Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

KENNDU BÖRNUNUM

Jesús Kristur – ættum við að líta á hann sem ungbarn eða konung?

Jesús Kristur – ættum við að líta á hann sem ungbarn eða konung?

Í desember blasa alls staðar við fólki myndir eða styttur af Jesú sem ungbarni liggjandi í jötu, ílöngum kassa sem notaður er undir hey handa dýrum. En eigum við aðeins að líta á Jesú sem ungbarn? –  * Við skulum nú skoða hvernig við ættum í raun að líta á hann. Við getum lært margt af frásögunni um fjárhirðana sem héldu til í högunum nálægt Betlehem.

Nótt eina birtist engill hirðunum og segir við þá: „Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn.“ Engillinn sagði líka við þá að þeir myndu finna barn „reifað og liggjandi í jötu“. Skyndilega birtust þeim fjöldi annarra engla „sem lofuðu Guð“.

Hvernig myndi þér líða ef þú heyrðir engla syngja Guði lof? – Fjárhirðarnir urðu mjög glaðir. Þeir sögðu: „Förum beint til Betlehem að sjá það sem gerst hefur.“ Þar fundu þeir „Maríu og Jósef og ungbarnið sem lá í jötu“.

Fljótlega kom fleira fólk til Betlehem þar sem María og Jósef héldu til. Fólkið gladdist mjög þegar fjárhirðarnir sögðu frá því sem gerst hafði. Gleður það þig að þekkja söguna um Jesú? – Það gleður okkur öll af því að við elskum Guð. Við skulum nú skoða af hverju fæðing Jesú er mikið gleðiefni. En fyrst ætlum við að kanna hvað gerðist áður en María gifti sig.

Dag einn kom engill, sem heitir Gabríel, til Maríu. Hann sagði henni að hún myndi eignast dreng sem myndi „verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta“. Gabríel sagði einnig að sonurinn myndi ríkja sem konungur og að á ,ríki hans myndi enginn endir verða‘.

María vildi vita hvernig þetta ætti að verða þar sem hún hafði aldrei lagst með karlmanni. Gabríel útskýrði það fyrir henni og sagði: „Kraftur Hins hæsta mun yfirskyggja þig. Þess vegna verður barnið heilagt, sonur Guðs.“ Það var stórkostlegt kraftaverk að flytja líf sonar Guðs frá himnum og setja í móðurlíf Maríu.

Hefur þú séð myndir eða styttur af vitringunum þrem ásamt fjárhirðunum þar sem þeir heimsækja Jesú sem lítið barn? – Þetta er algeng sjón í kringum jólin. En þetta er ekki sannleikanum samkvæmt. Þessir vitringar voru í raun stjörnuspekingar og gerðu það sem er rangt í augum Guðs. Skoðum hvað gerðist þegar þeir komu til að sjá barnið. Biblían segir: „Þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess.“ Þegar hér var komið sögu var Jesús ekki lengur ungbarn sem lá í jötu heldur var hann orðinn eldri og bjó í húsi með Jósef og Maríu.

Hvernig fundu stjörnuspekingarnir Jesú? – Einhvers konar „stjarna“ á himnum leiddi þá fyrst til Heródesar konungs í Jerúsalem en ekki til Betlehem. Í frásögu Biblíunnar segir að Heródes hafi viljað finna Jesú til að drepa hann. Hugsaðu nú um þetta. Hver heldurðu að hafi látið eitthvað sem líktist stjörnu birtast á himnum til að vísa stjörnuspekingunum leiðina til Heródesar? – Það var ekki hinn sanni Guð, Jehóva, heldur andstæðingur hans, eða óvinur, Satan djöfullinn.

Satan reynir enn að telja fólki trú um að Jesús sé aðeins hjálparlaust ungbarn. En engillinn Gabríel sagði við Maríu að Jesús myndi ríkja sem konungur og að enginn endir yrði á ríki hans. Núna stjórnar Jesús sem konungur á himnum og hann mun brátt eyða öllum óvinum Guðs. Þetta er það sem við verðum að hafa í huga varðandi Jesú og það er nauðsynlegt að við segjum öðrum frá því.

^ gr. 3 Ef þú ert að lesa fyrir barn geturðu stoppað við þankastrikin og hvatt barnið til að tjá sig.