Fyrsta Mósebók 7:1–24

  • Nói fer inn í örkina ásamt fjölskyldu sinni og dýrum (1–10)

  • Flóðið (11–24)

7  Síðan sagði Jehóva við Nóa: „Gakktu inn í örkina, þú og öll fjölskylda þín, því að þú ert réttlátur í mínum augum ólíkt þessari kynslóð.  Taktu með þér sjö* af öllum hreinum dýrum, karldýr og kvendýr, tvö af þeim sem eru ekki hrein, karldýr og kvendýr,  og einnig sjö* af fleygum dýrum himins, karldýr og kvendýr, til að þau deyi ekki út heldur eignist afkvæmi og dreifi sér um alla jörðina.  Eftir aðeins sjö daga læt ég rigna á jörðina í 40 daga og 40 nætur og ég mun afmá af yfirborði jarðar allar lifandi verur sem ég hef skapað.“  Og Nói gerði allt sem Jehóva fól honum að gera.  Nói var 600 ára þegar vatnsflóðið kom yfir jörðina.  Nói gekk inn í örkina ásamt sonum sínum, eiginkonu og tengdadætrum áður en flóðið hófst.  Af öllum hreinum dýrum og óhreinum, fleygum dýrum og öllum dýrum sem lifa og hrærast á landi  komu tvö og tvö saman inn í örkina til Nóa, karldýr og kvendýr, rétt eins og Guð hafði gefið Nóa fyrirmæli um. 10  Og að sjö dögum liðnum kom vatnsflóðið yfir jörðina. 11  Á 600. aldursári Nóa, á 17. degi annars mánaðarins, brutust fram allar uppsprettur hins mikla djúps* og flóðgáttir himins opnuðust. 12  Regnið dundi á jörðinni í 40 daga og 40 nætur. 13  Einmitt þann dag gekk Nói inn í örkina ásamt Sem, Kam og Jafet sonum sínum, og konu sinni og þrem tengdadætrum. 14  Með þeim fóru inn í örkina allar tegundir villtra dýra, búfjár, dýra sem skríða á jörðinni og allar tegundir fleygra dýra, allir fuglar og öll önnur vængjuð dýr. 15  Þau komu tvö og tvö inn í örkina til Nóa, allar tegundir dýra sem drógu lífsandann.* 16  Þannig fóru þau inn, karldýr og kvendýr af öllum tegundum dýra, rétt eins og Guð hafði gefið Nóa fyrirmæli um. Síðan lokaði Jehóva dyrunum á eftir honum. 17  Það rigndi á jörðina í 40 daga. Flóðið óx jafnt og þétt þar til vatnið lyfti örkinni svo að hún flaut hátt yfir jörðinni. 18  Vatnið varð gífurlega mikið og magnaðist stöðugt á jörðinni en örkin flaut á vatninu. 19  Vatnið varð svo mikið á jörðinni að það huldi öll há fjöll undir himninum. 20  Að lokum voru fjöllin 15 álnir* undir vatni. 21  Allar lifandi verur á jörðinni fórust – fleyg dýr, búfé, villt dýr, allt sem jörðin iðar af og allt mannkyn. 22  Allt sem var á þurrlendinu og dró lífsandann* dó. 23  Þannig afmáði Guð allar lifandi verur af yfirborði jarðar, bæði menn og dýr, þar á meðal dýr sem skríða á jörðinni og fleyg dýr himins. Þau voru öll afmáð af jörðinni. En Nói einn lifði af ásamt þeim sem voru með honum í örkinni. 24  Jörðin var hulin vatni í 150 daga.

Neðanmáls

Eða hugsanl. „sjö pör“.
Eða hugsanl. „sjö pör“.
Hér virðist átt við vatnið sem var fyrir ofan víðáttu himins.
Eða „sem lífsandi var í“.
Alin jafngilti 44,5 cm. Sjá viðauka B14.
Eða „hafði lífsanda í nösum sínum“.