Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Tingatinga – myndlist sem fyllir mann gleði

Tingatinga – myndlist sem fyllir mann gleði

Tingatinga – myndlist sem fyllir mann gleði

„TINGATINGA hjálpar okkur að sjá heiminn með augum barnsins sem býr innra með okkur öllum. Hann er litríkur, ánægjulegur og skemmtilegur,“ skrifar Daniel Augusta, forstöðumaður Tingatinga-myndlistarfélagsins. Tingatinga-myndlist byggist á náttúru og menningu Afríku, sérstaklega þó Tansaníu, en þaðan er listformið upprunnið.

Edward Said Tingatinga, sem fæddist árið 1932, var upphafsmaður þessa listforms og þaðan er nafnið komið. Edward ólst upp í suðurhluta Tansaníu og höfðu falleg sveitin og villtu dýrin í kringum þorpið, þar sem hann bjó, greinilega mikil áhrif á hann. Þegar hann var hálfþrítugur flutti hann að heiman til að leita sér að vinnu og betri lífsgæðum. Síðar settist hann að í Dar es Salaam, höfuðborg Tansaníu, og fékk þar vinnu sem garðyrkjumaður. Á kvöldin tjáði hann listræna hæfileika sína með dansi og tónlist og varð jafnvel þekktur fyrir það.

Árið 1968 urðu tímamót í lífi Edwards. Hann fékk vinnu á vegum ríkisins á Muhimbilisjúkrahúsinu í Dar es Salaam. Á þeim tíma gafst honum tækifæri til að koma gleðiríkum barnaminningum á framfæri með sínum sérstaka myndlistarstíl. Þannig varð tingatinga-myndlistin til. Edward hafði ekki aðgang að sérstökum búðum sem seldu pensla, málningu, litaduft eða aðrar myndlistarvörur. Hann notaði því efni og verkfæri sem hægt var að kaupa í venjulegri byggingarvöruverslun. Hann notaði til dæmis hjólalakk sem málningu og „striginn“ hans var spónaplata sem var slétt öðrum megin og því tilvalin til að ná fram glansandi myndum.

Myndlistarstíll Edwards var einfaldur. Hann notaði einn eða tvo liti í bakgrunninn og málaði síðan mynd af aðeins einum hlut – skærlituðu og svolítið ýktu afrísku dýri. Ekkert landslag eða önnur smáatriði voru á myndunum.

Edward leyfði nokkrum nánum vinum og ættingjum að fylgjast með þegar hann málaði. Fljótlega urðu sumir af þessum áhorfendum „nemendur“ hans og stíllinn hans varð sífellt vinsælli.

Allt frá byrjun hefur tingatinga-myndlistin einkennst af einföldum fígúrum með áberandi útlínum, máluðum í sterkum litum. Í gegnum árin hefur stíllinn hins vegar þróast, orðið margbrotnari og fleiri atriði eru á hverri mynd. Sumir listamenn fylla jafnvel myndir sínar af fólki, dýrum og ýmsu öðru.

Innblásturinn

Tingatinga-myndlistin á sér óþrjótandi innblástur í fjölbreyttu dýra- og gróðurlífi Afríku. Antílópur, vísundar, fílar, gíraffar, flóðhestar, ljón, apar, sebrahestar og önnur dýr eru vinsælt myndefni og einnig blóm, tré, fuglar og fiskar, sérstaklega ef þau eru í skærum litum. Algengur bakgrunnur í listaverkunum er hæsta fjall Afríku, Kilimanjaro, sem er í norðaustanverðri Tansaníu.

Tingatinga-listmálarar nú á tímum reyna einnig að fanga íbúa Afríku og menningu þeirra í myndum sínum. Málverkin geta lýst daglegu lífi á annasömum markaði, heimsókn á spítala eða bara daglegu lífi í sveitaþorpi.

Frá upphafi hefur tingtinga-myndlist gefið Afríkubúum, sem gæddir eru listrænum hæfileikum, tækifæri til að tjá sig og þannig hafa þeir einnig getað aukið örlítið við tekjur sínar. Tingatinga-listamálurum hefur fjölgað svo að þeir hafa jafnvel stofnað félag sem hefur bækistöðvar sínar í Dar es Salaam. Sumir þeirra hafa meira að segja haldið áfram þeirri hefð að mála með hjólalakki. Ef Edward Tingatinga væri á lífi núna (hann lést árið 1972) myndu vinsældir myndlistarstíls hans án efa fylla hann mikilli gleði.