerum við stórmál úr því ef einhver hneykslar okkur? Í Biblíunni eru kristnir menn hvattir til að dæma ekki heldur fyrirgefa öðrum, jafnvel þó að þeim finnst þeir hafa ástæðu til að móðgast. (Lúk. 6:37) Þegar þú ert við það að hneykslast á einhverjum skaltu spyrja þig: Dæmi ég aðra eftir eigin skoðunum? Ætla ég að hætta að keppa eftir eilífa lífinu af því að bróðir minn er ófullkominn? Ef við elskum Jehóva látum við ekki framferði annarra hindra okkur í að ná í mark.

VERUM ÞOLGÓÐ – REYNUM AÐ HRASA EKKI

20, 21. Hvernig ætlarðu að keppa eftir eilífa lífinu?

20 Ertu staðráðinn í að ,fullna skeiðið‘, það er að segja að ljúka hlaupinu? (2. Tím. 4:7, 8) Þá þarftu að vera iðinn biblíunemandi. Notaðu Biblíuna og ritin frá hinum trúa og hyggna þjóni til að rannsaka ákveðið efni, hugleiða málin og koma auga á hvað geti orðið til þess að þú hrasir. Biddu Jehóva að gefa þér heilagan anda svo að þú hafir nóg úthald. Mundu að enginn er dæmdur úr keppni þó að hann hrasi eða falli stöku sinnum. Hann getur staðið upp aftur og haldið hlaupinu áfram. Hann getur meira að segja lært af mistökum sínum og hlaupið betur eftirleiðis.

21 Af Biblíunni má sjá að við þurfum að leggja eitthvað á okkur til að keppa eftir eilífa lífinu. Það er ekki eins og að stíga upp í strætisvagn sem flytur mann í mark. Við verðum sjálf að hlaupa. Þegar við gerum það hljótum við góðan meðbyr – „gnótt friðar“ frá Jehóva. (Sálm. 119:165) Við getum treyst að hann haldi áfram að styrkja okkur í hlaupinu og blessi síðan um alla eilífð þá sem ná í mark. – Jak. 1:12.