Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kenndu börnunum

Hefur þér einhvern tíma fundist þú vera út undan?

Hefur þér einhvern tíma fundist þú vera út undan?

FÓLK er stundum haft út undan af því að það er með öðruvísi húðlit en hinir, er af öðru þjóðerni, talar öðruvísi eða fer öðruvísi að hlutunum. Finnst þér þú einhvern tíma vera út undan? —  *

Við skulum nú segja frá manni sem fannst hann vera hafður út undan. Hann hét Mefíbóset. Við fáum að vita hver hann var og hvers vegna honum leið þannig. Ef þér finnst þú einhvern tíma hafður út undan geturðu lært heilmikið af Mefíbóset.

Mefíbóset var sonur Jónatans en hann var góður vinur Davíðs. Jónatan lét lífið í orrustu en áður hafði hann sagt við Davíð: ,Viltu vera góður við börnin mín?‘ Eftir að Davíð var orðinn konungur minntist hann orða Jónatans. Mefíbóset var enn á lífi. Þegar hann var ungur varð hann fyrir alvarlegu slysi. Hann gat varla gengið það sem eftir var ævinnar. Skilurðu hvers vegna honum fannst hann vera hafður út undan? — 

Davíð langaði til að sýna syni Jónatans góðvild. Hann útvegaði Mefíbóset heimili nálægt sér í Jerúsalem og Mefíbóset fékk að sitja við matborð hans. Til þjónustu fékk hann mann sem hét Síba ásamt sonum hans og þjónum. Davíð heiðraði vissulega son Jónatans. Veistu hvað gerðist síðan?

Miklir erfiðleikar komu upp á heimili Davíðs. Absalon, einn sona hans, snerist gegn honum og reyndi að verða konungur. Davíð þurfti að leggja á flótta til að forða lífi sínu. Mefíbóset langaði að fara með honum ásamt mörgum öðrum. Þessir vinir Davíðs vissu að Davíð var réttmætur konungur. En Mefíbóset gat ekki farið þar sem hann gat varla gengið.

Þá sagði Síba við Davíð að Mefíbóset langaði til að verða konungur og þess vegna hefði hann orðið eftir. Davíð trúði þessum lygum. Hann gaf því Síba allar eignir Mefíbósets. Davíð vann fljótlega orrustuna gegn Absalon og sneri aftur heim til Jerúsalem. Þá fékk hann að heyra hlið Mefíbósets á málinu. Davíð ákvað að Mefíbóset og Síba skiptu með sér eignunum. Hvað heldurðu að Mefíbóset hafi gert?

Hann kvartaði ekki undan því að Davíð hefði verið ósanngjarn. Mefíbóset vissi að konungurinn þyrfti að fá frið svo að hann gæti sinnt starfi sínu vel. Hann sagði því að Síba gæti haldið öllum eignunum. Það sem skipti mestu máli fyrir Mefíbóset var að Davíð, þjónn Jehóva, var kominn aftur til Jerúsalem sem konungur.

Mefíbóset þjáðist mikið. Honum fannst hann oft vera hafður út undan. En Jehóva elskaði hann og annaðist. Hvað getum við lært af því? — Þótt við gerum rétt geta sumir logið einhverju upp á okkur. Jesús sagði: „Ef heimurinn hatar yður þá vitið að hann hefur hatað mig fyrr en yður.“ Menn gengu jafnvel svo langt að lífláta Jesú. Við getum treyst að ef við gerum það sem er rétt mun Jehóva, hinn sanni Guð, elska okkur. Jesús, sonur hans, mun elska okkur líka.

^ gr. 3 Ef þú ert að lesa fyrir barn geturðu gert hlé við þankastrikið og hvatt barnið til að tjá sig.