Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 Ævisaga

Jehóva hefur sannarlega hjálpað mér

Jehóva hefur sannarlega hjálpað mér

Við Evelyn vorum nýgift þegar við stigum út úr lestinni í þorpinu Hornepayne í Ontario, sem er í norðurhluta Kanada. Þetta var árla morguns og úti var nístingskuldi. Bróðir, sem þarna bjó, sótti okkur. Eftir staðgóðan morgunmat með honum, eiginkonu hans og syni, fórum við svo fótgangandi í snjónum til að boða fagnaðarerindið hús úr húsi. Síðdegis sama dag flutti ég minn fyrsta opinbera fyrirlestur sem farandhirðir. Við vorum fimm viðstödd, fleiri komu nú ekki.

REYNDAR truflaði það mig ekki hvað fáir hlustuðu á ræðuna mína við þetta tækifæri árið 1957. Ég hef nefnilega alltaf verið óskaplega feiminn. Þegar ég var strákur faldi ég mig venjulega þegar gesti bar að garði, jafnvel þótt ég þekkti þá.

Skiljanlega gætir þú orðið undrandi að vita að flest verkefni mín í söfnuði Jehóva hafa verið þannig að ég hef orðið að hafa samskipti við marga – bæði vini mína og ókunnuga. Ég hef samt þurft að berjast áfram við feimni og skort á sjálfstrausti svo ég get ekki eignað sjálfum mér neitt af því sem ég hef áorkað. Öllu heldur hef ég sannreynt loforð Jehóva: „Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með sigrandi hendi minni.“ (Jes. 41:10) Stuðningur trúsystkina minna er sú leið sem Jehóva hefur notað hvað mest til að hjálpa mér. Mig langar að segja frá nokkrum dæmum, og það fyrsta er frá því ég var barn.

HÚN NOTAÐI BIBLÍU OG LITLA SVARTA BÓK

Á sveitabæ fjölskyldunnar í suðvesturhluta Ontario.

Á sólríkum sunnudagsmorgni á fimmta áratug síðustu aldar barði Elsie Huntingford á dyr á sveitabæ fjölskyldunnar í suðvesturhluta Ontario. Móðir mín fór til dyra á meðan faðir minn, sem var álíka feiminn og ég, sat inni með mér og hlustaði. Hann hélt  að þarna væri sölukona á ferð og mamma myndi kaupa einhvern óþarfa, en að lokum fór hann fram til að segja henni að við hefðum ekki áhuga. Þá spurði hún: „Hafið þið ekki áhuga á biblíunámskeiði? „Að sjálfsögðu höfum við áhuga á því,“ svaraði pabbi.

Elsie Huntingford hefði ekki getað hitt betur á. Foreldrar mínir höfðu verið virkir meðlimir í sameinuðu mótmælendakirkjunni í Kanada en höfðu nýlega ákveðið að yfirgefa hana. Hvers vegna? Vegna þess að í anddyri kirkjunnar hafði presturinn sett upp lista með nöfnum allra sem höfðu gefið framlag, í röð eftir upphæð. Foreldrar mínir, sem höfðu ekki úr miklu að spila, voru oftast mjög neðarlega á listanum og öldungar kirkjunnar þrýstu á þau að gefa meira. Annar prestur viðurkenndi að hann kenndi það sem hann trúði ekki sjálfur á, til þess að missa ekki vinnuna. Þess vegna sögðum við okkur úr kirkjunni en vorum samt enn leitandi.

Þar sem starf votta Jehóva var bannað á þeim tíma í Kanada notaði systir Huntingford aðeins Biblíuna og nokkra minnispunkta sem hún var með í lítilli svartri bók, þegar hún kenndi okkur. Hún sýndi okkur seinna biblíutengd rit þegar hún hafði fullvissað sig um að við myndum ekki segja yfirvöldum til hennar. Við földum námsritin vandlega eftir hverja kennslustund. *

Foreldrar mínir tóku á móti sannleikanum og voru skírð 1948.

Systir Huntingford boðaði fagnaðarerindið af kostgæfni þrátt fyrir andstöðu og aðrar hindranir. Ákafi hennar hafði mikil áhrif á mig og ég ákvað að ég vildi þjóna Guði. Ári eftir að foreldrar mínir létu skírast sem vottar Jehóva lét ég skírast til tákns um vígsluheit mitt. Það var 27. febrúar 1949 og var gert í vatnsþró úr málmi sem bændur notuðu til að brynna skepnum. Ég var 17 ára gamall. Þaðan í frá var ég staðráðinn í að þjóna Jehóva í fullu starfi.

JEHÓVA HJÁLPAÐI MÉR AÐ SÝNA HUGREKKI

Mér til undrunar var mér boðið á Betel árið 1952.

Ég hikaði við að fara strax út í brautryðjandastarf. Um tíma vann ég í banka og á skrifstofu því að ég taldi sjálfum mér trú um að til þess að verða brautryðjandi þyrfti ég fyrst að vinna mér inn peninga til að sjá mér farborða. Sem óreyndur unglingur eyddi ég jafnóðum peningunum sem  ég aflaði. Þá hvatti bróðir að nafni Ted Sargent mig til að setja traust mitt á Jehóva og vera hugrakkur. (1. Kron. 28:10) Eftir þessa hvatningu gerðist ég brautryðjandi í nóvember 1951. Ég átti einungis 40 dollara, gamalt reiðhjól og nýja starfstösku. En Jehóva sá alltaf til þess að ég hefði það sem ég þarfnaðist. Ég er ævinlega þakklátur fyrir að Ted skuli hafa hvatt mig til að gerast brautryðjandi. Það hafði í för með sér enn meiri blessun.

Kvöld eitt í lok ágúst 1952 fékk ég upphringingu frá Toronto. Deildaskrifstofa Votta Jehóva í Kanada bauð mér að hefja störf á Betel þann 1. september. Enda þótt ég væri feiminn og hefði aldrei heimsótt deildarskrifstofuna var ég eftirvæntingarfullur því aðrir brautryðjendur höfðu farið fögrum orðum um Betel. Mér leið strax eins og heima hjá mér.

SÝNDU TRÚSYSTKINUM ÞÍNUM AÐ ÞÉR ÞYKI VÆNT UM ÞAU

Tveim árum eftir að ég kom á Betel tók ég við af Bill Yacos sem safnaðarþjónn (sem nú kallast umsjónarmaður öldungaráðs) í Shaw-söfnuðinum í Toronto. Þar sem ég var bara 23 ára leið mér eins og óreyndum sveitastrák. En bróðir Yacos sýndi mér á auðmjúkan og kærleiksríkan hátt hvað ég ætti að gera og Jehóva hjálpaði mér svo sannarlega.

Bróðir Yacos var þéttur á velli og það var alltaf stutt í brosið hjá honum. Hann sýndi fólki áhuga. Hann elskaði söfnuðinn og söfnuðurinn elskaði hann. Hann heimsótti bræður og systur oft, en ekki bara þegar þau áttu við vandamál að glíma og hvatti mig til að gera slíkt hið sama og að boða fagnaðarerindið með bræðrum og systrum. Hann sagði: „Ken, sýndu trúsystkinum þínum að þér þyki vænt um þau. Það breiðir yfir marga bresti.“

KONAN MÍN SÝNIR MIKLA TRÚMENNSKU

Jehóva hefur hjálpað mér á alveg sérstakan hátt frá því í janúarmánuði 1957. Þá kvæntist ég Evelyn, en hún hafði útskrifast með 14. nemendahópi Gíleaðskólans. Áður en við giftumst hafði hún starfað í frönskumælandi hluta Quebec. Í þá daga stjórnaði rómversk-kaþólska kirkjan Quebec að stórum hluta, þannig að Evelyn glímdi við mjög krefjandi verkefni, en hún sýndi bæði því og Jehóva trúmennsku.

Við Evelyn gengum í hjónaband árið 1957.

Evelyn hefur líka sýnt mér mjög mikla trúmennsku. (Ef. 5:31) Satt best að segja kom það strax í ljós eftir brúðkaupið. Við höfðum áformað að fara í brúðkaupsferð til Flórída í Bandaríkjunum, en daginn eftir brúðkaupið fékk ég beiðni frá deildarskrifstofunni um að mæta á vikulangan fund á Betel í Kanada. Fundurinn setti að sjálfsögðu áætlun okkar úr skorðum, en við Evelyn vildum gera hvaðeina sem Jehóva bæði okkur um, þannig að við hættum við brúðkaupsferðina. Evelyn fór í boðunarstarfið í nágrenni við deildarskrifstofuna vikuna sem fundurinn stóð. Þó að þetta svæði hafi verið gerólíkt svæðinu í Quebec sýndi hún þrautseigju.

Í lok vikunnar fékk ég óvæntar fréttir. Ég var útnefndur farandhirðir í norðurhluta Ontario. Ég var nýgiftur, ekki nema 25 ára gamall og alveg óreyndur. En af stað héldum við og treystum  algerlega á Jehóva. Þegar vetur var harðastur í Kanada stigum við um borð í næturlest með hópi reyndra farandhirða sem voru á leið til baka á starfssvæði sín. Þeir voru sérstaklega hvetjandi við okkur. Þar var bróðir sem krafðist þess meira að segja að við tækjum hans pláss í svefnvagni, svo við þyrftum ekki að sitja alla nóttina. Næsta morgun, aðeins 15 dögum eftir brúðkaupið, vorum við svo á leið til litla hópsins í Hornepayne, eins og ég sagði frá í upphafi greinarinnar.

Fleiri breytingar voru í vændum hjá okkur Evelyn. Þegar ég var umdæmishirðir síðla árs 1960 fékk ég boð um að sækja Gíleaðskólann með 36. nemendahópi skólans. Þetta var tíu mánaða námskeið sem átti að hefjast snemma í febrúar 1961 í Brooklyn í New York. Ég var að sjálfsögðu himinlifandi, en sú staðreynd að Evelyn var ekki boðið með dró úr gleði minni. Hún var beðin um að senda skriflega yfirlýsingu, eins og eiginkonur í svipaðri stöðu, um að hún myndi sætta sig við að við yrðum aðskilin í að minnsta kosti tíu mánuði. Evelyn táraðist við tilhugsunina, en við vorum sammála um að ég skyldi fara í skólann og hún gladdist yfir því að ég fengi dýrmæta þjálfun í Gíleaðskólanum.

Á meðan vann Evelyn á deildarskrifstofunni í Kanada. Hún varð þeirrar ánægju aðnjótandi að deila herbergi með kærri systur, Margaret Lovell, sem var andasmurð. Að sjálfsögðu söknuðum við Evelyn hvort annars mjög mikið. En með hjálp Jehóva gátum við einbeitt okkur að þeim verkefnum sem við höfðum til bráðabirgða. Það snerti mig djúpt hve fús hún var að fórna samverustundum okkar svo að við gætum komið Jehóva og söfnuði hans að meira gagni.

Eftir að hafa verið í Gíleaðskólanum í um þrjá mánuði fékk ég einstakt boð frá bróður Nathan Knorr sem var þá í forsvari fyrir söfnuðinn út um allan heim. Hann spurði hvort ég væri tilbúinn að hætta í Gíleaðskólanum og snúa aftur til Kanada, til að vera um tíma leiðbeinandi í skóla fyrir öldunga á deildarskrifstofunni. Bróðir Knorr sagði mér að ég þyrfti ekki að þiggja boðið, ég gæti lokið Gíleaðskólanum ef ég óskaði þess, og ef til vill starfað síðan sem trúboði. Hann sagði líka að ef ég færi til baka til Kanada gæti svo farið að mér yrði ekki boðið aftur að sækja Gíleaðskólann og ég yrði síðar sendur aftur í boðunarstarfið í Kanada. Hann sagði að ég skyldi ákveða mig eftir að hafa ráðfært mig við eiginkonu mína.

Þar sem Evelyn hafði þegar sagt mér sína skoðun á verkefnum í söfnuðinum sagði ég strax við bróður Knorr: „Við gerum með gleði hvaðeina sem söfnuður Jehóva vill að við gerum.“ Við höfum alltaf hugsað sem svo að við myndum fara þangað sem söfnuður Jehóva sendir okkur, óháð okkar óskum.

Þess vegna fór ég frá Brooklyn í apríl 1961 og sneri aftur til Kanada til að kenna í Ríkisþjónustuskólanum. Seinna fórum við að vinna á  Betel. Mér til mikillar undrunar fékk ég boð um að sækja Gíleaðskólann með 40. nemendahópnum sem átti að hefja nám árið 1965. Enn og aftur þurfti Evelyn að senda skriflega yfirlýsingu um að hún sætti sig við aðskilnað okkar á meðan. En okkur til mikillar ánægju fékk hún sjálf, nokkrum vikum síðar, boð um að sækja skólann með mér.

Eftir að við komum í Gíleaðskólann sagði bróðir Knorr okkur að nemendur í frönskumælandi hópnum, sem við tilheyrðum, yrðu sendir til Afríku. Við útskriftarathöfnina var okkur hins vegar tilkynnt að við yrðum send aftur til Kanada. Ég var útnefndur sem nýr umsjónarmaður deildarskrifstofunnar (nú kallað ritari deildarnefndarinnar). Ég var aðeins 34 ára gamall og minnti bróður Knorr á að ég væri enn þá nokkuð ungur. En hann stappaði í mig stálinu. Alveg frá byrjun reyndi ég að ráðfæra mig við mér eldri og reyndari bræður á Betel áður en ég tók mikilvægar ákvarðanir.

ÉG BÆÐI LÆRÐI OG KENNDI Á BETEL

Þjónustan á Betel hefur gefið mér stórkostleg tækifæri til að læra af öðrum. Ég dáist að hinum bræðrunum í deildarnefndinni og ber mikla virðingu fyrir þeim. Við höfum kynnst hundruðum bræðra og systra á öllum aldri hér á Betel og í söfnuðunum sem við höfum starfað með. Allt þetta fólk hefur líka haft góð áhrif á mig.

Umræða um dagstextann við morgunverðarborðið á Betel í Kanada.

Þjónustan á Betel hefur einnig gefið mér tækifæri til að kenna öðrum og styrkja trú þeirra. Páll postuli sagði við Tímóteus: „Halt þú stöðuglega við það sem þú hefur numið“. Hann sagði einnig: „Það sem þú heyrðir mig tala í margra votta viðurvist skalt þú fá í hendur trúum mönnum sem líka munu færir um að kenna öðrum.“ (2. Tím. 2:2; 3:14) Stundum er ég spurður að því hvað þau 57 ár, sem ég hef starfað á Betel, hafi kennt mér. Svar mitt er einfalt, að gera fúslega og tafarlaust það sem söfnuður Jehóva biður mig um að gera og treysta því að Jehóva hjálpi mér.

Mér finnst eins og það hafi verið í gær sem ég kom fyrst á Betel, feiminn og óreyndur ungur maður. ,Jehóva hefur haldið í hægri hönd mína‘ öll þessi ár. „Óttast eigi, ég bjarga þér.“ Jehóva hefur alltaf fullvissað mig um það og hefur notað til þess bræður og systur sem hafa sýnt mér góðvild og veitt mér þarfa aðstoð. – Jes. 41:13.

^ gr. 10 Kanadastjórn aflétti banninu 22. maí 1945.