Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Notarðu tæknina skynsamlega?

Notarðu tæknina skynsamlega?

Jenni er háð tölvuleik. „Ég spila hann í átta tíma á dag núorðið,“ segir hún. „Þetta er orðið verulegt vandamál.“

Dennis reyndi að vera án raftækja og netsambands í eina viku. Hann entist bara í 40 klukkutíma.

Jenni og Dennis eru engir unglingar. Jenni er fertug fjögurra barna móðir. Dennis er 49 ára.

NÝTIR þú þér tæknina? Margir myndu svara játandi og fyrir því eru góðar ástæður. Tæki * koma að góðum notum í atvinnulífinu, félagslífinu og afþreyingu.

En líkt og Jenni og Dennis virðast margir vera einum of hændir tækjunum sínum. Nicole, sem er tvítug, segir til dæmis: „Mér finnst leiðinlegt að segja það, en ég og síminn minn erum bestu vinir. Ég hef hann með mér hvert sem ég fer. Ég verð óþolinmóð ef ég get ekki athugað skilaboðin í hálftíma og verð alveg brjáluð ef ég er utan þjónustusvæðis. Það er frekar fáránlegt.“

Sumum finnst þeir jafnvel þurfa að athuga skilaboð og stöðuuppfærslur á nóttunni. Þeir fá jafnvel fráhvarfseinkenni þegar þeir hafa ekki tækið sitt  hjá sér. Sumir sérfræðingar lýsa þess konar hegðun sem fíkn – annaðhvort í tækni almennt, í Netið eða eitthvert ákveðið tæki, svo sem snjallsíma. Aðrir hika við að nota orðið „fíkn“ og kjósa frekar að skilgreina hegðunina sem vandamál, áráttu eða þráhyggju.

Sama hvaða orð við notum getur tæknin skapað vandamál ef hún er notuð óskynsamlega. Í sumum tilfellum hefur hún hamlað samskiptum innan fjölskyldunnar. Tvítug stelpa segir mæðulega: „Pabbi er alveg hættur að fylgjast með því sem gerist í lífi mínu. Hann situr inni í stofu og skrifar tölvupóst á meðan hann talar við mig. Hann getur ekki lagt frá sér símann. Pabba er ábyggilega ekki sama um mig en stundum lítur samt út fyrir það.“

Meðferð við tækjafíkn

Í Bandaríkjunum, Bretlandi, Kína, Suður-Kóreu og víðar hafa verið opnaðar meðferðarstofnanir fyrir fólk sem getur ekki slitið sig frá tækjunum sínum. Þar kemst fólk ekki á Netið, í tölvur né önnur tæki um nokkurra daga skeið. Tökum Brett sem dæmi. Hann er ungur maður sem segist á tímabili hafa spilað netleik í allt að 16 klukkustundir á dag. „Í hvert skipti, sem ég ræsti leikinn, fannst mér ég komast í vímu,“ segir hann. Brett var atvinnulaus, hættur að hugsa um hreinlætið og búinn að missa vini sína þegar hann loksins skráði sig í meðferð. Hvernig getur þú komið í veg fyrir að sökkva svo djúpt?

LEGGÐU MAT Á TÆKJANOTKUNINA. Veltu fyrir þér hve mikil áhrif tækjanotkun hefur á líf þitt. Spyrðu þig spurninga á borð við:

  • Verð ég pirraður eða jafnvel reiður þegar ég kemst ekki á Netið eða get ekki notað símann eða tölvuna?

  • Er ég í símanum eða tölvunni langt fram yfir þann tíma sem ég hafði sett mér?

  • Missi ég svefn af því að ég verð að athuga skilaboð?

  • Er ég það upptekinn af tækjum að ég vanræki fjölskylduna? Væri fjölskyldan sammála svari mínu?

Ef tækjanotkun fær þig til að vanrækja „þá hluti ... sem máli skipta“, þar á meðal fjölskylduna, er kominn tími til að gera breytingar. (Filippíbréfið 1:10) Hvernig?

SETTU ÞÉR SKYNSAMLEG MÖRK. Ef maður kann sér ekki hóf getur jafnvel það sem er gott verið manni skaðlegt. Settu þér því mörk – hvort sem þú notar tæknina við vinnu eða til afþreyingar – og haltu þig svo innan þeirra marka.

Ráð: Hvernig væri að fá vin eða fjölskyldumeðlim til að styðja þig? Biblían segir: „Betri eru tveir en einn því að ... falli annar þeirra getur hinn reist félaga sinn á fætur.“ – Prédikarinn 4:9, 10.

Láttu áhugann ekki snúast upp í fíkn.

Eftir því sem tækin verða fljótvirkari og betri má gera ráð fyrir að fleiri noti þessa tækni óviturlega. En láttu áhugann ekki snúast upp í fíkn. Með því að fara vel með tíma þinn geturðu forðast að nota tæknina óviturlega. – Efesusbréfið 5:16.

^ gr. 5 Í þessari grein er orðið „tæki“ notað um raftæki sem veita aðgang að tölvupósti, símtölum, smáskilaboðum, myndböndum, tónlist, leikjum, myndum og annars konar gögnum.