Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Frá töluðu orði til biblíutexta — frumkristnir menn og ritlistin

Frá töluðu orði til biblíutexta — frumkristnir menn og ritlistin

Frá töluðu orði til biblíutexta — frumkristnir menn og ritlistin

FJÖLMARGAR kynslóðir trúaðra hafa notað ómældan tíma í að lesa, rannsaka og brjóta til mergjar eitthvert frægasta ritverk sem gert hefur verið — Nýja testamentið, eins og kristnu grísku ritningarnar eru yfirleitt kallaðar. Þetta ritverk, og raunar Biblían öll, hefur haft gríðarleg áhrif á sögu og menningu veraldar, mótað siðferði og siðfræði og veitt innblástur bóklegri menningu og annarri listsköpun. Síðast en ekki síst hefur það hjálpað milljónum manna að afla sér nákvæmrar þekkingar á Guði og Jesú. (Jóhannes 17:3) Vera má að þú sért einn þeirra.

Hvorki guðspjöllin né aðrar bækur Grísku ritninganna voru ritaðar strax eftir dauða Jesú. Matteus mun hafa skrifað guðspjall sitt um 7 eða 8 árum síðar, en Jóhannes skrifaði guðspjall sitt um 65 árum eftir að Jesús dó. Hvernig gátu þeir sagt með óbrigðulli nákvæmni frá orðum og verkum Jesú? Ljóst er að heilagur andi Guðs leiðbeindi þeim. (Jóhannes 14:16, 26) En hvernig varðveittust kenningar Jesú og urðu síðar hluti hinnar helgu ritningar?

„Nánast ólæsir og óskrifandi“?

Sumir héldu því fram á síðustu öld að fyrstu lærisveinar Jesú hafi sennilega ekki fært í letur það sem Jesús kenndi og gerði heldur hafi hvort tveggja varðveist í munnlegri geymd. Fræðimaður nokkur segir til dæmis: „Nokkrir áratugir liðu frá því að Jesús starfaði meðal almennings þangað til höfundar guðspjallanna skrásettu orð hans. Á þessu tímabili var öll vitneskja um Jesú varðveitt í munnlegri geymd.“ Sumir fræðimenn halda því jafnvel fram að fyrstu lærisveinar Jesú hafi verið „nánast ólæsir og óskrifandi“. * Þeir fullyrða jafnframt að á þeim áratugum, sem frásögurnar af þjónustu Jesú varðveittust í munnlegri geymd, hafi verið aukið við þær og þær hafi verið umsamdar eða útfærðar nánar. Þar af leiðandi gefi þær hvergi nærri nákvæma mynd af veruleikanum.

Önnur kenning á fylgi að fagna meðal sumra fræðimanna. Hún er á þá leið að þeir lærisveinar Jesú, sem voru af hópi Gyðinga og stóðu honum næst, hafi sennilega fylgt kennsluaðferðum rabbína sem fólst í því að leggja efni á minnið með því að endurtaka það. Og það stuðlaði að því að hin munnlega geymd væri sem nákvæmust. En treystu lærisveinarnir eingöngu á munnlega geymd eða var sumt fært í letur til að varðveita heimildir um þjónustu Jesú? Vel má vera að ritað mál hafi verið notað þó að við getum ekki fullyrt það með vissu.

Dagleg notkun ritmáls

Alls konar fólk var læst og skrifandi á fyrstu öld. Um þetta mál segir Alan Millard, prófessor í hebresku og forn-semítískum málum: „Ritlistin var útbreidd meðal grísku-, arameísku- og hebreskumælandi fólks og var þekkt á öllum stigum þjóðfélagsins.“ Hann bætir svo við: „Þetta var það umhverfi sem Jesús starfaði í.“

Um þá fullyrðingu að guðspjallatextarnir hafi „orðið til í samfélagi sem var algerlega ólæst og óskrifandi“ segir prófessor Millard: „Það verður að teljast ólíklegt því að ritlistin hefur verið þekkt alls staðar . . . Þar af leiðandi var yfirleitt nærstatt fólk sem gat skrásett það sem það heyrði, annaðhvort til eigin nota eða til að upplýsa aðra.“

Ljóst er að auðvelt var að ná í vaxtöflur sem hægt var að nota til að punkta niður upplýsingar. Dæmi um það er að finna í fyrsta kafla Lúkasarguðspjalls. Þar segir frá því að Sakaría, sem hafði misst málið um tíma, hafi verið spurður hvað sonur hans ætti að heita. Í versi 63 segir: „Hann bað um spjald [eflaust með bendingum] og reit: ‚Jóhannes er nafn hans.‘“ Í biblíuhandbókum kemur fram að orðið „spjald“ merki hugsanlega vaxborið tréspjald ætlað til að skrifa á. Einhver viðstaddra kann að hafa haft slíka vaxtöflu meðferðis sem Sakaría gat gripið til.

Lítum á annað dæmi sem sýnir að vaxtöflur voru þekktar og notaðar á þeim tíma. Í Postulasögunni segir frá því að Pétur hafi ávarpað mannfjölda á musterissvæðinu og sagt: „Takið því sinnaskiptum . . . svo að [Guð] afmái syndir ykkar.“ (Postulasagan 3:11, 19) Sögnin ‚afmá‘ er þýðing grískrar sagnar sem merkir „þurrka út, stroka út“. Í biblíuorðabókinni The New International Dictionary of New Testament Theology segir: „Hér og ef til vill annars staðar er þessi sögn notuð til að draga upp þá mynd að slétta yfirborð vaxplötu til að hægt sé að skrifa á hana aftur.“

Í guðspjöllunum kemur einnig fram að meðal fylgjenda og áheyrenda Jesú var fólk sem þurfti líklega að skrifa eitthvað við dagleg störf. Til dæmis má nefna tollheimtumennina Matteus og Sakkeus (Matteus 9:9; Lúkas 19:2), samkundustjóra (Markús 5:22), hundraðshöfðingja (Matteus 8:5), Jóhönnu, konu ráðsmanns Heródesar Antípasar (Lúkas 8:3) og svo fræðimenn, farísea, saddúkea og öldunga sem sátu í æðstaráðinu. (Matteus 21:23, 45; 22:23; 26:59) Margir postular og lærisveinar Jesú, ef ekki allir, voru skrifandi.

Nemendur, kennarar og biblíuritarar

Til að kenna kristna trú þurftu lærisveinarnir ekki aðeins að vita hvað Jesús sagði og gerði heldur einnig að skilja hvernig lögmálið og spádómar Hebresku ritninganna áttu við hann. (Postulasagan 18:5) Athyglisvert er að Lúkas segir frá dæmi þar sem Jesús hitti tvo af lærisveinunum skömmu eftir að hann reis upp frá dauðum. Hvað gerði hann? „Hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það sem um hann er ritað í öllum ritningunum.“ Skömmu síðar sagði hann lærisveinunum: „‚Meðan ég var enn meðal ykkar sagði ég ykkur: Allt sem ritað er um mig í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum á að rætast.‘ Síðan lauk hann upp huga þeirra að þau skildu ritningarnar.“ (Lúkas 24:27, 44, 45) Síðar „minntust“ lærisveinarnir þess hvernig hann hafði upplýst þá. — Jóhannes 12:16.

Af þessum frásögum má ráða að postularnir og lærisveinarnir hafi lagt sig dyggilega fram við að lesa og rannsaka ritningarnar, til að skilja fyllilega merkingu þess sem þeir höfðu séð og heyrt varðandi Drottin Jesú Krist. (Lúkas 1:1-4; Postulasagan 17:11) Harry Y. Gamble er prófessor í nýjatestamentisfræði við Virginíuháskóla í Bandaríkjunum. Hann segir um þetta mál: „Það leikur varla vafi á því að kristnir menn, sennilega hópar þeirra, hafi frá upphafi helgað sig ítarlegum rannsóknum og túlkun á ritningum Gyðinga. Þeir hafa tekið saman sannanir fyrir kenningaratriðum kristninnar, byggðar á ritningartextunum, og fært þær í nothæfan búning til að boða kristna trú.“

Allt bendir þetta til þess að lærisveinar Jesú á fyrstu öld hafi ekki reitt sig eingöngu á munnlega geymd heldur lagt mikla áherslu á rannsóknir, lestur og ritun. Þeir voru nemendur, kennarar og biblíuritarar. Síðast en ekki síst voru þetta andlega sinnaðir menn sem reiddu sig á leiðsögn heilags anda. Jesús fullvissaði þá um að ‚andi sannleikans‘ myndi ‚minna þá á allt sem hann hafði kennt þeim‘. (Jóhannes 14:17, 26) Heilagur andi Guðs hjálpaði þeim að muna eftir og færa í letur það sem Jesús sagði og gerði, jafnvel langar ræður eins og fjallræðuna. (Matteus 5.–7. kafli) Heilagur andi leiðbeindi einnig guðspjallariturunum þannig að þeir gátu, þegar svo bar undir, lýst hvernig Jesú var innanbrjósts og hvað hann sagði í bænum sínum. — Matteus 4:2; 9:36; Jóhannes 17:1-26.

Þó að guðspjallaritararnir hafi vafalítið stuðst bæði við munnlega geymd og skráðar heimildir eiga skrif þeirra mun öruggari og háleitari höfund — sjálfan Jehóva Guð. Þess vegna er hægt að segja með öruggri vissu að ‚sérhver ritning sé innblásin af Guði‘ og geti kennt okkur og leiðbeint svo að við getum þóknast honum. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.

[Neðanmáls]

[Innskot á blaðsíðu 14]

Meðal fylgjenda Jesú var fólk sem þurfti líklega að skrifa eitthvað við dagleg störf.

[Innskot á blaðsíðu 15]

Heilagur andi hjálpaði lærisveinum Jesú á fyrstu öld að muna eftir og færa í letur það sem hann sagði og gerði.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 15]

 Voru postularnir ólæsir og óskrifandi?

Þegar höfðingjar og öldungar Jerúsalemborgar „sáu djörfung Péturs og Jóhannesar og skildu að þeir voru ekki lærðir, heldur óbrotnir alþýðumenn, undruðust þeir“. (Postulasagan 4:13) Merkir það að postularnir hafi verið ólæsir og óskrifandi? The New Interpreter’s Bible segir þar um: „Sennilega ber ekki að taka þetta bókstaflega og líta svo á að Pétur [og einnig Jóhannes] hafi verið ómenntaður, ólæs og óskrifandi. Hér er einfaldlega verið að lýsa hinum gríðarlega stéttarmun milli postulanna og þeirra sem sátu í dómarasætinu.“

[Mynd á blaðsíðu 13]

„Hann bað um spjald og reit: ‚Jóhannes er nafn hans.‘“

[Mynd á blaðsíðu 13]

Vaxtafla og skriffæri frá fyrstu eða annarri öld.

[Credit line]

© British Museum/Art Resource, NY