Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þau „heyra“ fagnaðarerindið í Brasilíu

Þau „heyra“ fagnaðarerindið í Brasilíu

Fréttir úr boðunarstarfinu

Þau „heyra“ fagnaðarerindið í Brasilíu

MARGIR vottar Jehóva í Brasilíu hafa tekist á við það erfiða verkefni að læra brasilískt táknmál til að geta boðað fagnaðarerindið um ríkið í samfélagi heyrnarlausra þar í landi. Viðleitni þeirra hefur skilað miklum árangri eins og eftirfarandi frásögur sýna.

Eva * er heyrnarlaus og á heima í São Paulo. Hún byrjaði að læra táknmál þegar hún og börnin hennar þrjú fóru að búa með heyrnarlausum manni. Eitt sinn hittu Eva og kærastinn hennar hóp heyrnarlausra votta í verslunarmiðstöð. Þeir buðu þeim á samkomu í ríkissalnum og þau þáðu boðið þar sem þau héldu að þetta væri samkvæmi.

Eva skildi ekki mikið af því sem fram fór á samkomunni því að hún hafði takmarkaða táknmálskunnáttu. Eftir samkomuna buðu nokkrir vottar henni upp á smáhressingu heima hjá sér. Þeir sýndu henni myndir í bæklingnum Enjoy Life on Earth Forever! (Þú getur öðlast eilíft líf á jörðinni!) og notuðu þær til að skýra fyrir henni loforð Guðs um paradís á jörð. Eva hreifst af því sem hún lærði og fór að sækja samkomur reglulega.

Stuttu síðar fór hún frá kærastanum sínum til að samræma líf sitt stöðlum Biblíunnar. Þrátt fyrir harða andstöðu fjölskyldu sinnar hélt hún áfram að taka andlegum framförum og lét skírast árið 1995. Sex mánuðum síðar gerðist hún brautryðjandi eða boðberi fagnaðarerindisins í fullu starfi. Síðan þá hefur hún hjálpað fjórum heyrnarlausum einstaklingum að verða hæfir til að vígjast og skírast.

Carlos fæddist heyrnarlaus. Allt frá bernsku neytti hann eiturlyfja, stundaði þjófnað og lifði siðlausu lífi. Þegar keppinautar hans í glæpaklíkunni hótuðu honum, flúði hann til São Paulo og bjó hjá João um hríð sem var heyrnarlaus eins og Carlos og lifði óreglusömu lífi.

Nokkrum árum seinna lærði Carlos boðskapinn um ríkið. Það fékk hann til að taka upp hreint líferni og lögfesta hjónaband sitt. Þegar hann hafði samræmt líf sitt kröfum Biblíunnar lét hann skírast til tákns um að hann væri vígður Jehóva. Carlos vissi hins vegar ekki að João hafði einnig kynnst fagnaðarerindinu í millitíðinni og gert miklar breytingar á lífi sínu. Þegar João komst að því að það er Jehóva ekki þóknanlegt að nota líkneski henti hann öllum „dýrlingunum“ sem hann hafði safnað. Hann lét síðan skírast eftir að hafa tekið upp nýtt líferni.

Carlos og João urðu himinlifandi þegar þeir hittust í ríkissal og sáu breytingarnar sem þeir höfðu hvor um sig gert. Nú sinna þeir báðir skyldum sínum vel sem höfuð fjölskyldu sinnar og eru kostgæfir boðberar Guðsríkis.

Í Brasilíu eru 30 táknmálssöfnuðir og 154 hópar með yfir 2500 boðberum, þar af 1500 heyrnarlausum. Meira en 3000 manns sóttu umdæmismótið „Kennarar orðsins“ sem haldið var fyrir heyrnarlausa í Brasilíu árið 2001 og 36 létu skírast. Jehóva blessar þetta starf og vonandi eiga mun fleiri heyrnarlausir eftir að taka við boðskapnum.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Nöfnum hefur verið breytt.