Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sköpunarverkið opinberar hinn lifandi Guð

Sköpunarverkið opinberar hinn lifandi Guð

„Verður ert þú, Drottinn vor og Guð, að fá dýrðina ... því að þú hefur skapað alla hluti.“ – OPINB. 4:11.

1. Hvað þurfum við að gera til að viðhalda sterkri trú?

MARGIR segjast aðeins trúa því sem þeir sjá með eigin augum. Hvernig getum við hjálpað slíku fólki að trúa á Jehóva? Eins og segir í Biblíunni er það nú einu sinni svo að „enginn hefur nokkurn tíma séð Guð“. (Jóh. 1:18) Og hvernig getum við viðhaldið sterkri trú á Jehóva, ,hinn ósýnilega Guð‘? (Kól. 1:15) Eitt fyrsta skrefið er að koma auga á kenningar sem skyggja á sannleikann um Jehóva. Síðan þurfum við að beita Biblíunni fagmannlega til að hrekja röksemdir sem eru bornar fram „gegn þekkingunni á Guði“. – 2. Kor. 10:4, 5.

2, 3. Nefndu tvær kenningar sem blinda fólk fyrir sannleikanum um Guð.

2 Þróunarkenningin er ein af þeim útbreiddu falskenningum sem blinda fólk fyrir sannleikanum um Guð. Þessi hugsmíð manna stangast á við Biblíuna og veitir fólki enga von. Í sinni einföldustu mynd er þróunarkenningin á þá leið að lífið hafi kviknað af sjálfu sér. Þannig gefur hún í skyn að líf okkar mannanna hafi engan tilgang.

3 Bókstafstrúarmenn kristna heimsins halda því hins vegar fram að alheimurinn sé ekki nema nokkur þúsund ára gamall, þar á meðal jörðin og lífið á henni. Þessi kennisetning er oft kölluð sköpunarhyggja og þeir sem halda henni fram bera margir hverjir djúpa virðingu fyrir Biblíunni. Hins vegar fullyrða þeir að Guð hafi skapað alla hluti á sex sólarhringum fyrir aðeins nokkur þúsund árum. Þeir hafna traustum vísindalegum gögnum sem stangast á við hugmyndir þeirra. Þar af leiðandi draga sköpunarsinnar úr trúverðugleika Biblíunnar því að þeir gefa í skyn að hún sé órökrétt og ónákvæm. Þeir sem aðhyllast þessar skoðanir minna kannski á fyrstu  aldar menn sem voru ,heitir í trú sinni á Guð en skorti réttan skilning‘. (Rómv. 10:2) Hvernig getum við beitt Biblíunni til að hrekja rótgrónar kenningar á borð við þróunarkenninguna og sköpunarhyggju? * Við getum aðeins gert það með því að leggja okkur fram við að byggja upp nákvæma þekkingu á því sem Biblían kennir.

TRÚ ER BYGGÐ Á STAÐREYNDUM OG RÖKUM

4. Á hverju ætti trú okkar að byggjast?

4 Biblían hvetur okkur til að hafa þekkingu í hávegum. (Orðskv. 10:14) Jehóva vill að við byggjum trú okkar á hann á þekkingu og rökum en ekki á heimspekikenningum manna eða trúarlegum erfikenningum. (Lestu Hebreabréfið 11:1.) Til að byggja upp sterka trú á Guð þurfum við að vera sannfærð um að hann sé til. (Lestu Hebreabréfið 11:6.) Við komumst ekki að þeirri niðurstöðu með óskhyggju heldur með því að kynna okkur staðreyndir og beita skynsemi okkar og rökhyggju.

5. Nefndu eina ástæðu fyrir því að við getum verið sannfærð um tilvist Guðs.

5 Páll postuli tiltekur eina ástæðu fyrir því að við getum verið sannfærð um að Guð sé til þó að við sjáum hann ekki. Hann skrifaði um Jehóva: „Ósýnilega veru hans, eilífan mátt og guðdómstign má skynja og sjá af verkum hans allt frá sköpun heimsins.“ (Rómv. 1:20) Hvernig geturðu sýnt manneskju, sem efast um að Guð sé til, fram á að Páll fari með rétt mál? Þú gætir notað einhverjar af eftirfarandi staðreyndum sem vitna um mátt og visku skaparans.

MÁTTUR GUÐS BIRTIST Í SKÖPUNARVERKINU

6, 7. Hvernig birtist máttur Jehóva í skjólhlífunum tveim sem umlykja jörðina?

6 Máttur Jehóva birtist meðal annars í skjólhlífunum tveim sem umlykja jörðina – lofthjúpnum og segulsviðinu. Lofthjúpurinn sér okkur ekki aðeins fyrir loftinu sem við öndum að okkur. Hann skýlir okkur líka fyrir stórum hluta af þeim loftsteinum sem þjóta um geiminn. Steinar, sem gætu valdið gríðarlegu tjóni, brenna yfirleitt upp þegar þeir koma inn í gufuhvolf jarðar, og við sjáum þá sem bjarta og fallega ljósrák á næturhimni.

7 Segulsvið jarðar er okkur líka til verndar. Þessi skjólhlíf á upptök sín í iðrum jarðar. Ytri kjarni jarðar er að mestu leyti úr bráðnu járni en hann myndar sterkt segulsvið sem umlykur okkur og teygir sig langt út í geiminn. Segulsviðið skýlir okkur fyrir geislun sem myndast við sólblossa og sprengingar í ystu lögum sólar. Segulsviðið sveigir þessa orkublossa af leið svo að þeir ná ekki niður á yfirborð jarðar þar sem þeir myndu tortíma lífríkinu. Í háloftunum rekast rafhlaðnar agnir frá sólinni á atóm og sameindir andrúmsloftsins og við það myndast norðurljós, og samsvarandi suðurljós á suðurhveli jarðar. Við sjáum merki um segulhlíf jarðar í þessum litfögru og dansandi ljósum á næturhimni. Jehóva er svo sannarlega „voldugur að afli“. – Lestu Jesaja 40:26.

VISKA GUÐS BIRTIST Í NÁTTÚRUNNI

8, 9. Hvernig birtist viska Jehóva í þeim hringrásum sem viðhalda lífi á jörð?

8 Viska Jehóva birtist í þeim hringrásum sem viðhalda lífi á jörðinni. Lýsum því með dæmi: Hugsaðu þér að þú búir í þéttbýlli borg með háum múrum í kring. Engin leið er að fá vatn utan frá né flytja sorp út fyrir múrana. Borgin yrði fljótlega  óbyggileg sökum úrgangs og óhreininda. Jörðin er að sumu leyti sambærileg við þessa borg. Hún hefur að geyma takmarkað magn af fersku vatni og ekki getum við flutt sorp og úrgang út í geiminn. Þessi „afgirta borg“ getur hins vegar viðhaldið lífverum í milljarðatali, kynslóð eftir kynslóð. Hvernig þá? Með því að endurvinna og endurnýta með undraverðum hætti þau efni sem eru undirstaða lífs.

9 Tökum súrefnishringrásina sem dæmi. Milljarðar lífvera anda að sér súrefni og anda frá sér koldíoxíði. En súrefnisbirgðirnar ganga aldrei til þurrðar og andrúmsloftið fyllist aldrei „úrgangsefninu“ koldíoxíði. Hvers vegna? Þar kemur til skjalanna undravert ferli sem kallast ljóstillífun. Grænu jurtirnar taka til sín koldíoxíð, vatn og næringarefni og nýta svo sólarljósið til að mynda kolvetni og súrefni. Hringrásinni er lokið þegar við öndum að okkur súrefninu. Jehóva notar gróðurinn, sem hann skapaði, til að gefa öllum „líf og anda“ í mjög svo bókstaflegri merkingu. (Post. 17:25) Hvílík viska!

10, 11. Hvernig eru kóngafiðrildið og drekaflugan lýsandi dæmi um snilligáfu Jehóva?

10 Snilligáfa Jehóva sýnir sig einnig í því hve ótrúlegur fjöldi skepna lifir hér á jörð. Áætlað er að tegundirnar séu einhvers staðar á bilinu 2 milljónir til 100 milljóna. (Lestu Sálm 104:24.) Lítum á dæmi um viskuna sem birtist í hönnun sumra af þessum lífverum.

Samsett augu drekaflugunnar bera vitni um visku Guðs. Augað er sýnt stækkað á innfelldri mynd. (Sjá 11. grein.)

11 Heili kóngafiðrildisins er á stærð við kúluna í kúlupenna. Þó ratar fiðrildið um 3.000 kílómetra leið þegar það flyst búferlum frá Kanada til ákveðins skógar í Mexíkó. Fiðrildið tekur mið af sólinni. En hvernig fer það að þegar sólin færist til á himninum? Jehóva hannaði þennan örsmáa heila þannig að hann gæti tekið tillit til breytilegrar afstöðu sólar á himni. Augu drekaflugunnar eru annað dæmi um snjalla hönnun. Flugan er með tvö samsett augu og í hvoru þeirra eru um 30.000 linsur. Agnarsmár heili hennar er samt fær um að vinna úr merkjunum frá öllum þessum linsum og skynja minnstu hreyfingar í umhverfi hennar.

12, 13. Hvað finnst þér merkilegt við hönnun frumnanna sem mannslíkaminn er gerður úr?

12 Enn tilkomumeira er þó að hugsa til þess hvernig Jehóva hannaði frumurnar sem allar lifandi verur eru gerðar úr. Í líkama þínum eru um það bil þúsund milljarðar frumna. Í hverri frumu er agnarsmá gormlaga sameind sem kallast DNA (deoxíríbósakjarnsýra). Í henni eru geymdar flestar þær upplýsingar sem þarf til að mynda líkama þinn frá toppi til táar.

13 Hve miklar upplýsingar getur DNA-sameindin geymt? Berum geymslurýmið í einu grammi af DNA saman við venjulegan geisladisk. Á einum geisladiski má  geyma efni heillar orðabókar sem er stórmerkilegt þar sem geisladiskurinn er lítið annað en þunn skífa úr plasti. Í einu grammi af DNA er hins vegar hægt að geyma jafn miklar upplýsingar og á þúsund milljörðum geisladiska. Með öðrum orðum gæti ein teskeið af DNA (þurrefni) innihaldið nægar upplýsingar til að mynda 350 sinnum fleiri manneskjur en búa á jörðinni núna.

14. Hvernig hugsarðu um Jehóva í ljósi nýlegra vísindauppgötvana?

14 Davíð konungur komst þannig að orði að þær upplýsingar, sem þarf til að mynda mannslíkama, væru eins og ritaðar í bók. Hann sagði um Jehóva Guð: „Augu þín sáu mig sem fóstur og í bók þinni voru allir hlutar þess skráðir, og dagarnir er þeir voru myndaðir, þótt enn væri enginn þeirra til.“ (Sálm. 139:16, NW) Það er skiljanlegt að Davíð skyldi lofa Jehóva þegar hann hugleiddi hvernig líkami hans var úr garði gerður. Uppgötvanir vísindamanna á síðustu árum hafa einungis aukið aðdáun okkar á Jehóva og því hvernig hann hannaði mannslíkamann. Við tökum heilshugar undir með sálmaskáldinu sem ávarpaði Jehóva með þessum orðum: „Ég lofa þig fyrir það að ég er undursamlega skapaður, undursamleg eru verk þín, það veit ég næsta vel.“ (Sálm. 139:14) Ber ekki sköpunarverkið greinilega vitni um að Guð sé til?

HJÁLPAÐU ÖÐRUM AÐ HEIÐRA HINN LIFANDI GUÐ

15, 16. (a) Hvernig hafa ritin okkar vakið fólk til vitundar um sköpunarmátt Jehóva? (b) Nefndu grein í flokknum „Býr hönnun að baki?“ sem höfðaði sérstaklega til þín.

15 Tímaritið Vaknið! hefur áratugum saman vakið fólk til vitundar um það sem læra má um hinn lifandi Guð af sköpunarverkinu. Í október-desember árið 2006 fjallaði blaðið um spurninguna: „Er til skapari?“ Þessi sérútgáfa blaðsins var samin í þeim tilgangi að opna augu þeirra sem aðhyllast þróunarkenninguna eða sköpunarhyggju. Systir nokkur skrifaði deildarskrifstofunni í Bandaríkjunum varðandi blaðið: „Það gekk ákaflega vel að dreifa þessari sérútgáfu. Kona nokkur bað um að fá 20 eintök. Hún er líffræðikennari og vildi að nemendurnir fengju blaðið.“ Bróðir skrifaði: „Ég er að verða 75 ára og byrjaði að boða fagnaðarerindið fyrir 1950 en ég hef aldrei notið starfsins betur en þennan mánuð sem við dreifðum sérútgáfu Vaknið!“

16 Undanfarin ár hafa birst greinar í flestum tölublöðum Vaknið! undir yfirskriftinni „Býr hönnun að baki?“ Í þessum stuttu greinum er rætt um þær stórsnjöllu hönnunarlausnir sem finna má í lífríkinu og bent á hvernig menn hafi reynt að herma eftir skaparanum. Árið 2010 fengum við í hendur bæklinginn Var lífið skapað? sem var gefinn út til að hjálpa okkur að heiðra Guð. Í honum eru fallegar myndir og skýringarteikningar sem sýna vel fram á snilligáfu Jehóva. Í lok hvers hluta eru spurningar til að hjálpa lesandanum að draga ályktanir af efninu sem hann er nýbúinn að lesa. Hefurðu notað þennan bækling þegar þú boðar fagnaðarerindið á götum úti, hús úr húsi eða óformlega?

17, 18. (a) Hvernig getið þið foreldrar byggt upp sjálfstraust hjá börnum ykkar til að verja trú sína? (b) Hvernig hafið þið notað bæklingana um sköpun í biblíunámi fjölskyldunnar?

17 Foreldrar, hafið þið farið yfir þennan bækling með börnum ykkar í fjölskyldunáminu? Með því að gera það getið þið styrkt trú þeirra á Guð. Kannski eigið þið börn á unglingsaldri sem eru í eldri bekkjum grunnskóla eða í framhaldsskóla. Þau eru sérstakur skotspónn þeirra sem fullyrða að þróunarkenningin sé staðreynd. Vísindamenn og kennarar halda þróunarkenningunni á lofti og  hið sama má segja um náttúrulífsmyndir og meira að segja kvikmyndir og sjónvarpsþætti sem skemmtanaiðnaðurinn framleiðir. Hægt er að nota annan bækling til að hjálpa unglingunum að standast þennan áróður. Hann nefnist The Origin of Life – Five Questions Worth Asking og var gefinn út árið 2010. Rétt eins og bæklingurinn Var lífið skapað? hvetur hann unglingana til að hugsa rökrétt. (Orðskv. 2:10, 11) Hann kennir þeim hvernig þeir geti lagt mat á hvort það stenst sem þeim er kennt í skólanum.

Foreldrar, búið börnin undir að verja trú sína. (Sjá 17. grein.)

18 Bæklingurinn The Origin of Life er saminn með það fyrir augum að hjálpa skólanemum að leggja mat á æsifengnar fréttir um að vísindamenn hafi fundið steingerða „týnda hlekki“. Bæklingurinn hvetur þá til að dæma um það sjálfir hvort þessar fréttir sanni að maðurinn hafi þróast af óæðri dýrum. Þeim er líka kennt að svara fyrir sig þegar fullyrt er að vísindamenn hafi sýnt fram á það á rannsóknarstofum að lífið hafi getað kviknað af sjálfu sér. Ef þið foreldrar notið þessa bæklinga getið þið gefið börnunum ykkar sjálfstraust til að svara þeim sem krefja þau um rök fyrir trú þeirra á skapara. – Lestu 1. Pétursbréf 3:15.

19. Hvaða heiðurs njótum við öll?

19 Efnið sem við fáum frá söfnuði Jehóva er byggt á vönduðum rannsóknum og það bendir okkur á fagra eiginleika hans sem birtast í náttúrunni. Þessi skýru ummerki um tilvist hans eru okkur hvöt til að lofa hann. (Sálm. 19:2, 3) Það er mikill heiður að mega veita Jehóva, skapara allra hluta, þá dýrð og vegsemd sem hann verðskuldar ríkulega. – 1. Tím. 1:17.

^ gr. 3 Í bæklingnum Var lífið skapað?, bls. 24 til 28, má finna nánari upplýsingar um hvernig hægt sé að rökræða við fólk sem aðhyllist sköpunarhyggju.