Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Jósef frá Arímaþeu tekur afstöðu

Jósef frá Arímaþeu tekur afstöðu

JÓSEF FRÁ ARÍMAÞEU hafði ekki ímyndað sér að hann þyrði að ganga fyrir rómverska landstjórann. Það var á allra vitorði að Pontíus Pílatus var ákaflega þrjóskur maður. Til að Jesús fengi sómasamlega greftrun þurfti samt einhver að biðja Pílatus um að afhenda lík hans. Á endanum reyndist þó ekki eins erfitt og Jósef hafði haldið að standa augliti til auglitis við Pílatus. Eftir að Pílatus hafði fengið staðfest hjá liðsforingja einum að Jesús væri dáinn varð hann við beiðni Jósefs. Jósef er enn þungt um hjarta þegar hann hraðar sér aftur til aftökustaðarins. – Mark. 15:42-45.

  • Hver var þessi Jósef frá Arímaþeu?

  • Hvaða tengsl hafði hann við Jesú?

  • Og hvers vegna er saga hans áhugaverð fyrir okkur?

SITUR Í ÆÐSTARÁÐI GYÐINGA

Í innblásnu guðspjalli Markúsar er Jósef kallaður „göfugur ráðsherra“. Miðað við samhengið getur aðeins verið átt við Æðstaráð Gyðinga sem var í senn hæstiréttur þeirra og æðsta stjórnvald. (Mark. 15:1, 43) Jósef var því einn af leiðtogum þjóðarinnar og það skýrir hvers vegna hann gat fengið áheyrn hjá rómverska landstjóranum. Það kemur ekki á óvart að Jósef skyldi einnig vera auðugur maður. – Matt. 27:57.

Hefurðu hugrekki til að viðurkenna að Jesús sé konungur þinn?

Æðstaráðið í heild var fjandsamlegt í garð Jesú og hafði lagt á ráðin um að fá hann líflátinn. Jósef er hins vegna sagður hafa verið „góður maður og réttvís“. (Lúk. 23:50) Ólíkt flestum öðrum í Ráðinu var hann heiðvirður og siðsamur maður og gerði sitt besta til að fylgja boðum Guðs. Hann „vænti Guðs ríkis“ sem skýrir hugsanlega hvers vegna hann varð lærisveinn Jesú. (Mark. 15:43; Matt. 27:57) Líklegt er að hann hafi viljað fylgja því sem var satt og rétt og því hafi boðskapur Jesú höfðað til hans.

LÆRISVEINN Á LAUN

Í Jóhannesi 19:38 segir að Jósef hafi verið „lærisveinn Jesú en á laun af ótta við ráðamenn Gyðinga“. Við hvað var hann hræddur? Hann vissi að Gyðingar fyrirlitu Jesú og voru ákveðnir í að gera hvern þann mann samkundurækan sem játaði trú á hann. (Jóh. 7:45-49; 9:22) Gyðingar fyrirlitu þá sem voru samkundurækir, sniðgengu þá og útskúfuðu þeim. Jósef hikaði því við að játa opinberlega að hann tryði á Jesú. Það hefði kostað hann stöðu sína og virðingu.

Jósef var ekki einn um að vera í þessari erfiðu stöðu. Samkvæmt Jóhannesi 12:42 „trúðu margir á [Jesú], jafnvel höfðingjar, en gengust ekki við því vegna faríseanna svo að þeir yrðu ekki samkundurækir“. Nikódemus sat einnig í Æðstaráðinu og átti í sömu vandræðum og Jósef. – Jóh. 3:1-10; 7:50-52.

Jósef var aftur á móti lærisveinn Jesú en fékk sig ekki til að viðurkenna það opinberlega. Það var alvarlegt mál, ekki síst í ljósi þess sem Jesús sagði einu sinni: „Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum mun og ég við kannast fyrir föður mínum á himnum. En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum mun og ég afneita fyrir föður mínum á himnum.“ (Matt. 10:32, 33) Jósef afneitaði ekki Jesú beinlínis en hann hafði ekki heldur hugrekki til að játa opinberlega trú á hann. Hvað um þig?

Það er Jósef til hróss að þess er ekki getið í Biblíunni að hann hafi stutt ráðagerð  Æðstaráðsins um að fá Jesú líflátinn. (Lúk. 23:51) Sumir telja að Jósef hafi ekki verið viðstaddur réttarhöldin yfir Jesú. Hver sem ástæðan var hlýtur hann að hafa verið miður sín að sjá réttlætið afskræmt – en fá ekki rönd við reist.

HANN HIKAÐI EKKI LENGUR

Þegar Jesús dó var Jósef greinilega búinn að sigrast á óttanum og ákvað að ganga í lið með fylgjendum hans. Það má sjá af því sem stendur í Markúsi 15:43: „Hann áræddi að fara inn til Pílatusar og biðja um líkama Jesú.“

Jósef virðist hafa verið vitni að dauða Jesú. Hann vissi að minnsta kosti á undan Pílatusi að hann væri dáinn. Þegar hann bað um að fá lík Jesú afhent segir að ,Pílatus hafi furðað sig á að Jesús skyldi þegar vera andaður‘. (Mark. 15:44) Ef Jósef horfði upp á Jesú kveljast á aftökustaurnum, ætli þessi skelfilega upplifun hafi þá hreyft við samvisku hans svo að hann ákvað loksins að taka afstöðu með sannleikanum? Það er hugsanlegt. Hann gat að minnsta kosti ekki setið aðgerðarlaus lengur. Héðan í frá yrði hann ekki lærisveinn á laun.

JÓSEF LEGGUR JESÚ Í GRÖF

Lög Gyðinga kváðu á um að þeir sem væru teknir af lífi væru greftraðir fyrir sólsetur. (5. Mós. 21:22, 23) Rómverjar höfðu annan hátt á. Lík afbrotamanna voru annaðhvort látin rotna á aftökustaurnum eða þeim var kastað í fjöldagröf. En Jósef vildi ekki að Jesús hlyti þau örlög. Hann  átti nýhöggna klettagröf skammt frá aftökustaðnum. Hún var ónotuð sem bendir til þess að Jósef hafi verið nýfluttur frá Arímaþeu * til Jerúsalem og hafi hugsað sér að nota hana sem legstað fyrir fjölskyldu sína. (Lúk. 23:53; Jóh. 19:41) Það var göfugt af Jósef að leggja Jesú í gröfina sem hann hafði ætlað sjálfum sér en þar með rættist spádómur þess efnis að Messíasi yrði búinn legstaður „meðal ríkra“. – Jes. 53:5, 8, 9.

Tekurðu eitthvað annað fram yfir samband þitt við Jehóva?

Öll guðspjöllin fjögur greina frá því að Jósef hafi vafið lík Jesú í dúk úr fínu líni eftir að það var tekið niður af staurnum, og síðan lagt það í sína eigin gröf. (Matt. 27:59-61; Mark. 15:46, 47; Lúk. 23:53, 55; Jóh. 19:38-40) Aðeins einn maður er beinlínis sagður hafa aðstoðað Jósef. Það er Nikódemus en hann kom með ilmjurtir til greftrunarinnar. Miðað við stöðu mannanna tveggja er ólíklegt að þeir hafi flutt líkið einir saman. Sennilegra er að þeir hafi látið þjóna sína bera líkið og leggja það í gröfina. En hvað sem því líður var það ekkert lítilræði sem þeir tókust á hendur. Sá sem snerti lík varð trúarlega óhreinn í sjö daga, og allt sem hann snerti varð óhreint. (4. Mós. 19:11; Hag. 2:13) Hafi þeir snert lík Jesú hafa þeir þurft að vera í einangrun alla páskavikuna og misst af öllum helgiathöfnum og hátíðahöldum. (4. Mós. 9:6) Með því að sjá um að leggja Jesú í gröf tók Jósef einnig þá áhættu að kalla yfir sig háð og spott starfsbræðra sinna. Þegar hér var komið sögu var hann þó tilbúinn til að taka afleiðingum þess að veita Jesú sómasamlega greftrun og láta opinberlega í ljós að hann væri lærisveinn hans.

JÓSEFS ER EKKI GETIÐ MEIR

Jósef frá Arímaþeu er ekki nefndur í Biblíunni eftir að minnst er á þátt hans í greftrun Jesú. Það er því eðlilegt að spyrja hvað hafi orðið um hann. Sannleikurinn er sá að við vitum það ekki. Í ljósi þess sem lýst er hér á undan verður þó að teljast líklegt að hann hafi gefið opinberlega til kynna að hann væri kristinn maður. Þegar öllu er á botninn hvolft jókst honum trú og áræði þegar á hann reyndi, en ekki hið gagnstæða. Það var góðs viti.

Saga þessa manns vekur upp spurningu sem okkur er öllum hollt að íhuga: Getur verið að við tökum stöðu okkar, starfsframa, eignir, fjölskylduna, frelsi eða nokkuð annað fram yfir það að eiga samband við Jehóva?

^ gr. 18 Arímaþea var líklega annað heiti borgarinnar Rama sem nú heitir Rentis (Rantis). Rama var heimabær Samúels spámanns og lá um 35 kílómetra norðvestur af Jerúsalem. – 1. Sam. 1:19, 20.