Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 ÆVISAGA

Jehóva hefur veitt mér velgengni í þjónustu sinni

Jehóva hefur veitt mér velgengni í þjónustu sinni

Ég sagði liðsforingjanum að ég hefði þegar setið í fangelsi fyrir að taka ekki þátt í stríði. Ég spurði hann: „Ætlarðu að láta mig ganga í gegnum það aftur?“ Þetta samtal átti sér stað í seinna skiptið sem ég var kallaður í bandaríska herinn.

ÉG FÆDDIST árið 1926 í Crooksville í Ohio í Bandaríkjunum. Foreldrar mínir voru ekki trúaðir en létu okkur börnin, átta að tölu, fara í kirkju. Ég sótti messur í meþódistakirkjunni. Þegar ég var 14 ára gaf presturinn mér verðlaun fyrir að hafa ekki misst af sunnudagsmessu í heilt ár.

Margaret Walker (önnur systirin frá vinstri) hjálpaði mér að kynnast sannleikanum.

Um þetta leyti fór nágrannakona, sem hét Margaret Walker og var vottur Jehóva, að heimsækja móður mína og ræða við hana um Biblíuna. Dag einn ákvað ég að vera með. Móðir mín hugsaði að ég myndi trufla námið svo að hún sagði mér að fara út. En ég hélt áfram að reyna að hlusta á samræðurnar. Eftir nokkrar heimsóknir í viðbót spurði Margaret mig: „Veistu hvað Guð heitir?“ Ég svaraði: „Það vita allir, hann heitir Guð.“ Hún sagði þá: „Náðu í biblíuna þína og flettu upp á Sálmi 83:19.“ Ég gerði það og uppgötvaði að Guð héti Jehóva. Ég hljóp út til vina minna og sagði við þá: „Þegar þið komið heim í kvöld skuluð þið fletta upp á Sálmi 83:19 í Biblíunni og sjá hvað Guð heitir.“ Það mætti segja að ég hafi strax farið að boða trúna.

 Ég kynnti mér Biblíuna vel og skírðist árið 1941. Stuttu síðar var mér falið að stýra bóknámi í söfnuðinum. Ég hvatti móður mína og systkini til að mæta og þau fóru öll að sækja bóknámið sem ég stýrði. Faðir minn hafði þó engan áhuga.

ANDSTAÐA HEIMA FYRIR

Ég fékk meiri ábyrgð í söfnuðinum og kom mér upp safni af ritum Votta Jehóva. Einn daginn benti pabbi á bækurnar og sagði: „Sérðu allt þetta? Ég vil að það hverfi úr þessu húsi og þú getur farið með.“ Ég flutti út og fann mér herbergi í nálægri borg, Zanesville í Ohio, en ég fór oft til fjölskyldunnar til að hvetja hana og uppörva.

Pabbi reyndi að koma í veg fyrir að mamma kæmist á samkomur. Stundum, þegar hún var á leið út, elti hann hana og dró hana aftur inn. En þá hljóp hún bara út um hinar dyrnar og fór samt á samkomu. Ég sagði við mömmu: „Hafðu ekki áhyggjur. Hann hættir að nenna að elta þig.“ Með tímanum gafst pabbi upp á að reyna að stoppa hana af og hún gat sótt samkomur vandræðalaust.

Árið 1943 fór Boðunarskólinn af stað í söfnuðinum okkar og ég hélt mínar fyrstu nemendaræður. Ráðin, sem ég fékk eftir þessi verkefni, hjálpuðu mér að taka framförum í ræðumennsku.

HLUTLEYSI Á STRÍÐSTÍMUM

Á þessum tíma var síðari heimsstyrjöldin í fullum gangi og árið 1944 var ég kallaður í herinn. Ég gaf mig fram við herstöðina Fort Hayes í Columbus í Ohio þar sem ég fór í læknisskoðun og fyllti út ýmis eyðublöð. Ég sagði líka liðsforingjunum að ég færi ekki í herinn. Þeir leyfðu mér að fara en nokkrum dögum síðar bankaði lögregluþjónn upp á og sagði: „Corwin Robison, ég er með handtökuskipun á þig.“

Við réttarhöldin, tveim vikum síðar, sagði dómarinn: „Ef ég mætti ráða fengirðu lífstíðardóm. Viltu segja eitthvað þér til varnar?“ Ég svaraði: „Háttvirtur dómari, ég hefði átt að vera skráður sem trúboði. * Dyragættin hjá fólki er prédikunarstóll minn og ég hef boðað mörgum fagnaðarerindið um ríkið.“ Dómarinn sagði við kviðdóminn: „Þið eruð ekki hér til að dæma um það hvort þessi ungi maður sé trúboði eða ekki. Þið eigið að skera úr um hvort hann hafi hlýtt þegar hann var kallaður í herinn.“ Á innan við hálftíma var kviðdómurinn kominn að niðurstöðu – sekur. Dómarinn dæmdi mig til fimm ára fangelsisvistar í alríkisfangelsinu í Ashland í Kentucky.

JEHÓVA VERNDAR MIG Í FANGELSI

Fyrstu tvær vikurnar afplánaði ég í fangelsi í Columbus í Ohio og fyrsta daginn fór ég ekkert út úr fangaklefanum. Ég bað til Jehóva: „Ég get ekki verið lokaður inni í fangaklefa í fimm ár. Ég veit ekki hvað ég á að gera.“

Daginn eftir hleyptu verðirnir mér út. Ég rölti að hávöxnum og sterkbyggðum fanga og við stóðum um stund og horfðum út  um gluggann. Hann spurði mig: „Fyrir hvað varstu dæmdur, stubbur?“ Ég svaraði honum að ég væri vottur Jehóva. Hann varð hissa og spurði: „Hvers vegna ertu þá hér?“ Ég sagði: „Vottar Jehóva fara ekki í stríð og drepa ekki fólk.“ Hann sagði: „Hnepptu þeir þig í fangelsi fyrir að drepa ekki fólk? Aðrir lenda í fangelsi fyrir að drepa fólk. Er það rökrétt?“ Ég svaraði: „Nei, það er það ekki.“

Hann sagði þá: „Ég sat í öðru fangelsi í 15 ár og þar las ég einhver af ritunum ykkar.“ Ég bað til Jehóva um að þessi maður og ég gætum stutt hvor annan. Í sömu andrá sagði Paul, en svo hét maðurinn: „Ef einhver þessara fanga snertir þig, kallaðu þá bara. Ég skal sjá um þá.“ Það kom á daginn að enginn þeirra 50 fanga, sem voru í minni álmu, átti eftir að ónáða mig.

Ég var einn vottanna sem sátu í fangelsi í Ashland í Kentucky vegna hlutleysis.

Þegar ég var fluttur til Ashland komst ég að því að nokkrir þroskaðir bræður voru þar fyrir. Félagsskapurinn við þá hjálpaði mér og öðrum að halda okkur sterkum í trúnni. Bræðurnir fólu okkur biblíulestrarverkefni í hverri viku og við undirbjuggum spurningar og svör fyrir samkomur sem þeir skipulögðu. Einn bræðranna var útnefndur svæðisþjónn. Í fangelsinu var stór svefnsalur og rúmin voru með fram veggjunum. Svæðisþjónninn sagði við mig: „Robison, þú berð ábyrgð á þessu og þessu rúmi. Hverjir sem sofa í þessum rúmum eru á þínu svæði. Sjáðu til þess að þú vitnir fyrir þeim áður en þeir fara.“ Þannig gátum við boðað trúna með skipulegum hætti.

LÍFIÐ EFTIR FANGELSISVISTINA

Síðari heimsstyrjöldinni lauk árið 1945 en mér var ekki sleppt fyrr en nokkru eftir það. Ég hafði áhyggjur af fjölskyldunni því að pabbi hafði sagt við mig: „Ef ég losna við þig get ég séð um hina.“ Það kom mér því ánægjulega á óvart þegar mér var sleppt lausum að þrátt fyrir andstöðu pabba sóttu sjö í fjölskyldunni samkomur og ein systra minna hafði látið skírast.

Á leið í boðunina með Demetriusi Papageorge, andasmurðum bróður sem byrjaði að þjóna Jehóva árið 1913.

Þegar Kóreustríðið braust út árið 1950 var ég kallaður í herinn í annað sinn og mætti á Fort Hayes-herstöðina. Eftir að ég hafði tekið hæfnispróf sagði liðsforingi við mig: „Þú varst meðal þeirra hæstu á prófinu í hópnum.“ Ég svaraði: „Gott og vel, en ég er ekki á leið í herinn.“ Ég vitnaði í 2. Tímóteusarbréf 2:3 og sagði: „Ég er nú þegar hermaður Krists.“ Eftir langa þögn sagði hann: „Þú mátt fara.“

 Fljótlega eftir það sótti ég fund fyrir áhugasama um Betelstarf á móti í Cincinnati í Ohio. Bróðir Milton Henschel sagði okkur að ef bróður langaði til að leggja sig fram í þjónustu Guðsríkis hefði söfnuðurinn not fyrir hann á Betel. Ég sótti um Betelþjónustu, var boðið starf þar og byrjaði í ágúst 1954. Allt frá því hef ég starfað á Betel.

Ég hef alltaf haft nóg að gera á Betel. Í mörg ár sá ég um miðstöðvarkatlana fyrir prentsmiðjuna og skrifstofuhúsnæðið, vann við viðgerðir og viðhald á vélum og viðgerðir á lásum. Ég vann líka í mótshöllum í New York-borg.

Ég sá um miðstöðvarkatlana fyrir skrifstofuhúsnæðið á Betel í Brooklyn.

Ég hef yndi af andlegu dagskránni sem fylgir lífinu á Betel, meðal annars dagstextaumræðunni á morgnana og Varðturnsnámi Betelfjölskyldunnar, auk boðunarinnar með söfnuðinum. Í rauninni getur þetta verið hluti af dagskrá allra fjölskyldna sem eru vottar Jehóva og það ætti að vera það. Þegar foreldrar og börn ræða saman um dagstextann, eiga saman tilbeiðslustund í hverri viku og taka góðan þátt í samkomum safnaðarins og boðun fagnaðarerindisins geta allir í fjölskyldunni átt gott samband við Jehóva.

Ég hef eignast marga vini á Betel og í söfnuðinum. Sumir þeirra voru af hinum andasmurðu og hafa nú hlotið himnesk laun sín. Aðrir tilheyrðu ekki þeim hópi. En allir þjónar Jehóva – þar á meðal Betelítar – eru ófullkomnir. Þegar eitthvað kemur upp á milli mín og annars bróður reyni ég alltaf að stuðla að friði. Ég hugsa um Matteus 5:23, 24 og um hvernig við eigum að leysa ágreiningsmál. Það er ekki auðvelt að biðjast afsökunar en ósætti hefur sjaldan haldið áfram eftir að ég hef beðist fyrirgefningar.

GÓÐUR ÁRANGUR AF STARFI MÍNU

Vegna aldurs á ég orðið erfitt með að ganga hús úr húsi en ég er ekki búinn að gefast upp. Ég hef lært smá mandarín kínversku og hef ánægju af að tala við Kínverja sem ég hitti í götustarfinu. Stundum dreifi ég 30 eða 40 blöðum fyrir hádegi.

Ég boða Kínverjum trúna í Brooklyn í New York.

 Ég hef meira að segja farið í endurheimsókn í Kína ef svo má segja. Einn daginn brosti til mín viðkunnanleg ung kona sem var að dreifa auglýsingum fyrir ávaxtabás. Ég brosti á móti og bauð henni Varðturninn og Vaknið! á kínversku. Hún tók við blöðunum og sagði mér að hún héti Katie. Eftir það kom hún alltaf og talaði við mig þegar hún sá mig. Ég kenndi henni hvað mismunandi ávextir og grænmeti héti á ensku og hún endurtók orðin. Ég útskýrði líka biblíuvers fyrir henni og hún þáði bókina Hvað kennir Biblían? En eftir nokkrar vikur hvarf hún.

Nokkrum mánuðum síðar hitti ég aðra unga konu sem var að dreifa auglýsingamiðum og bauð henni blöð sem hún þáði. Vikuna eftir rétti hún mér símann sinn og sagði: „Þú tala við Kína.“ Ég sagðist ekki þekkja neinn í Kína en hún var ákveðin svo að ég tók við símanum og sagði: „Halló, þetta er Robison.“ Röddin á hinum enda línunnar sagði: „Robby, þetta er Katie. Ég er komin aftur til Kína.“ „Kína?“ svaraði ég. Hún sagði þá: „Já. Robby, konan sem rétti þér símann er systir mín. Þú kenndir mér margt gott. Viltu kenna henni eins og þú kenndir mér?“ Ég svaraði: „Katie, ég skal gera mitt allra besta. Takk fyrir að láta mig vita hvar þú ert.“ Stuttu síðar talaði ég við systur Katiear í síðasta sinn. Hvar sem þessar ungu konur eru niðurkomnar núna vona ég að þær kynnist Jehóva betur.

Það hefur verið starf mitt í 73 ár að veita Jehóva heilaga þjónustu. Ég er ánægður að hann skyldi hjálpa mér að vera hlutlaus og trúfastur þegar ég sat í fangelsi. Bræður mínir og systur hafa líka sagt mér að það hafi styrkt þau að ég skyldi ekki gefast upp þrátt fyrir andstöðu frá pabba. Móðir mín og sex systkini létu með tímanum skírast. Pabbi varð jafnvel mildari og hann sótti nokkrar samkomur áður en hann lést.

Ef það er vilji Guðs eiga ættingjar mínir og vinir, sem nú sofa dauðasvefni, eftir að rísa upp í nýja heiminum. Við getum rétt ímyndað okkur hve gleðilegt það verður að tilbiðja Jehóva um alla eilífð ásamt þeim sem við elskum. *

^ gr. 14 Í Bandaríkjunum voru prestar og „prédikarar“ ýmissa trúarbragða undanþegnir herskyldu.

^ gr. 32 Corwin Robison lést sem trúfastur þjónn Jehóva meðan þessi grein beið útgáfu.