Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Ég fékk huggun í öllum raunum mínum

Ég fékk huggun í öllum raunum mínum

Á vesturbakka Indusar, þar sem nú er Pakistan, er hin forna borg Sukkur. Þar leit ég fyrst dagsins ljós 9. nóvember 1929. Um það leyti fengu foreldrar mínir litríkar bækur í nokkrum bindum frá enskum trúboða. Þessar biblíutengdu bækur áttu sinn þátt í að ég varð vottur Jehóva.

BÆKURNAR voru kallaðar regnbogabækurnar. Þegar ég skoðaði myndirnar í þeim fór ímyndunaraflið á flug. Það varð til þess að snemma á lífsleiðinni fór mig að þyrsta í biblíuþekkingu eins og þá sem var að finna í þessum frábæru bókum.

Um svipað leyti og Indlandi stóð sem mest ógn af síðari heimsstyrjöldinni umturnaðist líf mitt. Foreldrar mínir slitu samvistum og skildu síðan. Ég gat ekki skilið hvers vegna þessar tvær manneskjur, sem mér þótti svo vænt um, ákváðu að slíta samvistum. Ég var tilfinningalega dofinn og fannst ég yfirgefinn. Ég var einbirni og fékk hvergi þá huggun og stuðning sem ég þurfti svo sárlega á að halda.

Við mamma bjuggum á þessum tíma í héraðshöfuðborginni Karachi. Dag einn bankaði Fred Hardaker upp á hjá okkur en hann var gamall læknir og vottur Jehóva. Hann var sömu trúar og trúboðinn sem útvegaði okkur fjölskyldunni bækurnar. Hann bauð mömmu biblíunámskeið. Hún afþakkaði það en sagði að ég hefði kannski áhuga. Hann byrjaði að kenna mér viku síðar.

Nokkrum vikum eftir það byrjaði ég að sækja samkomur á læknastofu bróður Hardakers. Um 12 eldri vottar sóttu þar samkomur. Þeir hughreystu mig og létu sér annt um mig eins og ég væri sonur þeirra. Ég minnist þess með hlýju hvernig þeir settust niður hjá mér svo að við vorum í sömu augnhæð og ræddu við mig eins og traustir vinir, en ég þurfti mjög á því að halda á þessum tíma.

Fljótlega bauð bróðir Hardaker mér með sér í boðunina. Hann kenndi mér að nota ferðagrammófón til að spila plötur með stuttum biblíuræðum. Sumar þeirra voru frekar beinskeyttar og ekki líkaði öllum húsráðendum við boðskapinn. En mér fannst spennandi að boða trúna. Ég hafði brennandi áhuga á sannleika Biblíunnar og naut þess að segja öðrum frá honum.

Þegar japanski herinn undirbjó innrás í Indland fóru bresk stjórnvöld að beita votta Jehóva enn meiri þrýstingi. Að því kom að það snerti mig persónulega. Í júlí 1943 var ég rekinn úr skólanum fyrir að vera „slæm fyrirmynd“ en skólastjórinn var prestur í biskupakirkjunni. Hann sagði mömmu að ég gæfi hinum nemendunum slæmt fordæmi með því að vera í slagtogi við votta Jehóva. Hún varð hrædd og lokaði á öll samskipti mín við vottana. Síðar sendi hún mig til pabba í Peshawar, um 1.400 kílómetra norður í land. Mér var meinað um andlega fæðu og ég gat ekki haft samband við trúsystkini. Þar af leiðandi varð ég veikur í trúnni.

ÉG ENDURHEIMTI SAMBANDIÐ VIÐ JEHÓVA

Árið 1947 sneri ég aftur til Karachi í leit að vinnu. Ég fór á læknastofu Hardakers á meðan ég var þar. Hann tók vel á móti mér og heilsaði mér innilega.

„Hvað get ég gert fyrir þig?“ spurði hann því að hann hélt að ég væri að leita læknis.

„Ég er ekki líkamlega veikur,“ svaraði ég. „Ég er veikur í trúnni. Ég þarf að fá aðstoð við biblíunám.“

„Hvenær viltu byrja?“ spurði hann.

„Strax, ef það er hægt,“ svaraði ég.

Við áttum yndislegt kvöld við biblíunám. Mér fannst ég vera kominn heim. Mamma reyndi sitt ýtrasta til að hindra mig í að hafa samskipti við vottana en í þetta sinn var ég ákveðinn í að ég ætlaði að þjóna Jehóva. Ég lét skírast 31. ágúst 1947 til tákns um að ég hefði vígt mig Jehóva. Mjög fljótlega gerðist ég brautryðjandi, þá 17 ára gamall.

GLEÐIRÍK ÁR SEM BRAUTRYÐJANDI

Fyrsta verkefni mitt sem brautryðjandi var í Quetta, fyrrverandi herstöð Breta. Árið 1947 var landinu skipt, í Indland og Pakistan. * Það varð kveikja að víðtæku ofbeldi af trúarlegum toga sem leiddi af sér eina fjölmennustu fólksflutninga sögunnar. Um 14 milljónir manna voru landflótta. Múslímar á Indlandi fóru til Pakistans og hindúar og síkar í Pakistan fóru til Indlands. Mitt í ringulreiðinni fór ég um borð í yfirfulla lest í Karachi og mestalla leiðina til Quetta hélt ég dauðahaldi í handrið utan á lestinni.

Ég sótti svæðismót á Indlandi 1948.

Í Quetta kynntist ég George Singh, sérbrautryðjanda á miðjum þrítugsaldri. Hann gaf mér gamalt reiðhjól sem ég gat hjólað á (eða ýtt) um hæðótt svæðið. Oftast var ég einn í boðuninni. Ég var kominn með 17 biblíunemendur á innan við hálfu ári og sumir þeirra tóku við sannleikanum. Einn þeirra, liðsforingi að nafni Sadiq Masih, hjálpaði okkur George að þýða biblíutengd rit á úrdú, þjóðtungu Pakistana. Með tímanum varð Sadiq kappsamur boðberi fagnaðarerindisins.

Um borð í skipinu Queen Elizabeth á leið í Gíleaðskólann.

Síðar sneri ég aftur til Karachi og starfaði þar með Henry Finch og Harry Forrest sem voru trúboðar nýkomnir úr Gíleaðskólanum. Ég lærði heilmikið af þeim. Eitt sinn fór ég norður í land í boðunarferð með bróður Finch. Við rætur tignarlegra fjallgarða fundum við marga auðmjúka úrdúmælandi þorpsbúa sem þyrsti í sannleika Biblíunnar. Ég fékk sjálfur að sækja Gíleaðskólann tveim árum síðar og var sendur aftur til Pakistans þar sem ég starfaði að hluta til sem farandhirðir. Ég bjó á trúboðsheimili í Lahore ásamt þrem öðrum bræðrum.

ÉG NÆ MÉR Á STRIK EFTIR ERFIÐLEIKA

Árið 1954 kastaðist því miður í kekki með trúboðunum í Lahore. Þar sem ég hafði verið svo óskynsamur að taka afstöðu í deilunum var ég áminntur harðlega. Ég var niðurbrotinn og fannst ég misheppnaður bróðir. Ég flutti aftur til Karachi og síðan til Lundúna í von um að geta byrjað upp á nýtt.

Í söfnuðinum mínum í Lundúnum voru margir úr Betelfjölskyldunni. Vingjarnlegur bróðir að nafni Pryce Hughes tók mig að sér en hann var deildarþjónn á Betel. Dag einn sagði hann mér frá því að Joseph F. Rutherford hefði eitt sinn áminnt sig harðlega en bróðir Rutherford hafði umsjón með starfi safnaðarins um allan heim. Þegar bróðir Hughes reyndi að réttlæta sig ávítti bróðir Rutherford hann enn harðar. Það kom mér á óvart að bróðir Hughes skyldi brosa að þessu atviki. Hann sagði að þetta hefði sett sig úr jafnvægi til að byrja með en að síðar hefði hann gert sér grein fyrir að áminningin var þörf og að hún var merki um að Jehóva elskaði hann. (Hebr. 12:6) Það sem hann sagði snerti mig djúpt og hjálpaði mér að endurheimta gleðina í þjónustunni.

Um þetta leyti flutti mamma til Lundúna og þáði biblíunámskeið hjá John E. Barr sem síðar sat í stjórnandi ráði. Hún tók framförum jafnt og þétt og lét skírast 1957. Síðar frétti ég að pabbi hefði líka verið að kynna sér Biblíuna með vottum Jehóva áður en hann dó.

Árið 1958 kvæntist ég Lene, danskri systur sem hafði sest að í Lundúnum. Árið eftir eignuðumst við fyrsta barn okkar af fimm, dóttur okkar Jane. Um tíma fékk ég einnig þjónustuverkefni í söfnuðinum í Fulham. En vegna þess að Lene var ekki góð til heilsunnar þurftum við að flytja í hlýrra loftslag. Við fluttum því til Adelaide í Ástralíu árið 1967.

SKELFILEGT ÁFALL

Í söfnuðinum okkar í Adelaide voru 12 andasmurðir boðberar sem komnir voru á efri ár. Þeir tóku kappsamir forystu í boðuninni. Við vorum fljótlega komin aftur á gott skrið í þjónustu Jehóva.

Daniel, yngsta barn okkar Lene, fæddist árið 1979. Hann var með downs-heilkenni * og ekki var gert ráð fyrir að hann lifði lengi. Ég á enn erfitt með að lýsa sálarkvölinni sem við fundum fyrir. Við helltum okkur út í að sinna þörfum hans, án þess þó að vanrækja hin börnin. Stundum varð Daniel blár af súrefnisskorti vegna þess að hann var með tvö göt á milli hjartahólfa og við þurftum að fara með hann í skyndi á sjúkrahús. En þrátt fyrir heilsuleysið var hann indæll og greindur strákur. Hann elskaði líka Jehóva heitt. Þegar við fjölskyldan fórum með borðbæn spennti hann greipar með litlu höndunum sínum, hneigði höfuðið og sagði „amen“ hátt og snjallt. Fyrr vildi hann ekki byrja að borða.

Daniel fékk bráðahvítblæði þegar hann var fjögurra ára. Við Lene vorum úrvinda á líkama og sál. Minnstu munaði að ég fengi taugaáfall. En þegar okkur leið hvað verst kom Neville Bromwich, farandhirðirinn okkar, í heimsókn. Þetta kvöld tók hann utan um okkur með tárin í augunum. Við grétum öll. Ástrík og samúðarfull huggunarorð hans gerðu meira fyrir okkur en orð fá lýst. Hann fór ekki fyrr en um eittleytið um nóttina. Skömmu síðar lést Daniel. Að missa hann var mesta áfall sem við höfum orðið fyrir. En við héldum út í sorginni því að við vorum viss um að ekkert – ekki einu sinni dauðinn – gæti gert Daniel viðskila við kærleika Jehóva. (Rómv. 8:38, 39) Við hlökkum óskaplega til fá að vera með honum aftur þegar hann verður reistur upp í nýjum heimi Guðs. – Jóh. 5:28, 29.

ÉG NÝT ÞESS AÐ HJÁLPA ÖÐRUM

Ég er enn safnaðaröldungur þó að ég hafi tvisvar fengið alvarlegt heilablóðfall. Lífsreynsla mín gerir mig færan um að sýna hluttekningu og samúð, sérstaklega þeim sem eiga við vandamál að glíma. Ég reyni að dæma ekki heldur spyr ég mig: Hvernig hefur bakgrunnur þeirra mótað þau? Hvernig get ég sýnt þeim að mér er annt um þau? Og hvernig get ég hvatt þau til að gera vilja Jehóva? Ég nýt þess að fara í hirðisheimsóknir í söfnuðinum. Þegar ég uppörva og styrki aðra fæ ég sjálfur uppörvun og styrk.

Ég nýt þess enn að fara í hirðisheimsóknir.

Mér er eins innanbrjósts og sálmaskáldinu sem sagði við Jehóva: „Þegar áhyggjur þjaka mig hressir huggun þín sál mína.“ (Sálm. 94:19) Jehóva hefur haldið mér uppi gegnum erfiðleika í fjölskyldunni, trúarlega andstöðu, vonbrigði og sorg. Hann hefur sannarlega reynst mér góður faðir.

^ gr. 19 Í fyrstu var Pakistan tvískipt – Vestur-Pakistan (núna Pakistan) og Austur-Pakistan (núna Bangladess).

^ gr. 29 Sjá greinina „Að ala upp barn með Downs-heilkenni – krefjandi en umbunarríkt“ í Vaknið! júlí-september 2011.