Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

,Færum fram gjöf til Drottins‘

,Færum fram gjöf til Drottins‘

,Færum fram gjöf til Drottins‘

HVERNIG læturðu í ljós þakklæti þitt þegar einhver gerir þér gott? Skoðum hvernig foringjar fyrir her Ísraels sýndu þakklæti sitt eftir að hafa barist við Midíaníta. Bardaginn fór fram eftir að Ísraelsmenn höfðu syndgað með því að tilbiðja Baal Peór. Guð veitti þjóð sinni sigur og herfanginu var skipt milli hermannanna 12.000 og Ísraels í heild. Í samræmi við leiðbeiningar Jehóva gáfu hermennirnir prestunum hluta af því sem þeir fengu, og aðrir Ísraelsmenn gáfu Levítunum samsvarandi hlut. — 4. Mós. 31:1-5, 25-30.

En foringjar hersins vildu gera enn betur. „Þjónar þínir hafa talið hermennina sem voru undir stjórn okkar,“ sögðu þeir við Móse, „og einskis þeirra var saknað.“ Þeir ákváðu að færa Jehóva gull og skartgripi að gjöf. Gullskartið, sem þeir gáfu, var meira en 190 kíló að þyngd. — 4. Mós. 31:49-54.

Margir vilja líka sýna Jehóva þakklæti sitt nú á dögum fyrir það sem hann hefur gert fyrir þá. Og það eru ekki aðeins vígðir þjónar Guðs sem finna til þakklætis. Rútubílstjóri nokkur er dæmi um það en hann ók hópi gesta, sem sótti alþjóðamót í Bologna á Ítalíu árið 2009, til og frá leikvanginum. Þar eð bílstjórinn var varkár og einstaklega þægilegur í viðmóti ákváðu farþegarnir að afhenda honum þakkarkort og gefa honum þjórfé ásamt bókinni Hvað kennir Biblían? „Ég tek fúslega við kortinu og bókinni,“ sagði bílstjórinn, en ég ætla að skila peningunum því að ég vil stuðla að því að þið haldið starfi ykkar áfram. Þó að ég sé ekki vottur Jehóva vil ég gefa þetta framlag vegna þess að ég sé að þið hafið kærleikann að leiðarljósi.“

Þeir sem vilja sýna Jehóva þakklæti sitt fyrir það sem hann hefur gert fyrir þá geta meðal annars gert það með framlögum til alþjóðastarfs Votta Jehóva. (Matt. 24:14) Í rammanum að neðan eru upplýsingar um hvernig sumir koma framlögum sínum til skila.

[Rammi á bls. 20, 21]

LEIÐIR TIL AÐ STYÐJA BOÐUNARSTARFIÐ FJÁRHAGSLEGA

Bein fjárframlög: Margir leggja til hliðar í hverjum mánuði ákveðna fjárhæð og setja hana í baukinn sem er ætlaður fyrir framlög til alþjóðastarfsins. Söfnuðirnir senda síðan þessi framlög til deildarskrifstofu Votta Jehóva.

Einstaklingar geta sent framlög beint til deildarskrifstofu Votta Jehóva, Sogavegi 71, 108 Reykjavík eða lagt þau inn á bankareikning 525-26-24564 hjá Íslandsbanka. Kennitala deildarskrifstofunnar er 591072-0219. Þeir sem vilja styðja alþjóðastarfið með reglulegum fjárframlögum og hafa aðgang að netbanka eða heimabanka geta látið bankann millifæra ákveðna upphæð með reglulegu millibili. Ef sent er framlag með ávísun á að stíla hana á deildarskrifstofu Votta Jehóva. Hvernig sem framlagið er sent væri gott að stutt skýring fylgdi með, þess efnis að um frjálst framlag sé að ræða.

Auk þess að gefa bein fjárframlög er hægt að styðja boðunarstarfið með eftirfarandi hætti:

Líftrygging: Hægt er að tilnefna söfnuð Votta Jehóva sem rétthafa bóta. Tryggingartaki þarf að eiga samráð við tryggingafélag sitt um slíka ráðstöfun.

Hlutabréf og önnur verðbréf: Hægt er að afhenda deildarskrifstofu Votta Jehóva hlutabréf og ýmis önnur verðbréf að gjöf. Hið sama er að segja um aðra lausafjármuni.

Fasteignir: Hægt er að afhenda söfnuði Votta Jehóva seljanlegar fasteignir að gjöf. Hafa skal samráð við deildarskrifstofuna áður en fasteign er ráðstafað með þeim hætti.

Erfðaskrá: Hægt er að ánafna söfnuði Votta Jehóva fasteignir eða lausafé í erfðaskrá. Erfðaskráin þarf að fullnægja opinberum formsskilyrðum.

Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá deildarskrifstofu Votta Jehóva í Reykjavík. Lesendur í öðrum löndum ættu að senda framlög sín til deildarskrifstofunnar í því landi þar sem þeir búa. Skrá um deildarskrifstofur og aðsetur þeirra má finna í ritum sem Vottar Jehóva gefa út.

Framlög í Ísrael fortíðar

Í Biblíunni er að finna skýr fyrirmæli um framlög sem Ísraelsmönnum var skylt að gefa. (3. Mós. 27:30-32; 4. Mós. 18:21, 24; 5. Mós. 12:4-7, 11, 17, 18; 14:22-27) Kröfunum var stillt í hóf og Jehóva hét því að veita þjóðinni „ríkuleg gæði“ ef hún hlýddi lögum hans. — 5. Mós. 28:1, 2, 11, 12.

Ísraelsmenn gátu einnig gefið sjálfviljaframlög og þá réðu menn sjálfir hve mikið eða lítið þeir gáfu. Þegar Davíð konungur áformaði að reisa Jehóva musteri gáfu þegnar hans „fimm þúsund gulltalentur“ til verksins. (1. Kron. 29:7) Berum það saman við atvik sem Jesús varð vitni að þegar hann var á jörð. Hann sá þá „ekkju eina fátæka leggja . . . tvo smápeninga“ í fjárhirslu musterisins. Upphæðin samsvaraði ekki nema 1/64 af daglaunum. Jesús sagði þó að gjöfin væri fyllilega boðleg. — Lúk. 21:1-4.

Þurfa kristnir menn að gefa ákveðna upphæð?

Kristnir menn eru ekki bundnir af Móselögunum og þar af leiðandi er þess ekki krafist að þeir leggi fram ákveðna upphæð til þjónustunnar við Guð. Þeir hafa engu að síður mikla ánægju af því að gefa, enda sagði Jesús: „Sælla er að gefa en þiggja.“ — Post. 20:35.

Vottar Jehóva styðja boðun fagnaðarerindisins um allan heim með frjálsum framlögum. Féð er meðal annars notað til að gefa út biblíutengd rit og til að reisa ríkissali og viðhalda þeim. Ekkert af þessu fé fer í launakostnað. Sumir sem nota allan sinn tíma til að boða fagnaðarerindið og gera fólk að lærisveinum fá hóflegt framlag til að standa undir ferðakostnaði og öðrum persónulegum útgjöldum. En enginn gerir kröfu um fjárhagslegan stuðning af því tagi. Fæstir af vottum Jehóva fá fjárstuðning til að sinna boðunarstarfinu. Flestir vinna veraldleg störf til að sjá sér farborða, rétt eins og Páll þegar hann vann við tjaldgerð. — 2. Kor. 11:9; 1. Þess. 2:9.

Hve mikið eigum við þá að gefa ef við viljum styðja boðun fagnaðarerindisins fjárhagslega? Páll postuli skrifaði: „Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.“ — 2. Kor. 8:12; 9:7.