Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Horft á heiminn

Horft á heiminn

Horft á heiminn

„Í byrjun árs 2011 voru 5,4 milljarðar farsíma á skrá í heiminum.“ – UN CHRONICLE, BANDARÍKJUNUM.

Á síðasta áratug ollu „náttúruhamfarir yfir 780.000 dauðsföllum, og þar af dóu tæplega 60% þeirra í jarðskjálftum“. – THE LANCET, BRETLANDI.

„Um það bil 800.000 Rússar hafa framið sjálfsmorð á síðustu 20 árum.“ – ROSSÍÍSKAJA GAZETA, RÚSSLANDI.

Sá fjöldi kvenna á aldrinum 15 til 49 ára, sem er í „óvígðri sambúð. . . tvöfaldaðist á árunum 1993 til 2008“ á Filippseyjum þar sem hjónaskilnaðir eru ekki leyfðir. – THE PHILIPPINE STAR, FILIPPSEYJUM.

„Í Georgíu verða 79,2 prósent íbúa . . . fyrir áhrifum af óbeinum reykingum.“ Í höfuðborginni Tbilisi „verða 87,7 prósent barna fyrir áhrifum þeirra“. – TABULA, GEORGÍU.

Fólk leitar læknisþjónustu í Asíu

Sífellt fleiri ferðast frá heimalandi sínu til að verða sér úti um góða læknisþjónustu og borga oft brot af því verði sem þeir borga heima fyrir. Fram kom í blaðinu Business World að búist sé við einni milljón ferðamanna til Filippseyja á ári hverju í leit að læknisþjónustu frá og með 2015. Talið er að jafn margir muni ferðast til Suður-Kóreu frá og með 2020. Indland, Malasía, Singapúr og Tæland eru líka vinsælir áfangastaðir. Í greininni segir líka að það séu ekki aðeins Vesturlandabúar sem leiti eftir þjónustu á sviði bæklunar- og hjartaskurðlækninga heldur líka nýríkir Kínverjar sem koma til lýtalækna „með myndir af frægu fólki sem þeir vilja líkjast“.

Fjölverkamenn standa sig illa

Tæknin þvingar oft starfsfólk til að vinna að tveimur eða fleiri flóknum verkefnum á sama tíma og svara fyrirspurnum samstundis. En „starfsfólk sem sinnir mörgum hlutum samtímis skilar ekki góðu verki“, segir Clifford Nass sem er yfirmaður vísindastofu við Stanfordháskóla í Bandaríkjunum og rannsakar samskipti manna og gagnvirkra miðla. Mikil streita einkennir oft þá sem eru með of mörg járn í eldinum. Þeir missa auðveldlega einbeitinguna vegna hluta sem skipta litlu máli, hugleiða hlutina ekki nógu vel og taka þess vegna ekki eftir mikilvægum smáatriðum. Clifford mælir með þessu: „Þegar þú hefur verk að vinna skaltu sinna því og engu öðru samfleytt í 20 mínútur. Þá lærir þú að einbeita þér og kafa dýpra.“