Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Lærum af trúföstum þjónum Jehóva

Lærum af trúföstum þjónum Jehóva

„Þú ert trúföstum trúfastur.“ – SÁLM. 18:26.

SÖNGVAR: 63, 43

1, 2. Hvernig sýndi Davíð að hann var Guði trúfastur? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

Í SKJÓLI nætur læðast Davíð og Abísaí fram hjá 3.000 sofandi hermönnum. Mennirnir tveir finna Sál konung steinsofandi í miðjum herbúðunum. Sál hefur ferðast til Júdaeyðimerkur til að finna Davíð og drepa hann. Abísaí hvíslar að Davíð: „Nú festi ég [Sál] við jörðina með einu spjótslagi, meira þarf ekki.“ Honum til mikillar undrunar svarar Davíð: „Dreptu hann ekki. Hver getur lagt hönd á Drottins smurða og komist hjá refsingu? ... Drottinn forði mér frá því að leggja hönd á Drottins smurða.“ – 1. Sam. 26:8-12.

2 Davíð skildi hvað felst í því að sýna Guði hollustu. Það var alls ekki ætlun hans að gera Sál mein. Af hverju ekki? Af því að Guð hafði smurt Sál til konungs yfir Ísrael. Trúfastir þjónar Jehóva virða þá sem hann útnefnir. Jehóva ætlast til þess að allir þjónar sínir séu trúfastir. – Lestu Sálm 18:26.

3. Hvernig sýndi Abísaí Davíð hollustu?

3 Abísaí sýndi Davíð virðingu. Lítum á dæmi sem sýnir fram á það. Davíð hafði framið hjúskaparbrot með Batsebu. Síðan reyndi hann að hylma yfir það með því að fá Jóab, bróður Abísaí,  til að koma því til leiðar að Úría, eiginmaður hennar, félli í bardaga. (2. Sam. 11:2-4, 14, 15; 1. Kron. 2:16) Hugsanlega vissi Abísaí eitthvað um málið en hann hélt samt áfram að virða Davíð sem útvalinn konung Guðs. Auk þess reyndi Abísaí aldrei að notfæra sér stöðu sína sem herforingi til að hrifsa til sín konungsvaldið í Ísrael. Þvert á móti varði hann Davíð gegn svikurum og öðrum óvinum. – 2. Sam. 10:10; 20:6; 21:15-17.

4. (a) Hvernig sjáum við að Davíð var Guði trúr? (b) Hvað fleira ætlum við að skoða?

4 Með því að neita að gera Sál mein sýndi Davíð að hann var trúfastur þjónn Guðs. Sem ungur maður fór Davíð gegn Filistearisanum Golíat sem blygðunarlaust dirfðist „að hæðast að hersveitum hins lifandi Guðs“. (1. Sam. 17:23, 26, 48-51) Þegar Davíð var orðinn konungur drýgði hann grófar syndir sem fólu í sér hjúskaparbrot og morð, en hann tók við leiðréttingu Natans spámanns og iðraðist. (2. Sam. 12:1-5, 13) Davíð hélt áfram að sýna Guði hollustu á gamals aldri. Hann gaf til að mynda ríkuleg framlög til byggingar musteris Jehóva. (1. Kron. 29:1-5) Þótt Davíð gerði alvarleg mistök var hann Guði trúr. (Sálm. 51:6, 12; 86:2) Við skulum nú skoða fleiri frásögur af Davíð og samtíðarmönnum hans og leita svara við eftirfarandi spurningum: Hverjum eigum við fyrst og fremst að sýna hollustu? Hvaða eiginleika þurfum við að tileinka okkur til að geta sýnt hollustu?

HVERJUM EIGUM VIÐ FYRST OG FREMST AÐ SÝNA HOLLUSTU?

5. Hvaða lærdóm getum við dregið af mistökum Abísaí?

5 Þegar Abísaí laumaðist inn í herbúðir Sáls áttaði hann sig ekki á hverjum hann ætti fyrst og fremst að sýna hollustu. Vegna hollustu sinnar við Davíð var honum mikið í mun að drepa Sál konung. En Davíð hélt aftur af honum því að hann gerði sér grein fyrir að það væri rangt að „leggja hönd á Drottins smurða“. (1. Sam. 26:8-11) Við getum dregið mikilvægan lærdóm af þessu atviki. Þótt við viljum réttilega sýna fleiri en einum hollustu ættum við að láta meginreglur Biblíunnar stýra því hverjum við sýnum hollustu framar öðrum.

6. Hvers vegna þurfum við að gæta okkar þar sem það er eðlilegt að sýna fjölskyldu okkar og vinum hollustu?

6 Hollusta á upptök sín í hjartanu, en hjartað er svikult. (Jer. 17:9) Það er eðlilegt að vilja sýna þeim hollustu sem okkur er annt um. Þar af leiðandi gæti trúfastur þjónn Guðs jafnvel fundið til sterkrar hollustu til náins vinar eða ættingja sem stundar það sem er rangt. Ef einhver náinn okkur yfirgefur sannleikann er sérstaklega mikilvægt að muna að Jehóva verðskuldar hollustu okkar framar öllum öðrum. – Lestu Matteus 22:37.

7. Hvernig sýndi systir nokkur hollustu við Guð í erfiðum aðstæðum?

7 Ef nánum ættingja er vikið úr söfnuðinum getur reynt á hollustu okkar við Jehóva. Systir, sem heitir Anne, [1] fékk símtal frá móður sinni sem hafði verið vikið úr söfnuðinum. Móðirin vildi heimsækja Anne af því að hún átti erfitt með að þola að vera einangruð frá fjölskyldunni. Beiðni móðurinnar fékk verulega á Anne svo að hún lofaði að svara bréfleiðis. Áður en hún skrifaði bréfið rifjaði hún upp nokkrar meginreglur Biblíunnar. (1. Kor. 5:11; 2. Jóh. 9-11) Í bréfinu minnti Anne móður sína vingjarnlega á að hún hefði sjálf slitið tengslin við fjölskylduna með slæmri hegðun sinni og iðrunarleysi. „Eina leiðin til að geta liðið betur er að snúa aftur til Jehóva,“ skrifaði Anne. – Jak. 4:8.

8. Hvaða eiginleikar hjálpa okkur að sýna Guði hollustu?

 8 Hollusta samtíðarmanna Davíðs dregur fram þrjá eiginleika sem geta hjálpað okkur að sýna Guði hollustu. Þessir eiginleikar eru auðmýkt, góðvild og hugrekki. Skoðum þessa eiginleika hvern fyrir sig.

HOLLUSTA VIÐ GUÐ ÚTHEIMTIR AUÐMÝKT

9. Hvers vegna reyndi Abner að drepa Davíð?

9 Þegar Davíð stóð með höfuð Golíats í hendi sér og ræddi við Sál konung hljóta í það minnsta tveir menn að hafa fylgst með. Annar þeirra var Jónatan, sonur Sáls, sem gerði vináttusáttmála við Davíð. Hinn var Abner hershöfðingi. (1. Sam. 17:57 – 18:3) Abner studdi Sál þegar hann leitaðist síðar við að drepa Davíð. „Ofbeldismenn sækjast eftir lífi mínu,“ skrifaði Davíð. (Sálm. 54:5; 1. Sam. 26:1-5) Hvers vegna tóku Jónatan og Abner svo ólíka afstöðu til Davíðs? Abner vissi, líkt og Jónatan, að Guð hafði valið Davíð til að ríkja sem konungur yfir Ísrael. Eftir dauða Sáls hefði Abner getað sýnt auðmýkt og hollustu við Guð með því að styðja Davíð en ekki Ísbóset, son Sáls. Síðar svaf Abner hjá hjákonu Sáls konungs, ef til vill í þeim tilgangi að reyna að sölsa undir sig konungsvaldið. – 2. Sam. 2:8-10; 3:6-11.

10. Hvers vegna sýndi Absalon Guði ekki hollustu?

10 Skortur á auðmýkt kom í veg fyrir að Absalon, sonur Davíðs, sýndi Guði hollustu. Hann fékk sér meira að segja „vagn og hesta og fimmtíu menn sem jafnan hlupu á undan honum“. (2. Sam. 15:1) Honum tókst líka að telja marga Ísraelsmenn á að sýna sér hollustu. Líkt og Abner reyndi Absalon að drepa Davíð, jafnvel þótt hann vissi að Jehóva hefði útvalið Davíð sem konung Ísraels. – 2. Sam. 15:13, 14; 17:1-4.

11. Hvað getum við lært af frásögn Biblíunnar af Abner, Absalon og Barúk?

11 Eins og dæmi Abners og Absalons sýna glögglega getur óhófleg metnaðargirni hæglega orðið til þess að maður hætti að sýna Guði hollustu. Að sjálfsögðu vill enginn trúfastur þjónn Jehóva fara út á þá ranglátu og eigingjörnu braut. En löngun í auðæfi eða frama í heiminum getur líka skaðað trú þjóna Guðs nú á tímum. Barúk, ritari Jeremía, missti um tíma sjónar á því sem máli  skipti af ótilgreindum ástæðum. Jehóva sagði þá við hann: „Ég mun brjóta niður það sem ég hef byggt, ég mun uppræta það sem ég hef gróðursett um allt land. Ætlarðu þér mikinn hlut? Láttu af því.“ (Jer. 45:4, 5) Barúk tók við leiðréttingunni. Er ekki skynsamlegt af okkur að hafa þessi orð Guðs í huga nú þegar við bíðum eftir endalokum þessa illa heims?

12. Hvers vegna getum við ekki verið Guði trú ef við erum eigingjörn? Lýstu með dæmi.

12 Daniel, bróðir í Mexíkó, þurfti að velja á milli þess að sýna Guði hollustu og að sækjast eftir eigin hagsmunum. Hann vildi giftast stúlku sem var ekki vottur Jehóva. Daníel segir: „Ég hélt áfram að skrifast á við hana jafnvel eftir að ég gerðist brautryðjandi. En á endanum reyndi ég að sýna auðmýkt og sagði reyndum öldungi að ég ætti erfitt með að ákveða hverjum ég ætti að sýna hollustu. Hann gerði mér grein fyrir að ég þyrfti að hætta að skrifast á við hana ef ég vildi vera Guði trúr. Og það er það sem ég gerði eftir margar bænir og mörg tár. Fljótlega fór ég að hafa meiri ánægju af boðuninni.“ Síðar meir giftist Daníel góðri systur og er nú farandhirðir.

HOLLUSTA VIÐ GUÐ HJÁLPAR OKKUR AÐ SÝNA GÓÐVILD

Sýnirðu þá hollustu að hjálpa vini þínum að fá aðstoð frá öldungunum ef þú kemst að raun um að hann hefur gert eitthvað alvarlegt af sér? (Sjá 14. grein.)

13. Hvernig sýndi Natan bæði Guði og Davíð hollustu þegar Davíð syndgaði?

13 Hollusta okkar við Jehóva getur stundum haft áhrif á hollustu okkar við menn. Natan spámaður var ávallt Guði trúr en hann sýndi Davíð einnig hollustu. Natan komst að því að Davíð hefði framið hjúskaparbrot og séð til þess að eiginmaður konunnar félli í bardaga. Natan hlýddi og sýndi hugrekki þegar Jehóva sendi hann til að ávíta Davíð en það breytti því ekki að hann var Davíð trúr. Hann ávítaði Davíð vingjarnlega og af visku. Til að Davíð gerði sér grein fyrir alvarleika syndarinnar tók Natan dæmi um ríkan mann sem stal lambi fátæks manns. Þegar Davíð brást reiður við óréttlæti ríka mannsins sagði Natan við hann: „Þú ert maðurinn.“ Davíð skildi hvað hann átti við. – 2. Sam. 12:1-7, 13.

14. Hvernig geturðu sýnt bæði Jehóva og þeim sem þér er annt um hollustu?

14 Góðvild getur hjálpað þér þegar þér finnst erfitt að vita hverjum þú átt að sýna hollustu. Segjum sem svo að þú vitir fyrir víst að trúsystkini hafi gert eitthvað  alvarlegt af sér. Þú vilt eflaust sýna honum eða henni hollustu, sérstaklega ef um náinn vin eða ættingja er að ræða. En ef þú hylmdir yfir ranga verknaðinn sýndirðu Guði ekki hollustu. Hollustan við Jehóva ætti auðvitað að hafa forgang. Vertu því vingjarnlegur en ákveðinn líkt og Natan. Hvettu vin þinn eða ættingja til að leita hjálpar öldunganna. Ef hann gerir það ekki innan skynsamlegra tímamarka ætti hollustan við Guð að fá þig til að segja öldungunum frá málinu. Þannig sýnirðu Jehóva hollustu og vini þínum eða ættingja góðvild þar sem öldungar safnaðarins reyna með mildi að hjálpa honum aftur inn á rétta braut. – Lestu 3. Mósebók 5:1; Galatabréfið 6:1.

HOLLUSTA VIÐ GUÐ ÚTHEIMTIR HUGREKKI

15, 16. Hvers vegna þurfti Húsaí að sýna hugrekki til að vera Guði trúr?

15 Maður að nafni Húsaí þurfti á hugrekki að halda til að vera Guði trúr. Húsaí var tryggur vinur Davíðs konungs. En það reyndi á hollustu hans þegar Absalon, sonur Davíðs, vann hjörtu margra og ætlaði sér að taka Jerúsalem og hrifsa til sín konungsvaldið. (2. Sam. 15:13; 16:15) Davíð flýði borgina, en hvað myndi Húsaí gera? Ætlaði hann nú veita Absalon hollustu sína eða myndi hann fylgja konunginum sem var kominn á efri ár og þurfti að flýja til að bjarga lífi sínu? Húsaí var staðráðinn í að sýna Davíð, útvöldum konungi Guðs, hollustu og hitti hann á Olíufjallinu. – 2. Sam. 15:30, 32.

16 Davíð bað Húsaí um að fara aftur til Jerúsalem til að þykjast vera vinur Absalons og kollvarpa ráði Akítófels. Húsaí reyndist vera Jehóva trúr. Hann hætti lífi sínu til að gera það sem Davíð bað hann um. Ráð Húsaí gerði ráð Akítófels að engu, rétt eins og Davíð hafði beðið Jehóva um í bæn. – 2. Sam. 15:31; 17:14.

17. Hvers vegna þurfum við hugrekki til að sýna Jehóva hollustu?

17 Við þurfum að vera hugrökk til að sýna Jehóva hollustu. Mörg okkar hafa hugrökk staðist þrýsting frá fjölskyldunni, vinnufélögum eða yfirvöldum og þannig reynst Guði trú. Taro býr í Japan. Allt frá barnæsku hafði hann lagt sig fram um að hlýða foreldrum sínum og sýna þeim hollustu. Hann gerði það ekki aðeins af skyldurækni heldur vildi hann virkilega þóknast foreldrum sínum. En þegar hann fór að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva vildu foreldrar hans að hann hætti því. Hann átti því mjög erfitt með að segja þeim að hann hefði ákveðið að byrja að sækja samkomur. Taro segir: „Þau voru svo reið að þau bönnuðu mér að heimsækja sig um árabil. Ég bað Jehóva um hugrekki til að standa við ákvörðunina. Með tímanum urðu þau mildari og nú get ég heimsótt þau reglulega.“ – Lestu Orðskviðina 29:25.

18. Hvaða gagn hefur þú haft af þessari námsgrein?

18 Því fylgir mikil ánægja að sýna Jehóva hollustu. Við getum upplifað það, rétt eins og Davíð, Jónatan, Natan og Húsaí. Við viljum ekki sýna ótryggð eins og Abner og Absalon. Öllu heldur viljum við líkja eftir Davíð og vera Jehóva trú. Þar sem við erum ófullkomin verður okkur öllum á. En við getum sýnt að hollustan við Jehóva skiptir mestu máli í lífi okkar.

^ [1] (7. grein.) Sumum nöfnum er breytt.