Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Höfuðþættir Harmljóðanna

Höfuðþættir Harmljóðanna

Orð Jehóva er lifandi

Höfuðþættir Harmljóðanna

JEREMÍA hefur verið spámaður í 40 ár og sér þá rætast dómana sem hann hefur flutt. Hvernig er honum innanbrjósts þegar hann horfir upp á hvernig borgin, sem er honum svo kær, er lögð í rúst? „Jeremía settist niður og grét og flutti harmljóð þetta yfir Jerúsalem,“ segir í kynningu á Harmljóðunum í grísku Sjötíumannaþýðingunni. Borgin hafði verið umsetin í 18 mánuði áður en hún var brennd árið 607 f.Kr. Þessir atburðir eru spámanninum í fersku minni þegar hann yrkir Harmljóðin sama ár, og þau lýsa glögglega sálarkvöl hans yfir örlögum hennar. (Jeremía 52:3-5, 12-14) Engin önnur borg í sögu mannkyns hefur verið hörmuð með svo átakanlegum orðum.

Harmljóðin eru safn fimm ljóða sem eru vel fallin til söngs. Fyrstu fjögur ljóðin eru sorgarljóð. Þau eru svokallaðar griplur þar sem versunum er raðað í stafrófsröð eftir 22 bókstöfum hebreska starfrófsins. Fimmta ljóðið er bæn en þar er versunum ekki raðað í stafrófsröð þó að þau séu sömuleiðis 22 eins og stafir stafrófsins.

„AUGU MÍN DAPRAST AF GRÁTI“

(Harmljóðin 1:1–2:22)

„Æ, hversu einmana er nú borgin, sú er áður var svo fjölbyggð, orðin eins og ekkja, sú er voldug var meðal þjóðanna, furstafrúin meðal héraðanna orðin kvaðarkona.“ Þannig hefjast harmljóðin sem Jeremía spámaður orti um Jerúsalem. Um ástæðu þessarar ógæfu segir hann: „Drottinn hefir hrellt hana vegna hennar mörgu synda.“ — Harmljóðin 1:1, 5.

Jerúsalem er persónugerð eins og ekkja sem misst hefur eiginmann og börn, og hún spyr „hvort til sé önnur eins kvöl“ og hún þarf að þola. Hún ber fram bæn til Guðs varðandi óvini sína: „Lát alla illsku þeirra koma fyrir auglit þitt, og gjör við þá, eins og þú hefir gjört við mig vegna allra synda minna. Því að andvörp mín eru mörg, og hjarta mitt er sjúkt.“ — Harmljóðin 1:12, 22.

Harmi lostinn segir Jeremía: „[Jehóva] hjó af í brennandi reiði öll horn Ísraels, dró að sér hægri hönd sína frammi fyrir óvinunum og brenndi Jakob eins og eldslogi, sem eyðir öllu umhverfis.“ Spámaðurinn lýsir djúpstæðri sorg sinni og segir harmþrunginn: „Augu mín daprast af gráti, iður mín ólga, hjarta mitt ætlar að springa.“ Þeir sem eiga leið hjá undrast örlög borgarinnar og spyrja: „Er þetta borgin, hin alfagra, unun allrar jarðarinnar?“ — Harmljóðin 2:3, 11, 15.

Biblíuspurningar og svör:

1:15 — Hvernig hafði Jehóva „troðið vínlagarþró meynni Júda-dóttur“? Með mey er átt við Jerúsalem en Babýloníumenn höfðu úthellt svo miklu blóði þegar þeir eyddu borgina að það var engu líkara en verið væri að kremja vínber í vínþró. Jehóva sagði þetta fyrir og leyfði það og þess vegna er komist svo að orði að hann hafi ‚troðið vínlagarþró‘.

2:1 — Hvernig var ‚vegsemd Ísraels varpað frá himni til jarðar‘? Þar sem „himinninn er hærri en jörðin“ var stundum talað um að ‚varpa frá himni til jarðar‘ þegar eitthvað, sem hafði átt sér mikla upphefð, var niðurlægt. „Vegsemd Ísraels“ var varpað niður þegar Jerúsalem og Júda voru eydd en þar er átt við fegurð og vald Ísraels meðan blessunar Jehóva naut við. — Jesaja 55:9.

2:1, 6 — Hver var ‚fótskör‘ Jehóva og ‚skáli‘? Sálmaskáldið söng: „Látum oss ganga til bústaðar Guðs, falla fram á fótskör hans.“ (Sálmur 132:7) ‚Fótskörin‘ í Harmljóðunum 2:1 er musterið þar sem Jehóva var tilbeðinn. Babýloníumenn ‚brenndu musteri Drottins‘ eins og væri það skáli eða skúr í garði. — Jeremía 52:12, 13.

2:16, 17 — Ætti ekki 16. versið að hefjast á bókstafnum ajín og hið 17. á pe í samræmi við hebresku stafrófsröðina? Hinir innblásnu biblíuritarar fylgdu yfirleitt stafrófsröðinni þegar þeir beittu þessu stílbragði. Þeir gengu hins vegar ekki svo langt að málið yrði tilgerðarlegt eða óeðlilegt. Stílbragðið var einungis hugsað sem minnishjálp en merkingin var álitin mikilvægari. Sömu bókstöfum er einnig víxlað í 3. og 4. ljóði Harmljóðanna. — Harmljóðin 3:46, 49; 4:16, 17.

2:17 — Hvaða sérstöku „orð“ efndi Jehóva í sambandi við Jerúsalem? Hér mun vera vísun í 3. Mósebók 26:17 þar sem segir: „Ég vil snúa augliti mínu gegn yður, og þér skuluð bíða ósigur fyrir óvinum yðar, og fjandmenn yðar skulu drottna yfir yður, og þér skuluð flýja, þótt enginn elti yður.“

Lærdómur:

1:1-9. Jerúsalem grætur sáran um nætur og tárin streyma niður vanga hennar. Borgarhliðin eru eydd og prestarnir andvarpa. Meyjar hennar eru sorgbitnar og sjálf er hún hrygg í hjarta. Af hverju? Af því að borgin hefur syndgað stórlega. Óhreinleikinn loðir við klæðafald hennar. Brot hennar eru henni ekki til gleði heldur tilefni tára, andvarpa, sorgar og hryggðar.

1:18. Jehóva er alltaf réttlátur þegar hann refsar syndurum.

2:20. Ísraelsmenn voru varaðir við því að þeir myndu kalla yfir sig bölvun ef þeir hlýddu ekki rödd Jehóva. Meðal annars myndu þeir „eta lífsafkvæmi sín“. (5. Mósebók 28:15, 45, 53) Það er afar óskynsamlegt að óhlýðnast Guði.

„BYRG EKKI EYRA ÞITT . . . KOM MÉR TIL HJÁLPAR“

(Harmljóðin 3:1–5:22)

Í 3. kafla Harmljóðanna er talað um Ísrael sem mann. Þrátt fyrir mótlæti syngur hann: „Góður er Drottinn þeim er á hann vona, og þeirri sál er til hans leitar.“ Hann segir í bæn til Guðs: „Þú heyrðir hróp mitt: ‚Byrg ekki eyra þitt, kom mér til fróunar, kom mér til hjálpar.‘“ Hann biður Jehóva að gefa gaum að álasi óvinarins og segir: „Þú munt endurgjalda þeim, Drottinn, eins og þeir hafa til unnið.“ — Harmljóðin 3:1, 25, 56, 64.

Umsátrið um Jerúsalem stóð í 18 mánuði og var skelfilegt. Jeremía lýsir sterkum tilfinningum sínum vegna þessa og segir harmþrunginn: „Misgjörð dóttur þjóðar minnar var meiri en synd Sódómu, sem umturnað var svo að segja á augabragði, án þess að manna hendur kæmu þar nærri.“ Hann heldur áfram: „Sælli voru þeir er féllu fyrir sverði heldur en þeir er féllu fyrir hungri, þeir er hnigu hungurmorða, af því að enginn var akurgróðinn.“ — Harmljóðin 4:6, 9.

Í fimmta ljóðinu eru Jerúsalembúum lögð orð í munn. Þeir segja: „Minnstu þess, Drottinn, hvað yfir oss hefir gengið, lít þú á og sjá háðung vora.“ Um leið og þeir rekja raunir sínar biðja þeir: „Þú, Drottinn, ríkir að eilífu, þitt hásæti stendur frá kyni til kyns. Snú þú oss til þín, Drottinn, þá snúum vér við, lát þú daga vora aftur verða eins og forðum!“ — Harmljóðin 5:1, 19, 21.

Biblíuspurningar og svör:

3:15, 16 — Hvernig á að skilja orðin: „Hann . . . lét tennur mínar myljast sundur á malarsteinum“? Heimildarrit segir: „Á leiðinni í útlegðina urðu Gyðingar að baka sér brauð í holum sem þeir grófu í jörðina þannig að brauðið var blandað möl.“ Tennurnar gátu mulist sundur við það að borða þess konar brauð.

4:3, 10 — Af hverju líkir Jeremía ‚dóttur þjóðar sinnar‘ við ‚strútsfuglana í eyðimörkinni‘? Strúthænan er „hörð við unga sína, eins og hún ætti þá ekki,“ segir í Jobsbók 39:16. Eftir að hún hefur ungað út eggjunum fer hún oft burt með öðrum hænum en lætur hanann um að annast ungana. Og þegar hætta blasir við flýja bæði hænan og haninn hreiðrið og skilja ungana eftir. Mæður bera að jafnaði ríka umhyggju fyrir börnum sínum. Meðan umsátur Babýloníumanna stóð yfir varð hungursneyðin hins vegar slík að þær urðu eins og strútar í eyðimörkinni. Sjakalar sýna hvolpum sínum miklu meiri umhyggju en þetta.

5:7 — Lætur Jehóva fólk gjalda fyrir syndir feðranna? Nei, Jehóva refsar fólki ekki beint fyrir syndir forfeðranna. „Sérhver af oss [skal] lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig,“ segir Biblían. (Rómverjabréfið 14:12) Afleiðingar syndanna geta hins vegar verið langdregnar og komið niður á síðari kynslóðum. Skurðgoðadýrkun Ísraelsmanna forðum daga gerði jafnvel trúum Ísraelsmönnum síðar meir erfitt fyrir að ástunda réttlæti. — 2. Mósebók 20:5.

Lærdómur:

3:8, 43, 44. Jehóva neitaði að hlusta á þjóð sína þótt hún hrópaði á hjálp meðan ógæfan reið yfir Jerúsalem. Ástæðan var sú að þjóðin hafði óhlýðnast og iðraðist einskis. Við verðum að hlýða Jehóva ef við viljum að hann bænheyri okkur. — Orðskviðirnir 28:9.

3:21-26, 28-33. Hvernig getum við afborið miklar þjáningar? Jeremía svarar því. Við skulum ekki gleyma að Jehóva er ákaflega miskunnsamur og umhyggjusamur. Og höfum einnig hugfast að það eitt að við skulum vera til er næg ástæða til að gefa ekki upp vonina heldur vera þolinmóð og bíða hljóð eftir hjálpræði Jehóva, án þess að mögla. Við skulum ‚beygja munninn ofan að jörðu‘ með því að þola þrengingarnar með auðmýkt, minnug þess að Guð leyfir ekki að neitt hendi okkur nema hafa fullt tilefni til þess.

3:27. Prófraunir í æsku geta falist í því að þola erfiðleika og háðsglósur. En það er „gott . . . fyrir manninn að bera ok í æsku“ vegna þess að þjáningarokið, sem hann þarf að bera meðan hann er ungur, býr hann undir þá erfiðleika og þær prófraunir sem verða á vegi hans síðar á lífsleiðinni.

3:39-42. Það er ekki skynsamlegt að ‚andvarpa‘ og kvarta ef maður þarf að þjást vegna eigin synda. Í stað þess að kvarta yfir afleiðingum rangrar breytni ættum við að ‚rannsaka og prófa breytni okkar og snúa okkur til Drottins‘. Það er viturlegt að iðrast og bæta ráð sitt.

Treystu á Jehóva

Harmljóðin lýsa vel hvernig Jehóva leit á Jerúsalem og Júda eftir að Babýloníumenn höfðu brennt borgina og eytt landið. Syndajátningin, sem þar er að finna, sýnir svo ekki verður um villst að frá sjónarhóli Jehóva voru syndir þjóðarinnar orsök þess að hún þjáðist. Þessi innblásnu ljóð lýsa einnig sterkri von á Jehóva og löngun til að snúa aftur inn á rétta braut. Þannig hugsuðu að minnsta kosti Jeremía og iðrandi minnihluti þjóðarinnar þótt flestir hafi verið öðruvísi stemmdir.

Við lærum tvennt mikilvægt af þeirri afstöðu Jehóva til Jerúsalem sem lýst er í Harmljóðunum. Í fyrsta lagi er eyðing Jerúsalem og Júda hvatning til þess að hlýða Jehóva og viðvörun gegn því að hafa vilja hans að engu. (1. Korintubréf 10:11) Í öðru lagi er Jeremía fordæmi til eftirbreytni. (Rómverjabréfið 15:4) Þótt staðan virtist næstum vonlaus og spámaðurinn væri harmi lostinn treysti hann samt að Jehóva myndi tryggja hjálpræði hans. Það er ákaflega mikilvægt að treysta algerlega á Jehóva og orð hans. — Hebreabréfið 4:12.

[Mynd á blaðsíðu 9]

Jeremía spámaður sá dómsboðskap sinn rætast.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Þessir kóresku vottar varðveittu kristið hlutleysi sitt og sönnuðu þar með trúarstaðfestu sína.