Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Vel undirbúin bæn og það sem læra má af henni

Vel undirbúin bæn og það sem læra má af henni

„Lofað sé þitt dýrlega nafn.“ – NEH. 9:5.

1. Hvaða fjöldasamkomu ætlum við að skoða nánar og við hvaða spurningum leitum við svara?

 „RÍSIÐ upp og lofið Drottin, Guð ykkar, ævinlega.“ Með þessum hvetjandi orðum var fólki Guðs til forna boðið að sameinast í bæn sem er ein af þeim lengstu sem skráðar eru í Biblíunni. (Neh. 9:4, 5) Fólk hafði safnast saman í Jerúsalem 24. tísrí árið 455 f.Kr., en tísrí var sjöundi mánuðurinn samkvæmt almanaki Gyðinga. Þegar við kynnum okkur þá atburði, sem voru undanfari þessarar fjölmennu samkomu, skulum við velta fyrir okkur hvaða venja Levítanna hafi stuðlað að því að samkoman heppnaðist sérlega vel. Hvað annað má læra af þessari vel undirbúnu bæn? – Sálm. 141:2.

SÉRSTAKUR MÁNUÐUR

2. Hvernig eru Ísraelsmenn á dögum Esra okkur góð fyrirmynd?

2 Mánuði áður en þessi samkoma var haldin höfðu Gyðingar lokið við að endurbyggja múra Jerúsalem. (Neh. 6:15) Verkið hafði ekki tekið nema 52 daga og í framhaldi af því einbeitti þjóð Guðs sér að því að fullnægja andlegum þörfum sínum. Á fyrsta degi tísrí, mánaðarins á eftir, safnaðist þjóðin saman á torginu til að heyra Esra og aðra Levíta lesa upp lögmál Guðs og skýra það. Heilu fjölskyldurnar, allir sem „skilning höfðu til að hlusta“, stóðu og fylgdust með „frá birtingu til hádegis“. Þetta er ágæt áminning fyrir okkur sem sækjum samkomur í þægilegum ríkissal. Kemur stundum fyrir að hugurinn reikar meðan þú ert á samkomu og þú ferð að hugsa um eitthvað sem minna máli skiptir? Ef svo er skaltu leiða hugann að þessum Ísraelsmönnum forðum daga sem bæði hlustuðu og tóku til sín það sem lesið var. Það hafði svo sterk áhrif á fólkið að það grét yfir því að þjóðin skyldi ekki hafa hlýtt lögmáli Guðs. – Neh. 8:1-9.

3. Hvaða fyrirmælum hlýddu Ísraelsmenn?

3 Það var hins vegar ekki ætlunin að játa syndir þjóðarinnar á þessum degi. Þetta var hátíðardagur og þjónar Jehóva áttu að vera glaðir. (4. Mós. 29:1) Nehemía sagði því fólkinu: „Farið nú, snæðið ríkulega máltíð, drekkið sæt vín. Sendið þeim mat sem ekki hafa matbúið því að þessi dagur er helgaður Drottni okkar. Verið því ekki hryggir því að gleði Drottins er styrkur ykkar.“ Fólkið hlýddi og hélt „mikla gleðihátíð“ þann dag. – Neh. 8:10-12.

4. Hvað gerðu ísraelskir ættarhöfðingjar og hvað var gert daglega á þessari hátíð?

4 Daginn eftir söfnuðust ættarhöfðingjarnir saman til að kanna hvernig þjóðin gæti fylgt lögmáli Guðs betur. Þegar þeir rýndu í lögmálið uppgötvuðu þeir að 15. til 22. dag mánaðarins tísrí átti að halda laufskálahátíð sem lauk með hátíðarsamkomu. Þeir hófust því handa við að undirbúa hátíðina. Þetta reyndist vera besta laufskálahátíð sem haldin hafði verið síðan á dögum Jósúa. „Mikil gleði“ ríkti á hátíðinni. Mikilvægur þáttur hennar var að lesa „daglega upp úr lögmálsbók Guðs, frá fyrsta degi til hins síðasta“. – Neh. 8:13-18.

ÞJÓÐIN JÁTAÐI SYNDIR SÍNAR

5. Hvað gerði þjóð Guðs rétt áður en Levítarnir báðu fyrir hennar hönd?

5 Tveim dögum eftir laufskálahátíðina var tímabært að þjóðin játaði opinberlega þá synd sína að hafa ekki haldið lögmál Guðs. Þetta var ekki hátíðar- og veisludagur heldur fastaði fólk og klæddist hærusekk til tákns um sorg og harm. Enn á ný lásu Levítarnir upp úr lögmálinu í um það bil þrjár stundir að morgni. Síðdegis „játuðu [Ísraelsmenn] syndir sínar og féllu fram fyrir Drottni, Guði sínum“. Það var þá sem Levítarnir báru fram vel undirbúna bæn fyrir hönd þjóðarinnar. – Neh. 9:1-4.

6. Hvað hjálpaði Levítunum að fara með innihaldsríka bæn og hvað má læra af því?

6 Levítarnir voru vanir að lesa lögmál Guðs og það hefur vafalaust hjálpað þeim að undirbúa þessa innihaldsríku bæn. Í fyrstu tíu versunum er eingöngu rætt um verk og eiginleika Jehóva. Í framhaldinu minnast Levítarnir margsinnis á hina „miklu miskunnsemi“ Guðs og játa opinskátt að Ísraelsmenn verðskuldi hana ekki. (Neh. 9:19, 27, 28, 31) Hvað getum við lært af Levítunum? Við getum gert bænir okkar til Jehóva ferskar og innihaldsríkar ef við hugleiðum orð hans daglega og leyfum honum að tala til okkar áður en við biðjum til hans. – Sálm. 1:1, 2.

7. Um hvað báðu Levítarnir í bæn sinni og hvað getum við lært af því?

7 Í bæninni er aðeins að finna eina litla bón. Hún er í síðari hluta 32. versins en það hljóðar svo: „Guð vor, þú mikli, voldugi og ógurlegi Guð. Þú sem heldur sáttmálann í trúfesti. Lítilsvirtu ekki allt það harðræði sem vér höfum þolað, konungar vorir og höfðingjar, prestar og spámenn, feður vorir og öll þjóð þín, frá dögum Assýríukonunga og allt til þessa dags.“ Levítarnir eru okkur góð fyrirmynd að þessu leyti. Við ættum að lofa Jehóva og þakka honum áður en við biðjum um eitthvað handa sjálfum okkur.

ÞEIR LOFUÐU HIÐ MIKLA NAFN GUÐS

8, 9. (a) Hvernig hefja Levítarnir auðmjúka bæn sína? (b) Hvaða tvo himneska heri nefna Levítarnir?

8 Levítarnir voru auðmjúkir. Þó svo að þeir hefðu undirbúið bænina vel fannst þeim orð sín tæplega duga til að lofa Jehóva á þann hátt sem hann verðskuldaði. Þeir hefja því bænina með þessum hæversklegu orðum: „Lofað sé þitt dýrlega nafn þó að það sé hafið yfir alla lofgjörð og þökk.“ – Neh. 9:5.

9 „Þú ert Drottinn [„Jehóva“, NW], þú einn,“ segir síðan í bæninni. „Þú hefur gert himininn, himin himinsins og allan hans her, jörðina og allt sem á henni er, höfin og allt sem í þeim er. Þú fyllir þau öll lífi og himinsins her sýnir þér lotningu.“ (Neh. 9:6) Jehóva skapaði alheiminn og „allan hans her“ með sínum óteljandi stjörnum og vetrarbrautum. Og ekki er minna undur hvernig hann gerði jörðina úr garði. Hún getur viðhaldið ótrúlega fjölbreyttu lífríki, og allar lífverurnar fjölga sér eftir sinni tegund. Englar Guðs á himni urðu vitni að öllu þessu og þeir eru líka kallaðir „himinsins her“. (1. Kon. 22:19; Job. 38:4, 7) Englarnir gera vilja Guðs hógværir í bragði með því að þjóna syndugum mönnum sem „hjálpræðið eiga að erfa“. (Hebr. 1:14) Þeir eru okkur prýðileg fyrirmynd því að við eigum að þjóna Jehóva í einingu eins og agaður her. – 1. Kor. 14:33, 40.

10. Hvað lærum við af samskiptum Guðs við Abraham?

10 Þessu næst beindu Levítarnir athyglinni að samskiptum Guðs við Abram sem var þá orðinn 99 ára en hafði ekki eignast eitt einasta barn með Saraí, eiginkonu sinni. Það var þá sem Jehóva breytti nafni hans í Abraham sem merkir „faðir fjölda“. (1. Mós. 17:1-6, 15, 16) Guð hét Abraham einnig að niðjar hans myndu erfa Kanaansland. Menn eru oft gleymnir á loforð sín en Jehóva er ekki þannig. Levítarnir bentu á það í bæn sinni: „Þú, Drottinn, ert Guð. Þú sem valdir Abram. Þú leiddir hann frá Úr í Kaldeu og gafst honum nafnið Abraham. Þú reyndir hjarta hans að trúfesti við þig, þess vegna gerðir þú við hann þann sáttmála að gefa niðjum hans land Kanverja ... Þú hefur efnt fyrirheit þitt því að þú ert réttlátur.“ (Neh. 9:7, 8) Við skulum líkja eftir réttlátum Guði okkar og reyna alltaf að standa við orð okkar. – Matt. 5:37.

ÞAÐ SEM JEHÓVA GERÐI FYRIR ÞJÓÐ SÍNA

11, 12. Hvað merkir nafnið Jehóva og hvernig sýndi Jehóva í samskiptum við afkomendur Abrahams að hann bar nafnið með réttu?

11 Nafnið Jehóva merkir „hann lætur verða“ og gefur til kynna að hann vinni að því jafnt og þétt að efna loforð sín. Þetta sýndi sig greinilega í samskiptum hans við afkomendur Abrahams meðan þeir voru þrælar Egypta. Það virtist ekki nokkur möguleiki á því að þjóðin hlyti frelsi og settist að í fyrirheitna landinu. En Jehóva bjó svo um hnútana að loforð hans rættist. Hann sannaði þar með að hann bæri með réttu hið háleita nafn Jehóva.

12 Í bæninni, sem Nehemía skrásetti, segir um Jehóva: „Þú sást eymd feðra vorra í Egyptalandi og heyrðir neyðaróp þeirra við Sefhafið. Þú gerðir tákn og undur gegn faraó og öllum mönnum hans og allri þjóðinni í landi hans því að þú vissir að þeir hreyktu sér gegn Ísraelsmönnum og þú ávannst þér það nafn sem þú berð nú í dag. Þú klaufst hafið fyrir framan þá svo að þeir gengu á þurru mitt í gegnum hafið en þeim sem eltu þá steyptir þú í djúpið eins og steini í ólgandi vatnsflaum.“ Í framhaldinu er bent á annað sem Jehóva gerði fyrir þjóð sína: „Þú lagðir undir þá íbúa landsins, Kanverjana ... Þeir unnu víggirtar borgir og frjósama akra, tóku til eignar vel búin hús, úthöggna brunna, víngarða og ólífutré og fjölmörg ávaxtatré. Þeir átu, urðu mettir og fitnuðu og lifðu í velsæld af þínum ríkulegu gjöfum.“ – Neh. 9:9-11, 24, 25.

13. Hvernig sinnti Jehóva andlegum þörfum Ísraelsmanna en hvað gerði þjóðin?

13 Jehóva gerði margt annað til að hrinda vilja sínum í framkvæmd. Hann gaf til dæmis gaum að andlegum þörfum Ísraelsmanna skömmu eftir að þeir yfirgáfu Egyptaland. Levítarnir sögðu í bæn sinni til Guðs: „Þú steigst niður á Sínaífjall og ávarpaðir þá frá himni. Þú gafst þeim skýr fyrirmæli og traust lög, góð boð og ákvæði.“ (Neh. 9:13) Jehóva hafði útvalið Ísraelsmenn sem þjóð sína og ætlaði að gefa þeim fyrirheitna landið. Hann reyndi því að kenna þjóðinni svo að hún gæti borið heilagt nafn hans með sóma. En áður en langt um leið sneri þjóðin baki við því sem hún hafði lært. – Lestu Nehemíabók 9:16-18.

NAUÐSYNLEG ÖGUN

14, 15. (a) Hvernig annaðist Jehóva Ísraelsmenn þrátt fyrir syndir þeirra? (b) Hvað lærum við af samskiptum Guðs við útvalda þjóð sína?

14 Í bæn sinni minnast Levítarnir á tvær syndir sem Ísraelsmenn drýgðu skömmu eftir að þeir höfðu heitið að hlýða lögum Guðs við Sínaífjall. Þeir áttu ekkert annað skilið en að Jehóva yfirgæfi þá og þeir dæju í eyðimörkinni. En í bæninni segir um Jehóva: „Þrátt fyrir þetta yfirgafstu þá ekki í eyðimörkinni vegna þinnar miklu miskunnsemi ... Þú ólst önn fyrir þeim í fjörutíu ár, þá skorti ekkert ... klæði þeirra slitnuðu ekki og fætur þeirra þrútnuðu ekki.“ (Neh. 9:19, 21) Jehóva lætur okkur líka í té allt sem við þurfum til að þjóna honum dyggilega. Ekki viljum við líkjast Ísraelsmönnunum sem dóu þúsundum saman í eyðimörkinni vegna óhlýðni og trúleysis. Saga þeirra er rituð „til viðvörunar okkur sem endir aldanna er kominn yfir“. – 1. Kor. 10:1-11.

15 Eftir að Ísraelsmenn höfðu eignast fyrirheitna landið fóru þeir því miður að dýrka kanverska guði, og sú tilbeiðsla birtist meðal annars í kynferðislegu siðleysi og barnafórnum. Jehóva leyfði því grannþjóðunum að kúga þá. Þegar þeir iðruðust sýndi hann þeim þá miskunn að fyrirgefa þeim og bjarga þeim úr höndum óvina þeirra. Þetta gerðist „margsinnis“. (Lestu Nehemíabók 9:26-28, 31.) „Þú sýndir þeim þolinmæði í mörg ár,“ sögðu Levítarnir, „og varaðir þá við með anda þínum fyrir munn spámanna þinna en þeir hlustuðu ekki. Þá framseldir þú þá í hendur þjóðum í öðrum löndum.“ – Neh. 9:30.

16, 17. (a) Að hvaða leyti voru Ísraelsmenn í annarri aðstöðu eftir útlegðina en forfeður þeirra þegar þeir eignuðust fyrirheitna landið? (b) Hvað játuðu Ísraelsmenn og hverju lofuðu þeir?

16 Ísraelsmenn gerðust óhlýðnir að nýju eftir að þeir sneru heim úr útlegðinni. Í hvaða aðstöðu voru þeir á þeim tíma? Levítarnir sögðu í bæn sinni: „Þess vegna erum vér þrælar nú í dag. Þú gafst feðrum vorum landið til þess að þeir nytu ávaxta þess og auðs, en vér erum þrælar í því. Ríkulegir ávextir þess fara til konunga sem þú settir yfir oss vegna þess að vér syndguðum ... Þess vegna þrengir að oss.“ – Neh. 9:36, 37.

17 Voru Levítarnir að segja að það hafi verið ranglátt af Guði að leyfa þessa áþján? Alls ekki. „Þú varst réttlátur í öllu sem yfir oss kom því að þú sýndir trúfesti þegar vér breyttum óguðlega,“ sögðu þeir. (Neh. 9:33) Þessari óeigingjörnu bæn lýkur með hátíðlegu loforði um að þjóðin ætli þaðan í frá að hlýða lögum Guðs. (Lestu Nehemíabók 10:1; 10:30) Síðan var innsiglað samkomulag undirritað af 84 forystumönnum Gyðinga. – Neh. 10:2-28.

18, 19. (a) Hvað þurfum við að gera til að fá að ganga inn í nýja heiminn? (b) Um hvað ættum við að halda áfram að biðja og hvers vegna?

18 Við þurfum að fá ögun frá Jehóva til að vera hæf til að lifa í réttlátum nýjum heimi. „Öll börn búa við aga,“ segir Páll postuli. (Hebr. 12:7) Við sýnum að við þiggjum handleiðslu Guðs með því að vera þolgóð í þjónustu hans og leyfa honum að slípa okkur með anda sínum. Og ef við drýgjum alvarlega synd megum við treysta að Jehóva fyrirgefi okkur svo framarlega sem við iðrumst einlæglega og þiggjum ögun hans.

19 Bráðlega mun Jehóva upphefja nafn sitt – enn hærra en hann gerði þegar hann frelsaði Ísraelsmenn úr Egyptalandi. (Esek. 38:23) Þjóð Guðs til forna fékk að ganga inn í fyrirheitna landið, og það er jafn öruggt að þeir sem þjóna honum í trúfesti allt til enda fái að ganga inn í réttlátan nýjan heim. (2. Pét. 3:13) Við skulum því halda áfram að biðja þess að hið mikla nafn Guðs megi helgast. Í næstu grein er rætt um aðra bæn sem getur hjálpað okkur að gera það sem nauðsynlegt er til að hljóta blessun Guðs núna og að eilífu.