Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hefurðu „hjarta til að þekkja“ Jehóva?

Hefurðu „hjarta til að þekkja“ Jehóva?

„Ég gef þeim hjarta til að þekkja mig, að ég er Drottinn, og þeir skulu vera mín þjóð.“ – JER. 24:7, Biblían 1981.

1, 2. Hvers vegna eru fíkjur áhugaverðar?

FINNST þér fíkjur góðar, annaðhvort nýjar eða þurrkaðar? Margir eru hrifnir af þeim og þær eru ræktaðar víða. Gyðingar til forna voru hrifnir af ávexti fíkjutrésins. (Nah. 3:12; Lúk. 13:6-9) Fíkjur eru auðugar af trefjum, andoxunarefnum og steinefnum, og sumir telja því að þær séu hollar fyrir hjartað.

2 Jehóva líkti einu sinni hjörtum fólks við fíkjur. Hann var ekki að ræða um næringargildi fíkjunnar heldur notaði ávöxtinn í táknrænni merkingu. Það sem hann sagði um það mál fyrir munn Jeremía spámanns varðar okkur og ástvini okkar. Þegar við skoðum það sem hann sagði skulum við hugleiða hvað það getur þýtt fyrir kristna menn.

3. Hvað tákna fíkjurnar sem sagt er frá í Jeremía 24. kafla?

3 Árið 617 f.Kr. lét Jehóva Jeremía sjá sýn til að lýsa því sem framtíðin bar í skauti sér en Júdamenn voru þá komnir út á ranga braut. Í sýninni sá spámaðurinn tvær fíkjukörfur. Í annarri voru „mjög góðar fíkjur“ en í hinni „mjög vondar“. (Lestu Jeremía 24:1-3.) Vondu fíkjurnar táknuðu Sedekía konung og aðra honum líka. Þeir áttu yfir höfði sér illa meðferð af hendi Nebúkadnesars konungs og hersveita hans. En aðrir voru eins og góðar fíkjur, þeirra á meðal Esekíel, Daníel og þrír félagar hans í Babýlon. Hið sama er að segja um hluta þeirra Gyðinga sem yrðu bráðlega fluttir þangað. Sumir þeirra sneru síðar heim á ný til að endurreisa Jerúsalem og musterið. – Jer. 24:8-10; 25:11, 12; 29:10.

4. Hvers vegna er það sem Guð sagði um góðu fíkjurnar hvetjandi fyrir okkur?

4 Jehóva sagði um þá sem góðu fíkjurnar táknuðu: „Ég gef þeim hjarta til að þekkja mig, að ég er  Drottinn, og þeir skulu vera mín þjóð.“ (Jer. 24:7, Biblían 1981) Þetta er versið sem heiti greinarinnar er sótt í og það er mjög hvetjandi. Jehóva er fús til að gefa fólki „hjarta til að þekkja“ sig. Í þessu tilviki táknar hjartað hugarfar og hjartalag fólks. Þú vilt auðvitað hafa þannig hjarta og fá að tilheyra þjóð Guðs. Til þess er nauðsynlegt að kynna sér orð Guðs, fara eftir því, iðrast og taka sinnaskiptum, vígjast Guði og láta skírast í nafni föður, sonar og heilags anda. (Matt. 28:19, 20; Post. 3:19) Kannski ertu búinn að stíga þessi skref eða vinnur að því og sækir reglulega samkomur hjá Vottum Jehóva.

5. Um hverja er fyrst og fremst fjallað í Jeremíabók?

5 Við þurfum að huga að viðhorfum okkar og hátterni, hvort sem við höfum stigið öll þessi skref eða ekki. Það má sjá af öðru sem Jeremía sagði um hjartað. Í sumum köflum Jeremíabókar er talað um þjóðirnar umhverfis Júda en að mestu leyti fjallar hún þó um Júdaríkið í stjórnartíð fimm af konungum þess. (Jer. 1:15, 16) Jeremía ræðir fyrst og fremst um karla, konur og börn sem voru vígð Jehóva. Forfeður þeirra höfðu heitið af fúsum og frjálsum vilja að vera þjóð hans. (2. Mós. 19:3-8) Gyðingar staðfestu á dögum Jeremía að þeir væru vígðir Guði og sögðu: „Hér erum vér, vér komum til þín því að þú ert Drottinn, Guð vor.“ (Jer. 3:22) En hvernig ætli hjartalag þeirra hafi verið?

ÞEIR ÞURFTU AÐ FARA Í „HJARTAAÐGERГ

6. Hvers vegna ættum við að hafa mikinn áhuga á því sem Guð segir um hjartað?

6 Læknar geta með nútímatækni kannað ástand hjartans og séð hvernig það starfar. En Jehóva getur meira en það og það gerði hann á dögum Jeremía. Jehóva býr yfir einstakri þekkingu eins og sjá má af orðum hans: „Svikult er hjartað framar öllu öðru og forhert. Hver skilur það? Ég, Drottinn, rannsaka hjartað og . . . geld hverjum manni eftir breytni hans og ávöxtum verka hans.“ (Jer. 17:9, 10) Þegar Jehóva talar um að „rannsaka hjartað“ er ekki átt við hið bókstaflega hjarta sem slær um þrjú þúsund milljón sinnum á 70 til 80 ára ævi. Hann er að tala um hið táknræna hjarta, hinn innri mann, það er að segja langanir fólks, hugsanir, hugarfar, viðhorf og markmið. Þú ert með þess konar hjarta. Guð getur rannsakað það og þú getur það líka að vissu marki.

7. Þeim sem elska Jehóva „er við engri hrösun hætt“2Hvernig lýsti Jeremía hjarta flestra Gyðinga sem voru samtíða honum?

7 Við getum búið okkur undir þessa rannsókn með því að spyrja hvað Jehóva hafi fundist um táknrænt hjarta flestra Gyðinga á dögum Jeremía. Því er svarað með óvenjulegu orðfæri: „Allir af ætt Ísraels eru óumskornir á hjarta.“ (Jer. 9:26) Jeremía var ekki að tala um venjulega umskurn karla af hópi Gyðinga því að hann sagði: „Sjá, þeir dagar munu koma — segir Drottinn —, að ég mun hegna öllum umskornum, sem þó eru óumskornir.“ Umskornir Gyðingar voru sem sagt „óumskornir á hjarta“. (Jer. 9:25, Biblían 1981) Hvað er átt við?

8, 9. Hvað var að hjörtum flestra Gyðinga og hvað þurftu þeir að gera?

8 Við finnum vísbendingu um hvað það sé að vera ,óumskorinn á hjarta‘ þegar við lesum það sem Guð hvatti Gyðinga til að gera: „Fjarlægið yfirhúð hjartna yðar, þér Júdamenn og Jerúsalembúar. Annars brýst reiði mín út . . . sakir illra verka yðar.“ En hvar áttu illu verkin upptök sín? Hið innra,  í hjartanu. (Lestu Markús 7:20-23.) Jehóva greindi nákvæmlega hvar ill verk Gyðinga áttu upptök sín. Þeir voru þverúðarfullir og þrjóskir í hjarta. Jehóva hafði vanþóknun á hvötum þeirra og hugsunum. (Lestu Jeremía 5:23, 24; 7:24-26.) Hann sagði þeim fyrir munn Jeremía: „Umskerið yður fyrir Drottni, fjarlægið yfirhúð hjartna yðar.“ – Jer. 4:4; 18:11, 12.

9 Gyðingar á dögum Jeremía þurftu því að fara í táknræna hjartaaðgerð rétt eins og forfeður þeirra á dögum Móse. Það þurfti að ,umskera hjartað‘. (5. Mós. 10:16; 30:6) Að ,fjarlægja yfirhúð hjartans‘ merkti að losa sig við hugsanir, langanir og hvatir sem stönguðust á við boðorð Guðs. – Post. 7:51.

„HJARTA TIL AÐ ÞEKKJA“ HANN NÚ Á DÖGUM

10. Hvernig ættum við að líkja eftir Davíð?

10 Við megum vera innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli gefa okkur innsýn í hið táknræna hjarta. En þér er kannski spurn hvernig þetta snerti votta Jehóva nú á tímum. Það er ekki svo að skilja að margir í söfnuðinum stundi einhver ill verk eða séu að verða „vondar fíkjur“ líkt og margir Gyðingar á sínum tíma. Þjónar Guðs nú á dögum eru hreinir og guðræknir. Við skulum engu að síður hugleiða hvernig Davíð bað til Jehóva: „Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar og sjá þú hvort ég geng á glötunarvegi.“ – Sálm. 17:3; 139:23, 24.

11, 12. (a) Hvers vegna ættum við öll að rannsaka hjarta okkar? (b) Hvað gerir Guð ekki?

11 Jehóva vill að við þekkjum sig, það er að segja verðum honum þóknanleg og höldum okkur við hann. Jeremía ávarpaði Jehóva og sagði: „Drottinn hersveitanna, þú sem prófar hinn réttláta, þú sem sérð nýrun og hjartað.“ (Jer. 20:12) Fyrst Jehóva prófar hjarta hins réttláta ættum við sannarlega að vera fús til að gera sjálfsrannsókn. (Lestu Sálm 11:5.) Við gætum uppgötvað viðhorf, markmið eða djúpstæðar tilfinningar sem gera að verkum að hjartað er ekki eins næmt og það ætti að vera. Við gætum þurft að fara í táknræna hjartaaðgerð til að fjarlæga ákveðna „yfirhúð“. Hvaða röngu viðhorf eða tilfinningar gætirðu fundið í hjarta þér? Og hvernig er hægt að gera viðeigandi breytingar? – Jer. 4:4.

12 Eitt er þó víst: Jehóva neyðir engan til að breyta sér. Hann sagði um þá sem góðu fíkjurnar táknuðu: „Ég gef þeim hjarta til að þekkja mig.“ Hann sagðist ekki ætla að þvinga þá til að gera hugarfarsbreytingu. Þá þurfti að langa til að hafa næmt hjarta og þrá að þekkja Guð vel. Ættum við ekki að hugsa þannig líka?

Það er okkur til blessunar að rannsaka hjartað og uppræta óviðeigandi langanir.

13, 14. Hvernig gæti manni stafað hætta af því sem býr í hjartanu?

13 Jesús sagði: „Frá hjartanu koma illar hugsanir, manndráp, hórdómur, saurlifnaður, þjófnaður, ljúgvitni, lastmælgi.“  (Matt. 15:19) Ef bróðir væri með ónæmt hjarta, drýgði hór og iðraðist ekki gæti hann glatað velþóknun Guðs fyrir fullt og allt. En sá sem drýgir ekki slíka synd gæti samt þróað með sér rangar langanir í hjartanu. (Lestu Matteus 5:27, 28.) Það er mikilvægt að ganga úr skugga um að við séum ekki með slíkar langanir í hjartanu. Gæti verið að þú fyndir í hjarta þér óviðeigandi tilfinningar í garð einhvers af hinu kyninu? Gæti leynst hjá þér löngun sem Guð myndi ekki líða og þú þyrftir að uppræta?

14 Bróðir gæti borið slíkan kala til trúbróður síns að hann færi að hata hann, þó að hann myndi að sjálfsögðu aldrei ganga svo langt að gera sig sekan um „manndráp“. (3. Mós. 19:17) Hann þarf að leggja hart að sér til að uppræta slíkar tilfinningar. – Matt. 5:21, 22.

15, 16. (a) Hvernig gæti kristinn maður verið ,óumskorinn á hjarta‘? (b) Af hverju heldurðu að Jehóva hafi vanþóknun á þeim sem eru „óumskornir á hjarta“?

15 Til allrar hamingju eiga kristnir menn upp til hópa ekki við slíkan „hjartasjúkdóm“ að stríða. Jesús talaði engu að síður um „illar hugsanir“ sem geta haft óæskileg áhrif á ótalmargt í lífinu, til dæmis brenglað viðhorf okkar þannig að okkur finnist við eiga að sýna ættingjum hollustu framar öllu öðru. Þjónar Guðs eiga auðvitað að elska ættingja sína en ekki vera eins og margir sem eru „kærleikslausir“ núna á síðustu dögum. (2. Tím. 3:1, 3) En tilfinningarnar geta leitt okkur út í öfgar. Margir hugsa sem svo að „blóð sé þykkara en vatn“. Þeir gætu tekið afstöðu með ættingjum sínum hvað sem það kostar. Þeim er misboðið ef ættingja er misboðið. Bræður Dínu reiddust heiftarlega þegar hún var svívirt og myrtu fjölda manna. (1. Mós. 34:13, 25-30) Og þú getur rétt ímyndað þér hvað bjó í hjarta Absalons og leiddi til þess að hann myrti Amnon, hálfbróður sinn. (2. Sam. 13:1-30) Bjuggu ekki „illar hugsanir“ að baki þessum vonskuverkum?

16 Þjónar Guðs fremja auðvitað ekki morð. En gæti þeim verið í nöp við bróður eða systur sem sýndi einhverjum ættingja þeirra lítilsvirðingu eða þeim finnst hafa gert það? Þeir afþakka kannski heimboð frá trúsystkinum sem þeim finnst hafa gert eitthvað slíkt eða láta sér ekki detta í hug að bjóða þeim  heim. (Hebr. 13:1, 2) Við megum ekki afsaka slíkar tilfinningar eins og ekkert sé því að þær bera vitni um að það vanti eitthvað upp á kærleikann. Jehóva, sem rannsakar hjartað, gæti greint það þannig að við værum ,óumskorin á hjarta‘. (Jer. 9:25, 26) Munum eftir Ísraelsmönnunum sem Jehóva hvatti til að ,fjarlægja yfirhúð hjartna sinna‘. – Jer. 4:4.

AÐ ÖÐLAST „HJARTA TIL AÐ ÞEKKJA“ GUÐ

17. Hvernig getum við gert hjartað næmara?

17 Segjum nú að þú rannsakir hið táknræna hjarta og komist að raun um að það sé ekki nógu næmt fyrir leiðbeiningum Jehóva og sé að einhverju marki ,óumskorið‘. Ef til vill kemurðu auga á ótta við menn, löngun í frama eða munað eða jafnvel tilhneigingu til þrjósku og sjálfstæðis. Þú værir ekki fyrstur til að finna fyrir slíku. (Jer. 7:24; 11:8) Jeremía talaði um að þjóð sín væri „þverúðarfull og þrjósk í hjarta“ og bætti við: „Þeir hugsuðu eigi með sér: ,Óttumst Drottin, Guð vorn, sem gefur regn, haustregn og vorregn, á réttum tíma.‘“ (Jer. 5:23, 24) Bendir það ekki til þess að guðsótti sé hjálp til að ,fjarlægja yfirhúð hjarta síns‘? Heilnæmur guðsótti getur hjálpað okkur að gera hjartað næmt fyrir vilja Guðs.

18. Hverju lofaði Jehóva þeim sem eiga aðild að nýja sáttmálanum?

18 Jehóva gefur okkur ,hjarta til að þekkja sig‘ ef við leggjum okkar af mörkum. Hann gaf eftirfarandi loforð um hina andasmurðu sem eiga aðild að nýja sáttmálanum: „Ég legg lögmál mitt þeim í brjóst og rita það á hjörtu þeirra. Ég verð Guð þeirra og þeir verða lýður minn.“ Hann bætti við: „Enginn mun framar þurfa að kenna landa sínum og bróður og segja: Þekkið Drottin. Allir munu þekkja mig, bæði stórir og smáir . . . Ég mun fyrirgefa þeim sekt þeirra og minnist ekki framar syndar þeirra.“ – Jer. 31:31-34. *

19. Hvaða framtíð eiga sannkristnir menn fyrir sér?

19 Við viljum öll þekkja Jehóva og tilheyra fólki hans, hvort sem við eigum þá von að lifa að eilífu á himni eða jörð. En til þess þurfum við að fá syndir okkar fyrirgefnar á grundvelli lausnarfórnar Jesú. Sú staðreynd að þú getur hlotið fyrirgefningu ætti að vera þér hvatning til að fyrirgefa öðrum, jafnvel þótt þér finnist það erfitt. Það er gott fyrir hjartað að losa það við alla óvild í garð annarra. Þá sýnirðu bæði að þig langar til að þjóna Jehóva og að þú ert að kynnast honum betur. Og þú líkist þeim sem Jehóva ávarpaði svo fyrir munn Jeremía: „Ef þér leitið mín munuð þér finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta læt ég yður finna mig.“ – Jer. 29:13, 14.

^ gr. 18 Fjallað er um nýja sáttmálann í Varðturninum 15. janúar 2012, bls. 26-30.