Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kynntu þér orð Guðs

Hvað gerist á dómsdegi?

Hvað gerist á dómsdegi?

Í þessari grein er varpað fram spurningum sem þú gætir hafa velt fyrir þér og bent á hvar þú getur fundið svörin í Biblíunni. Vottar Jehóva hefðu ánægju af að ræða við þig um þessi svör.

1. Hvað er dómsdagur?

Margir ímynda sér að dómsdagur verði eitthvað í líkingu við það sem við sjáum á myndinni hér til hægri. Þeir sjá fyrir sér að milljarðar manna verði leiddir fyrir hásæti Guðs og dæmdir eftir verkum sínum, sumir til lífs á himnum en aðrir til eilífra kvala í helvíti. Í Biblíunni segir hins vegar að tilgangurinn með dómsdegi sé að bjarga fólki frá óréttlæti. (Sálmur 96:13) Guð hefur skipað Jesú dómara og falið honum að koma aftur á réttlæti á jörð. – Lestu Jesaja 11:1–5; Postulasöguna 17:31.

2. Hvernig kemur dómsdagur á réttlæti?

Þegar Adam, fyrsti maðurinn, gerði uppreisn gegn Guði leiddi hann synd, þjáningar og dauða yfir alla afkomendur sína. (Rómverjabréfið 5:12) Jesús mun bæta fyrir þetta óréttlæti með því að reisa upp milljarða manna frá dauðum. Í Opinberunarbókinni kemur fram að það muni eiga sér stað undir þúsund ára stjórn Jesú Krists. – Lestu Opinberunarbókina 20:4, 11, 12.

Þeir sem rísa upp verða ekki dæmdir eftir því sem þeir gerðu áður en þeir dóu heldur því sem þeir gera eftir upprisuna. Þeir þurfa að fara eftir fyrirmælunum í „bókrollunum“ sem talað er um í 20. kafla Opinberunarbókarinnar. (Rómverjabréfið 6:7) Páll postuli sagði að ,bæði réttlátir og ranglátir‘ yrðu meðal þeirra sem rísa upp og fá tækifæri til að kynnast Guði. – Lestu Postulasöguna 24:15.

3. Hverju kemur dómsdagur til leiðar?

Þeir sem dóu án þess að hafa kynnst Jehóva Guði og þjónað honum fá tækifæri til að breyta um lífsstefnu og gera það sem er gott. Ef þeir gera það verður upprisa þeirra „til lífs“. Sumir munu þó ekki vilja hlýða Jehóva. Upprisa þeirra verður „til dóms“. – Lestu Jóhannes 5:28, 29; Jesaja 26:10; 65:20.

Við lok hins þúsund ára langa dómsdags mun Jehóva hafa lyft mannkyninu til fullkomleika á ný. (1. Korintubréf 15:24–28) Hvílíkar framtíðarhorfur fyrir þá sem hlýða honum! En þeir þurfa að standast lokaprófraun. Guð mun leysa Satan Djöfulinn úr undirdjúpinu þar sem hann hefur verið fjötraður í þúsund ár. Satan reynir þá enn á ný að snúa fólki frá Jehóva en þeir sem standast prófraunina munu lifa að eilífu á jörðinni. – Lestu Jesaja 25:8; Opinberunarbókina 20:7–9.

4. Hvaða annar dómsdagur verður mannkyninu til blessunar?

Biblían talar um endalok núverandi heimsskipanar sem „daginn“ þegar ,óguðlegir vera dæmdir‘. Þessi dómsdagur kemur eins skyndilega og flóðið á dögum Nóa sem skolaði burt öllum illum mönnum. Innan skamms verður ,óguðlegum‘ rutt úr vegi og við getum loksins fengið að búa í heimi þar sem ,réttlæti býr‘. – Lestu 2. Pétursbréf 3:6, 7, 13.