Hoppa beint í efnið

SJÓNARMIÐ BIBLÍUNNAR

Fjárhættuspil

Fjárhættuspil

Sumir álíta fjárhættuspil vera skaðlausa skemmtun. En aðrir álíta það vera hættulegan löst.

Er eitthvað að því að spila fjárhættuspil?

HVAÐ SEGIR FÓLK?

Margir álíta fjárhættuspil vera skaðlausa skemmtun svo framarlega sem þau eru lögleg. Sum lögleg fjárhættuspil, eins og happdrætti sem ríkið fjármagnar, afla peninga sem eru notaðir þjóðfélaginu til góðs.

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Biblían talar hvergi um fjárhættuspil sem slík. En í henni eru ýmsar meginreglur sem leiða í ljós hvað Guði finnst um fjárhættuspil.

Eðli fjárhættuspila – að græða peninga á kostnað annarra – stangast á við það sem Biblían segir um að ,varast hvers kyns græðgi‘. (Lúkas 12:15) Fjárhættuspil kynda undir græðgi. Spilastofnanir auglýsa stóra vinningspotta og leggja lítið upp úr því hve litlar líkur eru á að vinna vegna þess að þau vita að draumurinn um ríkidæmi fær fólk til að leggja mikið undir í spilavítunum. Í stað þess að hjálpa manni að varast græðgi ýta fjárhættuspil undir löngun í auðfengið fé.

Í eðli sínu eru fjárhættuspil byggð á eigingjörnu markmiði: að vinna peninga sem aðrir spilarar hafa tapað. En Biblían hvetur okkur til að ,hugsa ekki um eigin hag heldur hag annarra‘. (1. Korintubréf 10:24) Og eitt boðorðanna tíu er: „Þú skalt ekki girnast … nokkuð það sem náungi þinn á.“ (2. Mósebók 20:17) Þegar fjárhættuspilari vonast til að vinna er hann í rauninni að vonast til þess að aðrir tapi svo að hann græði.

Biblían varar einnig við því að líta á heppni sem dulrænt afl sem getur veitt blessun. Í Ísrael til forna fóru sumir sem skorti trú á Guð að ,setja borð fyrir heilladísina‘. Var slík tilbeiðsla á ,heilladísinni‘ Guði velþóknanleg? Nei. Hann sagði við þá: „[Þér] aðhöfðust það, sem illt var í mínum augum, og höfðuð mætur á því, sem mér mislíkaði.“ – Jesaja 65:11, 12, Biblían 1981.

Það er satt að sums staðar í heiminum eru fjármunir sem safnast af löglegum fjárhættuspilum notaðir til að greiða fyrir menntun, efnahagsþróun og annað fyrir samfélagið. En það breytir því ekki hvernig þessum peningum er aflað – með starfsemi sem ýtir undir græðgi og eigingirni og fær fólk til að vilja fá eitthvað fyrir ekkert.

„Þú skalt ekki girnast … nokkuð það sem náungi þinn á.“2. Mósebók 20:17.

Hvaða neikvæðu áhrif geta fjárhættuspil haft á þann sem spilar þau?

HVAÐ SEGIR BIBLÍAN?

Biblían gefur þessa viðvörun: „Þeir sem ætla sér að verða ríkir falla í freistni og snöru og láta undan alls kyns heimskulegum og skaðlegum girndum sem steypa mönnum í tortímingu og glötun.“ (1. Tímóteusarbréf 6:9) Fjárhættuspil stjórnast af græðgi og græðgi er svo spillandi að Biblían telur „ágirnd“ meðal þess sem ætti að halda sig algerlega frá. – Efesusbréfið 5:3.

Fjárhættuspil beina athyglinni að auðfengnu fé og ala þannig á ást á peningum – en Biblían segir að það sé „rót alls konar ógæfu“. Löngun í peninga getur auðveldlega orðið þungamiðjan í lífi manns og leitt til ofsakvíða og haft skaðleg áhrif á trúna á Guð. Í óeiginlegri merkingu lýsir Biblían því þannig að þeir sem eru gagnteknir af ást á peningum hafi „stungið sjálfa sig út um allt með miklum þjáningum“. – 1. Tímóteusarbréf 6:10, neðanmáls.

Ágirnd gerir fólk óánægt með fjárhag sinn og rænir það hamingjunni. „Sá sem elskar peninga seðst aldrei af peningum og sá sem elskar auðinn hefur ekki gagn af honum.“ – Prédikarinn 5:9.

Milljónir manna sem hafa freistast til að spila fjárhættuspil hafa orðið spilafíklar. Það er útbreitt vandamál og rannsóknir leiða í ljós að aðeins í Bandaríkjunum séu milljónir spilafíkla.

Í orðskviði í Biblíunni segir: „Eignir, sem í upphafi voru skjótfengnar, blessast ekki að lokum.“ (Orðskviðirnir 20:21) Fjárhættuspil hafa steypt spilafíklum í skuldir og jafnvel gjaldþrot. Þau hafa kostað marga þeirra vinnuna, hjónabandið og vináttusambönd. Að fara eftir meginreglum Biblíunnar sem leiðbeina okkur getur hjálpað fólki að forðast neikvæð áhrif sem fjárhættuspil geta haft á lífið og hamingjuna.

„Þeir sem ætla sér að verða ríkir falla í freistni og snöru og láta undan alls kyns heimskulegum og skaðlegum girndum sem steypa mönnum í tortímingu og glötun.“1. Tímóteusarbréf 6:9.