Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ferð um snævi þakin víðerni

Ferð um snævi þakin víðerni

Bréf frá Noregi

Ferð um snævi þakin víðerni

ÞAÐ er snemma morguns um vetur. Við drögum gluggatjöldin frá og gáum til veðurs. Himinninn er heiður og blár. En spennandi! Við ætlum að fara í þriggja daga boðunarferð um Finnmarksvidda, víðáttumikla hásléttu Finnmerkur sem liggur norðan við heimskautsbaug.

Veturinn er kaldur í Noregi og við erum því svolítið kvíðin að fara um norðlægar óbyggðir. Sem betur fer ferðumst við með þremur vottum Jehóva sem búa á svæðinu. Þeir vita við hverju má búast og hafa gefið okkur góð ráð.

Vegir eru fáir hér um slóðir. Besta leiðin til að ná til fólks á afskekktum stöðum er að fara á vélsleðum. Við hlöðum eldsneyti, fötum og matföngum á vélsleðana og einnig á sleða sem við erum með í eftirdragi. Víðáttumikil hvít háslétta er fram undan eins langt og augað eygir. Snjórinn glitrar eins og demantar í sólskininu. Hvílík fegurð!

Á hásléttu Finnmerkur lifa hreindýr, elgir, gaupur, hérar, refir, jarfar og fáein bjarndýr. En spenntust erum við þó fyrir fólkinu sem býr á þessu afskekkta svæði. Við höfum sérstaklega áhuga á að hitta Sama, en þeir hafa framfæri sitt af því að halda hreindýrahjarðir eða vinna í fjallaskálum.

Fyrir utan fyrsta fjallaskálann hittum við nokkur ungmenni sem eru á skíðagöngu í óbyggðum með bekknum sínum. Þau nema staðar til að tala við okkur og spyrja hvað við séum að gera. Við segjum auðvitað fúslega frá því. „Gangi ykkur vel með Biblíuna,“ segir einn þeirra í kveðjuskyni. Við höldum áfram ferð okkar á vélsleðunum og förum yfir stór ísilögð vötn og hvítar auðnir. Skyldum við koma auga á hreindýrahjörð?

Við ökum upp að fjallakofa og maður heilsar okkur hlýlega. Hann er einn af fáum sem búa hér allan ársins hring. Þegar hann sér að sleðinn okkar er brotinn býðst hann til að gera við hann. Það tekur sinn tíma, fólk er ekkert að flýta sér hér um slóðir. Fas hans hefur róandi áhrif á okkur. Þegar hann er búinn að gera við sleðann þökkum við honum fyrir og sýnum honum nokkur biblíuvers til útskýringar á því hvers vegna Guð leyfir þjáningar. Hann hlustar með athygli. Áður en við förum þiggur hann bókina Hvað kennir Biblían? og blöðin Varðturninn og Vaknið! „Takk fyrir að heimsækja mig,“ segir hann og brosir.

Eftir nokkrar heimsóknir tekur að kvölda og við stefnum í átt að fjallakofanum þar sem við ætlum að nátta. Skyndilega komum við auga á ref. Gljáandi rauður feldurinn er falleg andstæða við hvítan snjóinn. Refurinn stansar eitt augnablik, lítur á okkur forvitnum augum og heldur síðan áfram. Nú er farið að snjóa og við eigum erfitt með að sjá hvar leið okkar liggur. Hvílíkur léttir þegar við sjáum loksins kofann okkar. Við kveikjum upp í ofninum og smám saman fer að hlýna. Okkur líður vel þótt við séum dauðuppgefin eftir að hafa hossast á vélsleðanum allan liðlangan daginn.

Það morgnar allt of snemma. Við hlöðum föggum okkar aftur á vélsleðana og ökum niður á láglendið, förum eftir árfarvegi og komum að öðrum fjallaskála. Þar hittum við ungan mann og við miðlum honum nokkrum uppbyggilegum biblíuversum. Hann bendir okkur góðfúslega á auðveldustu leiðina til baka.

Síðasti dagur heimsóknarinnar rennur upp. Ótrúlegt landslag blasir við þegar við komum í Stabbursdalen-þjóðgarðinn – snævi þakin fjöll í fjarlægð, glitrandi í sólskininu. Skyndilega komum við auga á stóra hreindýrahjörð. Hreindýrin eru á beit í rólegheitum. Með stórum klaufunum krafsa þau upp fléttur og mosa undan snjónum. Lengra í burtu komum við auga á Sama sem situr á vélsleða. Hann fylgist rólegur með hreindýrahjörðinni. Hundur gætir vandlega hjarðarinnar og heldur henni saman. Hann nemur snöggvast staðar og snuðrar í átt til okkar. En fljótlega snýr hann aftur að iðju sinni. Við segjum hjarðmanninum frá fagnaðarerindinu. Hann er vingjarnlegur og hlustar á okkur.

Á heimleiðinni leiðum við hugann að öllum þeim sem við hittum á 300 kílómetra ferðalagi. Okkur finnst heiður að því að hafa átt örlítinn þátt í að ná til fólks á þessu snævi þakta víðerni.

[Rétthafi myndar á bls. 25]

© Norway Post