20–26. APRÍL 2026
SÖNGUR 49 Gleðjum hjarta Jehóva
Stefndu að skírn
„Nú er þessi sérstaki velvildartími. Nú er dagur frelsunarinnar.“ – 2. KOR. 6:2.
Í HNOTSKURN
Núna er rétti tíminn til að rækta náið samband við Jehóva og láta skírast.
1. (a) Hverjir eru kostirnir við að skírast? (b) Hvað er til umræðu í þessari námsgrein?
ERT þú búinn að vígja Jehóva líf þitt og skírast í vatni til tákns um vígslu þína? Þá hefurðu beðið Jehóva að fyrirgefa þér syndir þínar og leyfa þér að þjóna sér. (1. Pét. 3:21) Með því að gera þetta hefurðu sett bæði þeim sem eru ungir og nýir í trúnni gott fordæmi. Þú hefur tekið góða ákvörðun! En hvað ef þú hefur ekki enn látið skírast? Þú elskar Jehóva vafalaust og vilt gera vilja hans. Þú veist að til að fá syndir þínar fyrirgefnar og verða náinn vinur Jehóva verðurðu að skírast. (Post. 2:38–40) En þú heldur kannski samt aftur af þér. Hvað geturðu gert? Í þessari námsgrein skoðum við (1) hvers vegna sumir halda aftur af sér að skírast, (2) hvers vegna er skynsamlegt að hafa endinn skýrt í huga og (3) hvers vegna það er mikilvægt fyrir þig að vinna að því að láta skírast eins fljótt og hægt er.
HVERS VEGNA HIKA SUMIR?
2. Hvers vegna halda sumir aftur af sér að skírast?
2 Sumir halda aftur af sér að skírast vegna ótta. Þótt þeir vilji þjóna Jehóva eru sumir hræddir um að þeir verði aldrei nógu góðir til að Jehóva verði ánægður með þá. Ef það á við um þig skaltu rifja upp biblíuvers sem sannfæra þig um að Jehóva ætlist ekki til þess að þú sért fullkominn og að hann sé ánægður með tilbeiðslu þína þegar þú gefur honum þitt besta. (Sálm. 103:13, 14; Kól. 3:23) Ef þú óttast andstöðu skaltu biðja Jehóva að gefa þér sama traust og sálmaskáldið tjáði þegar hann skrifaði: „Jehóva er mér við hlið, ég óttast ekki neitt. Hvað geta mennirnir gert mér?“ – Sálm. 118:6.
3. Hvað fleira gæti hindrað suma í að láta skírast? (Sjá einnig mynd.)
3 Sumir sem elska Jehóva fresta því að skírast vegna þess að þeir álíta sig ekki hafa næga þekkingu. Hversu mikið þarftu í raun að vita? Skoðum dæmi í Biblíunni. Eftir að jarðskjálfti skók fangelsið sem Páll postuli og Sílas sátu í töluðu þeir við fangavörðinn og fjölskyldu hans um trúna. Maðurinn og fjölskylda hans skildu að öllum líkindum að þau höfðu orðið vitni að kraftaverki. Þau lærðu líka mikilvæg sannindi um Jehóva og Jesú. Þetta fékk þau til að láta skírast án tafar. (Post. 16:25–33) Þú ert tilbúinn að skírast ef þú þekkir Jehóva, elskar hann af öllu hjarta, hefur fengið undirstöðuþekkingu á sannleika Biblíunnar, hefur iðrast synda þinna og ert ákveðinn í að lifa eftir mælikvarða hans. – Mark. 12:30.
Páll og Sílas sögðu fangaverðinum frá fagnaðarboðskapnum og „að því búnu lét hann skírast“ ásamt heimilisfólki sínu. (Sjá 3. grein.)
4. Hvað annað heldur aftur af sumum að skírast? (Sjá einnig mynd.)
4 Sumir sem vilja gera vilja Guðs halda að það verði of erfitt. Auðvitað er skynsamlegt að ígrunda hvaða áhrif ákvarðanir hafa á líf manns. (Lúk. 14:27–30) En sumir hafa áhyggjur af þeim fórnum sem þeir þurfa að færa til að geta þjónað Guði. Candace, sem þekkti sannleikann frá unga aldri, hugsaði þannig þegar hún var uppkomin og var boðið biblíunámskeið. Hún segir: „Ég vissi alveg hvað ég ætti að gera fyrir Jehóva, en ég hélt aftur af mér vegna þess að innst inni naut ég þess sem ég var að gera í heiminum. Ég vissi að það yrði ekki auðvelt að breyta lífi mínu.“ Aðrir óttast að þeir standi ekki undir væntingum Jehóva til þeirra sem skírast. Þeir hafa áhyggjur af að þeir syndgi alvarlega eftir að hafa látið skírast og verði vísað úr söfnuðinum. Hvað geturðu gert ef þetta á við um þig?
Sumir sem hafa löngun til að gleðja Guð hafa áhyggjur af fórnunum sem þeir þurfa að færa til að þjóna honum. (Sjá 4. grein.)
5. Hvað ættum við að hugsa sérstaklega um ef við erum að velta fyrir okkur hvort við ættum að skírast? (Matteus 13:44–46)
5 Þegar við ætlum að kaupa eitthvað horfum við ekki bara á hvað það kostar heldur líka hvers virði það er. Við hikum yfirleitt ekki við að kaupa eitthvað sem við teljum miklu verðmætara en við þurfum að borga fyrir það. Á líkan hátt horfum við ekki bara á hvað það kostar okkur að gera breytingarnar sem við þurfum til að skírast heldur líka á hversu dýrmætt sambandið við Jehóva er. Jesús sagði tvær dæmisögur til að kenna þessi sannindi. (Lestu Matteus 13:44–46.) Báðar dæmisögurnar fjalla um menn sem seldu allar eigur sínar til að kaupa dýrmætan hlut sem þeir fundu. Þú hefur líka fundið eitthvað mjög dýrmætt – sannleikann um Guðsríki. Íhugaðu dæmisögur Jesú vandlega ef þú veltir fyrir þér hvort það sé þess virði að lifa í samræmi við sannleikann. Þú gætir spurt þig: Er ég sannfærður um að það sem ég hef fundið sé verðmætt? Met ég að verðleikum samband mitt við Jehóva, vonina sem hann hefur gefið mér og kærleiksríkt bræðralagið? Svörin við þessum spurningum geta hjálpað þér að sjá hvað þú þarft að gera til að taka ákvörðun um að skírast.
6. Hvað hjálpar okkur að fara eftir því sem við lærum?
6 Í dæmisögu Jesú um akuryrkjumanninn lýsti hann hjartalagi sem gæti hindrað einstakling í að taka framförum í trúnni. En Jesús sagði að sumir myndu „hafa einlægt og gott hjarta“ og bregðast vel við fagnaðarboðskapnum. (Lúk. 8:5–15) Ekki gefast upp þótt þú hafir áhyggjur af því að hjarta þitt sé ekki heilt. Með hjálp Guðs geturðu ‚breytt hjartalagi þínu‘ og brugðist vel við leiðsögn hans. Biddu Jehóva í bæn um að gefa þér móttækilegt hjarta svo að þú viljir fara eftir því sem þú lærir. – Esek. 18:31; 36:26.
7, 8. Hvað hindrar sumt ungt fólk í að skírast? (Sjá einnig mynd.)
7 Sumt ungt fólk sem elskar Jehóva gerir ekki nauðsynlegar breytingar til að vera hæft til skírnar vegna áhrifa frá öðrum. Sumir kennarar gætu ráðlagt nemendum að hafa „opinn huga“ gagnvart siðferði sem brýtur gegn siðferðisreglum Guðs. Að fylgja slíkum ráðum getur endað með ósköpum. (Sálm. 1:1, 2; Orðskv. 7:1–5) Þú getur forðast þessa hættu ef þú fylgir fordæmi sálmaskáldsins sem sagði við Jehóva: „Ég er hyggnari en allir kennarar mínir því að ég hugleiði áminningar þínar.“ – Sálm. 119:99.
8 Svo virðist sem sumir foreldrar í söfnuðinum haldi aftur af börnum sínum að láta skírast. Foreldrarnir leggja óhóflega áherslu á menntun barnanna og góða vinnu eða þeir gleyma að hjálpa börnunum að setja sér andleg markmið. Hvað ef þér finnst að foreldrarnir gætu stutt þig betur í að taka framförum í trúnni? Hvernig væri að ræða málin við þau? Þú getur orðið náinn vinur Jehóva á hvaða aldri sem þú ert. – Orðskv. 20:11.
Hvernig væri að ræða við foreldra þína um skírn? (Sjá 8. grein.)
9. Hvers vegna bíða sumir með að skírast?
9 Sumir sem eru hæfir til að skírast fresta því kannski út af hópþrýstingi. Vinur eða einhver sem þeim þykir vænt um biður þá kannski um að bíða þannig að þeir geti látið skírast saman. Það er að sjálfsögðu í lagi að þú skírist á sama degi og einhver sem þér þykir vænt um. En ættirðu að bíða með skírn þína til þess? Mundu að þegar þú vígir þig Jehóva er það milli þín og hans. Skírn þín ætti ekki að velta á því hvað einhver annar gerir. – Rómv. 14:12.
TÍMINN ER NAUMUR
10. Hvers vegna gætu sumir frestað því að taka framförum í trúnni?
10 Auk þess sem við höfum þegar rætt fresta sumir því kannski að taka framförum í trúnni af því að þeir álíta að það sé nægur tími þangað til endirinn kemur. En er skynsamlegt að hugsa þannig? Jesús varaði lærisveina sína við því og sagði: „Verið þið líka viðbúin því að Mannssonurinn kemur þegar þið búist ekki við honum.“ – Lúk. 12:40.
11. Hvað finnum við okkur knúin til að gera þegar við kynnumst Jehóva betur samkvæmt Sálmi 119:60?
11 Ástæðan fyrir því að við lofum að þjóna Jehóva að eilífu og látum skírast ætti að vera sú að við elskum hann. Því betur sem við kynnumst kærleiksríkum Guði okkar því betur sjáum við hversu heitt hann elskar okkur og að fyrirmæli hans eru okkur til góðs. (Lestu Sálm 119:60.) Lærisveinninn Jakob benti á aðra mikilvæga ástæðu til að hlýða fyrirmælum Jehóva fljótt: Enginn okkar veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér. Við ættum því að nota hvern dag sem við höfum til „að gera rétt“, það er að segja að hlýða Jehóva. – Jak. 4:13–17.
12. Hvað getum við lært af dæmisögu Jesú um víngarðinn?
12 Lítum aðeins á dæmisögu Jesú um víngarðinn. Kenndi hann ekki að sumir myndu vinna aðeins eina klukkustund og fá sömu laun og þeir sem hefðu unnið allan daginn? Jú, hann gerði það. En tökum eftir hvers vegna þeir byrjuðu ekki að vinna fyrr. Þeir sögðu: „Vegna þess að enginn hefur ráðið okkur.“ Þessir verkamenn voru ekki latir. Þeir hefðu unnið allan daginn ef einhver hefði ráðið þá í vinnu. Þeir tóku til starfa um leið og þeir voru ráðnir. (Matt. 20:1–16) Jesús hefur boðið okkur að vera lærisveinar sínir og boða fagnaðarboðskapinn. Við ættum að gera það sem Jesús bauð okkur um leið og við fréttum af boðinu.
13. Hvað getum við lært af konu Lots?
13 Sá sem frestar því að taka framförum í trúnni gæti uppgötvað að það er of erfitt að gera breytingar á síðustu stundu til að gera vilja Guðs. Jesús vissi þetta og gaf lærisveinunum þessa viðvörun: „Munið eftir konu Lots.“ (Lúk. 17:31–35) Hún vissi að dómur Guðs yfir Sódómu og Gómorru var yfirvofandi. En hún virðist samt ekki hafa getað slitið sig frá því sem hún yfirgaf. (1. Mós. 19:23–26) Saga hennar minnir okkur á að björgunin stendur okkur ekki opin endalaust. Það kemur að því að fólki stendur hún ekki lengur til boða. – Lúk. 13:24, 25.
14. Hvaða áhrif ættu spádómar Biblíunnar um endinn að hafa á þig?
14 Við sjáum spádóma Biblíunnar um endalok þessarar heimsskipanar rætast á hverjum degi. Þótt þú verðir ekki fyrir beinum áhrifum af sumum þessara atburða ætti það að sjá þá gerast á einum stað á eftir öðrum að fá þig til að gera nauðsynlegar breytingar til að getað látið skírast sem fyrst. Skoðum dæmi frá fyrstu öld. Pétur postuli hvatti kristna menn til að vera „vakandi“ vegna þess að „endir allra hluta [var] í nánd“. (1. Pét. 4:7) Þegar hann talaði um endi virðist hann hafa átt við þann tíma þegar Jerúsalem og musterinu yrði eytt. Þeir sem Pétur skrifaði til bjuggu ekki nálægt Jerúsalem og yrðu því ekki fyrir beinum áhrifum af eyðingunni. (1. Pét. 1:1) En þegar þeir sáu uppfyllingu þessa spádóms styrktist trú þeirra á að önnur loforð Jehóva myndu rætast. Þegar þú sérð spádómana um hina síðustu daga rætast hvetur það þig til að vera vakandi og gera það sem þarf til að vera hæfur til skírnar.
15. Hvernig getum við verið viðbúin degi Jehóva? (2. Pétursbréf 3:10–13)
15 Í síðara bréfi sínu útskýrir Pétur hvernig við getum verið viðbúin ‚degi Jehóva‘, endi þessarar heimsskipanar. Fyrir kristna menn á fyrstu öld var langt í þennan dag en samt sagði Pétur þeim að ‚hafa dag Jehóva stöðugt í huga‘ og ‚þrá ákaflega‘ þann dag. (Lestu 2. Pétursbréf 3:10–13; neðanmáls.) Við getum haft þennan dag skýrt í huga með því að vera vakandi og þrá að hann komi. Við sýnum það með því að vera „guðrækin og heilög í hegðun“. Hugsaðu þér hversu mikið við gleðjum Jehóva með því að vera „heilög í hegðun“. Það gleður hann jafnvel enn meira ef þú vígir líf þitt honum og lætur skírast.
STEFNDU SEM FYRST AÐ SKÍRN
16. Hvenær er rétti tíminn til að búa sig undir að skírast? (2. Korintubréf 6:1, 2) (Sjá einnig myndir.)
16 Núna er rétti tíminn til að búa sig undir að skírast. (Lestu 2. Korintubréf 6:1, 2.) Eþíópíski hirðmaðurinn sem Filippus talaði við sá þörfina á að gera eitthvað strax. Þegar hann skildi fagnaðarboðskapinn og tækifæri bauðst til að skírast hugsaði hann ekki með sér: Ég myndi vilja læra meira um þennan boðskap fyrst. Það verða önnur vötn á leiðinni. Nei, hann spurði Filippus: „Hvað hindrar mig í að skírast?“ (Post. 8:26, 27, 35–39) Hirðmaðurinn er frábær fyrirmynd. Hann „fór fagnandi leiðar sinnar“ þegar hann hafði látið skírast.
Frásagan af eþíópíska hirðmanninum sýnir okkur að besti tíminn til að taka framförum og skírast er núna. (Sjá 16. grein.) a
17. Hverju megum við treysta?
17 Ef þú ert hikandi við að láta skírast máttu treysta því að Jehóva sé tilbúinn að hjálpa þér að eignast gott samband við sig. (Rómv. 2:4) Hann getur hjálpað þér að sigrast á ótta, áhyggjum og áhrifum frá öðrum sem kunna að halda aftur af þér. Þegar þú skírist nýturðu gleðinnar sem fylgir því að gera vilja Jehóva og það „sem er að baki“ skiptir þig líklega ekki máli lengur. (Fil. 3:8, 13) Þá geturðu hlakkað til þess „sem er fram undan“ þegar Jehóva uppfyllir loforð sín til þeirra sem víga líf sitt honum og láta skírast. – Post. 3:19.
SÖNGUR 38 Hann mun styrkja þig
a MYND: Kona sem er að kynna sér Biblíuna segir öldungum að hún vilji skírast rétt eins og eþíópíski hirðmaðurinn sagði Filippusi að hann vildi skírast.

