Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stríð taka enda

Stríð taka enda

Stríð taka enda

‚Við erum bara 12 ára. Við getum hvorki haft áhrif á stjórnmál né stríðið en við viljum lifa! Við bíðum eftir friði. Munum við lifa það að sjá hann?‘ — Skólabörn í 5. bekk.

‚Okkur langar til að fara í skóla og geta heimsótt vini og fjölskyldu án þess að eiga á hættu að verða rænt. Ég vona að ríkisstjórnin hlusti. Við viljum betra líf. Við viljum frið. — Alhaji, 14 ára.

ÞESSI átakanlegu orð tjá innilega von barna sem hafa þjáðst um árabil vegna borgaraátaka. Það eina sem þau þrá er að lifa venjulegu lífi. En það er hægara sagt en gert að láta vonir rætast. Eigum við einhvern tíma eftir að lifa í heimi sem er laus við stríð?

Á undanförnum árum hefur alþjóðasamfélagið lagt sig fram um að stöðva borgarastríð með því að þrýsta á stríðandi fylkingar að skrifa undir friðarsáttmála. Sum lönd hafa sent friðargæslusveitir til að framfylgja slíkum sáttmálum. En fáar þjóðir hafa fjármagn og vilja til að halda uppi lögum og reglum í fjarlægu landi þar sem rótgróið hatur og tortryggni gerir að verkum að allir samningar milli stríðandi fylkinga eru mjög ótryggir. Iðulega blossa bardagar upp aftur aðeins fáeinum vikum eða mánuðum eftir að vopnahlé hefur verið samþykkt. Eins og Alþjóðafriðarrannsóknastofnunin í Stokkhólmi bendir á er „erfitt að koma á friði þegar bardagamenn bæði geta og vilja halda áfram að berjast“.

Þessi illvígu átök, sem hrjá svo mörg lönd í heiminum, minna kristna menn óneitanlega á spádóma Biblíunnar. Opinberunarbókin talar um erfiða tíma í mannkynssögunni þar sem táknrænn riddari átti að ,taka burt friðinn af jörðinni‘. (Opinberunarbókin 6:4) Þessi lýsing á stöðugu stríði er hluti af samsettu tákni sem sýnir að við lifum á tímum sem Biblían kallar hina ,síðustu daga‘. * (2. Tímóteusarbréf 3:1) Orð Guðs fullvissar okkur hins vegar um að þessir síðustu dagar séu undanfari friðar.

Til að koma á raunverulegum friði þarf að binda enda á stríð, ekki aðeins á einu svæði í heiminum heldur á allri jörðinni, eins og fram kemur í Biblíunni í Sálmi 46:10. Sálmurinn talar jafnframt um að bogum og skjöldum verði eytt en það voru algeng vopn á biblíutímanum. Það þarf líka að eyða vopnum nútímans til þess að mennirnir geti lifað í sátt og samlyndi.

En þegar allt kemur til alls er það hatur og græðgi en ekki skot og byssur sem kynda undir stríðsátökum. Græðgi og ágirnd eru ein meginorsök stríða og hatur er oft undanfari ofbeldis. Til að uppræta skaðlegar tilfinningar sem þessar verða menn að breyta hugsunarhætti sínum. Það þarf að kenna þeim friðsemd. Spámaðurinn Jesaja er raunsær og segir að stríðum linni ekki fyrr en fólk hætti að temja sér hernað. — Jesaja 2:4.

En við búum í heimi sem fræðir börn og fullorðna ekki um gildi friðar heldur glæsileika styrjalda. Því miður eru börn jafnvel þjálfuð til að drepa.

Þeir lærðu að drepa

Alhaji hætti í hernum þegar hann var 14 ára. Hann var aðeins tíu ára þegar uppreisnarhermenn tóku hann og þjálfuðu hann í að berjast með AK-47 hríðskotariffli. Hann var neyddur til að fara í ránsferðir, ræna mat og kveikja í húsum. Hann drap líka fólk og limlesti það. Honum finnst erfitt að gleyma stríðinu og aðlagast venjulegu lífi. Annar ungur hermaður, sem heitir Abraham, lærði líka að drepa og var tregur til að láta byssuna af hendi. Hann segir: „Ef þeir segja mér að fara burt án byssunnar veit ég ekki hvað ég á að gera og hvernig ég get fengið mat.“

Rúmlega 300.000 börn, bæði drengir og stúlkur, berjast í stanslausum borgarastyrjöldum sem hrjá mannkynið, og mörg þeirra falla. Uppreisnarleiðtogi segir: „Þeir [drengirnir] hlýða skipunum; þeir þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að komast ekki heim til fjölskyldu eða eiginkonu; þeir eru óttalausir.“ En þessi börn þrá samt betra líf og þau eiga það skilið.

Þeir sem búa í þróuðu löndunum geta átt erfitt með að ímynda sér þá hræðilegu aðstöðu sem þessi börn eru í. En börn í hinum vestræna heimi læra líka innan veggja heimilisins að heyja stríð. Hvernig þá?

Tökum José sem dæmi en hann er frá suðausturhluta Spánar. Sem unglingur hafði hann gaman af sjálfsvarnaríþróttum. Vænst af öllu þótti honum um samurai-sverð sem hann hafði fengið í jólagjöf frá pabba sínum. Og hann hafði mjög gaman af tölvuleikjum, sérstaklega þeim sem voru ofbeldisfullir. Hinn fyrsta apríl árið 2000 hermdi hann eftir árásargjarnri hetju úr tölvuleikjunum. Í æðiskasti drap hann foreldra sína og systur með sverðinu sem pabbi hans hafði gefið honum. „Ég vildi verða aleinn í heiminum; ég vildi ekki að foreldrar mínir væru að leita að mér,“ útskýrði hann fyrir lögreglunni.

Herforinginn og rithöfundurinn Dave Grossman skrifar um áhrifin af ofbeldisfullu skemmtiefni: „Við erum að verða svo ónæm fyrir kvölum og þjáningum að við lítum á þær sem skemmtiefni. Okkur býður ekki við þeim heldur lifum okkur inn í þær. Við lærum að drepa og við lærum að hafa gaman af því.“

Bæði Alhaji og José lærðu að drepa. Hvorugur þeirra ætlaði sér að gerast morðingi en einhvers konar þjálfun eða innræting brenglaði hugsunarhátt þeirra. Með slíkri innrætingu eða þjálfun, hvort sem hún er fyrir börn eða fullorðna, sá menn frækornum ofbeldis og hernaðarátaka.

Að temja sér frið í stað hernaðar

Það verður aldrei hægt að koma á varanlegum friði á meðan fólk lærir að drepa. Spámaðurinn Jesaja skrifaði endur fyrir löngu: „Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum [Guðs], þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ (Jesaja 48:17, 18) Þeim sem kynna sér orð Guðs og læra að elska lög hans býður við ofbeldi og stríðum. Foreldrar geta séð til þess að leikir barnanna hvetji ekki til ofbeldis. Fullorðið fólk getur líka unnið bug á hatri og græðgi. Vottar Jehóva hafa séð ótal dæmi þess að orð Guðs veitir fólki kraft til að breyta persónuleika sínum. — Hebreabréfið 4:12.

Hortêncio er gott dæmi um það. Ungur að aldri var hann neyddur til að ganga í herinn. Herþjálfunin miðaði að því að „gera okkur óhrædda við að drepa og vekja með okkur löngun til þess“, segir hann. Hann barðist í langvarandi borgarastríði í Afríku. „Stríðið hafði áhrif á persónuleika minn,“ viðurkennir hann. „Ég man enn þá eftir öllu sem ég gerði. Mér líður mjög illa yfir því sem ég var neyddur til að gera.“

Annar hermaður talaði við Hortêncio um Biblíuna og það snerti hjarta hans. Loforð Guðs í Sálmi 46:10 um að binda algerlega enda á stríð vakti hrifningu hans. Því meira sem hann rannsakaði Biblíuna því minna langaði hann til að berjast. Áður en langt um leið var honum og tveimur félögum hans vikið úr hernum og þeir ákváðu að vígja líf sitt Jehóva Guði. „Sannleikur Biblíunnar varð til þess að ég fór að elska óvininn,“ segir Hortêncio. „Ég gerði mér grein fyrir því að ég var í raun og veru að syndga gegn Jehóva með því að berjast í stríðinu þar sem hann segir að við eigum ekki að drepa náungann. Til að sýna slíkan kærleika þurfti ég að breyta hugarfari mínu og hætta að líta á aðra sem óvini mína.“

Raunsönn dæmi sem þessi sýna að biblíufræðsla stuðlar að friði. Þetta er ekkert óeðlilegt. Jesaja spámaður benti á að bein tengsl væru milli friðar og fræðslu frá Guði. Hann spáði: „Allir synir þínir eru lærisveinar Drottins og njóta mikils friðar.“ (Jesaja 54:13) Hann sá líka fyrir þann tíma þegar fólk af öllum þjóðum myndi streyma til sannrar tilbeiðslu á Jehóva Guði og læra um hann. Hvað myndi það hafa í för með sér? „Þær [þjóðirnar] munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ — Jesaja 2:2-4.

Í samræmi við þennan spádóm leggja Vottar Jehóva sig fram um að fræða fólk alls staðar í heiminum og það hefur nú þegar hjálpað milljónum manna að vinna bug á hatrinu sem er undirrót styrjalda.

Trygging fyrir heimsfriði

Auk þess að mennta fólk hefur Guð myndað stjórn eða „ríki“ sem getur tryggt frið um heim allan. Það er athyglisvert að Biblían kallar Jesú Krist ,Friðarhöfðingja‘ en hann er útvalinn stjórnandi Guðsríkis. Hún fullvissar okkur líka um að ,höfðingjadómurinn og friðurinn muni engan enda taka‘. — Jesaja 9:6, 7.

Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að stjórn Krists muni ná að útrýma stríðum algerlega? Jesaja spámaður bætir við: „Vandlæting Drottins allsherjar mun þessu til vegar koma.“ (Jesaja 9:7) Guð getur komið á varanlegum friði og vill það. Jesús treystir þessu loforði algerlega. Þess vegna kenndi hann fylgjendum sínum að biðja um að Guðsríki kæmi og vilji Guðs yrði gerður á jörðinni. (Matteus 6:9, 10) Þegar þessari bæn verður svarað munu stríð aldrei framar hrjá jörðina.

[Neðanmáls]

^ gr. 6 Fjallað er um sannanir þess að við lifum á hinum síðustu dögum í 11. kafla bókarinnar Þekking sem leiðir til eilífs lífs, gefin út af Vottum Jehóva.

[Mynd á blaðsíðu 7]

Biblíufræðsla stuðlar að sönnum friði.