Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Í hvernig vinahóp passa ég?

Í hvernig vinahóp passa ég?

Ungt fólk spyr

Í hvernig vinahóp passa ég?

„Ég er 21 árs. Það eru ekki margir á mínum aldri hérna þannig að ég þarf annaðhvort að vera með menntaskólakrökkum eða hjónum. Annar hópurinn er stressaður yfir prófum, og hinn hefur áhyggjur af fjölskyldu og afborgunum. Hvorugt þessara vandamála heldur vöku fyrir mér. Það væri svo gott að kynnast einhverjum sem ég samsama mig með.“ — Carmen. *

FLESTALLIR, óháð því á hvaða aldri þeir eru, vilja vera viðurkenndir af félögum sínum. Þú vilt það eflaust líka. Þess vegna er það svo sárt að vera skilinn út undan eins og enginn taki eftir manni, eða eins og Michaela, sem er 15 ára, orðar það: „Maður er bara einn af fjöldanum og skiptir engu máli.“

Ef þú ert vottur Jehóva áttu auðvitað „samfélag þeirra sem trúa“ að vinum. (1. Pétursbréf 2:17) En stundum getur þér samt fundist erfitt að passa inn í hópinn. Helena, sem er tvítug, hugsar til baka og segir: „Á leið heim af samkomum sat ég oft grátandi í aftursætinu. Því meira sem ég lagði á mig til að falla inn í hópinn því vonsviknari varð ég.“

Hvað er til ráða ef þér líður þannig? Til að svara því skulum við byrja á að skoða (1) hvers konar fólki þér finnst erfiðast að samsama þig með og (2) hvað þú gerir þegar þú ert með þeim.

Merktu við þar sem þér finnst þú ekki passa inn.

1. Aldur

□ jafnaldrar □ eldri krakkar □ fullorðnir

2. Færni

Fólk sem er

□ athafnasamt □ hæfileikaríkt □ gáfað

3. Einkenni

Fólk sem er

□ öruggt með sig □ alltaf í klíkum □ vinsælt

Hvaða staðhæfing lýsir best viðbrögðum þínum þegar þú ert innan um fólk eins og þú merktir við að ofan?

□ Ég þykist vera með sömu áhugamál og hæfileika.

□ Ég tala um eigin áhugamál og hlusta ekki á hina.

□ Ég þegi og reyni að fara sem fyrst.

Núna hefurðu skilgreint hvers konar fólk þér finnst erfiðast að vera innan um og hvað þú gerir þegar þú ert með því. Þá ertu kominn að því að geta tekist á við vandann. Við skulum samt byrja á að skoða nokkur atriði sem geta hindrað þig í að eignast vini og verið eins og blindgötur. Þú þarft að þekkja þessar blindgötur og læra að forðast þær.

1. BLINDGATA: Einangrun

Vandinn. Þegar þú ert innan um fólk sem hefur ekki sömu áhugmál eða hæfileika og þú er eðlilegt að þér finnist þú vera eins og fimmta hjólið undir vagni — sérstaklega ef þú ert feiminn. „Ég þoli ekki að hefja samræður,“ segir Anita sem er 18 ára. „Ég er hrædd um að ég segi einhverja vitleysu.“

Í Biblíunni stendur: „Sérlyndur maður [„sá sem einangrar sig,“ New World Translation of the Holy Scriptures] fer að eigin geðþótta og hafnar hverju hollráði.“ (Orðskviðirnir 18:1) Það gerir auðvitað bara illt verra að draga sig inn í skel. Þeir sem einangra sig festast í vítahring. Einmanakenndin sannfærir þig um að þú fallir ekki inn í hópinn og það fær þig til að einangra þig. Einangrunin eykur á einmanakenndina sem sannfærir þig um að þú fallir ekki inn í hópinn. Þú ert fastur í vítahring sem þú kemst ekki út úr fyrr en þú gerir eitthvað í málinu.

„Fólk les ekki hugsanir. Þú átt ekki eftir að fá það sem þú vilt ef þú talar ekki um það. Ef þú heldur þig alltaf út af fyrir þig eignastu ekki vini. Maður þarf að leggja eitthvað á sig til þess. Það er ekki sanngjarnt að ætlast til þess að aðrir beri alla ábyrgðina. Báðir þurfa að leggja sitt af mörkum til að byggja upp vináttu.“ — Melinda, 19 ára.

2. BLINDGATA: Örvænting

Vandinn. Sumir eru svo hræddir um að eignast ekki vini að þeir leiðast jafnvel út í slæman félagsskap. Þeir hugsa sem svo að slæmir vinir séu betri en engir vinir. René, sem er 15 ára, segir: „Mig langaði svo mikið til að vera með í vinsæla hópnum í skólanum að ég var næstum til í að gera eitthvað af mér til að passa inn í hann.“

Í Biblíunni stendur: „Illa fer þeim sem leggur lag sitt við heimskingja.“ Eða eins og það er orðað í biblíuþýðingunni Contemporary English Version: „Þú gerir sjálfum þér mein ef þú umgengst heimskingja.“ (Orðskviðirnir 13:20) Með „heimskingja“ er ekki endilega átt við þá sem eiga erfitt með nám. Þeir gætu þess vegna verið afburðanemendur. En ef þeir virða ekki meginreglur Biblíunnar eru þeir heimskingjar í augum Guðs. Það fer illa fyrir þér ef þú reynir að vera eins og kameljón sem breytir um lit eftir aðstæðum til að passa inn. — 1. Korintubréf 15:33.

„Það er ekki gott að vera með hvaða félögum sem er. Ef þér finnst þú ekki geta verið þú sjálfur innan um félagana eru þeir ekki góðir vinir. Góðir vinir eru þeir sem þykir vænt um þig og eru til staðar þegar á reynir.“ — Paula, 21 árs.

Eigðu frumkvæðið

Bíddu ekki eftir að aðrir komi til þín og bjóði þér í vinahópinn sinn. Gene, sem er 21 árs, segir: „Við getum ekki alltaf ætlast til að aðrir sækist eftir félagsskap við okkur. Við þurfum sjálf að eiga frumkvæðið.“ Hér eru tvær tillögur sem hjálpa þér til þess:

Einblíndu ekki á þinn eigin aldurshóp. Í Biblíunni kemur fram að um 30 ára aldursmunur var á þeim Davíð og Jónatan og samt voru þeir bestu vinir. * (1. Samúelsbók 18:1) Hvaða lærdóm má draga af því? Vinir okkar geta verið talsvert eldri en við. Væri nokkurt vit í að einblína bara á þinn eigin aldurshóp og kvarta síðan yfir því að eiga enga vini? Það væri eins og að deyja úr hungri á eyðieyju þegar sjórinn í kring er fullur af fiski. Það er til nóg af góðu fólki sem þú getur samsamað þig með. En þú þarft stundum að leita út fyrir aldurshópinn til að finna það.

„Mamma hvatti mig til að reyna að tala við eldra fólkið í söfnuðinum. Hún sagði að það myndi koma mér á óvart hvað við ættum margt sameiginlegt. Það var rétt hjá henni og núna á ég marga vini.“ — Helena, 20 ára.

Þjálfaðu samskiptahæfnina. Það getur verið erfitt að halda uppi samræðum, sérstaklega ef þú ert feiminn. En það er hægt. Það skiptir miklu máli að (1) hlusta, (2) spyrja spurninga og (3) sýna einlægan áhuga.

„Ég reyni að hlusta meira en að tala. Og ég reyni að tala ekki mikið um sjálfa mig eða tala niðrandi um aðra.“ — Serena, 18 ára.

„Ef einhver talar um málefni sem ég veit ekki mikið um bið ég hann um að útskýra það fyrir mér. Með því reyni ég að halda samræðunum áfram.“ — Jared, 21 árs.

Þú ert kannski hlédrægur að eðlisfari og það er ekkert slæmt við það. Þú þarft ekki að breyta eðli þínu. En ef þér finnst erfitt að finna vinahóp sem þú passar inn í geturðu prófað tillögurnar í þessari grein. Ef til vill hugsarðu eins og Leah, en hún segir: „Ég er feimin og þarf að hafa fyrir því halda uppi samræðum. En til að eignast vini þarf maður að vingast við aðra. Þess vegna er ég farin að tala við fólk.“

Finna má fleiri greinar á ensku úr greinaflokknum „Ungt fólk spyr . . .“ á vefsíðunni www.watchtower.org/ype

[Neðanmáls]

^ Sumum nöfnum í þessari grein hefur verið breytt.

^ Davíð var líklega á táningsaldri þegar þeir Jónatan urðu vinir.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 19]

HVAÐ SEGJA JAFNALDRARNIR?

„Ég reyni að tala við að minnsta kosti einn á hverri samkomu sem ég hafði ekki hugsað um fyrir fram að tala við. Ég hef komist að raun um að vinátta getur sprottið af einfaldri kveðju.“

„Mér fannst auðvelt að draga mig í hlé og ákveða að öðrum líkaði ekki við mig og að ég gæti ekki átt samleið með þeim. Það kostaði hins vegar áreynslu að gera eitthvað í málinu. Að lokum borgar það sig samt að takast á við vandann og það er mjög þroskandi.“

„Ég lærði smám saman að taka þátt í samræðum við fullorðna. Fyrst fannst mér það mjög óþægilegt. En það varð mér til góðs því ég eignaðist snemma trausta vini sem eru alltaf til staðar fyrir mig.“

[Myndir]

Lauren

Reyon

Carissa

[Rammi á blaðsíðu 20]

SPYRÐU FORELDRA ÞÍNA

Fannst þér erfitt að eignast vini þegar þú varst á mínum aldri? Í hvernig hóp fannst þér erfiðast að vera? Hvernig tókstu á við það?

․․․․․

[Skýringarmynd á blaðsíðu 20]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

VÍTAHRINGUR EINMANALEIKANS

Ég er EINMANA og finnst ég vera . . .

. . . skilinn ÚT UNDAN, sem fær mig til að . . .

. . . DRAGA MIG Í HLÉ, og þá hugsa ég: . . .