Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vissir þú?

Vissir þú?

Leyfðu Rómverjar að þeir sem höfðu verið teknir af lífi á staur, eins og Jesús, fengju greftrun eins og aðrir?

MARGIR vita að Jesús var hengdur á staur milli tveggja glæpamanna. (Matt. 27:35–38) En mönnum ber ekki saman um hvort Biblían sé áreiðanleg varðandi það hvernig lík Jesú var síðan búið til greftrunar og lagt í gröf. – Mark. 15:42–46.

Sumir gagnrýnendur guðspjallanna hafa dregið í efa að leyft hafi verið að veita þeim sem var tekinn af lífi sómasamlega greftrun, eins og að vera lagður í gröf. Þeir álíta að farið hafi verið öðruvísi með þá. Blaðamaðurinn Ariel Sabar útskýrir hvers vegna sumir eru á þeirri skoðun í tímaritinu Smithsonian: „Krossfesting var refsing fyrir úrhrök þjóðfélagsins og sumir sérfræðingar segja það fráleitt að Rómverjar hafi veitt þessu fólki almennilega greftrun.“ Rómverjar vildu niðurlægja dæmda glæpamenn eins mikið og hugsast gat og því voru lík þeirra oft skilin eftir á aftökustaurnum þar sem villidýr gátu étið þau. Því sem eftir var af líkinu var síðan hugsanlega kastað í fjöldagröf.

Fornleifafræðin hefur leitt annað í ljós, að minnsta kosti varðandi líkamsleifar sumra Gyðinga sem voru teknir af lífi. Árið 1968 fundust leifar af beinagrind manns sem hafði verið tekinn af lífi á fyrstu öld. Þær fundust í beinakistli í dæmigerðum fjölskyldugrafreit Gyðinga nálægt Jerúsalem. Á meðal leifanna fannst hælbein. Það var neglt við fjöl með 11,5 cm járnnagla. Sabar segir: „Hællinn er af manni sem hét Jóhanan og sýnir að frásagan í guðspjallinu um greftrun Jesú í gröf gæti verið sönn og hjálpaði þannig til við að útkljá langstæða deilu.“ Þannig að „hæll Jóhanans er dæmi um mann sem hafði verið krossfestur á dögum Jesú og Rómverjar leyfðu að fengi greftrun að sið Gyðinga“.

Menn eru ekki á eitt sáttir varðandi hvað þetta hælbein gefur til kynna um það hvernig Jesús var hengdur á kvalastaur. En það leiðir í ljós að sumir glæpamenn sem voru teknir af lífi fengu greftrun og að þeim var ekki bara kastað í fjöldagröf. Það er greinilega trúverðugt þegar Biblían segir að lík Jesú hafi verið lagt í gröf. Sönnunargögnin styðja frásögu Biblíunnar.

En það sem skiptir meira máli er að Jehóva sagði fyrir að Jesús yrði jarðaður meðal ríkra og enginn getur komið í veg fyrir að orð hans uppfyllist. – Jes. 53:9; 55:11.