Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hið undraverða ferli barnsfæðingar

Hið undraverða ferli barnsfæðingar

Hið undraverða ferli barnsfæðingar

NÍU mánaða bið er loksins á enda og langþráð barnið er um það bil að fæðast. * Legháls hinnar verðandi móður hefur hingað til verið kyrfilega lokaður og haldið fóstrinu öruggu í leginu. En nú slaknar á leghálsinum og hann þynnist og mýkist. Hin undraverða fæðing er að hefjast.

Hvað hrindir af stað hinu stórkostlega ferli sem barnsfæðing er? Tvennt er sérlega merkilegt í margþættri atburðarásinni. Í fyrsta lagi er hormónið oxýtósín, sem framleitt er í heilanum, losað út í blóðrásina. Bæði menn og konur framleiða þetta efni en mikið magn af því er leyst úr læðingi í þungaðri konu þegar fæðingahríðir byrja. Það veldur því að leghálsinn víkkar og legið dregst saman.

Það er hulin ráðgáta hvernig heiladingull þungaðrar konu veit hvenær losa á þetta hormón út í blóðrásina. Í bókinni Incredible Voyage — Exploring the Human Body segir: „Einhvern veginn skynjar heili hennar að meðgangan sé á enda og kominn sé tími á að kröftugir vöðvar legsins . . . hefji sína stuttu en miklu hetjudáð.“

Annar þáttur í þessu ferli er að fylgjan hættir að framleiða hormónið prógesterón. Alla meðgönguna hefur prógesterónið komið í veg fyrir sterka samdrætti. En nú, þegar það er ekki lengur til staðar, byrjar legið að dragast saman. Að jafnaði standa fæðingarhríðir yfir í 8 til 13 klukkustundir og síðan þrýstist barnið út í gegnum mjúkan leghálsinn sem hefur náð fullri útvíkkun. Fylgjan þrýstist svo út í kjölfarið.

Nýfætt barnið verður nú snarlega að aðlaga sig nýjum aðstæðum sem eru mjög ólíkar þeim sem það bjó við í móðurkviði. Lungu fóstursins hafa til að mynda verið full af legvatni sem þrýstist út þegar barnið fór í gegnum fæðingarveginn. Nú þurfa lungun að fyllast af súrefni til að hrinda af stað önduninni sem fyrsti grátur ungbarnsins er vanalega vísbending um. Gífurlegar breytingar eiga sér einnig stað í hjarta barnsins og öllu blóðrásarkerfinu. Sporgat sem liggur á milli tveggja hólfa í hjarta barnsins lokast og einnig slagæðarrauf sem beindi blóðflæði frá lungunum. Nú byrjar blóðið að streyma til lungnanna og tekur þar til sín súrefni. Þessi hraða aðlögun eftir fæðinguna er hreint undraverð.

Barnsfæðing minnir okkur á það sem segir í Biblíunni: „Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma.“ Þar segir einnig: „Að fæðast hefur sinn tíma.“ (Prédikarinn 3:1, 2) Þú getur örugglega tekið undir að þessar lífefnafræðilegu og líkamlegu breytingar, sem eiga sér stað á einungis nokkrum klukkustundum, segi mikið um snjalla hönnun skapara okkar, en hjá honum er „uppspretta lífsins“ segir í Biblíunni. — Sálmur 36:10; Prédikarinn 11:5.

[Neðanmáls]

^ Eðlileg meðganga er 37 til 42 vikur.

[Skýringarmynd/myndir á bls. 16, 17]

Barnsfæðing

1 Lega barnsins áður en fæðingarhríðir hefjast.

2 Barnið færist í átt að fæðingarveginum.

3 Útvíkkun leghálsins.

4 Fæðing barnsins.

[Skýringarmynd]

(Sjá uppsettan texta í ritinu)

1

fylgja

leggöng

legháls

2

3

4