Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hópþrýstingur — hefur hann einhver áhrif?

Hópþrýstingur — hefur hann einhver áhrif?

Ungt fólk spyr . . .

Hópþrýstingur — hefur hann einhver áhrif?

„Ég held að ég verði ekki fyrir hópþrýstingi.“ — Pamela, grunnskólanemi.

„Ég held að hópþrýstingur hafi ekki svo mikil áhrif á mig lengur. Mesti þrýstingurinn kemur frá sjálfum mér.“ — Robbie, ungur maður.

HEFUR þér einhvern tíma liðið þannig? Þú veist sennilega að Biblían segir: „Vondur félagsskapur spillir góðum siðum.“ (1. Korintubréf 15:33) En kannski veltirðu samt fyrir þér: ,Er of mikið gert úr hópþrýstingi? Hann hefur kannski ekki eins mikil áhrif og foreldrar mínir og aðrir segja hann hafa.‘

Ef svo er, ertu ekki sá fyrsti til að efast um áhrif hópþrýstings. En hugleiddu einn möguleika. Gæti verið að hópþrýstingur hafi meiri áhrif en þú heldur? Það hefur komið mörgum unglingum á óvart hversu öflugur hann getur verið. Angie viðurkennir til dæmis að hún geri kannski meira til að falla inn í samfélagið en hana langi til að hugsa um. Hún segir: „Stundum er þrýstingur frá samfélaginu svo mikill að maður gerir sér jafnvel ekki grein fyrir því að þarna sé hópþrýstingur á ferðinni. Maður fer að trúa því að þetta sé þrýstingur innra með manni.“

Á sama hátt segir Robbie, sem vitnað var í hér að ofan, mesta þrýstinginn koma innan frá. En hann viðurkennir samt að það sé erfitt að búa nálægt stórborg. Hvers vegna? Vegna þess hópþrýstings sem kemur frá umhverfi þar sem efnishyggja er mikil. Hann segir: „Það er svo mikil áhersla lögð á peninga hérna.“ Það er augljóst að hópþrýstingur er afl sem taka verður inn í myndina. Hvers vegna heldur þá svona margt ungt fólk að hópþrýstingur hafi ekki áhrif á sig?

Áhrifamikill og lúmskur

Hópþrýstingur getur verið svo lúmskur að við tökum jafnvel ekki eftir honum. Lýsum þessu með dæmi. Fyrir ofan okkur er gríðarmikill loftmassi. Við sjávarmál þrýstir þessi massi stöðugt á okkur með þunga sem samsvarar um einu kílógrammi á fersentímetra. * Við búum við þennan þrýsting dags daglega en við tökum varla eftir honum vegna þess að við erum vön honum.

Eðlilegur loftþrýstingur er auðvitað ekki skaðlegur. Þegar fólk hins vegar þrýstir á okkur með lúmskum hætti getur það smám saman orsakað breytingu í fari okkar. Páll postuli gerði sér grein fyrir því hve mikil áhrif hópþrýstingur getur haft. Hann aðvaraði því kristna menn í Róm: „Látið umheiminn ekki þröngva ykkur í sitt mót.“ (Rómverjabréfið 12:2, The New Testament in Modern English) Hvernig gæti þetta gerst?

Hvernig virkar hópþrýstingur?

Langar þig að fá viðurkenningu annarra? Flest okkar viðurkenna að svo sé. Þessi eðlilega þrá eftir samþykki annarra getur hins vegar haft bæði kosti og galla. Hversu langt myndum við ganga til að fá þá viðurkenningu sem við þráum? Og þó svo að við séum örugg um að hópþrýstingur hafi ekki áhrif á okkur, hvað þá með aðra í kringum okkur? Reyna þeir yfir höfuð að standa á móti hópþrýstingi eða leyfa þeir honum að móta sig?

Nú á dögum líta margir svo á að siðferðisstaðlar Biblíunnar séu úreltir eða óraunhæfir í heimi nútímans. Mörgum finnst ekki mjög mikilvægt að tilbiðja Guð á þann hátt sem hann biður okkur um í orði sínu. (Jóhannes 4:24) Hvers vegna eru þeir á þessari skoðun? Svarið er kannski að hluta til hópþrýstingur. Í Efesusbréfinu 2:2 talar Páll um að heimurinn hafi „anda“ eða ríkjandi viðhorf. Þessi andi þrýstir á fólk og fær það til að laga hugsun sína að heimi sem þekkir ekki Jehóva. Hvernig gætum við orðið fyrir áhrifum?

Við dagleg störf okkar þurfum við iðulega að umgangast fólk sem hefur ekki alveg sömu kristnu lífsgildi og við. Þetta getur verið í skólanum, við nám, í vinnu og þegar við sinnum fjölskylduábyrgð. Í skólanum eru kannski margir sem sækjast eftir vinsældum hvað sem það kostar, stunda siðlaust kynlíf, misnota áfengi eða nota jafnvel eiturlyf. Hvernig fer ef við veljum okkur nána vini úr hópi þeirra sem stunda slíkt eða telja það eðlilegt, jafnvel lofsvert? Líklega byrjum við að tileinka okkur svipuð viðhorf, ef til vill hægt til að byrja með. „Andi“ heimsins eða „loft“ mun þrýsta á okkur og þröngva okkur í sama mót og heimurinn er í.

Það er athyglisvert að félagsvísindamenn hafa gert tilraunir sem styðja þessar meginreglur Biblíunnar. Líttu á hina athyglisverðu tilraun Aschs. Einstaklingi er boðið að setjast hjá hópi fólks. Félagssálfræðingurinn Asch sýnir fyrst stórt spjald með lóðréttri línu og svo annað spjald með þrem mislöngum lóðréttum línum. Hann spyr síðan hvern og einn í hópnum álits á því hver af þessum þrem línum sé jöfn fyrstu línunni sem hann sýndi. Svarið er augljóst. Allir eru sammála fyrstu tvö skiptin en breyting verður á í þriðja skiptið.

Það er auðvelt að ákvarða hvaða línur eru jafnar rétt eins og áður. En sá sem verið er að prófa veit hins vegar ekki að hinum í hópnum er borgað fyrir að láta eins og þeir séu þátttakendur í tilrauninni og þeir eru allir sammála um rangt svar. Hvað gerist? Aðeins 25 prósent þeirra sem eru prófaðir halda sig fast við það sem þeir vita að er rétt. Allir hinir samsinna hópnum að minnsta kosti einu sinni þó svo að þeir þurfi að afneita því sem þeir sjá með sínum eigin augum.

Það er augljóst að fólk langar að falla inn í hópinn — svo mikið að flestir afneita jafnvel því sem þeir vita að er rétt. Margt ungt fólk hefur fundið fyrir þessum þrýstingi. Daníel, sem er 16 ára, segir: „Hópþrýstingur getur breytt manni. Og hann verður því meiri sem fleira fólk er í kringum mann. Maður fer jafnvel að hugsa sem svo að það sem það gerir sé rétt.“

Angie, sem vitnað var í fyrr í greininni, segir þannig frá þrýstingi sem er dæmigerður í skólanum: „Í grunnskóla skipti miklu máli í hvaða fötum maður var. Maður varð að eiga réttu vörumerkin. Innst inni langaði mann ekki að eyða 50 dollurum [um 4500 kr.] í skyrtu — hvern langar eiginlega til þess?“ Það getur verið erfitt að gera sér grein fyrir þrýstingnum meðan hann er að verka á mann, eins og Angie gefur til kynna. En getur hópþrýstingur haft áhrif á okkur í alvarlegri málum?

Hvers vegna hópþrýstingur getur verið hættulegur

Ímyndaðu þér að þú sért að synda í sjónum. Þú ert upptekinn við sundið og leyfir öldunum að bera þig áfram. En aðrir sterkir kraftar eru kannski að verki án þinnar vitundar. Öldurnar bera þig í átt til strandarinnar en undirstraumur getur smám saman borið þig til hliðar. Þegar þú lítur síðan yfir ströndina sérðu ekki lengur fjölskyldu þína eða vini. Þú tókst ekki eftir því hversu langt straumurinn bar þig! Hugsanir okkar og tilfinningar verða á svipaðan hátt fyrir stöðugum áhrifum við dagleg störf okkar. Og áður en við vitum af geta þessi áhrif borið okkur langt frá þeim lífsgildum sem við töldum að við myndum halda fast við.

Pétur postuli var til dæmis hugrakkur maður. Hann dró óttalaus sverð úr slíðrum þegar hann stóð frammi fyrir óvinveittum hópi manna nóttina sem Jesús var handtekinn. (Markús 14:43-47; Jóhannes 18:10) Samt sýndi hann augljósa hlutdrægni mörgum árum síðar vegna hópþrýstings. Hann forðaðist kristna menn af heiðnum uppruna þó svo að hann hefði séð sýn þar sem Kristur sagði honum að líta ekki á þá sem óhreina. (Postulasagan 10:10-15, 28, 29) Pétri hefur ef til vill fundist erfiðara að vera fyrirlitinn af mönnum en að standa andspænis sverði. (Galatabréfið 2:11, 12) Hópþrýstingur getur augljóslega verið hættulegur.

Það er mikilvægt að viðurkenna áhrif hópþrýstings

Við getum dregið dýrmætan lærdóm af frásögunni um Pétur. Þó að við séum sterk á sumum sviðum merkir það ekki að við séum sterk á öllum sviðum. Pétur hafði sína veikleika eins og við öll. Við verðum öll að vera okkur meðvita um það hvar við erum veik fyrir. Við gætum spurt okkur hreinskilnislega: ,Hvar er ég veikur fyrir? Langar mig að vera ríkur? Hefur hégómagirnd fest rætur í hjarta mínu? Hversu langt er ég tilbúinn að ganga til að fá hrós, virðingu og vinsældir?‘

Við myndum ef til vill aldrei setja okkur vísvitandi í hættu með því að umgangast siðlausa fíkniefnaneytendur eða lauslátt fólk. En aðrir veikleikar geta verið varhugaverðari. Ef við förum að eiga náinn félagsskap við þá sem hafa áhrif á okkur þar sem við erum veik fyrir erum við að gera okkur berskjalda fyrir hópþrýstingi — og bíðum kannski varanlegan skaða af.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að það er ekki allur hópþrýstingur slæmur. Getum við ráðið við hópþrýsting og haft jafnvel gagn af honum? Og hvernig getum við barist gegn skaðlegum hópþrýstingi? Þessar spurningar verða teknar til umfjöllunar í næstu grein í „Ungt fólk spyr . . .“

[Neðanmáls]

^ Hægt er að sanna tilvist loftþrýstings með einfaldri tilraun. Ef maður fer með tóma plastflösku upp á fjallstind, lætur hana fyllast af lofti og skrúfar tappann á fellur hún saman þegar maður gengur niður fjallið. Ástæðan er sú að loftþrýstingurinn eykst eftir því sem neðar dregur og þunna loftið inni í flöskunni þéttist.

[Rammi á blaðsíðu 21]

Gífurlegur hópþrýstingur getur komið frá umhverfi þar sem efnishyggja er mikil.