Hoppa beint í efnið

Hverjir voru risarnir?

Hverjir voru risarnir?

Svar Biblíunnar

Risarnir voru ofbeldisfull ofurmenni og voru afkvæmi illra engla og kvenna á jörðinni á dögum Nóa. *

Í frásögu Biblíunnar segir að ,synir Guðs hafi séð hve dætur mannanna voru fagrar‘. (1. Mósebók 6:2) Þessir „synir Guðs“ voru í raun andaverur sem gerðu uppreisn gegn Guði þegar þeir „yfirgáfu eigin bústað“ á himnum, mynduðu sér mannslíkama og „tóku sér þær konur sem þeir lögðu hug á“. – Júdasarbréfið 6; 1. Mósebók 6:2.

Þessi óeðlilegu sambönd gátu af sér kynblendinga sem voru engin venjuleg börn. (1. Mósebók 6:4) Risarnir voru ofvaxnir yfirgangsseggir, harðstjórar sem fylltu jörðina ofbeldi. (1. Mósebók 6:13) Biblían lýsir þeim sem ,hetjunum sem í fyrndinni voru víðfrægar‘. (1. Mósebók 6:4) Þeir skildu eftir sig arfleið ofbeldis og ótta. – 1. Mósebók 6:5; 4. Mósebók 13:33. *

Ranghugmynd varðandi risana

Ranghugmynd: Risarnir eru enn á lífi á jörðinni í dag.

Staðreynd: Jehóva lét heimsflóð koma sem eyddi ofbeldisfullum heimi fortíðar. Risarnir voru þurrkaðir út ásamt öllu illu fólki. Nói og fjölskylda hans fundu hins vegar náð í augum Jehóva og voru þau einu sem komust lífs af á þeim tíma. – 1. Mósebók 6:9; 7:12, 13, 23; 2. Pétursbréf 2:5.

Ranghugmynd: Risarnir áttu mennska feður.

Staðreynd: Feður þeirra voru kallaðir „synir Guðs“. (1. Mósebók 6:2) Biblían notar sömu orð til að lýsa englum. (Jobsbók 1:6; 2:1; 38:7) Englar gátu myndað sér mannslíkama. (1. Mósebók 19:1-5; Jósúabók 5:13-15) Pétur postuli talaði um ,andana í varðhaldi‘ sem höfðu óhlýðnast Guði ,þegar Guð sýndi biðlund á dögum Nóa‘. (1. Pétursbréf 3:19, 20) Biblíuritarinn Júdas vísar til sömu frásögu og segir að sumir englar ,hafi ekki gætt tignar sinnar heldur yfirgefið eigin bústað‘. – Júdasarbréfið 6.

Ranghugmynd: Risarnir voru fallnir englar.

Staðreynd: Samhengið í 1. Mósebók 6:4 gefur til kynna að risarnir hafi ekki verið englar, heldur kynblendingar sem voru afkvæmi engla sem mynduðu sér mannslíkama og höfðu kynmök við konur. Þegar englarnir höfðu ,tekið sér þær konur sem þeir lögðu hug á,‘ sagði Jehóva að eftir 120 ár myndi hann grípa í taumana gegn þeim óguðlega heimi sem þá var. (1. Mósebók 6:1-3) Frásagan segir einnig að „á þeim tímum“ hafi englarnir í mannslíkama haft „samfarir við dætur mannanna“ og hafi eignast með þeim ,hetjurnar í fyrndinni‘ það er risana. – 1. Mósebók 6:4.

^ gr. 3 Hebreska orðið „nefilím“ sem er þýtt „risar“ merkir hugsanlega „fellendur“. Bókin Wilson’s Old Testament Word Studies segir að orðið eigi við þá sem „fara að mönnum með ofbeldi og ránum til að fella þá“.

^ gr. 5 Ísraelsku njósnararnir sem minnst er á í 4. Mósebók 13:33 sáu fólk sem var risavaxið og minnti þá á frásöguna af risunum sem höfðu dáið öldum áður. – 1. Mósebók 7:21-23.