Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Áhugasamir foreldrar

„Vísindamenn tala núna um að foreldrar þurfi að sýna áhuga á námi barnanna til þess að þau nái góðum árangri.“ Þetta kemur fram í dagblaðinu The Toronto Star. Frá árinu 1994 hafa tvær stofnanir, Statistics Canada og Human Resources Development Canada, í sameiningu fylgst með þroska og heilsufari 23.000 kanadískra barna á aldrinum 4 til 11 ára. Að því er best verður séð hafa flestir kanadískir foreldrar vakandi áhuga á menntun barna sinna, sérstaklega fyrstu skólaárin. Í dagblaðinu er greint frá því að „95 prósent barna á aldrinum 10 og 11 ára segist næstum því alltaf fá hvatningu frá foreldrum sínum til að ná árangri í námi“ og að 85 prósent foreldranna „lesi með börnunum á hverjum degi fyrstu þrjú skólaárin.“ Mary Gordon, stjórnandi foreldrastarfs fyrir héraðsskólanefnd Tórontó, segir: „Við vitum núna að góðir foreldrar eru ekki endilega þeir ríku eða menntuðu heldur þeir sem eru til staðar, sýna áhuga og eru vakandi fyrir þörfum barna sinna.“ Hún bætir við: „Það eru uppeldisleg samskipti sem skerpa greind þeirra og sá þroski hefst heima fyrir.“

Eldhúsbræði

„Heimilistæki verða stöðugt flóknari og tæknilegri og það ýtir undir bræðisköst í eldhúsi.“ Frá þessu er greint í Lundúnablaðinu Independent. Það fer í taugarnar á húsráðendum ef þeir geta ekki „hitað bollasúpu í örbylgjuofni, þvegið sokka í þvottavél eða notað þeytikvörnina án þess að þurfa fyrst að liggja klukkutímum saman yfir leiðarvísinum.“ Sálfræðingar benda á að nútímatæknin geri mönnum kleift að búa tækin allt of mörgum möguleikum og nefna venjulegt myndbandstæki sem prýðisdæmi um of flókin tæki. Cary Cooper, sálfræðikennari við Manchester-háskóla á Englandi, segir: „Á vinnustaðnum er allt fullt af tækninýjungum en þegar það kemur heim vill það hafa lífið einfaldara og ekki láta það minna sig á vinnuna.“

Bandaríkjamenn eiga flest gæludýr

Bandaríkjamenn eiga um 40 prósent af þeim 500 milljónum gæludýra sem eru í heiminum. Í landinu eru um 70 milljónir katta, 56 milljónir hunda, 40 milljónir fugla, 100 milljónir fiska, 13 milljónir hamstra og annarra smárra spendýra og 8 milljónir skriðdýra, og á næstum sex af hverjum tíu heimilum þjóðarinnar er að minnsta kosti eitt gæludýr.“ Bretar koma næstir sem gæludýraeigendur, aðallega með hunda og ketti. „En í Frakklandi eru fiskar ráðandi, eða um 21 milljón, fleiri en hundar og kettir samanlagt,“ segir tímaritið.

Brjóstagjöf er betri

„Brjóstamjólk getur komið í veg fyrir krabbamein, auk þess að sjá nýfæddu barni fyrir mótefnum gegn niðurgangi, eyrnasýkingum og ofnæmi,“ segir tímaritið Parents. Í rannsókn, sem University of Minnesota Cancer Center gerði, kom fram að brjóstabörn voru ólíklegri en pelabörn til að fá hvítblæði sem er algengasta krabbamein hjá börnum. Þau sem voru á brjósti í að minnsta kosti einn mánuð voru í 21 prósent minni hættu en pelabörn, og talan fór upp í 30 prósent hjá þeim sem voru á brjósti í sex mánuði.

Að afselta sjó

Sjó er breytt í drykkjarvatn í afsöltunarverksmiðju á lítilli eyju út af strönd Suður-Ástralíu, segir í dagblaðinu The Australian. Þó að afsöltun sé engin nýlunda hefur „tæknin markað tímamót í sögu afsöltunar að því leyti að hún gerir notkun iðnefna óþarfa,“ að sögn dagblaðsins. Í bænum Penneshaw á Kengúrueyju, sem er 400 manna samfélag, er vatnsþörfinni mætt með því að „dæla sjó í gegnum þunna himnu með miklum þrýstingi og þannig skilst saltið frá vatninu. Eftir verður sterk saltlausn sem er síðan skilað út í sjóinn aftur.“ Menn binda miklar vonir við þessa nýju tækni sem er að vísu dýr í framkvæmd en þó kostnaðarminni en hefðbundin eiming.

Ofát jafnalgengt og vannæring

„Offita er orðin jafnalgeng vannæringu og hungri,“ segir í dagblaðinu The New York Times um rannsókn Worldwatch Institute. Um 1,2 milljarðar manna eru vannærðir og álíka margir borða of mikið. Aldrei hefur tala vannærðra verið jafnhá í heiminum og núna og í öllum þjóðfélögum fjölgar bæði þeim sem borða óhóflega mikið og þeim sem fá ekki nægju sína. „Við höfum skapað okkur lífsstíl þar sem hreyfing er svo lítil að kalóríuneysla fer langt umfram notkun og þessar umframkaloríur breytast í fitu.“ segir Lester R. Brown, forstjóri Worldwatch um fjölgun þeirra sem þjást af offitu. „Á síðasta ári voru 400.000 fitusogunaraðgerðir framkvæmdar í [Bandaríkjunum]. Það sýnir vel ójafnvægið sem ríkir.“

Tungumál Lundúna

Að minnsta kosti 307 tungumál eru töluð í barnaskólum Lundúna, að sögn dagblaðsins The Times. Þessi fjölbreytni kom í ljós í fyrstu könnun sem gerð hefur verið á fjölda tungumála sem töluð eru í Lundúnum og hún kom mönnum á óvart. Philip Baker, einn af upphafsmönnum könnunarinnar, sagði: „Við vitum nokkurn veginn fyrir víst að í Lundúnum eru töluð flest tungumál allra borga í heiminum, jafnvel fleiri en í New York.“ Þá eru mörg hundruð mállýskur ekki meðtaldar og talan 307 gæti jafnvel verið of lág. Áttahundruð og fimmtíu þúsund börn sækja skóla í Lundúnum en aðeins tvö af hverjum þremur tala ensku heima hjá sér. Stærstu hóparnir, sem tala erlend tungumál, eru frá Indlandi. Þá eru töluð að minnsta kosti 100 Afríkumál og í einum skóla eru allt að 58 tungumál í notkun.

Að bjarga lífríki jarðar

„Það er ekki yfirþyrmandi verk að bjarga stórum hluta þeirra tegunda sem eru í útrýmingarhættu,“ segir í New York blaðinu Daily News. „Vísindamenn, sem hafa skrásett hinar dvínandi óbyggðir jarðar, hafa komist að undraverðri niðurstöðu: Rösklega þriðjungur af jurta- og dýrategundum jarðar lifir á tæplega 1,4 prósentum þurrlendis jarðar.“ Rannsakendurnir leggja til að meira verði gert til að vernda 25 tegundaauðug svæði í löndum eins og Brasilíu, Madagaskar, Borneó, Súmötru, Karíbaeyjunum og hitabeltissvæði Andesfjalla. Þetta eru aðallega hitabeltisregnskógar. Russel Mittermeier, forseti umhverfisverndarsamtakanna Conservation International, segir: „Með því að einbeita okkur að þessum áhættusvæðum er hægt, fyrir nokkur hundruð milljónir dala á ári, að viðhalda fjölbreytni lífríkisins.“ Um 38 prósent þessara svæða eru lagalega friðuð. Samt sem áður heldur námugröftur, beit og skógarhögg áfram, svo segja má að friðunin sé aðeins á pappírum.

Nýjustu tölur um hungur í heiminum

„Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að um helmingur íbúa allra þjóða, bæði ríkra og fátækra, séu illa nærðir á einn eða annan hátt,“ segir í skýrslunni State of the World 2000. Talið er að um heim allan séu um 1,2 milljarðar manna vannærðir. Þar að auki búa líklega milljarðar manna við ‚falið hungur,‘ en það eru þeir sem virðast fá nægan mat en skortir nauðsynleg vítamín og steinefni. „Sú ranghugmynd að hungur stafi af matvælaskorti viðgengst enn í dag,“ segir World Watch Institute sem gefur út hina árlegu State of the World skýrslu. „Sannleikurinn er sá að hungur er afleiðing mannlegra ákvarðana . . . Atvinna, staða kvenna og það hvort ríkisstjórnir þurfa að standa þegnunum reikningsskap gerða sinna, hefur meiri áhrif á það hverjir fá að borða og hverjir ekki en ræktarland þjóðarinnar.“

Burstaðu tennurnar gætilega

„Það er hægt að bursta tennurnar of mikið,“ segir tímaritið The Wall Street Journal. „Burstunarslit getur leitt til þess að tennurnar verða viðkvæmar, að tannholdið hopar og slit myndast í kringum tannrótina.“ Áætlað er að 10 til 20 prósent Bandaríkjamanna „hafi skemmt tennurnar eða tannholdið vegna ofburstunar.“ Ákafir burstarar eða þeir sem nota bursta með stífum hárum eru í mestri hættu. Þeir ætla sér að vera vandvirkir en gera meira ógagn en gagn,“ segir tannlæknirinn Milan SeGall. Sumir eru sérstaklega viðkvæmir fyrir þessu en aðrir eru fæddir með minna af beini kringum tennurnar en fjöldinn. Einnig er það fólk viðkvæmt sem gnístir eða bítur saman tönnunum og þeir sem hafa þurft að nota spangir til að færa eða rétta tennurnar. Til að koma í veg fyrir skemmdir ráðleggja sérfræðingar eftirfarandi: Notið mjúkan tannbursta. Burstið fyrst aftari tennurnar því að í byrjun eru jafnvel mjúkir tannburstar dálítið stinnir og tannkremið sverfur meira. Takið laust utan um burstann með nokkrum fingrum en ekki með þéttu handtaki. Haldið burstanum í 45 gráðu horni við tannholdslínuna og hreyfið hann í sporöskju en ekki fram og aftur eins og sög.

Snjókarl á hvíldardegi?

Vegna mikillar snjókomu í Ísrael á síðasta ári hafa rétttrúaðir gyðingar þar í landi staðið frammi fyrir vandasömum spurningum: Má fara í snjókast eða búa til snjókarl á hvíldardegi? Sumir voru ekki vissir um það hvað mætti og hvað ekki og segir fréttastofan IsraelWire að fyrrverandi yfirrabbíni Ísraels, Mordehai Eliyahu, hafi gefið leiðbeiningar í þeim efnum. Rabbíninn sagði að jafnvel þótt snjókarl væri gerður til gamans væri það „vinna“ og heyrði það þar af leiðandi undir hvíldardagshömlurnar. Hins vegar má fara í snjókast því engin vinna felist í því. Eitt skilyrði er þó sett. Allir þátttakendur verða að vera samþykkir snjókastinu og má því ekki kasta í vegfarendur.

Myndar heilinn nýjar taugafrumur?

„Í áratugi var almennt viðurkennt að nýjar heilafrumur mynduðust ekki eftir fæðingu,“ segir dagblaðið The New York Times. Frá árinu 1965 hafa tilraunir á sumum dýrum gefið til kynna að heilar þeirra myndi nýjar taugafrumur, en margir taugasérfræðingar töldu það ekki gerast hjá mönnum. Siðastliðinn áratug hafa hins vegar hrannast upp sönnunargögn fyrir því að heilinn myndi nýjar taugafrumur og að hann sé jafnvel stöðugt að endurnýja sig. Á síðasta ári komust vísindamenn að raun um að nýjar taugafrumur myndist í heila mannsins á svæði sem tengist skammtímaminninu. Sumir þeirra telja nú að „heilinn sé stöðugt að endurnýja sig.“

Þriggja alda gamalt vín

Lundúnablaðið The Times greinir frá því að þar í borg hafi fundist tvær vínflöskur í húsarústum frá árinu 1682. Tappinn í annarri flöskunni hafði morknað og vínið var orðið að ediki en hinn tappinn var festur með vír og vaxi og hafði haldið víninu fullkomlega innsigluðu. Við vínsmökkun, sem the Museum of London (minjasafn Lundúna) efndi til, prófuðu nokkrir vínsérfræðingar þetta aldagamla vín en það hafði verið tekið úr flöskunni með sprautunál. Þeir komust að þeirri niðurstöðu að þetta væri sennilega þurrt Madeiravín og þeir lýstu því sem „fersku, mildu, líflegu og í góðu jafnvægi.“