Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvað má læra af frásögunni um fæðingu Jesú?

Hvað má læra af frásögunni um fæðingu Jesú?

Hvað má læra af frásögunni um fæðingu Jesú?

MILLJÓNIR manna eru heillaðar af atburðunum sem tengjast fæðingu Jesú. Til marks um það er sá fjöldi uppstillinga, sem sýndur er af fæðingu hans og leikrita sem flutt eru víðs vegar í heiminum um jólaleytið. Þótt atburðirnir í kringum fæðingu Jesú séu hrífandi voru þeir ekki skráðir í Biblíuna til að skemmta fólki heldur eru þeir hluti af Ritningunni sem Guð innblés til fræðslu og leiðréttingar. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.

Hefði Guð haft hug á að kristnir menn héldu upp á fæðingu Jesú hefði verið minnst á nákvæma dagsetningu í Biblíunni. Er það tilfellið? Albert Barnes, biblíufræðingur á 19. öld, nefnir að fjárhirðar hafi gætt hjarða sinna úti í haga að næturlagi um það leyti sem Jesús fæddist og kemst síðan að þessari niðurstöðu: „Það er augljóst á þessu að frelsari okkar var fæddur fyrir 25. desember. . . . Á þessum tíma er kalt í veðri, sérstaklega á hálendu og fjöllóttu svæðunum umhverfis Betlehem. Guð hefur haldið því leyndu hvenær [Jesús] fæddist. . . . Það skiptir heldur ekki máli að vita tímasetninguna; ef svo hefði verið hefði Guð varðveitt skráða tímasetningu.“

Guðspjallamennirnir fjórir gefa okkur aftur á móti nákvæmar upplýsingar um daginn sem Jesús lét lífið. Það gerðist á páskunum sem voru haldnir að vori, hinn 14. nísan samkvæmt gyðinglegu tímatali. Enn fremur bauð Jesús fylgjendum sínum sérstaklega að halda þann dag til minningar um sig. (Lúkas 22:19) Í Biblíunni er hvorki að finna fyrirmæli um að halda upp á fæðingardag Jesú né annarra ef því er að skipta. Því miður gæti ágreiningur um fæðingardag hans varpað skugga á eftirtektarverðari atburði sem gerðust um það leyti.

Guð velur foreldra

Hvers konar foreldra valdi Guð úr þúsundum fjölskyldna í Ísrael til að sjá um uppeldi sonar síns? Leit hann á frama og auðlegð sem mikilvæga þætti? Nei, Jehóva tók eftir andlegum eiginleikum foreldranna. Lítum á lofsöng Maríu eins og hann er skráður Lúkasi 1:46-55 en hún söng hann þegar henni hafði verið sagt að hún hlyti þau sérréttindi að verða móðir Messíasar. Hún sagði meðal annars: „Önd mín miklar Drottin . . . því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar.“ Hún leit auðmjúklega á sig „í smæð,“ sem ambátt Jehóva. Það er þó meira um vert að þessi fallega lofgerð í söng Maríu sýnir að hún var andlega sinnuð og hafði góða þekkingu á Ritningunni. Þótt hún væri syndugur afkomandi Adams var hún tilvalin til þess að verða jarðnesk móðir sonar Guðs.

Hvað er að segja um eiginmann Maríu sem varð stjúpfaðir Jesú? Jósef var smiður að mennt. Vegna þess að hann var fús að vinna hörðum höndum gat hann séð fyrir fjölskyldu sem um síðir taldi fimm syni og að minnsta kosti tvær dætur. (Matteus 13:55, 56) Jósef var ekki efnaður. Þegar María átti að færa frumburð sinn í musterið hlýtur það að hafa valdið Jósef vonbrigðum að geta ekki fórnað sauðkind. Þau urðu í staðinn að nýta sér undanþágu sem fátækir fengu. Um móður nýfædds sonar segir í lögmáli Guðs: „En ef hún á ekki fyrir sauðkind, þá færi hún tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur, aðra í brennifórn, en hina í syndafórn, og skal presturinn friðþægja fyrir hana, og er hún þá hrein.“ — 3. Mósebók 12:8; Lúkas 2:22-24.

Í Biblíunni segir að Jósef hafi verið „grandvar“ maður. (Matteus 1:19) Hann hafði til dæmis ekki samfarir við ósnortna eiginkonu sína fyrr en eftir fæðingu Jesú. Það kom í veg fyrir allan misskilning um hver væri raunverulegur faðir Jesú. Það hefur áreiðanlega ekki verið auðvelt fyrir nýgift hjón að búa undir sama þaki en njótast ekki, en það sýnir hvað þau mátu það bæði mikils að vera valin til að sjá um uppeldi sonar Guðs. — Matteus 1:24, 25.

Jósef var andlega sinnaður eins og María. Hann gerði hlé á vinnu sinni á hverju ári og fór með fjölskyldu sína í þriggja daga ferðalag frá Nasaret til Jerúsalem til þess að sækja hina árlegu páskahátíð. (Lúkas 2:41) Jósef hlýtur einnig að hafa vanið Jesú á þá siðvenju að taka vikulega þátt í tilbeiðslunni í samkunduhúsinu á staðnum þar sem orð Guðs var lesið upp og útskýrt. (Lúkas 2:51; 4:16) Það leikur enginn vafi á því að Guð valdi rétta jarðneska móður og réttan stjúpföður handa syni sínum.

Stórkostleg blessun fyrir óbrotna fjárhirða

Jósef fór til borgar forfeðra sinna til að láta skrásetja sig samkvæmt tilskipun keisarans þrátt fyrir að það væri erfitt fyrir eiginkonu hans sem komin var níu mánuði á leið. Þegar hjónin komu til Betlehem fundu þau hvergi húsaskjól vegna fjölmennis í borginni. Þau neyddust því aðstæðna vegna til að láta sér nægja fjárhús þar sem Jesús fæddist og var lagður í jötu. Til að styrkja trú þessara auðmjúku foreldra veitti Jehóva staðfestingu á því að þessi fæðing væri vissulega vilji hans. Sendi hann fulltrúanefnd áhrifamikilla öldunga frá Betlehem til að styrkja hjónin? Nei, Jehóva Guð opinberaði það vinnusömum fjárhirðum sem vöktu að næturlagi yfir fjárhópum sínum úti í haga.

Engill Guðs birtist þeim og sagði þeim að fara til Betlehem þar sem þeir myndu finna hinn nýfædda Messías „liggjandi í jötu.“ Fékk það mikið á þessa óbrotnu alþýðumenn eða urðu þeir vandræðalegir þegar þeir heyrðu að hinn nýfæddi Messías væri í fjárhúsi? Alls ekki. Þeir yfirgáfu tafarlaust hjarðir sínar og lögðu af stað til Betlehem. Þegar þeir fundu Jesú sögðu þeir Jósef og Maríu frá því sem engill Guðs hafði sagt. Án efa styrkti það trú hjónanna að allt færi á þann veg sem Guð hafði ásett sér. En fjárhirðarnir „sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það, sem þeir höfðu heyrt og séð.“ (Lúkas 2:8-20) Já, Jehóva hafði valið rétt þegar hann opinberaði þetta guðhræddum fjárhirðum.

Af framansögðu lærum við hvers konar fólk við verðum að vera til að njóta velþóknunar Jehóva. Við þurfum ekki að leita eftir frama eða auðlegð heldur þurfum við að hlýða Guði, eins og Jósef, María og fjárhirðarnir, og sýna kærleika okkar til hans með því að láta andleg málefni ganga fyrir efnislegum hlutum. Það er vissulega lærdómsríkt að hugleiða það sem skráð var um atburðina sem áttu sér stað um það leyti sem Jesús fæddist.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Til hvers bendir það að María fórnaði tveim dúfum?

[Mynd á blaðsíðu 7]

Guð kaus að opinbera nokkrum auðmjúkum fjárhirðum fæðingu Jesú.