Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir Galatabréfsins, Efesusbréfsins, Filippíbréfsins og Kólossubréfsins

Höfuðþættir Galatabréfsins, Efesusbréfsins, Filippíbréfsins og Kólossubréfsins

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir Galatabréfsins, Efesusbréfsins, Filippíbréfsins og Kólossubréfsins

PÁLL postuli fréttir að sumir í „söfnuðunum í Galatalandi“ hafi snúist frá sannri tilbeiðslu og horfið til gyðingdómsins og skrifar þeim þá kjarnmikið bréf. (Gal. 1:2) Bréfið er skrifað einhvern tíma á árabilinu 50 til 52 og hefur að geyma beinskeytt ráð og áminningar.

Um tíu árum síðar er Páll staddur í Róm sem „bandingi Krists Jesú“ og skrifar þá söfnuðunum í Efesus, Filippí og Kólossu til að hvetja þá og gefa góð ráð. (Ef. 3:1) Við getum notið góðs af leiðbeiningum hans með því að kynna okkur Galatabréfið, Efesusbréfið, Filippíbréfið og Kólossubréfið. — Hebr. 4:12.

„MAÐURINN RÉTTLÆTIST“ — HVERNIG?

(Gal. 1:1–6:18)

Málsvarar gyðingdómsins reyna með slægð að gera Pál tortryggilegan og hann ver því postuladóm sinn með því að segja frá ýmsu úr ævi sinni. (Gal. 1:11–2:14) Hann hrekur falskenningar þeirra og segir síðan: „Maðurinn réttlætist ekki af lögmálsverkum heldur fyrir trú á Jesú Krist.“ — Gal. 2:16.

Kristur „keypti lausa þá sem voru undir lögmáli“ til að þeir gætu notið frelsis kristninnar, segir Páll. Hann brýnir fyrir kristnum mönnum í Galatíu að vera staðfastir og skrifar: „Standið því stöðug og látið ekki aftur leggja á ykkur ánauðarok.“ — Gal. 4:4, 5; 5:1.

Biblíuspurningar og svör:

3:16-18, 28, 29 — Er Abrahamssáttmálinn enn í gildi? Já, Móselögin voru viðbót við Abrahamssáttmálann en komu ekki í stað hans. Sáttmáli Guðs við Abraham var því áfram í gildi eftir að lögmálið var ‚afmáð‘. (Ef. 2:15) Fyrirheitin, sem voru fólgin í honum, ganga áfram til hins sanna „niðja“ Abrahams, Jesú Krists sem er aðalniðjinn, og til þeirra sem eru „í samfélagi við Krist“.

6:2 — Hvað er „lögmál Krists“? Það nær yfir allt sem Jesús kenndi og fyrirskipaði, einkum boðorðið að „elska hvert annað“. — Jóh. 13:34.

6:8 — Hvernig ‚sáum við í andann‘? Við gerum það með því að lifa þannig að andi Guðs geti haft óhindruð áhrif á okkur. Við sáum meðal annars í andann með því að taka heilshugar þátt í verkum sem stuðla að því að andinn streymi til okkar.

Lærdómur:

1:6-9. Safnaðaröldungar þurfa að bregðast tafarlaust við vandamálum sem koma upp í söfnuðinum. Þeir geta auðveldlega hrakið rangar röksemdir með því að beita Biblíunni og heilbrigðum rökum.

2:20. Lausnargjaldið er persónuleg gjöf Guðs til okkar og þannig ættum við að líta á það. — Jóh. 3:16.

5:7-9. Vondur félagsskapur getur ‚hindrað okkur í að hlýða sannleikanum‘. Það er viturlegt að forðast slíkan félagsskap.

6:1, 2, 5. Þeir sem eru til þess hæfir geta hjálpað okkur að bera byrðar, til dæmis erfiðar afleiðingar þess að okkur hefur óafvitandi orðið eitthvað á. Sjálf verðum við hins vegar að axla ábyrgð okkar sem þjónar Jehóva.

‚AÐ SAFNA ÖLLU Í KRISTI‘

(Ef. 1:1–6:24)

Páll leggur áherslu á kristna einingu í bréfinu til Efesusmanna og talar um þá fyrirætlun Guðs sem hann „ætlaði sér að framkvæma í fyllingu tímanna: Að safna öllu sem til er á himni og jörðu undir eitt höfuð í Kristi“. Kristur hefur gefið menn sem „gjafir“ til að hjálpa öllum í söfnuðinum að vera „einhuga í trúnni“. — Ef. 1:10; 4:8, 13.

Til að heiðra Guð og stuðla að einingu ættu kristnir menn að „íklæðast hinum nýja manni“ og ‚sýna Kristi lotningu og hvert öðru auðsveipni‘. Þeir þurfa einnig að klæðast andlegu alvæpni til að standast „vélabrögð djöfulsins“. — Ef. 4:24; 5:21; 6:11.

Biblíuspurningar og svör:

1:4-7 — Hvernig ákvað Guð fyrir fram að velja hina andasmurðu löngu áður en þeir fæddust? Hann útvaldi þá sem hóp en ekki einstaklinga. Það gerðist áður en lagður var grunnur að heimi manna sem fæddust syndugir. Spádómurinn í 1. Mósebók 3:15 var fluttur áður en nokkur syndugur maður var getinn og lýsir meðal annars yfir þeirri fyrirætlun Guðs að sumir fylgjendur Krists ríki með honum á himnum. — Gal. 3:16, 29.

2:2 — Í hvaða skilningi er andi heimsins eins og loftið og í hverju er vald hans fólgið? ‚Andi heimsins‘, sem birtist í sjálfstæðisanda og óhlýðni, smýgur um allt eins og loftið sem við öndum að okkur. (1. Kor. 2:12) Vald hans er fólgið í því að hann er alls staðar og áhrif hans sterk og þrálát.

2:6 — Hvernig geta andasmurðir kristnir menn verið „í himinhæðum“ meðan þeir eru enn á jörð? Orðið ‚himinhæðir‘ er í þessu samhengi ekki notað um hina fyrirheitnu himnesku arfleifð heldur hina háu stöðu sem fylgir því að vera ‚merktur innsigli heilags anda‘. — Ef. 1:13, 14.

Lærdómur:

4:8, 11-15. Jesús Kristur „hertók fanga“ með því að taka menn undan stjórn Satans og nota þá til að byggja upp kristna söfnuðinn. Við getum ‚í kærleika vaxið upp til Krists sem er höfuðið‘ með því að vera hlýðin og undirgefin þeim sem fara með forystuna í söfnuðinum og vinna í samræmi við ákvarðanir þeirra. — Hebr. 13:7, 17.

5:22-24, 33. Kona á bæði að vera eiginmanni sínum undirgefin og virða hann. Hún gerir það með því að vera ‚hógvær og kyrrlát‘, og hún heiðrar hann með því að tala vel um hann og stuðla að því að ákvarðanir hans nái fram að ganga. — 1. Pét. 3:3, 4; Tít. 2:3-5.

5:25, 28, 29. Eiginmaður á að sjá vel fyrir þörfum konu sinnar — líkamlegum, tilfinningalegum og andlegum — rétt eins og hann ‚elur sjálfan sig‘. Hann á líka að annast hana með því að verja nægum tíma með henni og með því að vera blíður við hana, bæði í orðum og verkum.

6:10-13. Til að standa á móti áhrifum illra anda þurfum við að íklæðast af heilum hug andlegu herklæðunum frá Guði.

‚GÖNGUM ÞÁ GÖTU SEM VIÐ HÖFUM KOMIST Á‘

(Fil. 1:1–4:23)

Bréf Páls til Filippímanna er einkar ástúðlegt. „Þess bið ég að elska ykkar aukist enn þá meir að þekkingu og dómgreind,“ segir hann. Hann hvetur þá til að hafa ekki oftraust á sjálfum sér heldur vinna að sáluhjálp sinni „með ugg og ótta“. — Fil. 1:9; 2:12.

Páll hvetur þá sem náð hafa þroska í trúnni til að keppa að „markinu, til verðlaunanna á himnum“ sem Guð gefur. „Við skulum fyrir alla muni ganga þá götu sem við höfum komist á,“ segir hann. — Fil. 3:14-16.

Biblíuspurningar og svör:

1:23 — Af hverju sagðist Páll eiga úr „tvennu vöndu að ráða“ og hvað þráði hann? Aðstæður Páls voru þær að tveir möguleikar blöstu við: líf eða dauði. (Fil. 1:21) Hann lætur þess ekki getið hvorn kostinn hann myndi velja en segir að sig langi til að „fara héðan og vera með Kristi“. (Fil. 3:20, 21; 1. Þess. 4:16) Það myndi gerast á nærverutíma Krists þegar Páll hlyti hin himnesku laun sem Jehóva hafði búið honum. — Matt. 24:3.

2:12, 13 — Á hvaða hátt fær Guð okkur til „að vilja og að framkvæma“? Heilagur andi Jehóva getur starfað í huga okkar og hjarta þannig að okkur langi til að gera okkar allra besta í þjónustu hans. Við fáum þess vegna hjálp til að ‚vinna að sáluhjálp okkar‘.

Lærdómur:

1:3-5. Þó að kristnir menn í Filippí væru fátækir eru þeir okkur góð fyrirmynd með örlæti sínu. — 2. Kor. 8:1-6.

2:5-11. Auðmýkt er ekki merki um veikleika heldur siðferðisstyrk, og Jesús er gott dæmi um það. Jehóva upphefur þá sem eru auðmjúkir. — Orðskv. 22:4.

3:13. Það sem „að baki er“ getur verið vel launað starf, öryggið sem fylgir því að tilheyra efnaðri fjölskyldu og jafnvel gamlar syndir sem við höfum iðrast og látið „laugast“ af. (1. Kor. 6:11) Við ættum að gleyma þessu, það er að segja að hætta að hugsa um það og ‚seilast eftir því sem er fram undan‘.

„STAÐFÖST Í TRÚNNI“

(Kól. 1:1–4:18)

Í bréfi sínu til Kólossumanna afhjúpar Páll rangar skoðanir falskennara. Hann bendir á að hjálpræði byggist ekki á ákvæðum lögmálsins heldur því að ‚standa stöðugur í trúnni‘. Hann hvetur trúsystkini sín í Kólossu til að vera „rótfest í [Kristi] og byggð á honum, staðföst í trúnni“. Hvaða áhrif gat slík staðfesta haft á þau? — Kól. 1:23; 2:6, 7.

„Íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt,“ skrifar Páll. „Látið frið Krists ríkja í hjörtum ykkar.“ Hann segir einnig við þá: „Hvað sem þið gerið, þá gerið það af heilum huga eins og Drottinn ætti í hlut en ekki menn.“ Hann hvetur safnaðarmenn til að ‚umgangast þá viturlega sem fyrir utan eru‘. — Kól. 3:14, 15, 23; 4:5.

Biblíuspurningar og svör:

2:8 — Hverjar eru ‚heimsvættirnar‘ sem Páll varar við? Hér er átt við undirstöðuatriðin í heimi Satans — þau grundvallarlögmál sem hann byggist á, stjórna honum og hafa áhrif á hann. (1. Jóh. 2:16) Þar á meðal eru heimspeki, efnishyggja og falstrúarbrögð.

4:16 — Af hverju er bréfið til Laódíkeumanna ekki í Biblíunni? Hugsanlegt er að efni bréfsins hafi ekki átt erindi til okkar sem nú lifum. Eins má vera að í því hafi verið endurtekið efni úr öðrum bréfum sem tilheyra helgiritasafni Biblíunnar.

Lærdómur:

1:2, 20. Lausnargjaldið, sem Guð gaf af óverðskuldaðri góðvild sinni, getur hreinsað samvisku okkar og gefið okkur innri frið.

2:18, 23. Auðmýktin, sem Páll nefnir, er hrein uppgerð manna sem reyna að ganga í augun á öðrum, kannski með því að hafna efnislegum hlutum eða beita sjálfa sig harðneskju. Hún er einkenni manna sem „hrokast upp af engu í sjálfshyggju“.