Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Dýr

Dýr

Dýr snerta líf næstum allra jarðarbúa á einn eða annan hátt. Skiptir máli hvernig við förum með þau?

Hvernig ættum við að umgangast dýrin?

HVAÐ SEGIR FÓLK?

Sumum finnst að mönnunum ætti að vera frjálst að meðhöndla dýrin hvernig sem þeir vilja. Aðrir eru þeirrar skoðunar að við ættum að koma nánast eins fram við dýrin og við mannfólkið.

  • Þekktur dýraverndunarsinni heldur því fram að dýr ættu að njóta þeirra „grundvallarréttinda að vera ekki meðhöndluð einungis sem nytja- eða verslunarvara“. Hann bætir við: „Við ættum að hætta að koma fram við dýr eins og þau séu eign okkar.“

  • Mörgum þótti farið út í öfgar þegar milljarðamæringurinn Leona Helmsley ánafnaði hundi sínum 12 milljónir Bandaríkjadali og setti í erfðaskrá sína að hundurinn skyldi grafinn við hlið hennar þegar hann dæi.

Til umhugsunar: Hvernig finnst þér að fólk ætti að koma fram við dýrin?

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Jehóva Guð, skapari lífsins, sagði mönnunum: „Ríkið yfir fiskum sjávarins og fuglum himinsins og öllum dýrum sem hrærast á jörðinni.“ (1. Mósebók 1:28) Það er því rökrétt að álykta að í augum Guðs séu mennirnir æðri dýrunum.

Rétt á undan biblíuversinu, sem vitnað var í hér að framan, er þýðingarmikil fullyrðing sem styrkir þessa ályktun. Þar segir: „Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.“ – 1. Mósebók 1:27.

Mennirnir eru skapaðir „eftir Guðs mynd“. Við erum því einstök á þann hátt að við getum endurspeglað eiginleika Guðs, svo sem visku, réttlæti og kærleika. Þar að auki höfum við meðfædda andlega þörf og siðferðisvitund. Dýrin hafa ekki þessa eiginleika því að þau eru ekki sköpuð „eftir Guðs mynd“. Þau eru mönnunum lægri og okkur var aldrei ætlað að koma fram við þau á sama hátt og mannfólkið.

Þýðir það að mennirnir megi fara illa með dýrin? Nei.

  • Í lögmáli sínu til Ísraelsmanna tryggði Guð að öryggis dýranna væri gætt, að þeim væri bjargað úr hættu og að þau fengju næga hvíld og fóður. – 2. Mósebók 23:4, 5; 5. Mósebók 22:10; 25:4.

„Í sex daga skaltu vinna verk þitt en sjöunda daginn skaltu ekkert verk vinna svo að uxi þinn og asni geti hvílt sig.“ – 2. Mósebók 23:12.

 Er rangt að drepa dýr?

HVAÐ SEGIR FÓLK?

Sumir veiðimenn drepa dýr sér til skemmtunar. Þeir hafa ánægju af að elta bráðina uppi og fanga hana. Aðrir myndu taka undir með rússneska rithöfundinum Lév Tolstoj sem skrifaði að það sé „beinlínis siðlaust“ að drepa og borða dýr.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Guð leyfir mönnum að drepa dýr til að bjarga mannslífi og til að gera sér föt. (2. Mósebók 21:28; Markús 1:6) Í Biblíunni er líka sagt að menn megi drepa dýr sér til matar. „Allt sem hrærist og lifir skal vera ykkur til fæðu,“ segir í 1. Mósebók 9:3. Jesús hjálpaði meira að segja lærisveinum sínum að veiða fisk sem þeir síðan borðuðu. – Jóhannes 21:4-13.

Eigi að síður segir Biblían um Guð: „Hann hatar þann sem elskar ofríki [„ofbeldi“, Biblían 1859].“ (Sálmur 11:5) Rökum samkvæmt getum við því sagt að Guð vilji ekki að við særum eða drepum dýr aðeins til skemmtunar.

Af Biblíunni má sjá að dýrin eru mikils virði í augum Guðs.

  • Biblían segir um sköpun dýranna: „Guð gerði villidýrin, hvert eftir sinni tegund, búfé eftir sinni tegund og hvers konar skriðdýr jarðarinnar eftir sinni tegund. Og Guð sá að það var gott.“ – 1. Mósebók 1:25.

  • Biblían segir um Jehóva Guð: „[Hann] gefur skepnunum fóður þeirra.“ (Sálmur 147:9) Guð bjó til vistkerfi sem veitir dýrunum skjól fyrir veðri og vindum og sér þeim fyrir meira en nóg af fæðu.

  • Davíð, konungur Ísraels, bað til Guðs: „Mönnum og skepnum hjálpar þú.“ (Sálmur 36:7) Jehóva bjargaði til dæmis átta einstaklingum og öllum tegundum dýra þegar hann eyddi illum mönnum í flóðinu mikla. – 1. Mósebók 6:19.

Jehóva metur greinilega mikils dýrin sem hann skapaði og ætlast til þess að mennirnir umgangist þau af virðingu.

„Hinn réttláti annast búfé sitt vel.“ – Orðskviðirnir 12:10.