Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hver er konan sem er minnst á í Jesaja 60:1 og hvernig stendur hún upp og lætur skína ljós?

Í Jesaja 60:1 segir: „Stattu upp, kona, láttu skína ljós því að ljós þitt er komið. Dýrð Jehóva skín á þig.“ Þegar samhengið er skoðað sést að konan var Síon, eða Jerúsalem, höfuðborg Júda á sínum tíma. a (Jes. 60:14; 62:1, 2) Jerúsalem merkir alla Ísraelsþjóðina. Þegar orð Jesaja eru skoðuð vakna tvær spurningar. Í fyrsta lagi, hvenær og hvernig stóð Jerúsalem upp og lét skína ljós? Í öðru lagi, rætast orð Jesaja í enn ríkari mæli á okkar tímum?

Hvenær og hvernig stóð Jerúsalem upp og lét skína ljós? Jerúsalem og musterið þar voru í rústum á meðan Gyðingar voru í útlegð í Babýlon í 70 ár. En eftir að Babýlon féll í hendur Meda og Persa var Ísraelsmönnum sem bjuggu víða í babýlonska heimsveldinu frjálst að snúa til heimalands síns og endurreisa sanna tilbeiðslu. (Esra. 1:1–4) Trúfastir þjónar sem eftir voru af ættkvíslunum 12 voru fyrstir til að snúa heim árið 537 f.Kr. (Jes. 60:4) Þeir byrjuðu að færa Jehóva fórnir, halda hátíðirnar og endurreisa musterið. (Esra. 3:1–4, 7–11; 6:16–22) Dýrð Jehóva fór enn á ný að skína á Jerúsalem – fólk Guðs sem hafði verið endurreist. Þannig varð fólk Guðs að ljósi fyrir þjóðirnar sem voru í andlegu myrkri.

En endurreisnarspádómar Jesaja uppfylltust aðeins að hluta til á Jerúsalem til forna. Ísraelsmenn héldu almennt ekki áfram að hlýða Guði. (Neh. 13:27; Mal. 1:6–8; 2:13, 14; Matt. 15:7–9) Seinna höfnuðu þeir meira að segja Messíasi, Jesú Kristi. (Matt. 27:1, 2) Árið 70 var Jerúsalem og musteri hennar eytt aftur.

Jehóva hafði sagt fyrir um þessi hörmulegu endalok. (Dan. 9:24–27) Það er ljóst að það var ekki ætlun hans að jarðnesk Jerúsalem uppfyllti til hlítar endurreisnarspádómanna í 60. kafla Jesaja.

Eru orð Jesaja að uppfyllast í fyllri merkingu á okkar dögum? Já, en þau rætast í tengslum við aðra táknræna konu – „Jerúsalem í hæðum“. Páll postuli skrifaði um hana: „Hún er móðir okkar.“ (Gal. 4:26) Jerúsalem í hæðum er himneskur hluti safnaðar Guðs sem samanstendur af trúföstum andaverum. Meðal ‚barna‘ hennar eru Jesús og 144.000 andasmurðir kristnir einstaklingar sem líkt og Páll eiga von um líf á himnum. Þeir mynda ‚heilaga þjóð‘ – „Ísrael Guðs“. – 1. Pét. 2:9; Gal. 6:16.

Hvernig stóð Jerúsalem í hæðum upp og fór að skína? Hún gerði það fyrir atbeina smurðra barna sinna á jörð. Berðu reynslu þeirra saman við það sem Jesaja spáði í 60. kafla.

Andasmurðir kristnir menn þurftu að ‚standa upp‘ vegna þess að þeir höfðu lent í andlegu myrkri þegar illgresi fráhvarfs hafði kæft þá á annarri öld eins og spáð hafði verið. (Matt. 13:37–43) Þannig urðu þeir fangar Babýlonar hinnar miklu, heimsveldis falskra trúarbragða. Hinir andasmurðu voru fangar þangað til „lokaskeið þessarar heimsskipanar“ rann upp árið 1914. (Matt. 13:39, 40) Skömmu síðar, árið 1919, fengu þeir frelsi og byrjuðu strax að láta andlegt ljós skína með því að einbeita sér af fullum þunga að boðuninni. b Í gegnum árin hefur fólk af öllum þjóðum komið til þessa ljóss, þar með talið þeir sem eftir eru af Ísrael Guðs – konungarnir í Jesaja 60:3. – Opinb. 5:9, 10.

Í framtíðinni munu andasmurðir kristnir menn endurspegla ljós Guðs í enn ríkari mæli. Hvernig þá? Þegar þeir ljúka jarðnesku lífi sínu verða þeir hluti af hinni „nýju Jerúsalem“, eða brúði Krists, sem er mynduð af 144.000 samkonungum hans og prestum. – Opinb. 14:1; 21:1, 2, 24; 22:3–5.

Hin nýja Jerúsalem gegnir lykilhlutverki í því að uppfylla Jesaja 60:1. (Berðu Jesaja 60:1, 3, 5, 11, 19, 20 saman við Opinberunarbókina 21:2, 9–11, 22–26.) Eins og Jerúsalem til forna var stjórnarsetur Ísraelsþjóðarinnar verður hin nýja Jerúsalem og Kristur stjórnin yfir nýrri heimsskipan. Hvernig mun hin nýja Jerúsalem „koma niður af himni frá Guði“? Með því að beina athyglinni að jörðinni. Fólk af öllum þjóðum sem óttast Guð mun „ganga í ljósi hennar“. Það mun jafnvel losna úr fjötrum syndar og dauða. (Opinb. 21:3, 4, 24) Árangurinn verður sá að allt verður fullkomlega „endurreist“ eins og Jesaja og aðrir spámenn sögðu fyrir. (Post. 3:21) Hin mikla endurreisn hófst þegar Kristur varð konungur og henni lýkur við endi þúsundáraríkis hans.

a Í Jesaja 60:1, notar Nýheimsþýðingin orðið „kona“ í staðinn fyrir „Síon“ eða „Jerúsalem“ vegna þess að hebresku sagnirnar „stattu upp“ og „láttu skína ljós“ eru í kvenkyni og líka fornafn þeirrar sem er ávörpuð. Orðið „kona“ hjálpar lesandanum að átta sig á að verið sé að ávarpa táknræna konu.

b Þessari andlegu endurreisn sem átti sér stað árið 1919 er líka lýst í Esekíel 37:1–14 og Opinberunarbókinni 11:7–12. Esekíel spáði fyrir um andlega endurreisn allra smurðra kristinna manna eftir mjög langt skeið útlegðar. Spádómurinn í Opinberunarbókinni talar um andlega endurfæðingu lítils hóps smurðra bræðra sem hafa tekið forystuna eftir stutt tímabil óvirkni vegna fangavistar án saka. Árið 1919 voru þeir útnefndir sem „hinn trúi og skynsami þjónn“. – Matt. 24:45; sjá bókina Pure Worship of Jehovah—Restored At Last!, bls. 118.