Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Guð á sér nafn

Guð á sér nafn

Guð á sér nafn

Hvað heitir Guð? Allir menn heita eitthvað. Margir gefa jafnvel gæludýrunum sínum nöfn. Er þá ekki skynsamlegt að ætla að Guð eigi sér nafn? Nöfn eru ómissandi í mannlegum samskiptum. Ætti að gegna öðru máli um samskipti okkar við Guð? Það skýtur óneitanlega skökku við að milljónir manna, sem segjast trúa á Guð Biblíunnar, skuli ekki nota nafn hans. Nafn hans hefur hins vegar verið þekkt um aldaraðir. Þegar þú lest þessa greinasyrpu kemstu að raun um að nafn Guðs var mikið notað áður fyrr. Og síðast en ekki síst kemst þú að raun um að það er mikilvægt að kynnast Guði með nafni eins og Biblían segir.

Á SAUTJÁNDU öld slógu nokkur Evrópulönd mynt með nafni Guðs. Nafnið Jehóva var áberandi á þýskri mynt sem slegin var árið 1634. Þessi mynt varð almennt þekkt sem Jehóva-myntin og var áratugi í umferð.

Jehóva * er sú mynd af nafni Guðs sem hefur verið þekkt um aldaraðir. Á hebresku, sem lesin er frá hægri til vinstri, er nafnið ritað með fjórum samhljóðum, יהוה. Þessir fjórir bókstafir eru umritaðir JHVH og þekktir sem fjórstafanafnið. Nafn Guðs í þessari mynd stóð líka á evrópskum myntum svo áratugum skipti.

Nafn Guðs er einnig að finna á byggingum, minnisvörðum og listaverkum, svo og í mörgum kirkjusálmum. Samkvæmt þýsku alfræðibókinni Brockhaus var eitt sinn hefð fyrir því að þjóðhöfðingjar af hópi mótmælenda bæru tignarmerki með stílfærðri sól og fjórstafanafninu. Þetta tákn, sem einnig var notað á fána og myntir, var þekkt sem Jehóva-sólarmerkið. Augljóst er að trúræknir Evrópubúar á 17. og 18. öld vissu að alvaldur Guð átti sér nafn. Og þeir voru meira að segja óhræddir við að nota það.

Nafn Guðs var heldur enginn leyndardómur í nýlendum Norður-Ameríku. Ethan Allen, hermaður í frelsisstríði Bandaríkjanna, er dæmi um það. Í endurminningum hans kemur fram að árið 1775 hafi hann skipað óvinum sínum að gefast upp „í nafni hins mikla Jehóva“. Síðar meir, í forsetatíð Abrahams Lincolns, minntust nokkrir ráðgjafar hans á Jehóva í bréfum sínum til hans. Ýmis önnur skjöl úr sögu Ameríku, sem innihalda nafn Guðs, eru aðgengileg almenningi í mörgum bókasöfnum. Þetta eru aðeins fáein dæmi um það hvernig nafn Guðs hefur verið í hávegum haft um aldaraðir.

Hvað um okkar daga? Hefur nafn Guðs fallið í gleymsku? Engan veginn. Nafnið er að finna í mörgum versum hinna ýmsu biblíuþýðinga. Ef þú kemur við í bókasafninu eða gluggar í þínar eigin orðabækur kemstu líklega að raun um að nafnið Jehóva er almennt viðurkennt sem jafngildi fjórstafanafnsins. * Alfræðibókin Encyclopedia International segir afdráttarlaust að nafnið Jehóva sé „nútímaleg mynd hins heilaga, hebreska nafns Guðs“. Nýleg útgáfa alfræðibókarinnar The New Encyclopædia Britannica segir að Jehóva sé „nafn Gyðinga og kristinna manna á Guði“.

En þú spyrð ef til vill hvort nafn Guðs skipti fólk einhverju máli nú á dögum. Nafnið kemur víða fyrir sjónir almennings í ýmsum myndum. Til dæmis er það að finna á opinberum byggingum og kirkjum víða um lönd. Nafnið stendur líka með hebreskum bókstöfum á ýmsum kirkjumunum í Þjóðminjasafni Íslands. Það er hins vegar óhætt að segja að af þeim þúsundum manna, sem gengið hafa um þessa staði, hafa fáir gefið þessum áletrunum sérstakan gaum.

Álítur fólk í þínu byggðarlagi nafn Guðs vera mikilvægt? Eða kalla flestir skaparann „Guð“, eins og þessi titill sé raunverulegt nafn hans? Þú svarar því kannski til að margir gefi því engan gaum hvort Guð eigi sér yfirleitt nafn. Hvað um þig? Er þér tamt að ávarpa Guð með eiginnafni hans, Jehóva?

[Neðanmáls]

^ Í þessari greinaröð er nafnið Jehóva sýnt í 39 myndum eins og það er notað á yfir 95 tungumálum.

^ Fræðimenn telja almennt að Jahve sé líklegasti framburður nafnsins. En þar sem ekki er hægt að segja til um það með vissu núna er engin ástæða til að falla frá hinni þekktu mynd, Jehóva. Ef það væri gert ætti líka að breyta stafsetningu og framburði fjölda annarra nafna í Ritningunni eins og Jeremía, Jesaja og Jesú, til að gæta samræmis. Frekari umfjöllun er að finna í bæklingnum Nafn Guðs sem vara mun að eilífu, gefinn út af Vottum Jehóva.

[Rammi/mynd á blaðsíðu 4]

Konungur sem kunngerði nafn Jehóva

Árið 1852 lagði hópur trúboða upp frá Hawaii til eyja Míkrónesíu. Meðferðis höfðu þeir bréf með opinberu innsigli Kamehameha konungs 3. sem ríkti á Hawaiieyjum á þeim tíma. Bréfið var upphaflega skrifað á hawaiieysku og stílað á hina mörgu stjórnendur Kyrrahafseyjanna. Þar sagði meðal annars: „Nokkrir kennarar hins hæsta Guðs, Jehóva, sigla bráðlega til yðar til að kunngjöra yður orð hans, yður til eilífs hjálpræðis. . . . Ég álít þessa góðu kennara verðskulda virðingu yðar og vináttu og hvet yður til að hlýða á leiðsögn þeirra. . . . Ég ræð yður að varpa burt skurðgoðum yðar, meðtaka Drottin Jehóva sem Guð yðar, tilbiðja hann og elska, og hann mun blessa yður og frelsa.“

[Mynd]

Kamehameha konungur 3.

[Credit line]

Hawaii State Archives

[Mynd á blaðsíðu 3]

Fjórstafanafnið er nafn Guðs eins og það er stafað á hebresku.