Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Útbreiddasta bók í heimi

Útbreiddasta bók í heimi

Útbreiddasta bók í heimi

„Biblían er víðlesnasta bók allra tíma . . . Fleiri eintökum hefur verið dreift af Biblíunni en nokkurri annarri bók. Biblían hefur líka verið þýdd oftar og á fleiri tungumál en nokkur önnur bók.“ — „The World Book Encyclopedia.“1

ÁVISSAN hátt eru flestar bækur eins og fólk. Þær koma fram á sjónarsviðið, ná kannski vinsældum um stund en verða síðan — ef frá eru skilin fáein sígild rit — úreltar og deyja. Bókasöfn gegna oft hlutverki grafreits aragrúa bóka sem eru orðnar úreltar og enginn les, já, sem eru í raun og veru dauðar.

Biblían hefur hins vegar sérstöðu, jafnvel meðal sígildra verka. Þó að elstu hlutar hennar hafi verið skrifaðir fyrir 3500 árum er hún enn í fullu fjöri. Hún er langsamlega útbreiddasta bókin á jörðinni. * Ár hvert er dreift um 60 milljónum eintaka af Biblíunni eða hlutum af henni. Fyrsta útgáfan, sem prentuð var með lausu letri, kom úr prentvél þýska uppfinningamannsins Jóhannesar Gutenbergs um árið 1455. Síðan þá er áætlað að Biblían (í heild eða að hluta til) hafi verið prentuð í fjórum milljörðum eintaka. Engin önnur bók, trúarleg eða veraldleg, kemst nálægt því.

Biblían er líka sú bók sem þýdd hefur verið á flest tungumál. Öll Biblían eða hlutar af henni hefur verið þýdd á rúmlega 2100 tungumál og mállýskur. * Meira en 90 af hundraði manna hafa aðgang í það minnsta að hluta Biblíunnar á sínu tungumáli.2 Þessi bók hefur þannig rofið landamæri og yfirstigið hindranir sem oft skapast vegna ólíkra kynþátta og þjóðernis.

Tölfræðilegar upplýsingar einar og sér gefa þér ef til vill ekki knýjandi ástæðu til að rannsaka Biblíuna. Engu að síður eru tölurnar um útbreiðslu Biblíunnar og fjölda þýðinga stórbrotnar og sýna hve mjög hún höfðar til fólks um allan heim. Mest selda og þýdda bók allrar mannkynssögunnar verðskuldar vissulega að þú skoðir hana.

[Neðanmáls]

^ gr. 4 Næstútbreiddasta ritið er álitið vera bæklingurinn Tilvitnanir úr verkum Mao Tse-tungs („Rauða kverið“) en áætlað er að 800 milljón eintök hafi verið seld eða dreift.

^ gr. 5 Tungumálafjöldinn er byggður á tölum sem Sameinuðu biblíufélögin hafa birt.

[Mynd á blaðsíðu 6]

Gutenbergsbiblía á latínu, fyrsta bókin sem var öll prentuð með lausu letri.