Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig ættum við að „svara hverjum manni“?

Hvernig ættum við að „svara hverjum manni“?

„Mál ykkar sé ætíð ljúflegt ... til þess að þið vitið hvernig þið eigið að svara hverjum manni.“ – KÓL. 4:6.

1, 2. (a) Endursegðu frásögu sem sýnir hvað það er mikilvægt að spyrja spurninga sem hitta í mark. (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Af hverju þurfum við ekki að kvíða því að ræða erfið málefni?

FYRIR allnokkrum árum var trúsystir okkar að ræða um Biblíuna við manninn sinn sem var ekki vottur. Hann var óvirkur meðlimur í einni af kirkjum kristna heimsins. Hann sagði henni að hann tryði þrenningarkenningunni. Hún áttaði sig á því að hann vissi ekki um hvað þrenningarkenningin snerist í raun og spurði hann því góðlátlega: „Trúir þú því að Guð sé Guð, að Jesús sé Guð og að heilagur andi sé Guð en þrátt fyrir það séu þeir ekki þrír, heldur einn Guð?“ Maðurinn svaraði með undrunarsvip og sagði: „Nei, ég trúi því ekki!“ Þannig hófust fjörugar samræður um raunverulegt eðli Guðs.

2 Þessi frásaga sýnir okkur hversu gagnlegt það getur verið að nota spurningar af háttvísi. Í henni er okkur líka kennt annað sem er mjög mikilvægt: Við þurfum ekki að kvíða því að ræða erfið mál eins og þrenninguna, helvítiseld eða tilvist skapara. Ef við reiðum okkur á Jehóva og þjálfunina, sem við fáum frá honum, getum við oft svarað þannig að það nái til hjarta viðmælandans. (Kól. 4:6) Lítum nánar á hvernig færir  boðberar fara að því að ræða um slík mál. Við ætlum að skoða hvernig við getum (1) spurt spurninga sem fá viðmælandann til að tjá sig, (2) útskýrt biblíuvers og rökrætt út frá þeim og (3) notað líkingar til að koma boðskapnum skýrt til skila.

SPYRÐU SPURNINGA SEM HVETJA FÓLK TIL AÐ TJÁ SIG

3, 4. Af hverju er mikilvægt að nota spurningar til að komast að því hverju fólk trúir? Nefndu dæmi.

3 Spurningar geta hjálpað okkur að komast að því hverju fólk trúir. Af hverju er það mikilvægt? Í Orðskviðunum 18:13 segir: „Svari einhver áður en hann hlustar er það heimska hans og skömm.“ Það er þess vegna gott að reyna að komast að því hverju viðmælandi okkar trúir áður en við sökkvum okkur niður í djúpar umræður út frá Biblíunni um ákveðin málefni. Við gætum annars eytt miklum tíma í að reyna að afsanna eitthvað sem hann trúir ekki á. – 1. Kor. 9:26.

4 Segjum sem svo að við séum að ræða við einhvern um helvíti. Það trúa ekki allir að helvíti sé raunverulegur kvalastaður. Margir trúa því að helvíti þýði einfaldlega að eiga ekkert samband við Guð. Þá gætum við sagt eitthvað á þessa leið: „Mætti ég spyrja þig hvað þér finnst að helvíti sé, vegna þess að fólk hefur mismunandi hugmyndir um það?“ Eftir að hafa hlustað á svar viðkomandi erum við betur í stakk búin til að útskýra fyrir honum hvað Biblían segir um málið.

5. Hvernig getum við komist að því af hverju fólk trúir því sem það trúir?

5 Hnitmiðaðar spurningar gætu hjálpað okkur að komast að því af hverju fólk trúir því sem það trúir. Hvað eigum við að gera ef við hittum til dæmis einhvern í starfinu sem segist ekki trúa á Guð? Við göngum ef til vill út frá því að vinsælar kenningar hafi haft áhrif á viðmælandann, eins og til dæmis þróunarkenningin. (Sálm. 10:4) Sumir hafa hins vegar misst trúna á Guð af því þeir hafa orðið að þola miklar þjáningar eða horft upp á þær. Þeim finnst erfitt að trúa því að til sé kærleiksríkur skapari fyrst þjáningarnar eru svona miklar. Við gætum því spurt húsráðanda, sem efast um tilvist Guðs, hvort hann hafi alltaf verið þeirrar skoðunar. Ef hann svarar því neitandi gætum við spurt hann hvort það hafi verið eitthvað sérstakt sem olli því að hann fór að efast um tilvist Guðs. Við erum í betri aðstöðu til að hjálpa honum ef við hlustum vel á svar hans. – Lestu Orðskviðina 20:5.

6. Hvað ættum við að gera eftir að hafa borið upp spurningu?

6 Eftir að við berum upp spurningu ættum við að hlusta vel á svar húsráðanda og passa að gera ekki lítið úr skoðunum hans. Kannski varð hann fyrir einhverju áfalli og trúir þess vegna ekki lengur á kærleiksríkan skapara. Áður en við færum sönnur á að Guð sé til er betra að sýna honum samhug og segja honum að það sé ekki rangt að velta fyrir sér af hverju við þjáumst. (Hab. 1:2, 3) Þolinmæði okkar og umhyggjusemi gæti vakið hjá honum löngun til að vita meira. *

RÖKRÆDDU ÚT FRÁ BIBLÍUNNI

Hvað ræður árangri okkar í boðunarstarfinu að miklu leyti? (Sjá 7. grein.)

7. Hvað ræður miklu um það hvort boðunarstarf okkar ber árangur?

7 Við skulum nú skoða hvernig við getum rökrætt út frá því sem Biblían segir. Biblían er auðvitað aðalverkfæri okkar í boðunarstarfinu. Hún gerir okkur kleift að vera ,albúin og hæf til sérhvers góðs verks‘. (2. Tím. 3:16, 17) Árangur okkar í boðunarstarfinu ræðst að miklu leyti af því hvernig við útskýrum biblíuversin sem við lesum og rökræðum út frá  þeim, ekki eftir því hvað við lesum mörg vers. (Lestu Postulasöguna 17:2, 3.) Til að útskýra þetta nánar skulum við líta á þrjú dæmi.

8, 9. (a) Hvernig gætum við rökrætt við einhvern sem trúir að Guð og Jesús séu jafnir?(b) Hvaða fleiri leiðir hafa reynst þér vel til að rökræða við fólk um þetta mál?

8 Dæmi 1: Við hittum einhvern í boðunarstarfinu sem trúir að Guð og Jesús séu jafnir. Hvaða biblíuvers gætum við notað til að rökræða þetta mál? Við getum fengið húsráðanda til að lesa Jóhannes 6:38 þar sem Jesús segir: „Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gera vilja minn heldur vilja þess er sendi mig.“ Eftir að hann hefur lesið versið gætum við spurt: „Ef Jesús er Guð, hver sendi hann þá til jarðarinnar? Væri sá sem sendi hann ekki æðri? Sá sem sendir einhvern er æðri þeim sem er sendur.“

9 Eins gætum við lesið Filippíbréfið 2:9 þar sem Páll postuli útskýrir hvað Guð gerði eftir að Jesús dó og fékk upprisu. Þar stendur: „Því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra.“ Til að fá fólk til að rökhugsa um versið gætum við sagt: „Segjum að Jesús hafi verið jafn Guði áður en hann dó og Guð hafi síðan fengið honum hærri stöðu. Væri Jesús þá ekki kominn í hærri stöðu en Guð? En getur nokkur orðið æðri Guði?“ Sá sem ber virðingu fyrir orði Guðs og er auðmjúkur gæti viljað skoða málið betur eftir rökræður af þessu tagi. – Post. 17:11.

10. (a) Hvernig gætum við rökrætt við einhvern sem trúir á helvíti?(b) Hvaða rök hafa reynst þér vel þegar þú ræðir við fólk um helvíti?

10 Dæmi 2: Mjög trúaður húsráðandi á erfitt með að sætta sig við að vondir menn þurfi ekki að þjást að eilífu í helvíti. Trú hans á helvíti gæti tengst því að hann vill sjá réttlætinu fullnægt og hina vondu gjalda fyrir illsku sína. Hvernig gætum við rökrætt við einhvern sem hugsar svona? Við gætum byrjað á að fullvissa hann um að hinum vondu verði refsað. (2. Þess. 1:9) Síðan gætum við beðið hann um að lesa 1. Mósebók 2:16, 17 þar sem kemur fram að dauðinn sé refsing fyrir að óhlýðnast Guði. Við gætum útskýrt að með því að óhlýðnast Guði varð Adam þess valdur að allt mannkynið fæddist syndugt. (Rómv. 5:12) Og við getum bent á að Guð sagði ekkert um að refsa fólki í helvíti. Svo gætum við spurt: „Ef Adam og Eva áttu yfir höfði sér að verða kvalin að eilífu hefði þá ekki verið rétt að vara þau við því?“ Eftir það gætum við lesið 1. Mósebók 3:19 þar sem Guð ber upp dóm yfir þeim fyrir synd þeirra. En þar talaði hann heldur  ekkert um helvíti. Þess í stað sagði hann Adam að hann yrði aftur að mold. Við gætum því spurt: „Var rétt af Guði að segja Adam að hann yrði aftur að mold ef hann var í raun á leið til helvítis?“ Sá sem nálgast umræðuefnið með opnum huga gæti viljað skoða málið nánar ef við notum spurningar í líkingu við þessar.

11. (a) Hvernig gætum við rökrætt við þann sem trúir því að allt gott fólk fari til himna? (b) Hvaða rök hafa reynst þér vel þegar þú ræðir um hvort allir fari til himna?

11 Dæmi 3: Við hittum einhvern í boðunarstarfinu sem trúir því að allt gott fólk fari til himna. Að trúa því getur haft áhrif á það hvernig húsráðandi túlkar það sem hann les í Biblíunni. Hugsum sem svo að við lesum fyrir hann Opinberunarbókina 21:4 (Lestu.) Honum gæti fundist loforðin, sem við fáum í þessu versi, eiga við þá sem eru á himnum. Hvernig gætum við rökrætt við hann? Í stað þess að nota fleiri biblíuvers gætum við dregið fram áhugavert atriði í þessu versi. Hér segir: „Dauðinn mun ekki framar til vera.“ Við gætum spurt húsráðanda hvort hann sé sammála því að ef eitthvað er ekki framar til hafi það þurft að vera til. Hann á örugglega eftir að vera sammála því. Síðan getum við bent á að dauðinn hafi aldrei verið til á himnum. Það er aðeins hér á jörðinni sem fólk deyr. Því hljóta orðin í Opinberunarbókinni 21:4 að eiga við blessun Guðs yfir jörðinni í framtíðinni. – Sálm. 37:29.

NOTAÐU LÍKINGAR TIL AÐ KOMA BOÐSKAPNUM SKÝRT TIL SKILA

12. Af hverju notaði Jesús líkingar?

12 Jesús notaði ekki aðeins spurningar í boðunarstarfi sínu heldur einnig líkingar. (Lestu Matteus 13:34, 35.) Með líkingum náði Jesús að draga fram það sem bjó í hjarta þeirra sem hlustuðu á hann. (Matt. 13:10-15) Líkingarnar gerðu það að verkum að kennsla Jesú var aðlaðandi og það var auðveldara að festa hana í minni. Hvernig getum við notað líkingar þegar við kennum fólki?

13. Hvaða líkingu gætum við notað til að sýna fram á að Guð sé æðri Jesú?

13 Það er oftast best að nota einfaldar líkingar. Þegar við útskýrum fyrir einhverjum að Guð sé æðri Jesú gætum við til dæmis prófað að nota eftirfarandi tillögu. Við getum bent á að Guð og Jesús hafi notað fjölskyldutengsl til að lýsa sambandi sínu hvor við annan. Guð kallaði Jesú son sinn og Jesús kallaði Guð föður sinn. (Lúk. 3:21, 22; Jóh. 14:28) Þessu næst gætum við spurt húsráðandann: „Hvaða fjölskyldutengsl myndir þú nota ef þú ættir að útskýra fyrir mér að einhverjir tveir séu jafningjar?“ Húsráðanda gæti dottið í hug að nota systkini, jafnvel tvíbura. Ef hann gerir það gætum við tekið undir að það sé mjög eðlilegur samanburður. Við gætum síðan sagt: „Það er auðvelt fyrir okkur að finna svona góða samlíkingu. Hefði Jesús, kennarinn mikli, ekki átt auðvelt með koma auga á hana líka? Hann kaus hins vegar að kalla Guð föður sinn. Þannig gaf Jesús þá mynd af Guði að hann væri bæði eldri og valdameiri.“

14. Hvaða líkingu gætum við notað til að sýna fram á hversu órökrétt sé að hugsa sem svo að Guð láti Satan kvelja fólk í helvíti?

14 Lítum á aðra tillögu. Sumir trúa að Satan ráði ríkjum í helvíti. Líking getur hjálpað foreldrum að skilja hversu órökrétt það væri af Guði að láta Satan kvelja fólk í logandi víti. Við gætum ef til vill sagt: „Ímyndaðu þér að sonur þinn eða dóttir sé með uppsteyt og geri margt sem má ekki gera. Hvernig myndir þú taka á málinu?“ Sennilega myndi foreldrið reyna að koma vitinu fyrir barnið og reyna allt hvað það getur til að beina því inn á rétta braut. (Orðskv. 22:15) Þessu  næst gætum við spurt foreldrið hvað það myndi gera ef barnið þráaðist við öllu og héldi áfram að gera það sem er rangt. Flestir foreldrar væru sammála um að þeir neyddust til að refsa barninu ef ekkert annað virkaði. Spyrðu svo: „En hvernig myndi þér líða ef þú kæmist að því að illmenni hafi haft slæm áhrif á barnið þitt og þess vegna sé það svona uppreisnargjarnt?“ Foreldrið myndi að öllum líkindum reiðast slíkum manni. Til að kennslan með líkingunni komist skýrt til skila gætum við spurt: „Myndir þú fá þetta illmenni, sem hafði spillt barninu, til að aga það?“ Ekkert foreldri myndi vilja það. Það er því ljóst að Guð myndi ekki láta Satan sjá um að refsa fólki fyrir eitthvað sem Satan hefur sjálfur fengið það til að gera.

VERTU RAUNSÆR

15, 16. (a) Af hverju ættum við ekki að gera okkur óraunhæfar vonir um að allir sem við vitnum fyrir muni taka við boðskapnum? (b) Þurfum við að vera gædd sérstökum hæfileikum til að geta verið góðir kennarar? Skýrðu svarið. (Sjá rammann „ Greinaröð sem hjálpar okkur að svara fólki“.)

15 Við eigum ekki eftir að geta sannfært alla sem við tölum við um Guðsríki, jafnvel þótt við spyrðum alltaf réttu spurninganna, notuðum bestu rökin og brygðum upp bestu líkingunum. (Matt. 10:11-14) Jesús er besti kennari sem uppi hefur verið en þrátt fyrir það tóku fáir, sem hann prédikaði fyrir, við boðskapnum. – Jóh. 6:66; 7:45-48.

16 Við getum náð góðum árangri í boðunarstarfinu þótt okkur finnist við ekki búa yfir neinum sérstökum hæfileikum. (Lestu Postulasöguna 4:13.) Í orði Guðs fáum við staðfestingu á því að „allir þeir sem ætlaðir [eru] til eilífs lífs“ eigi eftir að taka við boðskapnum. (Post. 13:48) Við skulum því vera raunsæ og líta réttum augum bæði sjálf okkur og þá sem við tölum við um fagnaðarerindið. Nýtum okkur alla þá þjálfun sem Jehóva sér okkur fyrir og treystum að hún eigi eftir að koma bæði okkur og áheyrendum okkar að góðum notum. (1. Tím. 4:16) Jehóva getur kennt okkur hvernig við getum „svarað hverjum manni“. Góð leið til þess að ná árangri í boðunarstarfinu er að fylgja gullnu reglunni svokölluðu. Það skulum við líta nánar á í næstu grein.

^ gr. 6 Sjá greinina „Er hægt að byggja upp trú á skapara?“ í Varðturninum 1. janúar 2010.